framhald
Mig minnti að á æskuheimilinu hefði verið til heilmikil vélsög sem hét ELU og hélt því þangað, en það var ekki ferð til fjár, þó svo mér hefði verið boðin til láns Europriskeypt bútasög, sem hM hafði fjárfest í vegna pallasmíða í kringum heitan pott sinn og sem þannig myndi henta vel þegar kæmi að því að búta niður pallaefnistimbur sorptunnuskýlisins. Ég setti hana bakvið eyrað.
ELU sögin mikla var til og talið líklegt að hún væri til húsa í gamla fjósinu uppi á Hæð, í umsjá hB, sem reyndist vera og ég kom heim með sög á endanum. Það var vissulega galli, að þessi sög gat ekki sagað nema 80mm þykkt efni, en staurinn sem ná þurfti í sundur var 95mm. Hvað um það, góð sög með rétt stillt blað átti að fara létt með, í góðum höndum, að ná þessum staur í sundur þannig að úr yrðu fjórir hornstaurar.
Allt klárt og fD kom út í suddann til að halda undir staurinn meðan ég beitti ELU, fagmannlega. Ég þarf auðvitað ekki að nefna fagmennskuna frekar, en sundur fór staurinn á endanum á þrem stöðum. ELU er einhverra áratuga gömul vélsög og það hefur líklega verið aldurinn sem olli því að blaðið var ekki fyllilega rétt, með þeim afleiðingum, að endarnir sem voru fagmannlega sagaðir í hvívetna, reyndust ekki verða fyllilega réttir. Við þær aðstæður varð mér, fyrsta sinni á, að tala um að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli. Það stóð einnig til að skella þar til gerðum höttum á staurendana og því skipti útlit þeirra ekki öllu máli. Þar með voru 4 hornstaurar tilbúnir til þurrkunar, sem, sem betur fór þurftu nú að vera þar óhreyfðir í nokkra daga, áður en fD gæti borið á þá viðeigandi efni, eins og áður hefur verið nefnt.
Svo var það dag einn þegar ég kom heim, að það var nánast liðið yfir mig þegar ég opnaði útidyrnar. Áburði var lokið. Við gátum bæði verið sammála um að það væri eins gott að Kvistholtsanginn frá Danmörku var ekki kominn, en hans var von ásamt foreldraeintökum sínum, skömmu seinna.
Það var allavega allt orðið klárt fyrir sögun. Ég man ekki einu sinni hvernig mér tókst að humma fram af mér að hefja það verk, líklega var það blanda af þreytu minni eftir krefjandi vinnudaga og væntanleg koma Dananna okkar. Allavega var það ekki fyrr en hÞ fór að hafa orð á því, upp úr þurru, hvort við ættum kannski að fara að saga þetta niður, að mér varð ljóst, að fD hafði ekki látið deigan síga. Þegar hér var komið var fátt um afsakanir, enda komin helgi og veðrið nokkuð þolanlegt. Við þessar aðstæður skellti ég mér í Hveratún og fékk þar lánaða áðurnefnda Europrisbútasög. Flutti hana heima og stillti upp á stéttina og mældi réttar lengdir. Svo var bara farið að saga. Fyrst sagaði ég og hÞ hélt við, svo sagaði hÞ og ég hélt við, þá sagaði hÞ og fÁH hélt við, þar til yfir lauk.
All gekk þetta áfallalaust utan að stilling Europrisgræjunnar fór úr skorðum á tímabili svo endarnir fjarlægðust það nokkuð að vera 90°, en því var kippt í liðinn með þeim orðum, að þetta væri nú bara ruslatunnuskýli.
Allt efnið niðursagað og tilbúið fyrir samsetningu, og ég taldi þetta vera orðið gott dagsverk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli