Það hefur verið minnst á það hér áður, að framundan væri ferð félaga í fyrrverandi Skálholtskórnum til Berlínar til að halda tvenna tónleika.
Þessari ferð er nú lokið.
Hún gekk jafn vel ef ekki betur en vonir stóðu til.
Það var gaman að taka þátt í þessu dæmi.
Maður er orðinn hálfgerður heimsborgari eftir að vera búinn að öðlast hagnýtan skilning á lestakerfi borgarinnar.
Ég lenti í samtali við þýskann innistæðueiganda á Edge reikningi sem vonaðist til að ná sambandi við sendiherra landsins á tónleikum okkar - en það kom bara enginn sendiherra. (Hann var að vísu á stóru tónleikunum)
Á tónleikunum í Gethsemanekirkjunni, á laugardagskvöldi með 100 manna þýskum kór, þar sem fluttar voru tvær krefjandi messur með 30 manna hljómsveit fyrir 1000 manns, stóðu hinir íslensku tenórar sig gríðarlega vel, en tveir þeirra reyndust hafa litla blöðru eða mikla sýniþörf. Þetta birtist þannig að í örstuttu hléi tóku þeir sig til og tróðust úr efstu röð í gegnum allan hópinn, til að komast á snyrtinguna, að eigin sögn, en kannski voru þeir bara að vekja athygli á sér. Þeir uppskáru að minnsta kosti nokkur klöpp þegar þeir birtust aftur, eins og hljómsveitarstjórar, eða einsöngvarar, rétt í þann mund þegar næsta atriði hófst. Hverjir þeirra 5 sem hér sjást, voru þeir?:
Já, getið nú.
Aðrir íslenskir kórfélagar stóðu sig einnig vel, að því ég held.
Eftir þessa tónleika var nokkurskonar mótttaka þar sem íslenskum sönglögum og uppákomum fjölgaði eftir því sem leið á kvöld og nótt.
Sögur fóru daginn eftir af léttum og kátum hóp, sem síðan naut lífsins (eða frelsisins, frá einhverju sem var heima) og skemmti starfsfólki hótelsins og hvort öðru og sjálfu sér fram undir morgun. Það er í góðu lagi.
Seinni tónleikarnir voru okkar eigin, með íslenskri tónlist að mestu í Elias-Kuppelsaal á mánudagskvöldi. Ég viðurkenni, að ekki leist mér á raddlegt ástand sumra félaganna á síðustu æfingunni, en úr því rættist furðu vel.
Fullt hús þarna líka og frábærar móttökur. Við hjónakornin auðvitað ósköp stolt af syninum, tenórnum, sem stóð sannarlega fyrir sínu. Við öll vorum líka stolt af öðrum einsöngvurum sem þarna tróðu upp, stolt af þessu fínu hljóðfæraleikurum sem voru í för, stolt af okkur sjálfum fyrir flottan hljóm.
Allt í þessu fína með það allt saman.
Þeir voru nokkrir sem lögðu á sig ómælda vinnu í undirbúningi og framkvæmd. Þeir vita hverjir þeir eru og ég veit það líka. Þakka þeim.
Ári var þetta ágæt ferð
ei verður lengi' um það rifist.
Játa það bara, jess ég verð
að jákvæður, hafi ég hrifist.