09 september, 2013

Hugans íþrótt og ævintýr

Ég er ekki skákmaður og þar af leiðandi ekki viðræðuhæfur um þau ævintýr sem menn geta ratað í með því að færa taflmenn fram og aftur um taflborð, drepandi mann og annann.

En ég á þessa fínu spjaldtölvu. 
Ef maður á spjaldtölvu og segir þannig A, þá þarf maður einnig að segja B með því að velja sér einhver viðeigandi (helst ókeypis) ÖPP til að koma fyrir undir fingurgómunum, í þau skipti sem maður metur sem svo að þörf sé að liðka gripinn.
Ég er sem sagt búinn að appa spjaldtölvuna mína talsvert.

Eitt appanna sem ég ákvað að skella þarna inn er skákapp, ekki síst vegna þess að mér fannst litirnir í því hæfa vel spjaldtölvunni minni, og einnig vegna þess að það kann að gefa nokkuð jákvæða mynd af mér að vera með svona app, ef einhver skyldi nú rekast inn á appasafnið mitt.

Þegar maður er búinn að fá sér app, blasir við að það þarf að nota það (app sem er ekki notað er til einskis gagns, og því ber að eyða). Ég ákvað, sem sagt að smella létt á skákappið á skjánum, og óðar breiddist það yfir allan gluggann. Ég gat þarna valið um ýmsa möguleika, en í sem stystu máli þá valdi ég að tefla á 1. stigi við appið (eða forritið sem stýrir því). Taflborðið birtist á skjánum, og ég mátti byrja, sem var augljóst, þar sem hvítu mennirnir voru mín megin á borðinu. (Ég væri að ljúga (sem er sannarlega fjarri mér), ef ég héldi því fram að ég hafi aldrei prófað svona skákforrit í tölvu, því það hef ég svo sannarlega gert, en það eru líklega ein 10 ár síðan, svo lenti ég einhverntíma í byrjun 9. áratugs síðustu aldar í að stýra skákmótum í grunnskólanum sem ég starfaði við eftir Monrad kerfi (Reykholtsskóla)). Ég kann mannganginn, og ýmis fleiri grundvallaratriði, en ég hef aldrei komist svo langt að fara að hugsa út meira en einn leik fram í tímann.

Hvað um það, sem hvítur ákvað ég að flytja fram peð um tvo reiti (veit ekki hvort það var Sikileyjarvörn). Appið brást við með því að dúndra samsvarandi svörtu peði samsvarandi vegalengd fram á borðið. Svona hélt þetta áfram þar til ég ákvað að koma drottningunni minni í leik - það var ómögulegt að hafa hana aðgerðalausa þarna í bakgrunni orrustuvallarins. Ég skellti henni á ská, nokkra reiti fram á borðið, en var ekki fyrr búinn að því, en appið skaust fram með biskupsfjanda sem mér hafði yfirsést, og steindrap drottinguna. Fyrstu viðbrögð mín (eitt sekúndubrot) voru vonbrigði með sjálfan mig og ef til vill örlítið skert sjálfsmynd. Ég vissi auðvitað að drottningin er einn mikilvægast bardagamaðurinn í skák. Ég var ótrúlega fljótur að skima um skjáinn - kann að hafa gotið auga örskamma sund í átt til fD, sem auðvitað reyndist ekkert vera að fylgjast með taflmennskunni - neðst á skjánum, mín megin, var bjargvættur minn, UNDO-takkinn. Eftir að ég hafði smellt á hann, lifnaði drottningin mín við, eins og ekkert hefði gerst, og biskupsskömmin hvarf aftur í launsátur, en nú vissi ég hvar hann var og gat haldið áfram með það í huga.

Ég ætla hreint ekki að rekja þessa skák leik fyrir leik, en mikið óskaplega reyndist hann mér vel, UNDO-takkinn og ég vann með glæsibrag og appið óskaði mér til hamingju með árangurinn.

Lifi UNDO.

Ég vona að einhverjir átti sig á hver "moralen er" með þessari sögu.


