16 mars, 2008

Laugarásstemning - um miðjan mars

Enn og aftur skal því haldið á lofti að vorið nálgast hér í Laugarási umfram það sem gerist annarsstaðar. Sólin keppist við að varpa stöðugt kröftugri geislum sínum á ísi þakta storð og smátt og smátt fjölgar sinutoppunum sem teygja sig upp úr mjallarábreiðunni. Þó enn sé hitinn undir frostmarki og ískuldi innandyra þegar frú Dröfn tekur á sig rögg og fer út á pall að berja á fönninni og skilur dyrnar eftir opnar svo ég verð að fara í lopapeysu og hlýja inniskó til að krókna ekki, þá eru öll merki um betri tíð með blóm í haga til staðar.

Af þessu tilefni var ákveðið að halda í göngutúr bæði til þess að ástunda nauðsynlega líkamsrækt (Dröfn) og til að fanga fegurð Laugaráss og nágrennis á mynd með nýja Canoninum (ég). Niðurstöðurnar úr líkamsæktinni koma fram hægt og hægt (hægar en frúin vill sætta sig við orðalaust) en afrakstur myndatökunnar er nú þegar kominn inn á myndasvæðið.

Kemst þótt hægt fari.

PS-P640 - enn á ferðinni

Jæja, góðir hálsar, enn hefur undratækið PS-P640 sannað óskorað ágæti sitt með því að tengjast með óaðfinnanlegum hætti við Ástralann Þorvald, sem fékk nú að berja foreldra sína og litla bróður augum fyrsta sinni síðan í síðari hluta janúar. Þorvaldur dáðist mikið að myndgæðunum sem tækið skilaði, eins og fyrr segir, óaðfinnanlega.

Hve auðveld tengingin er, hve eðlilega samskiptin ganga fyrir sig, hve sterk og á sama tíma nákvæm sendingin er?

Já, PS-P640 hefur nú staðist allar þær kröfur sem til þess hafa verið gerðar. Ekki þarf frekar vitnanna við.

PS-P640 rúl(l)ar (upp Logitech, Creative, Starstruck og öllu þessu sem venjulega er haldið á lofti)

13 mars, 2008

Að gefa hund

Mér var gefinn hundur þegar við fluttum (til takmarkaðrar dvalar) í þessa kennarabústaðagötu hérna á Laugarvatni einhverntíma í fyrra. Samstarfsfólki mínu þótti það víst ómögulegt að ég væri eini íbúinn í götunni sem ekki ætti hund. Hann var sem sagt afhentur við hátíðlega athöfn og ég þakkaði pent fyrir, eins og sagt er. Síðan hefur þessi hundur dvalist hér í götunni og ég nota hann sem afsökun, rétt eins og nágrannarnir, til að skjótast heim í Hvarf við og við, til að viðra hann. Það tekur svo sem ekki langan tíma hverju sinni. Það fer þannig fram, að ég bind snæri í hálsólina of fer síðan út með hundinn stutta stund. Það sem gerist þar er eftirfarandi: Ég held í snærið og lyfti hundinum varlega frá jörðu. Þessu næst lyfti ég hægri höndinni (þeirri sem ég held í snærið með) vel upp fyrir höfuðið og sný 5 sinnum með sól og síðan strax 5 sinnum á móti sól. Þegar þessu er lokið læt ég hundinn síga varlega til jarðar aftur, fer með hann inn og held síðan til vinnu minnar á ný, með endurnærðan og ánægðan hund úti í Hvarfi.

Nú kunna lesendur að hafa komist að þeirri niðurstöðu að eitthvað hafi farið úrskeiðis í sálarlífi mínu að undanförnu, en það er hreint ekki svo. Hundurinn hefur ekki hlotið neitt formlegt nafn fyrr en hér og nú. Hann heitir sem sagt HUNDURINN. Hann gerir engar kröfur og geltir og ýlfrar þegar maður strýkur á honum bakið. Ég hef reyndar ekki athugað í heilt ár hvort rafhlöðurnar í honum virka enn.
-----------------------
Það hefur verið erfið vikan hjá einum starfsmanna okkar í ML þessa viku. Eiginmaðurinn lést s.l. laugardag og nú er orðið tímaspursmál hve lengi annar hundurinn hennar lifir, en hann er undirlagður af krabbameini. Hún hefur verið að hugsa sér að fá sér hvolp að undanförnu til að koma í stað þess gamla og var búin að finna einn sem hana langaði mikið í. Það gerðist síðan í dag, að frumkvæði nokkurra nemenda, að nemendum var gefinn kostur á að leggja sitt af mörkum til að hún gæti eignast hvolpinn. Nánast allir nemendur skólans tóku þátt og málið er í höfn.
Fulltrúar nemenda afhentu henni gjafabréf fyrir hvolpinum og fölskvalaus var ánægja þiggjandans og annar fulltrúinn hafði það á orði að henni hefði "aldrei liðið eins vel í hjartanu" og þegar gjöfin var afhent og viðbrögin urðu ljós.

