Fjórflokkurinn þarf ekki endilega að vera það eina sem valið stendur um í komandi kosningum. Þessum hluta er ætlað að varpa nokkru ljósi á jákvæðar hliðar þess að kjósa aðra flokka, framboð eða lista. Enn sem komið er hafa komið fram 2 framboð/listar til viðbótar, (mér vitanlega (ekki veit ég þó alla hluti)) sem hyggjast bjóða fram í öllum kjördæmum. Það er örugglega hægt að sjá ýmislegt jákvætt við að kjósa þau.
Það var haft á orði í mín eyru, í framhaldi af jákvæðni minni í garð fjórflokksins, að ég muni ætla að kjósa þá alla. Mér er ljúft og skylt að greina, í því sambandi, frá því, að ég mun kjósa einn flokk, framboð eða lista, utankjörfundar. Ég er hinsvegar óvenjulega víðsýnn maður, sem hef þann merkilega hæfileika, að geta sett mig nokkuð vel inn í hugarheim allra - eða í það minnsta flestra. Það er þess vegna sem ég treysti mér til að setja mig í spor hins venjulega Íslendings, eins og hér er raunin.
Hinn venjulegi Íslendingur fylgist með fréttum daglega og les dagblöð og héraðsfréttablöð það sæmilega, að hann skannar fyrirsagnir pólitískra greina. (hverjum dettur í hug, að það sé einhver umtalsverður fjöldi fólks sem les alla þá býsn sem í boði er, og sem viðkomandi skrifari telur jafngilda einhverju stórfenglegu afreki sem fjöldinn bíður eftir að fá að lesa? Ég verð að viðurkenna að ég þekki einn - hann er gamall unglingur sem notar stækkunargler við lesturinn.)
Greinaskrif í blöð hafa afskaplega takmarkað gildi, því miður.
Á þessum góða degi hef ég ákveðið að greina frá jákvæðum ástæðum fyrir því að kjósa einn flokk og einn lista.
FRJÁLSLYNDI FLOKKURINN (F)
1. Ég vil breyta kvótakerfi í sjávarútvegi í grundvallaratriðum.
2. Kallinn í brúnni virkar vel á mig, hann er vestfirkt hörkutól og einhvern veginn ímynd Íslendingsins sem blundar í okkur öllum.
3. Mér finnst að fjórflokkurinn og fjölmiðlar hafi farið illa með flokkinn með því að hunsa hann gjörsamlega. Þessvegna vil ég styðja hann.
4. Það hafa sumir viljað kalla mig 'kverúlant', sem ég er auðvitað ekki, en vissulega veit ég hvað þjóðinni er fyrir bestu í öllum málum.
5. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé rétt að fólk, hvaðan sem er í heiminum, setjist hér að og hljóti sömu réttindi og vel ættaðir Íslendingar.
6. Eins og alltaf, þá höfðar lítilmagninn til mín og, því miður, hefur flokkurinn lent í nokkrum hremmingum í kosningabaráttunni. Það er mér næg ástæða í sjálfu sér, fyrir því að ljá honum atkvæði mitt.
L-LISTINN (L)
1. Ég vil endurreisn í íslenskum stjórnmálum og efnahag.
2. Ég vil varðveita fullveldi Íslands og hafna þessvegna hugmyndum um að leita eftir viðræðum um hugsanlega aðild Íslands að ES, hvað þá sækja um!
3. Ég er sammála þessum orðum eins samstuðningsmanns míns:"Það blása ferskir og hressandi vindar úr nösum foringjans og liðsmenn virðast merktir velvilja, heiðarleika og heilbrigðri almennri skynsemi: engin glýja í augum; ekkert stórkallaraus um aðra. Aðeins vilji til að taka þátt í að reisa okkur við - með okkur."
4. Foringinn er, hvorki meira né minna, Tungnamaður, sem nægir mér til að styðja hann heilshugar. Annar, prestvígður forystumaður listans, er einnig fyrrverandi Tungnamaður og enn Tungnamaður í hjarta, og því réttur maður á réttum stað.
5. Þó svo foringinn hafi talið útrás vera sterkan leik og boðið sjálfan sig fram í höfuðborginni (5% jú nó) þá tel ég, að andi hans svífi svo kröftuglega enn yfir vötnunum í Suðurkjördæmi, að það sé ekki nema sjálfsagt mál að styðja listann. Hofsóski frambjóðandinn í fyrsta sæti lofar góðu.
6. Ekki dregur það úr spenningi mínum fyrir þessum lista, að mér hefur borist njósn af því, að annar og jafnvel aðrir Tungnamenn muni prýða listann, meira að segja mun hann/annar þeirra vera nær en margur hyggur.
7. (Ég sagðist í upphafi geta átt það til að bæta viðbótarástæðu inn) Það er mér mikið ánægju- og fagnaðarefni, að verðandi þingmenn listans verða ekki bundnir af neinu sérstöku (nema þessu með Evrópusambandið). Það getur orðið skemmtilegt.
Nú hef ég talið fram jákvæðar ástæður þess að kjósa 6 flokka, framboð, eða lista. Vissulega veit ég um fleiri aðila sem eru að velta því fyrir sér að bjóða fram í öllum kjördæmum, en mun bíða með umfjöllun um þá/þau þar til eitthvað bitastæðara liggur fyrir í formi fyrirsagna í dagblöðum og skyldutilkynninga í ljósvakafjölmiðlum.
Það er svo, að ég fór fram á það við lesendur, að þeir bættu við fleiri jákvæðum ástæðum fyrir því að kjósa tiltekna flokka/framboð/lista, en ekkert efni hefur borist utan eitt 'komment', sem kom fyrirfram og sem ég hef sannarlega nýtt mér. Enn gefst lesendum færi á að tjá sig, nema þeir séu bara svona sáttir við úttektina, - eða svo ósáttir, að þeir treysta sér ekki til að koma fram með málefnalegar tillögur.
Þetta verður að koma í ljós.
Sérdeilis fín útekt á sáluga framboði L-listans. Við þessa ágætu úttek mætti bæta að ellið er sérlega þjóðlegt og fagurt...og snjallt að stofna ekki flokk og bjóða bara upp á lista...en það skiptir víst ekki máli lengur :-)
SvaraEyða