08 september, 2013

Yfirborðssprikl í örheimi


Það eru, að mér virðist, nokkrir tugir manna sem lesa þessar færslur mínar. Ég fæ nú reyndar ekki mikil viðbrögð við þeim, en það er nú líklegast bara aukaatriði. Innihald þeirra er margvíslegt: allt frá ábyrgðarlausum lýsingum á einhverjum atvikum í samskiptum okkar fD og jafnvel fjölskyldunnar allrar upp í að vera háalvarlegar pælingar um lífið og tilveruna, auðvitað af mismiklu innsæi og mannskilningi. Allt þetta verða þeir sem lesa að meðtaka á sinn hátt. (miklu fleiri sem lesa samskiptafærslurnar)  

Þessu sinni ætla ég, en ætla samt ekki, enn einu sinni að fjalla um þessa þjóð mína, sem mér finnst vaða æ grynnra. Ég ætla ekki að útiloka, að þessi sýn mín sé til komin vegna þess að aldur minn er smám saman að verða þess valdandi að mér reynist æ örðugra að halda einhverjum takti við samfélagið. Ég þarf hinsvegar ekki að viðurkenna að svo sé, nema bara þegar mér svo þóknast.

Það sem ég læt frá mér hér fyrir neðan verður að líta á sem mína sýn á heildarmynd af því hvernig samfélagið birtist mér í æ ríkari mæli. Það er fjarri því að þetta eigi við alla því auðvitað er sá hópur fólks stór sem fellur engan veginn að því sem hér um ræðir, en það er líklega einnig hópurinn sem er talaður í kaf um leið og hann opnar munninn.

Ég talaði um að mér fyndist þjóðin vera að vaða æ grynnra. Hvað á ég nú við með því?
Fjallalækurinn rennur sína leið, niður hlíðina. Hann er ekki vatnsmikill en bætir það upp með hraða rennslisins, svona hoppar og skoppar með hávaða og látum niður hlíðina, leikur sér við gras og steina sem verða á veginum, en staldrar ekki við til að taka stöðuna eða spá í framhaldið.
Fljótið, sem safnar til sín vatni víða að, liðast hljóðlaust í rólegheitum í átt til sjávar. Það heldur stöðugt áfram þó svo hreyfing þess sé vart merkjanleg. Fljótið býr yfir þeim mikilsverða eiginleika, að halda stefnunni ótrautt þrátt fyrir að ótal fjallalækir renni saman við það á leið þess til sjávar. Á meðan fjallalækurinn sér ekkert nema sinn eigin litla heima þar sem hann hoppar og skoppar niður fjallshlíðina, býr fljótið yfir heildarmynd sem það öðlast með því að safna til sín öllum lækjarsprænunum.

Þeir eru margir fjallalækirnir meðal þessarar þjóðar - hafa sjálfsagt alltaf verið, en nú má kannski segja að hver og einn þeirra hafa eignast hljóðnema sem nemur skvettur þeirra og hátalara sem varpa hljóðunum um heim allan, ef því er að skipta.

