22 mars, 2009

Hvernig velur maður? (2)

Nú er það orðið ljóst að VIÐ vinnum Eista með yfirburðum og þessvegna lítil spenna og af þeim sökum hægt að halda áfram að velta fyrir sér jákvæðum ástæðum til að kjósa flokkana sem okkur standa til boða í komandi kosningum. Ég er, sem sagt, búinn með tvo, en nú koma hinir tveir fjórflokkanna.


VINSTRI HREYFINGIN, GRÆNT FRAMBOÐ (V)
(ég nennti ekki að minnka merkið til samræmis)
1. Í mikilli sókn og ber örugglega ekki ábyrgð á stöðu þjóðarinnar, enda ekki setið í ríkisstjórn frá því flokkurinn var stofnaður (nema undanfarnar vikur).
2. Hefur verið að sýna hvers hann er megnugur og fyrir hvað hann stendur, á síðustu vikum.
3. Formaðurinn hefur óskoraðan stuðning í flokknum og lofar að víkja áður en fólk verður leitt á honum.
4. Hefur skýra stefnu í flestum málum - maður veit hvað maður hefur hann, ennþá. 
5. Ég er vinstrisinnaður og var meira að segja í Alþýðubandalaginu.
6. Ég er ánægður með að þetta er hugsjónaflokkur frekar en hagsmuna.
7. Einn núverandi þingmanna, sem hefur alltaf verið orsök þess að ég hef ekki getað kosið flokkinn, náði ekki mögulegu þingsæti í forvali.

FRAMSÓKNARFLOKKURINN (B)
1. Lítilmagninn sem langar að rísa úr öskustónni. Ég styð lítilmagnann.
2. Ný forystusveit sem lætur í það minnsta í það skína, að hér sé nýr flokkur á ferð.
3. Þekkt andlit nýs formanns sem leggur mikið á sig til að skapa sér stöðu innan flokksins og út á við einnig.
4. Ég er miðjumaður í pólitík og ánægður með að flokkurinn hefur ekki vikið frá því aðalsmerki sínu að vera til í allt (opinn í báða enda).
5. Mér finnst gott að geta aftur viðurkennt að ég sé Framsóknarmaður. Ég er búinn að hafa hljótt um það of lengi.
6. Ég treysti því að kafbátarnir sem hafa stýrt flokknum bak við tjöldin hafi endanlega fengið vota gröf.
7. Af því að ég er í Suðurkjördæmi verð ég að lýsa ánægju minni með nýja manninn í fyrsta sæti, sem ég hélt alltaf að væri Sjálfstæðismaður, jafnvel þó að hann sé Hreppamaður.


Þá er fjórflokkurinn afgreiddur. Ég vona að lesendur verði nægilega upprifnir til að leggja til fleiri jákvæða þætti til að  hjálpa okkur, hinum almennu kjósendum að taka afstöðu.

Framundan er að gera jákvæða úttekt á öðrum flokkum og framboðum.

Hvernig velur maður? (1)




Ætli ég sé ekki í hópi venjulegra Íslendinga sem fá tækifæri til að nota þann stjórnarskrárbundna rétt sinn, að kjósa til Alþingis þann 26. apríl, n.k.

Í mínum huga er þetta nánast helgur réttur, sem fólki ber skylda til að umgangast af mikilli ábyrgð.

Nú ætla ég að vera ábyrgi kjósandinn, sem byrjar á að leita þess jákvæða í öllum hlutum. Orðinn hundleiður á kreppukjaftæðinu.

Við vitum að fjórflokkurinn, svokallaði, mun bjóða fram í kosningunum.
Hvers vegna ætti ég að kjósa þá flokka sem þarna er að finna? Hér mun ég reyna að ímynda mér 6 ástæður fyrir því að kjósa einhvern fjórflokkanna (kannski jafnvel aukaástæður líka)


SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN (D)
1. Hann er stór, svona eins og Manchester United, og vinnur oftast. Það er best að styðja þá stóru.
2. Hann er að endurreisa sig og ég reikna með að hann biðjist afsökunar á mannlegum mistökum sem leiddu þjóðina þangað sem hún er núna, og taki nýja stefnu fyrir íslenska þjóð.
3. Það er vel ættaður og vel látinn formaður að taka við flokknum.
4. Ég hef alltaf kosið flokkinn (hef jafnvel fengið starf þess vegna) og það gerðu foreldrar mínir líka. Ég er hægrisinnaður.
5. Merki flokksins felur í sér ótrúlega orku, sem litur hans endurspeglar svo fallega.
6. Þetta er flokkur mesta stjórnmálaleiðtoga 20. aldarinnar, og ég er viss um að andi hans fær áfram að svífa yfir vötnunum.
7. Þar sem ég er í Suðurkjördæmi, er ég afar ánægður með hinn öfluga mann fólksins, sem er í 2. sæti listans.