Sælla er að gefa en þiggja.

09 mars, 2008

Sólbráð - var það

Það sem er hér fyrir neðan var skráð af innlifun fyrir svona um það bil 4 klukkustundum. Síðan þá erum við búin að kíkja á Leynimel 13 hjá Umf Bisk og skemmtum okkur alveg ágætlega. Ef ég væri Egill núna myndi ég bölva þessu Blogspot drasli í sand og ösku fyrir að hafa ekki virkað þegar til átti að taka. Það geri ég auðvitað ekki - svo yfirveguð persóna sem ég er. Ég greip til þess ráðs að taka afrit af spekinni þegar ljóst var hvert stefndi með bloggspottið - set hana nú inn í rólegheitum nokkru síðar.
Hér kemur það sem skráð var og geymt fyrr í dag:
"Manni finnst núna eins og ekki verði aftur snúið; eins og framundan sé fátt líklegra en vorkoman. Sólin nær svo hátt loft þessa dagana, að hún skín ekki endilega beint í augun í vikulegri verslunarferð í búðina einu, í farartæki gamla mannsins (hann telur afar nauðsynlegt að Súbarúinn fái hæfilega hreyfingu við og við og leggur töluvert mikla áherslu á að nýta hann í ofangreindum kaupstaðarferðum), sem er nýbúinn að endurnýja ökuskírteinið sitt eina ferðina enn. Hann er hinsvegar ekki búinn að fá nema bráðabirgðaskírteinið í hendur enn og er töluvert mikið í mun að nálgast þetta varanlega, þó svo það gildi nú ekki nema í eitt ár. Hann er sem sagt í því núna að skipuleggja hvenær hann kemst til sýslumanns.

Sólin bræðir köldustu hjörtu, en hvítt teppi vetrarins þekur sunnlenskar byggðir sem aldrei fyrr.

Eftir miklar annir á ýmsum vígstöðvum undanfarnar vikur stefnir í að við skellum okkur í leikhús Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna á þessu laugardagskvöldi. Vonir standa til að það verði ekki leiðinleg kvöldskemmtan.

Framundan blasir við enn ein vinnuvikan í þeim hafsjó vinnuvikna sem að baki eru, árum saman, en að þessari lokinni tekur við sérlega langþráð páskafrí, með páskaeggjum frá Freyju, að kröfu eiginkonunnar. Ég nenni nú ekki að fara að eyða tíma mínum í að hafa einhverja sérstaka skoðun á páskaeggjategundum, en mér skilst að ástæðu þessarar Freyjupáskaeggjaástar megi rekja til einhvers atvikst tengdu Nóapáskaeggjum í fyrra eða hitteðfyrra. Gott ef tenórinn Egill komst ekki að þeirri niðurstöðu á einhverjum tímapunkti að þau væru óæt. Freyjupáskaegg skulu þar vera. Ekki orð um það meir. (mig minnir nú samt að þau séu ekkert sérstaklega bragðgóð og að draslið inni í þeim sé af lakara taginu).

Ég vígði nýju Canon myndavélina mína og nýja flassið í gærkvöldi á árshátíð ML. Það gekk að vissu leyti ágætlega, en ég bíð þó eftir nýju, mögnuðu linsunni sem er á leiðinni til landsins.
Það er, að mínu mati nauðsynlegt að taka það skýrt fram, að ég er, þrátt fyrir þessa nýjustu viðbót í græjusafnið mitt, engan veginn neinn græjufíkill, svo því sé haldið til haga."

