15 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (2)


Til þess að tryggja það, í það minnsta, að ég færi ekki að villast á vegum Evrópu, hafði ég sem sagt fest kaup á, væntanlega með ólögmætum hætti, svokallað GPS tæki. Auðvitað fór ég ekkert að kaupa neitt drasl. Fyrir valinu varð tæki með stórum skjá, því ekki var tekin áhætta af því að ég sæi ekki auðveldlega allt sem það leiðbeindi mér með. Hér má sjá græjuna (1490T):


Fyrsti akstur minn á erlendri grund gekk vel á umræddum sunnudagsmorgni, enda leiðin harla einföld, nánast bara ein beygja alla leiðina og umferðin nánast engin. Þarna ók ég á bílaleiguna og aftur til baka án þess að gera nokkur akstursleg mistök, enda umferðarreglur samsvarandi því sem gerist hérlendis.

Vaskur hópur fyllti á vöruflutningabílinn og það var haldið af stað til Görlitz. Danska fjölskyldan hélt heimleiðis eftir að snætt hafði verið á veitingastað sem ég horfi yfirleitt framhjá, en þarna var mikilvægara að aka auðveldar leiðir en að finna viðurkennda veitingastaði. Berlínarfjölskyldan mannaði vöruflutningabílinn og við fD fylgdum í humátt á eftir, margtryggð fyrir mistökum af einhverju tagi: með vanan ökumann í vöruflutningabíl á undan og glæsilegt GPS tæki sem sagði til um það með bæði myndrænt og með hljóði, hvar og hvenær hitt og þetta gerðist eða ætti að gerast. Þetta var allavega fyrirkomulagið meðan ekið var út úr Berlín.

Hraðbrautin í suð-suð-austur frá Berlín var framundan. Ekki var laust við örlítinn kvíðasting í tengslum við tilhugsunina um að hefja akstur á takmarkalausum hraða, en á hraðbrautum Þýskalands er algengara en ekki, að engin séu hraðatakmörkin. Það þarf nú ekkert að fjölyrða um það, en innkeyrslan á hraðbrautina gekk eins og í sögu: við stöðugt í humátt á eftir vöruflutningabílnum, annars vegar til að tryggja að rétt væri ekið og hinsvegar til að vera viss um að GPS tækið vísaði okkur rétta leið. Eftir aksturinn út úr Berlín þótti mér það orðið ljóst, að GPS tækið virkaði eins og til stóð og því þótti mér ekki líklegt annað, en að það myndi koma okkur hina réttu leið á áfangastað. Þá er það einnig svo, að vöruflutningabílar eru ekki hannaðir til hraðaksturs af því tagi sem þarna var. Þegar ég var búinn að aka á eftir vöruflutningabílum allgóða stund, á hægri akgrein og aldrei nema í 5 gír, fór mér smám saman að aukast þor, sem eðlilegt var, því þarna var umferðarhraðinn með talsvert öðrum hætti en maður á að venjast. Á eftir vöruflutningabílnum fór hámsrkshraðinn nánast ekki yfir 110 km/klst, en það þótti bílstjóranum í farþegasætinu heldur mikið og tjáði það svo ekki varð misskilið.
Þar kom, að ég tók þá afdrifaríku ákvörðun að skella mér fram úr vöruflutningabílnum, við misgóðar undirtektir annarra farþega. Að hluta til var ákvörðunin tekin þar sem ég er mikill ævintýramaður í eðli mínu og langaði að njóta óvissunnar sem hraðbrautin framundan bæri í skauti sér. Hinsvegar fannst mér ótækt, að athuga ekki hvernig færi ef BMW-inn væri settur í sjötta gír.
Ég sveiflaði tækinu yfir á vinstri akgrein og þá varð ekki aftur snúið. Sett í sjötta gír og hraðamælirinn sýndi stöðugt aukinn hraða. Ég lét ekki segjast þó svo setningar eins og "Ég vil benda þér á að þú ert kominn í 120" eða "Er þetta nú ekki að verða alveg nóg?" bærust mér til eyrna með reglulegu millibili.
Í stuttu máli gekk aksturinn glimrandi vel eftir hraðbrautinni, en framundan var síðan það sem þarna er kallað: sveitavegur, sem er sambærilegt við þjóðveg 1 á Íslandi. Allt gekk eftir og ekkert mál reyndist að skella sér af hraðbrautinni yfir á sveitaveginn. Þegar þarna var komið fannst okkur ekki úr vegi, að  æja á einhverjum góðum veitingastað til að skella í okkur eins og einum kaffibolla. Það gekk vel og fyrsta sinni hlýddi ég ekki fyrirmælum GPS tækisins um að aka áfram. Hvíldin var vel þegin og kaffið gott. Vöruflutningabíllinn var löngu horfinn úr baksýnisspeglinum, en þar sem við sátum í makindum við þjóðveginn, kom að því að hann ók framhjá með Berlínarfjölskylduna innanborðs.

Það sem eftir var leiðarinnar til Görlitz gekk hreint ágætlega fyrir utan tvennt:
1. Það lá tré þvert yfir veginn á einum stað. Þessu hafði GPS græjan ekki gert ráð fyrir og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá uppgefna aðra leið krafðist hún þess að tekin skyldi U-beygja svo fljótt sem auðið væri og farin sama leið.  Það var ekki fyrr en sú ævintýralega ákvörðun var tekin, að hunsa græjuna alveg og keyra bara einhvern veg, að hún leiðbeindi okkur eftir nýrri leið.
2. fD hafði misreiknað í huga sér þær vegalengdir sem um var að ræða og hafði um það orð.

Við renndum síðan í hlað á Biesnitzerstrasse númer 31, á undan vöruflutningabílnum, sem reyndist hafa þurft að taka á sig lengri krók vegna trésins á veginum.

Nú var sú staða orðin uppi að mér fannst lítið mál að aka bifreið á evrópskum vegum, og var rétt að byrja.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...