Allt í lagi. Við öll höfum um alllanga hríð átt kost á því að tjá okkur opinberlega um hvaðeina það sem okkur dettur í hug eða sem brennur á okkur. Þetta ber auðvitað að þakka. Fyrir tilstilli þessarar tækni hafa komið fram margir einstaklingar sem hafa mergt til brunns að bera - sem bera í sér eiginleika fljótsins djúpa og lygna. Fyrir tilstilli þessarar tækni hafa einnig, og í miklu meiri mæli, skotist fram einstaklingar sem ekkert hafa fram að færa nema vanstilltan hávaðann í sjálfum sér, yfirfullir af oftrú á eigin ágæti, ausandi úr sér dómum og skoðunum sem enga undirbyggingu hafa aðra en þá sem endurspeglar örheiminn sem þeir koma úr.
Hvaða hávaða er ég að tala um?
Til dæmis þennan, sem ég fann á örskotsstundu:
Einn Samfylkingarmaður ræður annan þrátt fyrir vitneskju um perra-sóðann; hvað veldur? - Líklega réði Baldur JBH m.a. þess, að báðir eru þeir Samfyllkingarmenn; og einlægir/miklir fylgismenn þess, að greiða ólöglegar kröfur Ice-save-þræla-Svavars-samninginn; sem sýnir dómgreindarleysi þeirra. -
 Það sem er dapurlegt er að Ingbjörg Sólrún gerir sér enga grein fyrir moskumálinu, ekki frekar en að hún gerði sér enga grein fyrir því að við værum ÞJÓÐIN....
Trúarbrögð eru akkilesarhæll mannkynsins. Viðbjóðurinn kraumar undir allstaðar. Á meðan þau eru við líði kemst mannkynið ekki spönn frá rassi.Eru Þjóðkirkjumenn búnir að gleyma leiðtoga sínum sem var phsycopatiskur nauðgar og pedofíll. Og það sem verra var að kirkjan vissi af því allan tímann. Mennu stungu bara undir stól og rifu kjaft. Í Jesú nafni amen. Og svo fylgja sauðirnir jarmandi í humátt á eftir.Eru Prestar ekki á launaskrá hins opinbera? Er hið opinbera með umboð frá almættinu? Hversu fáránlegt getur kjaftæðið orðið?Og hvenær munum við, líkt og bræður okkar norðmenn, þurfa að setja í landslög bann við umskurni stúlkubarna? Og hvenær byrja heiðursmorðin og sýruárásirnar?Er enginn að hugsa um stöðu kvenna í samfélaginu? Hér hefur hvað mest áunnist en Þar er enn langt í land. Stærsta afturhaldsaflið í þeim málum, sem og mannréttinadamálum öllum, eru trúarbrögð og þá sérstaklega Abrahamstrúarbrögðin öll sem eitt. Sama hvaða nöfnum þau nefnast.Burt með allt þetta helvítis kjaftæði og farið að drullast til að taka ábyrgð á eigin lífi. 
Hér að ofan veitir fólk (undir eigin nafni, eða fölsuðu) sýn inn í örheim dómhörkunnar og fávísinnar. Látum vera efnislegt innihaldið, fólk er að sjálfsögðu frjálst að því að tjá skoðanir sínar, en orðfærið er þess eðlis að skoðanirnar verða að einhverju aukaatriði, sem ekkert er með gerandi. Orðfærið eitt og sér lýsir, í mínum huga, óendanlegri fávisku þess sem ritar. Það eitt að birta nafn sitt með skrifum af þessu tagi, er með miklum ólíkindum. Svona er þetta nú samt, og þarna hefst síðan birtingarmynd þess, sem mér virðist vera að færast æ ofar í samfélagslegri umræðu. Stjórnmálamenn, gera sig æ oftar seka um að varpa fram órökstuddum dómum og dylgjum um menn og málefni - og komast æ oftar upp með það. Þeir taka að sér að bera ábyrgð á velferð þessarar þjóðar - heimilin í landinu, eins og sagt er. Þröskuldurinn sem skilur á milli ábyrgðar og ábyrgðarleysis á eigin orðum virðist stöðugt vera að lækka.

Úr hvaða jarðvegi sprettur þessi umræða dómhörku, mannfyrirlitningar, metnaðarleysis og yfirborðsmennsku?

Ja, ef ég hefði nú skotheld, vel ígrunduð og rökstudd svör við því. Ég ætla ekki að leyfa mér að fullyrða eitt né neitt um það, en það má varpa fram spurningum og það ætla ég að gera. Hver spurning kallar á aðrar spurningar, og mínar spurningar kunna að kalla fram svör sem passa ekki við lýsinguna hér fyrir ofan. Ég ætla ekki að spyrja allra þeirra spurninga sem fara um hugann, heldur tína fram þrjú sýnishorn:

1. Fyrir allmörgum árum kom fram gagnrýni á að þjóðin væri of spör á hrós. Það var gert átak í að hrósa börnum, sérstaklega með það markmið í huga, auðvitað, að efla og styrkja sjálfsmynd þeirra. Getur það verið að við höfum gengið of langt í þessum efnum? Hrósum við fyrir það sem ekki á skilið hrós? Ef svo er, hefur slíkt hrós mótað með börnum ranga mynd af eigin ágæti, komið inn hjá þeim þeirri hugmynd, að bara eitthvað væri miklu meira en nógu gott? Hefur hrósið orðið til þess að ýta undir metnaðarleysi?

2. Er það svo, að umræður í samfélaginu einkennist æ meir af yfirborðsmennsku? Við þekkjum það væntanlega flest á sjálfum okkur, að  við leitum ávallt leiða til að fá sem mest fyrir sem minnst. Við viljum komast þangað sem við ætlum að fara eins erfiðislaust og mögulegt er. Það sem er auðmelt höfðar frekar til okkar en fyrirhöfn og vesen. Er þetta í rauninni í eðli okkar?  Hvert sem svarið við þeirri spurningu er, þá hafa risið upp iðngreinar sem stuðla beinlínis að því að gera lífið sem auðveldast, bæði í mat og andlegri næringu. Ekkert vesen, þú bara réttir fram seðlana og þú færð það sem þú vilt, snyrtilega matreitt ofan í þig, hvort sem það er skyndibiti, eða amerísk sápa.   Hver er þáttur afþreyingariðnaðarins í þeirri breytingu sem við virðumst vera að verða fyrir?  Er hann smám saman að smækka heimsmynd okkar? Er það svo, að upplýsingaflæðið og samkeppnin um athygli okkar verður til þess að okkur tekst æ ver að greina kjarnann frá hisminu?

3. Hvaða þættir í umhverfi okkar kalla fram í okkur þörfina fyrir að fella órökstudda dóma yfir mönnum og málefnum? Hvað kallar fram þörfina til að úthúða fólki, sem maður þekkir ekki? Hversvegna treystum við okkur síður til að rökræða málefni en að úthúða öðrum fyrir skoðanir þeirra að jafnvel bara tilveru? Tengist þetta eitthvað þeim einfalda litla heimi sem við erum búin að búa um okkur í?  Hversvegna virðust við eiga æ erfiðara með að ræða okkur að niðurstöðu í helstu hagsmunamálum okkar allra? Erum við hvert og eitt, að verða að smásærri mynd af þjóðum heims, þar sem hver hefur sína siði, menningu og ver landamæri sín fyrir öllu sem að utan kemur?

Ætli sé ekki best þegar hér er komið, að ég finni mér tölvuleik, spili hann svo, þangað til uppáhalds ameríska sápan byrjar í sjónvarpinu, með smá pásum þar sem ég skelli inn velvöldu kommenti á DV eða hringi eftir pizzu.  Dásamlegt.

---------------------------------------

Stórt LÆK á þá sem komust hingað.



24 ágúst, 2013

Aðdáun barnabarna: "Afi, er þetta erfitt...eða?"

Fyrir alllöngu fjallaði ég um einstaklega vel heppnaða aðgerð í Kvistholti, sem fólst í því að fella nokkur tré, sem voru farin að hafa áhrif á sóldýrkun fD.  Þar kom m.a. fram, að barnabörnin fjögur fylgdust agndofa með aðgerðunum, full lotningar yfir fagmannlegum vinnubrögðum afa sína.
Þeir voru til sem drógu í efa að birtingarmynd meintrar aðdáunar væri rétt til komin. Til að færa sönnur á að  allt hafi verið eins og lýst var, hef ég afráðið að sýna myndband (þó ekkert sé nú bandið) sem tekið var af  aðgerðinni. Það hefur dregist nokkuð að klippa myndefnið til, en til þess hæfur Kvisthyltingur hefur nú unnið það verk og því ekkert að vanbúnaði að skella sönnunargagninu í loftið.

Njótið.

