10 ágúst, 2010

Bílaleigubílsakstursævintýri (1)

Það lá fyrir s.l. vetur, að ekki yrði hjá því komist, miðað við tilhögun og skipulag Evrópuferðar okkar fD, að ég æki bíl á evrópskum vegum. Til þessa hef ég komið mér hjá þessu, heldur aldrei verið nauðsyn á, þar sem ferðir hafa verið skipulagðar miðað við engan akstur minn. 
Ég held að ég hafi nú samt alltaf séð fyrir mér, að að þessu hlyti að koma, enda búinn að fá mér nýtt, samevrópskt ökuskírteini fyrir nokkrum árum. Samkvæmt því er mér heimilt að aka risastórum vöruflutningabíl með tengivagn um Evrópu þvera og endilanga, ef ég svo kýs (væri nú gaman að láta á það reyna einhverntíma).
Nú var það, sem sagt uppi, að Berlínarfjölskyldan stefndi á flutning strax eftir tónleikana sem ég er búinn að fjalla um í þrem pistlum. Áfangastaðurinn var bær, austast í Þýskalandi, á landamærunum við Pólland, sem Görlitz kallast, í ríflega tveggja klukkustanda akstursfjarlægð frá Berlín. Berlínarbóndinn hugðist taka á leigu vöruflutningabíl og aka honum sjálfur með búslóðina á áfangastað. Við fD höfðum tekið að okkur að aðstoða eftir mætti við aðgerðina, en þá var strax ljóst, að það yrði ekki pláss fyrir okkur í vöruflutningabílnum, heldur yrðum við að koma okkur á öðrum bíl, með farangur, þangað austur eftir. Ekki var um það að ræða, að fD kærði sig um að sjá um aksturinn, þannig að fyrir lá, með nokkurra mánaða fyrirvara hvert stefndi með málið. Það varð úr, að ég fól Berlínarmanninum að taka á leigu bíl vegna þessa. Ákvað með sjálfum mér, að þetta færi bara einhvernveginn þegar að því kæmi.
Aðspurður hvernig bíl ég vildi leigja, taldi ég nauðsynlegt að hann væri með gott skott til flutninga, kannski jeppi bara, kannski bara Nissan Xtrail - ég hafði heyrt að nýjustu árgerðir af þeim bíl væru nokkuð rúmgóðar (ástæðan var auðvitað ekki sú, að ég ætti slíkan bíl og væri því vanur honum). Það heyrði ég á Berlínarmanninum, að ekki þótti honum valið viturlegt, taldi vélina ekki nógu öfluga fyrir þýskar hraðbrautir, þar sem enginn væri hámarkshraðinn. Hann taldi betra að taka bíl með öfluga vél, sem ætti séns, auk þess sem hann eyddi minna eldsneyti vegna minni snúningshraða vélarinnar. Hvað um það, ákveðið var að taka á leigu Nissan Xtrail.
Ekki ætla ég að fjölyrða um hugrenningar mínar síðustu mánuðina, að því er bílaleigumálið varðar. Margt hugsaði ég, eðlilega og kynnti mér þýskt vegakerfi eftir föngum.


Sá dagur kom, að við komum til Berlínar og þá kom í ljós, að ekki höfðum við fengið Xtrail, eins og óskað hafði verið eftir, heldur kolsvartan jeppa af gerðinni BMW X3 með dísilvél; 6 gíra tryllitæki. Mig grunar nú, að B-maðurinn hafi bara ákveðið að segja mér að hinn hafi ekki verið á lausu. Fyrstu dagana kom ég mér auðveldlega undan því að taka í gripinn, en stundin nálgaðist óðum. Fyrirhugað var að ná í vöruflutningabílinn á sunnudagsmorgni, inn í miðja Berlín. Þá varð þetta ekki umflúið lengur. Ég sá fyrir mér Þjóðverjana hrista höfuð sín af krafti yfir vitleysislegum akstursmáta mínum, en varð þó að viðurkenna að betri tími til að hefja borgaraksturinn væri ekki hægt að hugsa sér.

Sunnudagurinn rann upp og hópur fólks kominn til að bera búslóðina út í vöruflutningabílinn. Ég tók að mér (ekki aðrir valkostir) að aka á bílaleiguna þar sem hann skyldi sóttur.  

Ég hafði, sem forsjáll maður, gripið til ráðstafana sem myndu auðvelda nokkuð þá nýju reynslu, sem hér blasti við.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...