16 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (3)


..framhald


Þó svo ég hafi, þegar hér var komið, verið orðinn talsvert öruggur með sjálfan mig þegar um var að ræða akstur erlendis, vantaði enn nokkuð upp á að ég væri tilbúinn að keyra bara si svona inni í einhverri borg sem ég hafði aldrei komið til áður. Það gæti alltaf komið upp sú staða sem GPS græjan gæti ekki bjargað mér út úr. Þessu stóð til að breyta áður en leigutími BMW-sins væri úti.
Næsta skref tók ég fljótlega, þegar ferð okkar og Görlitzanna lá til Dresden, í um 100 km fjarlægð. GPS-inn var bara stilltur á sænsku húsbúnaðarverslunina í þeirri borg og síðan var keyrt af stað. Auðvitað lauk ferðinni á áfangastað, nákvæmlega eins og til stóð. Mér leið eins og ég væri orðinn ósigrandi í borgarakstri erlendis, en það dugði þó ekki til þess að ég tæki að mér að aka niður í glæsilega miðborg (gömlu borgina (reyndar endurbyggða, enda vita flestir að Dresden var lögð gjörsamlega í rúst í lok seinni heimsstyrjaldar)). Ég afréð hinsvegar að sjá um aksturinn til baka, auðvitað eins og ég hefði aldrei gert neitt annað - enn orðinn öflugri bak við stýrið.

Nú var svo komið, að ég nánast hlakkaði til 700 kílómetra akstursins sem framundan var, en hann var þannig til kominn, að um var að ræða ódýrustu aðferðina til að komast til ríkis Danadrottningar. Upprunalega var áætlunin sú, að skila bílnum í Berlín, sem var, svona eftir á að hyggja, harla vanhugsað. Því var skilastaðnum breytt yfir í Flensburg, rétt fyrir sunnan landamærin að áðurnefndu konungsríki.

Dagurinn kom, þegar Görlitz og Kvistholtstengdir íbúar hennar/þess voru kvaddir og við fD héldum í norðausturátt, á BMW jeppatryllitækinu. Hvað sem upp á kynni að koma yrðum við að leysa sjálf. Allt traust var sett á GPS-inn og BMW-inn og - auðvitað mig (og auðvitað fD). Stysta leiðin sem staðsetningartækið fann hljóðaði upp á 682 km. Mér var svo sem ekkert ljóst hver þessi leið var, utan það að hún hófst á því að keyra til baka sömu leið og við höfðum komið frá Berlín.

Fyrsti hluti ferðarinnar, sveitavegurinn út á hraðbrautina, fól í sér sömu flækju og áður og lausnin fólst enn í því að ögra GPS-num með því að keyra bara eitthvert út í buskann. Eftir það bar fátt til tíðinda fyrr en GPS-inn tilkynnti að innan einhverra kílómetra væri mér ætlað að skipta um hraðbraut. Allt í lagi með það. Það fór hinsvegar aðeins um mig þegar mér varð ljóst að þessi nýja braut beindi okkur beint í norðaustur með skilti sem vísuðu á Frankfurt and der Oder - sem er við landamærin að Póllandi. Hér var um að ræða svakalega fína, þriggja akreina braut. Mér til léttis leið ekki á mjög löngu áður en brautin tók að sveigjast meira til norðurs, síðan norðvesturs og loks alveg í vestur. Þegar síðan birtust skilti sem bentu til að Berlín væri ekki allfjarri, til suðurs, var orðið ljóst að GPS-inn var bara að fara með okkur framhjá umferðartöfum í kringum Berlín.  Meðan á þessum óvissutíma stóð hafði ég haldið nokkuð aftur af mér, að því er varðaði aksturshraða, en í fullvissu þess, að nú værum við örugglega á réttri leið, leyfði ég bensínfætinum að nálgast gólfið æ meir.
"Þú ert kominn á 142 kílómetra hraða!"
Fram til þessa hafði fD ekki fjallað mikið um hraðamálin, enda hafði hún smám saman vanist því að bílar væru frekar að fara fram úr BMW-inum en öfugt. Ég skynjaði að það var ekkert sérlega mikil skelfing sem fólst í þessari yfirlýsingu, þannig að ég hélt uppteknum hætti hvar sem hægt var. Það var bara á einhverjum illþolandi tengivegum (eins og þjóðvegur 1) sem ég neyddist til að slá af ferðinni. 

Ég ætla ekki að skafa utan af því, en þarna fæddist ég sem fullþroskaður hraðbrautaökumaður og fann ótvírætt fyrir því hvernig aðrir ökumenn á brautinni fylltust lotningu þegar ég nálgaðist í baksýnisspeglum þeirra, og viku umsvifalaust til að hleypa mér fram úr. Ef þeir hefðu nú bara vitað að þarna var á ferð miðaldra íslenskur sveitamaður!?

Það þarf ekki að fjölyrða um framhaldið, allt gekk eins og í sögu, utan það að mér var ætlað að skila BMW-inum með fullan tank af eldsneyti. Þarna vorum við að renna inn í Flensburg, sem við höfðum aldrei heimsótt áður, og þurftum að finna bensínstöð áður en GPS-inn leiddi okkur upp að dyrum hjá bílaleigunni SIXT. Auðvitað mundi ég þá eftir fídusnum á GPS-græjunni sem hjálpar manni að leita að ýmsu í nánasta umhverfi sínu. Viti menn, hann fann bensínstöð í 700 m fjarlægð (tók reyndar 1,5 km að keyra þangað). 
Með fullan tank renndum við inn á bílaleiguna og það var með blendnum tilfinningum að ég setti lyklana í næturhólfið. Þær breyttust þó fljótt, því þarna á hlaðinu biðu Danirnir okkar þrír og þeir brunuðu með okkur norður á bóginn til heimabæjar síns við Litlabelti.

Ég tel víst að það verði ekki löng bið eftir því að þessi Kvisthyltingur bruni um evrópskar hraðbrautir á ný.


Myndirnar á þessari síðu eru frá Dresden, en vegna spenningsins í tengslum við aksturinn sem framundan ver, gleymdist EOS-inn heima. Þess í stað notaði ég bara Nokiuna. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...