Ein hjólönd, tvær hjólendur

Eða væri kannski betra að tala um einn hjólanda og tvo hjólanda.
 Þar sem ég sit fyrir framan sjónvarpið, eins og stundum kemur nú fyrir, streymir til mín auglýsing frá samgöngustofu um öryggi þeirra sem kjósa að fara ferða sinna á reiðhjólum. Þetta er talsvert löng aulýsing, sem er ætlað að sýna það helsta sem gott er að hafa í huga þegar maður á leið um götur borgarinnar á farartæki á hjólum.
Ekki skal hér gert lítið úr mikilvægi þess boðskapar sem auglýsingin felur í sér, en vandi minn er sá, að ég tilheyri þeim undarlega og minnkandi hópi fólks (sjálfsagt fyrir aldurs sakir) sem missir æ meir af boðskapnum sem borinn er á borð, vegna þess hve óaðlaðandi eða jafnvel bara kengvitlaust málfarið á boðskapnum er. Sannarlega þarf ég að eiga við sjálfan mig í því efni.

Áður en lengra er haldið vil ég geta þess, að ég leitaði að mynd af hjólanda, en fann ekki. Hinsvegar var nóg af myndum til að hinum mikla vef, af hjólöndum.

Sé vilji til þess að fara þá leið sem birtist í ágætri auglýsingunni, opnast heill heimur af möguleikum til orðasmíða. Það væri þó kannski rétt að ákveða hvort á að byggja á orðmyndinni önd eða andi - það er nefnilega erfitt að þurfa stöðugt að hafa í huga svo ólík fyrirbæri sem önd og anda þegar viðkomandi orðmyndir koma fyrir bæði í eintölu og fleirtölu.

Orðmyndun af því tagi sem hér er um að ræða getur vissulega leyst þann vanda sem uppi er varðandi ýmis kynjuð orð sem fólk hefur verið að agnúast út í.

Hér koma svo nokkur dæmi:
Þingmaður  - þingandi (þingandar)/þingönd (þingendur)
Ráðherra - ráðandi (ráðandar)/ráðönd (ráðendur)
Kennari - kennandi (kennandar)/kennönd (kennendur)
Reiðmaður - ríðandi (ríðandar)/ríðönd (ríðendur)
Flugþjónn  - fljúgandi (flljúgandar)/fljúgönd (fljúgendur)

Dæmi um þessi orð í setningu gæti verið:

Þingendurnar kölluðu eftir því að ráðöndin gæfi skýringar á yfirlýsingunni.
Þingandarnir kölluðu eftir því að ráðandinn gæfi skýringar á yfirlýsingunni.

Mikilvægt er að ríðandinn hafi áhuga og gaman af samskiptum sínum við hestinn, þyki vænt um hann og umgangist hann sem jafningja og vin.Mikilvægt er að ríðöndin hafi áhuga og gaman af samskiptum sínum við hestinn, þyki vænt um hann og umgangist hann sem jafningja og vin.

Ekki meira um þetta mál. Bara halda áfram að beita hörkunni við að láta þetta yfir sig ganga.

15 júlí, 2013

Aðdáun barnabarna

Kvistholt haustið 1983 - í ljósa hringnum
Þegar maður er búinn að búa á sama staðnum áratugum saman, fer ekki hjá því, að umhverfið taki breytingum, þó svo maður taki ekki beinlínis eftir því, svona frá ári til árs. Þegar íbúðarhúsið í Kvistholti var byggt í byrjun 9da áratugar síðustu aldar var trjágróðurinn vissulega til staðar þar sem  talsverðu hafði verið  plantað af trjágróðri í landið á allmörgum árum þar á undan. Sá gróður var hinsvegar ekkert sérlega áberandi orðinn, enda var veðurfar á landinu talsvert kaldara þá, en síðustu tvo áratugina. Trjám var þá plantað þétt, því það mátti búast við að talsverður hluti plantnanna lifði ekki af.
Kvistholt 1984
Þannig gáfu furutrén í Sigrúnarlundi, svokölluðum (nafngiftin er tilkomin vegna drauma systur minnar um sólbaðsstað í framtíðinni) ekki tilefni til neinna ráðstafana á þeim tíma.
En árin liðu og skjólið á sólpallinum fyrir ofan hús varð sífellt meira. fD gat sólbakað sig æ betur eftir því sem árin liðu og tilefni gafst til. Furan í Sigrúnarlundi teygði sig æ hraðar til himins, það sama mátti segja um grenitré og birki. Allur þessi gróður naut þess að sumarhitinn í uppsveitum hækkaði. Afföll urðu engin. Af þessu hlaust mikil samkeppni um sólarljósið, þar sem eitthvað varð að láta undan. Hæfustu trén lifðu af. Vandinn var hinsvegar sá, að trén töldu sig öll vera hæfust og þeystust upp í himinblámann í átt til sólar. Fyrir neðan þau, nær jörðu, myndaðist skuggi.