SAMFYLKINGIN (S)
1. Hann er stór, svona eins og Manchester United, og vinnur oftast. Það er best að styðja þá stóru.
2. Það er nýr formaður að taka við flokknum, sem nýtur óskoraðs trausts þjóðarinnar.
3. Flokkurinn vill að við göngum í Evrópusambandið.
4. Ég á langa sögu sem krati og kann vel við flokk sem er ekki beinlínis vinstra megin eða hægra megin.
5. Ég laðast að svona flokki sem maður veit ekki alveg hvar stendur, því það gefur betra færi á að bregðast við nýjum aðstæðum, til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.
6. Merkið og nafnið höfða mjög til mín. 

Þar sem það er erfiðara en leit út í upphafi að tína til jákvæðar ástæður venjulegs Íslendings, fyrir því að kjósa tiltekna stjórnmálaflokka, verð ég að efna til framhalds eftir handboltaleikinn.

21 mars, 2009

Þessi þekkist, að minnsta kosti


Hér með hef ég komist að því að forritið fína leysir ekki allan vanda, enda myndi þá útkoman teljast fremur ómerkileg. Þetta reyndist verða ríflega tveggja tíma vinna undir miður skemmtilegu sjónvarpsefni þetta kvöldið - eins og svo mörg önnur, reyndar.




Jæja, hver er þetta svo - til að halda því til haga?

Svo er hérna annar - svona aukageta.




19 mars, 2009

Nýjasta dellan í önnunum



Það er margt sem manni dettur í hug, þó svo það virðist eins og andríki mitt hafi, svo sem öllum má vera kunnugt, af einhverjum ástæðum verið í lítilsháttar hvíld að undanförnu. Það er þarna,  hinsvegar  og mér virðist að hér með hafi mér tekist að finna enn eina birtingarmynd þess.

Mér hefur áskotnast fyrirbæri sem ég nefni ekki, sem gerir mér kleift að búa til vektoramyndir með lítilli fyrirhöfn.
Byrja að sjálfsögðu á staðnum eina, sanna. Þetta ber að líta á naivískt byrjendaverk, sem ég get auðvitað skýrt að fullu.

Allt hefur vikið að undanförnu
og engu er við það að bæta.
Annríki ljótu og leiðigjörnu
legg fyrir myndgerð ágæta.

14 mars, 2009

ENDURLIT

Það sem við og samferðamennirnir dundum okkur við svona dags daglega, þykir oftar en ekki mjög merkilegt. Við sinnum okkar og áfram streymir líf okkar án þess að nokkuð verði gert í því. Meðan við rennum þannig áfram verða til allskyns lítil spor sem festast í minninu. Sannarlega eru þessi spor ekki öll jafn djúp, en það eru þau sem valda því að við getum skilgreint okkur sjálf sem einstaklinga.

Í gærkvöldi settist ég niður og horfði á 170 mínútna langa mynd, sem ber heitið Búnaðarfélag Biskupstungna 100 ára. Þessi mynd var gerð 1985-86 og höfðu þeir feðgar Björn í Úthlíð og Ólafur, sonur hans, umsjón með þessari framkvæmd.
Þetta var hreint ótrúlegt endurlit til fortíðarinnar. Þarna birtist aragrúi af fólki sem ekki gistir jörðina lengur auk allra hinna, sem enn eru að burðast við að spígspora um lífshlaupið. Þarna var meira að segja smá skot þar sem mér brá fyrir, grönnum og spengilegum með dökkt hár og ársgamla Guðnýju á handleggnum.
Þessi mynd er snilld - sem heimild um fólkið og lífið í Biskupstungum á 9. áratug síðustu aldar.

Annað sem hefur valdið því, undanfarnar vikur, að hugurinn leitar fortíðarinnar, er það tiltæki Péturs Hjaltasonar, að setjast niður og skrifa í fésbókina æskuminningar sínar, en þær snertast  við mínar í umtalsverðum mæli. Ég er nú samt ekki alltaf viss um að Pétur fari rétt með, en get ekki staðið fast á því að ég muni betur, því ekki hef ég reynst hafa gott minni til æskuáranna, nema e.t.v einstakra mjög dramatískra atburða.

