framhald
Fyrir valinu varð annað stórfyrirtækið í byggingavörubransanum, sem þarna hefur aðsetur. Þessa mánuðina virðist nú ekki vera mikið að gera þarna, eins og við má búast. Því náði ég strax sambandi við mann í timburafgreiðslu, rétti honum miðann og sagði: "Ég ætla að fá svona, Er það eitthvað vandamál?" Hann hélt nú ekki, utan það, að ekki yrði hægt að saga þetta niður fyrir mig samdægurs. Því tók ég bara vel, þar sem þar með vann ég einhvern tíma. Hann kvaðst myndu senda mér tilboð í þetta þegar hann væri búinn að taka allt saman, en hann yrði að reikna lítilsháttar kostnað vegna sögunar á timbrinu í réttar stærðir, samkvæmt teikningunni. Ekkert vandamál - ég kvaðst vera pollrólegur, - sem ég var.
|
Ekki eigin mynd |
Segir ekki frekar af kaupstaðarferðinni.
Það næsta sem gerðist var símtal frá þessum starfsmanni nokkrum dögum seinna. Tilgangurinn með því var að bera undir mig hvort ég vildi fá timbrið sagað, sem ég taldi hafa verið frágengið.
"Við erum búnir á slá á þetta og verðum að reikna einn klukkutíma á þetta í söginni. Klukkutíminn kostar 22.000 krónur." Áður en ég hafði hugsað málið til enda sló ég snarlega á það að til greina kæmi að ég færi að greiða þessa upphæð fyrir að láta saga nokkrar spýtur fyrir mig! Auðvitað fékk ég bakþanka síðar, en það er annað mál.
"Ef við sleppum því að saga þá verða þetta 48.500 krónur. Á ég ekki bara að senda þér tilboðið í tölvupósti?"
Mér blöskraði, en sagði honum að gera það, engu að síður.
Tölvupósturinn kom með virðulegu tilboði upp á kr. 48.500. Ég grandskoðaði þetta tilboð og komst fljótt að því, að blessaður maðurinn hafði tvíreiknað timburmagnið! Ástæðan fyrir vitleysunni varð mér fljótt ljós, en eins og áhugasamir geta séð
hér, þá er á uppskriftinni talað um
EFNISLISTA, þar fyrir neðan er fyrst kafli sem ber titilinn
KEYPT EFNI, en þar er tilgreint allt það efni sem þarf í skýlið. Svo kemur annar kafli sem heitir:
NIÐURSAGAÐ EFNI, sem er sama efnið og keypt er, nema bara niðursagað í tilteknar lengdir. Þetta hafði afgreiðslumaðurinn í byggingavöruversluninni bara talið sem meira efni í skýlið.
Ég hringdi aftur og benti honum á mistökin, og honum varð ekkert mikið um, en kvaðst skyldu minnka pöntunina sem þessu næmi og endurreikna tilboðið.
|
Ekki eigin mynd |
Það næsta sem gerðist var að bílstjóri frá flutningafyrirtæki hringdi og spurði hvort mér lægi á að fá sendinguna í dag, við hverju ég brást með því að kveðjast vera alveg rólegur, ekkert lægi á. Ég meinti það.
Það var svo tveim dögum seinna, að timburfarmurinn birtist á hlaðinu í Kvistholti, í rigningarsudda.
Það kom mér ekkert illa, því rætt hafði verið um að fD bæri pallaolíu á timbrið áður en alvöru framkvæmdir hæfust. Það þýddi, að efnið varð að bera inn í hús og leyfa því að þorna í einhverja daga.
Efnið var borið inn, allt nema það sem var í lengdum sem voru meiri en svo, að það kæmist inn, miðað við að hægt væri að loka útihurðinni. Það sem verra var, að hér var um að ræða staur sem var 480 cm á lengd og 95x95 á breidd og þykkt. Ekki var um annað að ræða en að bjarga því með einhverjum hætti, þó svo ég gæti hugsað mér að gera eitthvað annað. Því var það, að ég hélt af stað til að útvega mér stóra sög.