Síðustu árin hefur það orðið æ ljósara, eftir því sem sá hluti sópallsins sem nýttist til sóldýrkunar minnkaði, að það þyrfti að grípa til ráðstafana. Stofnar furunnar og grenisins í næsta nágrenni, gildnuðu ár frá ári og áhyggjurnar yfir því hvernig hægt væri að bregðast við jukust að sama skapi. Það hefur ekki síst verið vegna talsverðar íhaldssemi fD þegar nefnt var að það þyrfti að fella tré, sem þetta hefur dregist. Það má með sanni segja, að trjárisarnir hafi leitt til þess að það bærist nánast ekki hár á höfði á pallinum, neð þegar einstaka "hringrok", eins og fD kýs að kalla það þegar vindsveipir fara um pallinn á góðviðrisdegi, lætur á sér kræla.

Á þessu vori gerðist þrennt sem breytti stöðunni:
1. fD virtist ekki lengur vera jafn afhuga því að fella tré og áður hafði verið.
2. Skuggarnir á sólpallinum voru orðnir þannig, að í þær fáu klukkustundir sem sást til sólar, reyndist þörf á að aðlaga sólbaðsstaði að tíma dags, til að lenda ekki í skugga.
3. Sonurinn frá Álaborg gisti Kvistholt í vikutíma með fjölskyldu sinni.

Þegar þetta þrennt kom saman sýndist komið tækifæri og tilefni til aðgerða.

Felld tré merkt með rauðm hringjum.
Ég valdi þrjú tré sem helst komu í veg fyrir sólardýrkun, fékk að láni keðjusög hjá Hveratúnsbóndanum og þá var ekkert að vanbúnaði.

Einn örfárra sólardaga sumarsins var notaður til að fella tré. Engin smá tré.
Fall þeirra gat, ef ekki væri rétt að staði, valdið talsverðum usla, ekki bara með skemmdum á íbúðarhúsinu eða pallinum, heldur einnig ýmisskonar skrautgróðri sem enn fékk á sig sólarglætu dagspart á góðum degi.
Þarna kom sér vel að búa yfir einstakri verkkunnáttu, þar sem skógarhögg var annarsvegar. Trén féllu, eitt af öðru, nákvæmlega (næstum) eins og lagt var upp með. Á pallinum sátu barnabörnin fjögur í stúkusætum og hrópuðu hvatningu til afans, sem auðvitað efldi hann í ásetningi sínum að láta nú ekkert fara úrskeiðis.
Aðdáendur afa, frá visntri: Emilía Ísold Egilsdóttir, Rakel Jara Þorvaldsdóttir,
Gabríel Freyr Þorvaldsson og Júlía Freydís Egilsdóttir
"Afi, afi! Áfram afi! Afiiiiii!"
Hvatningin, ekki síst, varð til þess að felldum trjám fjölgaði frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir.
Eftirleikurinn var nokkur, þar sem það þurfti að fjarlægja feiknin öll af greinum, en sú vinna reyndist mér talsvert auðveldari en hefði getað orðið, með því, að meðan ég kastaði mæðinni eftir átökin við keðjusögina, sá Álaborgarsonurinn um að saga allar greinar af felldum trjám, auk þess sem hann bútaði stofnana í hæfilegar lengdir, til nýtingar í eitthvað (ég efast ekki um að fD finnur þar verkefni fyrir mig á næstu vikum og mánuðum og árum).

Nú er bara að vona að sólin fari að skína á pallinn.

02 júní, 2013

Slysin gera ekki boð á undan sér.

