14 mars, 2009

ENDURLIT

Það sem við og samferðamennirnir dundum okkur við svona dags daglega, þykir oftar en ekki mjög merkilegt. Við sinnum okkar og áfram streymir líf okkar án þess að nokkuð verði gert í því. Meðan við rennum þannig áfram verða til allskyns lítil spor sem festast í minninu. Sannarlega eru þessi spor ekki öll jafn djúp, en það eru þau sem valda því að við getum skilgreint okkur sjálf sem einstaklinga.

Í gærkvöldi settist ég niður og horfði á 170 mínútna langa mynd, sem ber heitið Búnaðarfélag Biskupstungna 100 ára. Þessi mynd var gerð 1985-86 og höfðu þeir feðgar Björn í Úthlíð og Ólafur, sonur hans, umsjón með þessari framkvæmd.
Þetta var hreint ótrúlegt endurlit til fortíðarinnar. Þarna birtist aragrúi af fólki sem ekki gistir jörðina lengur auk allra hinna, sem enn eru að burðast við að spígspora um lífshlaupið. Þarna var meira að segja smá skot þar sem mér brá fyrir, grönnum og spengilegum með dökkt hár og ársgamla Guðnýju á handleggnum.
Þessi mynd er snilld - sem heimild um fólkið og lífið í Biskupstungum á 9. áratug síðustu aldar.

Annað sem hefur valdið því, undanfarnar vikur, að hugurinn leitar fortíðarinnar, er það tiltæki Péturs Hjaltasonar, að setjast niður og skrifa í fésbókina æskuminningar sínar, en þær snertast  við mínar í umtalsverðum mæli. Ég er nú samt ekki alltaf viss um að Pétur fari rétt með, en get ekki staðið fast á því að ég muni betur, því ekki hef ég reynst hafa gott minni til æskuáranna, nema e.t.v einstakra mjög dramatískra atburða.

Nú hlakka ég til þess þriðja af þessum sama toga, en það er geisladiskur með myndum sem Ásta og Gústi tóku á 8mm kvikmyndavélina sína, væntanlega á 8. og 9. áratugnum.

-------------------------------

Ég hef fengið af því veður, að æstustu aðdáendur þessara skrifa minna, séu orðnir óendanlega óþreyjufullir eftir því að fá að líta og lesa nýjustu afurð andans auðlegðar minnar. Það hefur vissulega síður en svo orðið til þess að ég stykki til. Það er nefnilega þannig með mig, að ef mig langar til að gera eitthvað í þessu þá geri ég það - nákvæmlega á þeim tíma sem ég tel að henti mér. Þetta er vegna þess að hér er ekki um að ræða dagbók með frásögnum af öllu því sem ber fyrir á lífsgöngunni og ekki heldur vettvang sem ég nota til að koma sjálfum mér á framfæri hjá mögulegum kjósendum; miklu frekar blöndu af háþróuðum og hyldjúpum pælingum og hoppandi eða skoppandi léttmeti, allt eftir því hvernig  hlutirnir standa hverju sinni.


Fortíðarmyndum ég fagna
og fjálglega ét upp til agna.





1 ummæli:

  1. Fortíðarmyndum ég fagna
    og fjálglega ét upp til agna
    ei skrif' eftir pöntun
    fyr' skepnur með vöntun
    og skal aldrei hvatningum fagna.

    (Bloggskapur um að PMS skrifar ekki eftir pöntunum! What else is new?!)
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...