Nú hlakka ég til þess þriðja af þessum sama toga, en það er geisladiskur með myndum sem Ásta og Gústi tóku á 8mm kvikmyndavélina sína, væntanlega á 8. og 9. áratugnum.

-------------------------------

Ég hef fengið af því veður, að æstustu aðdáendur þessara skrifa minna, séu orðnir óendanlega óþreyjufullir eftir því að fá að líta og lesa nýjustu afurð andans auðlegðar minnar. Það hefur vissulega síður en svo orðið til þess að ég stykki til. Það er nefnilega þannig með mig, að ef mig langar til að gera eitthvað í þessu þá geri ég það - nákvæmlega á þeim tíma sem ég tel að henti mér. Þetta er vegna þess að hér er ekki um að ræða dagbók með frásögnum af öllu því sem ber fyrir á lífsgöngunni og ekki heldur vettvang sem ég nota til að koma sjálfum mér á framfæri hjá mögulegum kjósendum; miklu frekar blöndu af háþróuðum og hyldjúpum pælingum og hoppandi eða skoppandi léttmeti, allt eftir því hvernig  hlutirnir standa hverju sinni.


Fortíðarmyndum ég fagna
og fjálglega ét upp til agna.





08 mars, 2009

"Ég held ég hafi nú aldrei...

... sungið við jarðarför tvo daga í röð", sagði félagi Bragi, tenór þegar á var liðið seinni jarðarförina, sem fór fram í gær. Bragi hefur þó marga fjöruna sopið í kórsöng gegnum áratugina. 

Undanfarna daga hefur, sem sagt, verið heilmikið að gera í kórbransanum og allt gekk það eins og lagt var upp með. 

Því verður ekki leynt, hinsvegar, að það er ekkert sjálfgefið, að hér í sveit sé hægt að ganga að fullboðlegum kór til að sinna verkefnum af þessu tagi. Það má segja, að hér sé heimikill mannauður fyrir hendi til þessa, en það er með hann eins og annan mannauð; hann þarf að rækta og þjálfa til að hann geti sinnt verkefnum sínum með fullnægjandi hætti. 

Ekkert er sjálfgefið í þessum efnum. Ef ekki er vökvað ef enginn er áburðurinn, þá vex ekkert. Þetta eru eiginlega of augljós sannindi, sem eiga ekki síður við um fólk en jarðargróður.

------------------ 

Ég hef ákveðið að fara ekki sömu leið og ýmisr aðrir sem hafa tjáð sig með þessum hætti virðast vera að fara. Fésbókin höfðar einhvern veginn harla lítið til mín, aðallega ef eftirtöldum ástæðum:
- flest það sem þar gerist virðist mér vera harla léttvægt,  þó vissulega megi finna þar margt  sem gagn má hafa af. Ég get ekki fengið af mér að skrá þarna inn hvað ég aðhefst frá degi til dags svo "vinir" mínir  geti smellt á 'like'. 
- þeir sem þarna eiga heima virðast sannarlega sökkva sér ofan í þetta, jafnvel svo, að það hlýtur að vera farið að koma niður að störfum þeirra og lífi. Mér finnst þetta í sannleika sagt vera of mikill tímaþjófur.

Eins og margir þeir sem þetta lesa hafa eflaust tekið eftir, þá hefur verið stofnað til aðdáendaklúbbs míns á fésbókinni. Þetta er auðvitað sérlega yndislegt og fallega hugsað að öllum líkindum. Ef að líkum lætur hefur fjöldi fólks skráð sig þarna í hóp aðdáenda minna en ég get ekki varist þeirri hugsun að þar geti einnig legið annað að baki.
Þá velti ég einnig fyrir mér tilganginum með þeim klúbbum, af ýmsu tagi, sem þarna er að finna og einnig hvaða gagn þeir gera. Þetta minnir dálítið á undirskriftasafnanir þar sem fólki finnst ekkert að því að skrá nafnið sitt og spá svo bara ekki meira í það.
Æ, já................


Það er sunnudagur og sólin reynir sitt
til að sannfæra oss um að vona
að vér föllum ekki í þann fúla pytt
sem .......

....Já hvaða pytt?

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...