"Hvort ætlar þú að taka belginn eða grindina?" Það var fD sem varpaði fram þessari spurningu í hávaða vorverkanna á þessum sunnudegi. Sannarlega hafði ég ekki hugmynd um, um hvað málið snérist. Ég leit um pallinn, nýgræjuð blómakerin, sandborna og áburðarborna grasflötina og meira að segja inn í skógarþykknið í von um að koma auga á belg og grind, en án árangurs. Enginn belgur, engin grind.
"Belginn?"
"Já, eða kútinn. Veistu virkilega ekki hvað ég er að tala um?"
"Neibb."
Það leið enn nokkur stund, sem lyktaði með því fD gekk að útiarninum, sem er svona leirbelgur með strompi og hvílir á járngrind. Með því skýrðist hvað spurningin hafði snúist um. Þarna tók frúin í belginn og hugðist vippa honum af grindinni, en hrökk frá þegar hún uppgötvaði að svört aska frá haustinu 2012 klístraðist á leikskólakennarahendurnar. Þar með var ljóst hver tæki belginn.

Ég gekk að honum ákveðnum og þó nokkuð öruggum skrefum, skeytti engu um öskuna og hóf hann upp úr grindinni, án nokkurra vandkvæða. fD tók upp fislétta grindina og kom henni fyrir þar sem hún vildi hafa arininn þessu sinni. Hann hafði verið færður, að hennar ósk, síðastliðið haust, þegar reykinn frá honum lagði inn í hús. Ástæða þeirrar færslu var algerlega gleymd henni, en auðvitað ekki mér. Nú var hinsvegar uppi sú staða, að arinninn skyggði á blómaskeytingarnar og því þurfti hann að fara aftur á þann stað sem hann var, áður en hann var fluttur til vegna reykmengunar. Hvað sem því líður, þarna gekk ég léttilega, eða kannski rogaðist ég með leirbelginn þar til ég kom að þar sem fD hafði komið grindinni fyrir á hinum nýja, en samt gamla, stað. Staðurinn sá er alveg úti á brún á pallinum og svo hagar til, að af pallinum, á þessum stað eru einir 40 cm niður á jörð. Þar sem ég kom að grindinni, með arininn, sá ég að hann snéri ekki rétt, með því gatið vísaði út af pallinum. Ég hugðist því vippa mér hinumegin við grindina og koma þannig að henni, með belginn, frá hinni hliðinni. Í þessu skyni tók ég þá fínu ákvörðun að fara brúnarmegin við grindina, en fD hafði komið henni fyrir 15 cm inni á pallinum Til að byrja með leit þetta nokkuð vel út. Ég hélt belgnum yfir grindinni meðan ég freistaði þess að smeygja mér framhjá henni.

Það var í þessari, fyrirhuguðu færslu sem ég uppgötvaði, að þó svo ég telji mig bara nokkuð sprækan miðað við aldur, þá þurfi ég að læra að taka mið af því að lipurleikinn er ekki sá sami og var. Ég steig það utarlega á pallbrúnina að stærstur hluti hægri fótar stóð út af. Þarna gaf framhluti fótarins sig. Ég sá hvað verða vildi og af ótrúlegu snarræði lét ég belginn falla á grindina, án þess að velta fyrir mér hvernig hann snéri, enda skipti það ekki máli í þeirri stöðu sem nú var upp komin. Aðdráttarafl jarðar varð síðan til þess að ég, í léttleika mínum, hlunkaðist fram af pallinum án þess að fá rönd við reist. Ég veit ekkert hvernig það gerðist, að ég lenti á bakinu og hnakkinn skall í jörðina. Það var mosaræktin sem varð til þess að höggið hafði ekki meiri afleiðingar en, að mér fannst eins og heilinn losnaði í höfðinu.
"Þú færð kúlu á ennið" sagði fD, sem stóð uppi á pallinum, í ótrúlegum makindum, ef tekið er mið af því að eiginmaðurinn hafði þarna orðið fyrir talsverðu slysi (óhappi, í það minnsta). Þarna gat allt hafa gerst.
"Ég hef örugglega fengið heilahristing," sagði ég yfirvegun, þar sem ég lá og horfði á skýin. Ég lá þarna bara nokkuð lengi, en þar kom að ég ákvað að láta reyna á hvort ég hefði slasast alvarlega. Ég hef nefnilega heyrt að líkaminn komi í veg fyrir sársauka þegar slys verða óvænt. Ég fékk fljótlega ekki  betur séð en felst virkaði eins og áður og það var mér léttir. Mér var og er fyrirmunað að skilja hvernig ég gat marist á enninu við að detta á bakið. fD, sem var vitni að slysinu, hefur ekki getað gefið viðhlítandi skýringar og mér finnst algerlega óhugsandi, að ég geti hafa dottið fram fyrir mig fyrst, en síðan beint á hnakkann. Við erum ekki með eftirlitsmyndavélar á pallinum svo nákvæm atvik verða væntanlega aldrei upplýst svo fullnægjandi sé.