05 mars, 2008

Nei, líklega ekki

Þetta leit vel út í byrjun. Sá fram á langar kvöldstundir fyrir framan DELL-inn í miklum ham við að lemja inn nákvæmar lýsingar á ferðinni til Berlínar og Kaupmannahafnar. Það hefur hinsvegar reynst þrautin þyngri, þar sem annir í brauðstritinu og líkamsþjálfuninni hafa ekki orsakað neitt nema þreytu og leti á kvöldin.
Ég vil hinsvegar benda á að Guðný hefur sett saman heilmikla fræðigrein um ferðalagið á sinni síðu (ber þó að vara við því að fremur illkvittnislegar athugasemdir um hegðun okkar hjónakornanna skortir algerlega grundvöll, ef betur er að gáð), svo og Egill og Soffía. Ég er eiginlega afar feginn því að þetta smellur svona vel saman: leti mín og þreyta annarsvegar og sérlega góðar ferðalýsingar hinsvegar.

Ég er greinilega ekki búinn að fá nóg af flugferðum, því eldsnemma í fyrramálið verður stigið um borð eina ferðina enn, þessu sinni í Fokker á leið til Egilsstaða, þar sem til stendur að sitja 'námskeið' fram á föstudag. Þetta er svona vísindaferð stjórnenda í framhaldsskólum. Ég verð svo varla lentur aftur í höfuðborginni á föstudag þegar árshátíðarkvöldverður hefst í ML.

Helgin verður síðan undirlögð í af tilraun minni til að vinna upp syndir - hlustun á 4 fyrirlestra sem ég hef ekki haft tíma til að afgreiða að undanförnu. (tíma eða nennu).

Ég vona að Þorvaldur hinumegin sé búinn að ná sér eftir meint hjartaáfall og að Ísabella þrífist vel. Þá er það einnig von mín að Egill sé að taka skipulagsmálin föstum tökum í Þýskalandi, Guðný að átta sig á því hvað 'inoculation' merkir, og Brynjar sé ekki búinn að rústa Konica-Minoltunni.

Þetta er bara svona.

02 mars, 2008

Er langloka framundan?

Nú er fimm daga ferðalagi lokið. Spurning hvernig best er að vinna úr því. Hér er tillaga að kaflaskiptingu, en ef einhverjir hafa tillögur um viðbótakafla þá bara láta þeir vita:
1. Leiguíbúð og ljúfasta Reykjanesbraut I
2. Antifreeze
3. Hinn dularfulli Terminal tre
4. Ég hefði aldrei farið ef ég hefði vitað.....!
5. Renault Espace með bílstjóra (og GPS)
6. Am Kurfurstenstrasse
7. Sony Center og Berlínarmúrinn - fullkomin samsvörun
8. Sieg heil
9. Feng Shui
10. Berlín tekin með trompi
a. Berliner Dom
b. Hoenecker rifinn
c. Gamalt og nýtt
d. Raum der Stille
e. Pizza
f. Remember the Jews
g. Parísarhjól rokkar
h. Verslunar....
i. GPS
j. Hilmar Örn Agnarsson
k. Egill og Soffía
l. Brynjar Steinn og Guðný Rut
m. Það vantaði eitthvað.
n. Schönefeld - Easy Jet
o. ísí dsjet
11. Kastrup öðru sinni
12. Í svokölluðu Danaveldi
a. Tekið í mót oss
b. Afdrepið í eigin húsi
c. Börn I
d. Börn II
e. Börn III
f. Nánast ættarveldi.
13. Kastrup þriðja sinni
14. A reminder - eitthvað sem best er gleymt
15. Sallarólegt flug í norðvesturátt
16. Á klakanum aftur
17. Ljúfasta Reykjanesbraut II
15. Barnabarnið I og II
16. Heiðin heillar
17. Í Kvistholti aftur
18. .......og þaðan auðvitað beint í Hvarf

Eins og hér má sjá er frá mörgu að segja. Hvort það gerist á næstu dögum eða vikum verður að koma í ljós, en þessa ágæta ferðalagi verða gerð skil hér með einhverjum hætti.

Enn bendi ég lesendum á þann möguleika að leggja til möguleg umfjöllunarefni umfram þau sem hér hafa verið nefnd.

Þá verð ég að segja að niðurstaðan í 'Forbrydelsen' var ekki alveg nægilega sterka að mínu mati. . :)

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...