22 mars, 2009

Hvernig velur maður? (2)

Nú er það orðið ljóst að VIÐ vinnum Eista með yfirburðum og þessvegna lítil spenna og af þeim sökum hægt að halda áfram að velta fyrir sér jákvæðum ástæðum til að kjósa flokkana sem okkur standa til boða í komandi kosningum. Ég er, sem sagt, búinn með tvo, en nú koma hinir tveir fjórflokkanna.


VINSTRI HREYFINGIN, GRÆNT FRAMBOÐ (V)
(ég nennti ekki að minnka merkið til samræmis)
1. Í mikilli sókn og ber örugglega ekki ábyrgð á stöðu þjóðarinnar, enda ekki setið í ríkisstjórn frá því flokkurinn var stofnaður (nema undanfarnar vikur).
2. Hefur verið að sýna hvers hann er megnugur og fyrir hvað hann stendur, á síðustu vikum.
3. Formaðurinn hefur óskoraðan stuðning í flokknum og lofar að víkja áður en fólk verður leitt á honum.
4. Hefur skýra stefnu í flestum málum - maður veit hvað maður hefur hann, ennþá. 
5. Ég er vinstrisinnaður og var meira að segja í Alþýðubandalaginu.
6. Ég er ánægður með að þetta er hugsjónaflokkur frekar en hagsmuna.
7. Einn núverandi þingmanna, sem hefur alltaf verið orsök þess að ég hef ekki getað kosið flokkinn, náði ekki mögulegu þingsæti í forvali.

FRAMSÓKNARFLOKKURINN (B)
1. Lítilmagninn sem langar að rísa úr öskustónni. Ég styð lítilmagnann.
2. Ný forystusveit sem lætur í það minnsta í það skína, að hér sé nýr flokkur á ferð.
3. Þekkt andlit nýs formanns sem leggur mikið á sig til að skapa sér stöðu innan flokksins og út á við einnig.
4. Ég er miðjumaður í pólitík og ánægður með að flokkurinn hefur ekki vikið frá því aðalsmerki sínu að vera til í allt (opinn í báða enda).
5. Mér finnst gott að geta aftur viðurkennt að ég sé Framsóknarmaður. Ég er búinn að hafa hljótt um það of lengi.
6. Ég treysti því að kafbátarnir sem hafa stýrt flokknum bak við tjöldin hafi endanlega fengið vota gröf.
7. Af því að ég er í Suðurkjördæmi verð ég að lýsa ánægju minni með nýja manninn í fyrsta sæti, sem ég hélt alltaf að væri Sjálfstæðismaður, jafnvel þó að hann sé Hreppamaður.


Þá er fjórflokkurinn afgreiddur. Ég vona að lesendur verði nægilega upprifnir til að leggja til fleiri jákvæða þætti til að  hjálpa okkur, hinum almennu kjósendum að taka afstöðu.

Framundan er að gera jákvæða úttekt á öðrum flokkum og framboðum.

3 ummæli:

  1. Svo er nú það
    og svo er nú það
    og síst er því að leyna
    þú veist hvað
    og þú veist hvað
    og þú veist hvað ég meina

    Þar eð þetta er ekki eftir hirðkveðilinn telst það ekki til bloggskapar, enda fer nú eitthvað að skerðast um hann.

    Hins vegar er sennilega best að kjósa L-listann, sakir ýmissa hluta s.s. það blása þó allavega ferskir og hressandi vindar úr nösum foringjans og liðsmenn virðast merktir velvilja, heiðarleika og heilbrigðri almennri skynsemi: engin glýja í augum; ekkert stórkallaraus um aðra. Aðeins vilji til að taka þátt í að reisa okkur við - með okkur.
    H.Ág.

    SvaraEyða
  2. Nota þetta í umfjöllun mína um L-listann :)

    SvaraEyða
  3. Hafðu sæll
    nýtt þér mína andans afurð. "anytime" eins og þeir segja í útlöndum - að ég hef heyrt.
    Hirðkveðillinn

    Afurð mínum anda frá
    ættu fleir' að not' og sjá
    þá mun rísa reisnin mesta
    ritað verður allt það besta
    ;:hér um jörð og himnum á:;

    (bloggskapaur um yfirlýsingar H.Ág. um L-listann - og notagildi þeirra)
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...