Ég kenni mér ekki meins eftir hrösunina utan mars á enni og heldur óþægilegra hláturroka fD. Í því sambandi minnist ég atviks/óhapps þegar vetrarstormur fyrir allmörgum árum, varð til þess að hurð sem fD átti að halda, feykti henni til svo hún lá spriklandi eftir. Ég kími enn með sjálfum mér við að rifja það atvik upp: 1:1
------------------
Ef textinn sem hér hefur verið ritaður ber þess merki að skrifarinn sé ekki með sjálfum sér, er það bara sönnun þess, að þarna hafi orðið slys, fremur en óhapp.

18 maí, 2013

"Framsóknarflokkurinn er ekki til lengur"

Þessi fyrirsögn á rætur sínar að rekja til heimsóknar minnar til aldraðs föður í dag, en sá hefur löngum haldið því fram að hann væri framsóknarmaður. Ég ólst upp við að Tíminn væri eina dagblaðið sem mark væri á takandi og að Kaupfélag Árnesinga væri eina verslunin sem maður stygi fæti inni í. Höfn (alræmd verslun íhaldsins) kom ég ekki inn í fyrr en ég var farinn að öðlast talsvert sjálfstæði í þessum efnum. Hin síðari ár hef ég svo sem fengið á tilfinninguna að trú föður míns á að framsóknastefnan, með nýjum herrum þar á bæ, væri farin að gefa sig. Þetta hef ég skynjað með því hvernig umræðu um ágæti flokksins hefur fylgt tiltekið glott, sem sá gamli lætur að öllu jöfnu fylgja yfirlýsingum sem ganga þvert á raunverulegar skoðanir. Einhverju sinni hélt hann því fram, að eftir Steingrím hafi framsóknarflokkurinn misst fótanna, vikið af braut þeirra hugsjóna sem honum var ætlað að halda á lofti. Blómatími hans hafi verið í tíð Eysteins Jónssonar.

Hvað um það.

Ég kíkti sem sagt til þess gamla í dag, en þar hefur, í náttborðinu hans, verið að þvælast, frá því fyrir kosningar, kaffipoki sem mun hafa verið ein þeirra gjafa sem framsóknarflokkurinn deildi út til líklegra kjósenda í aðdraganda kosninga. Pokinn "skartar" mynd af formanninum ásamt hvatningunni um að aflétta umsátrinu um íslensk heimili (fyrirgefið, en rétt í þessu fann ég til ónota í maganum). Þessi poki hefur legið þarna óhreyfður, enda hefur gamli maðurinn ekki aðgang að kaffivél til að hella upp á, og hefur reyndar yfirleitt ekki stundað slíka iðju, að ég tel. Við ræddum þennan poka lítillega og það var þá sem fyrirsögn þessa pistils hrökk upp úr hinum aldraða framsóknarmanni.

Hvað sem systkin mín segja um það (alræmt framsóknarfólk, sum hver ;)), þá tók ég þennan poka með mér heim og nýtti innihaldið mér til síðdegishressingar. Það er ekki laust við að tilfinningar mínar til framsóknarflokksins hafi gerbreyst við að neyta drykkjarins, .........eða þannig. