04 október, 2010

Sorp-/ruslatunnuskýli/geymsla (1)

Það var ljóst frá upphafi, að það kæmi einhverntíma að því að ruslatunnunum tveim sem sveitarfélagið úthlutaði okkur Kvisthyltingum, rétt eins og öðrum íbúum, yrði að finna varanlegan samastað. Fram til þessa hafa þær verið á heldur óæskilegum stað, ef horft er til þarfa eða óska fD: óbundnar, beint fyrir utan opinn gluggann á vinnustofu hennar (fyrir nú utan það að þær skyggja á vegglistaverk undirritaðs). 

S.l. vetur komu nokkrum sinnum veður sem feyktu tunnunum af stað, sem varð til þess að það þurfti að fergja þær með tiltækum, þungum hlutum. Oftar en ekki minnti fD mig á að svona væri ekki boðlegt að fara inn í næsta vetur; það yrði að tryggja tunnunum varanlegan samastað. Ég taldi nú að sumarið myndi nýtast vel til að verða sér úti um viðeigandi umbúnað, en mér varð brátt ljóst, að það virðist vera svo, að framleiðendur skýla af þessu tagi virðast ekki sjá neitt efni til þessa nema járnbent steinsteypuskýli sem kosta hátt í 200000 krónur íslenskar. Ég vil ekki steinsteypt skýli og ég vil ekki greiða upphæð sem jafnast á við bílverð, fyrir svo lítilmótlegt fyrirbæri.  

Þarna var ég kominn í klemmu: annarsvegar var fD, sem ekki var ódugleg að minna á þörfina sem var fyrir hendi og hinsvegar blasti við sú staðreynd, að ég gat ekki fengið keypt viðeigandi skýli á viðunandi verði. Ekkert virtist blasa við (fyrir utan það að draga lappirnar í lengstu lög) nema það að ég færi út í að hanna og byggja skýli í ofangreindum tilgangi. 
Sorptunnuskýli er auðvitað hægt að hanna og smíða með ýmsum hætti. Það getur verið allt frá því að vera einfalt og ljótt, upp í að vera flókið og flott. Ég vildi ekki einfalt og ljótt, en var alveg tilbúinn til málamiðlana að öðru leyti.
Ég veit að það getur enginn trúað því hve mikið mál það getur verið að setjast niður til að hanna skýli af þessu tagi. Mér er alveg sama þó þessi trú sé ekki fyrir hendi hjá fólki. Ég reyndi það á sjálfum mér.

Sumarið leið í útstáelsi; Evrópuferðum og fleiru - sennilega stysta sumarleyfi frá upphafi. En sorptunnugeymslan gleymdist ekki. Í ágúst tóku mér að berast meldingar um að framundan væri vetur með vályndum veðrum og að það væri ekki valkostur að ruslatunnur fengju að fjúka fram og til baka um allt Kvistholtsland og víðar.
Enn settist ég við tölvuna og gúglaði - reyndi ýmsar útgáfur og orðum yfir fyrirbærið sem mig vantaði: sorptunnugeymsla, sorptunnuskýli, ruslatunnugeymsla, ruslatunnuskýli, o.fl. o.fl. Það reyndist til nægt úrval að þessu fyrirbæri, sem fyrr, en þar var um að ræða steinsteypukumbalda á uppsprengdu verði, nema hér.
Þarna virtist kominn ákveðin lausn, en gallinn við hana var, í mínum huga, sá, að ég þurfti að standa í því að panta efnið og skrúfa það saman. Þetta varð til þess að ég lagðist í pælingar, eins og ég geri yfirleitt þegar verkefni eru framundan, og þá sérstaklega ef verkefnin eru ekki á áhugasviði mínu, eins og var í þessu tilfelli. Það var ekki svo að hæfileikarnir væru ekki fyrir hendi, heldur dálítið annað, sem ég kýs að tilgreina ekki.

Það kom að því óhjákvæmilega: þrýstingur óx, ekki kannski með orðum  beinlínis, en hann fór vaxandi og þar kom að ekki varð um frekari frestun að ræða.  Það var því haldið í höfuðstað Suðurlands, með útprentun á gögnum vegna innkaupa.

3 ummæli:

  1. ég sé að þeir hjá Gámaþjónustunni hafa blætt í atvinnuljósmyndara til að taka myndirnar í efnislistann hjá sér :)

    En hvernig er það, ekki skilar EOSInn fíni frá sér svona bláleitum myndum? :)

    SvaraEyða
  2. Myndgæði Gámaþjónustefnislistans hafa valdið nokkrum vanda, sem fjallað verður um síðar.
    Það var meðvituð ákvörðun að hafa myndir af ruslatunnum fremur óásjálega - til að halda stíl umfjöllunarefnisins :)

    SvaraEyða
  3. Tunnuskýli tekið geta
    á taugar manna
    einkum þó ef áhuginn
    ekki' er mikill, ljúfurinn :-)

    Hirðkveðill yrkir af HYLdjúpum skilningi um ofanskráð efni.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...