13 mars, 2008

Að gefa hund

Mér var gefinn hundur þegar við fluttum (til takmarkaðrar dvalar) í þessa kennarabústaðagötu hérna á Laugarvatni einhverntíma í fyrra. Samstarfsfólki mínu þótti það víst ómögulegt að ég væri eini íbúinn í götunni sem ekki ætti hund. Hann var sem sagt afhentur við hátíðlega athöfn og ég þakkaði pent fyrir, eins og sagt er. Síðan hefur þessi hundur dvalist hér í götunni og ég nota hann sem afsökun, rétt eins og nágrannarnir, til að skjótast heim í Hvarf við og við, til að viðra hann. Það tekur svo sem ekki langan tíma hverju sinni. Það fer þannig fram, að ég bind snæri í hálsólina of fer síðan út með hundinn stutta stund. Það sem gerist þar er eftirfarandi: Ég held í snærið og lyfti hundinum varlega frá jörðu. Þessu næst lyfti ég hægri höndinni (þeirri sem ég held í snærið með) vel upp fyrir höfuðið og sný 5 sinnum með sól og síðan strax 5 sinnum á móti sól. Þegar þessu er lokið læt ég hundinn síga varlega til jarðar aftur, fer með hann inn og held síðan til vinnu minnar á ný, með endurnærðan og ánægðan hund úti í Hvarfi.

Nú kunna lesendur að hafa komist að þeirri niðurstöðu að eitthvað hafi farið úrskeiðis í sálarlífi mínu að undanförnu, en það er hreint ekki svo. Hundurinn hefur ekki hlotið neitt formlegt nafn fyrr en hér og nú. Hann heitir sem sagt HUNDURINN. Hann gerir engar kröfur og geltir og ýlfrar þegar maður strýkur á honum bakið. Ég hef reyndar ekki athugað í heilt ár hvort rafhlöðurnar í honum virka enn.
-----------------------
Það hefur verið erfið vikan hjá einum starfsmanna okkar í ML þessa viku. Eiginmaðurinn lést s.l. laugardag og nú er orðið tímaspursmál hve lengi annar hundurinn hennar lifir, en hann er undirlagður af krabbameini. Hún hefur verið að hugsa sér að fá sér hvolp að undanförnu til að koma í stað þess gamla og var búin að finna einn sem hana langaði mikið í. Það gerðist síðan í dag, að frumkvæði nokkurra nemenda, að nemendum var gefinn kostur á að leggja sitt af mörkum til að hún gæti eignast hvolpinn. Nánast allir nemendur skólans tóku þátt og málið er í höfn.
Fulltrúar nemenda afhentu henni gjafabréf fyrir hvolpinum og fölskvalaus var ánægja þiggjandans og annar fulltrúinn hafði það á orði að henni hefði "aldrei liðið eins vel í hjartanu" og þegar gjöfin var afhent og viðbrögin urðu ljós.

Sælla er að gefa en þiggja.

4 ummæli:

  1. æjj Connie litla krútt !

    en hver var svona indæll að gefa þér hund?

    SvaraEyða
  2. Hvaða hund? Ég á engann hund nema HUNDINN. Hversvegna heldurðu að ég eigi hund? :)

    SvaraEyða
  3. Til hamingju með Hundinn. Það er nauðsynlegt að hafa einhvern heima við til að tala við án þess að viðkomandi svari fullum hálsi til baka.
    Enda ekkert hissa að heyra að þú hafir ekkert athugað með batteríin :)

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...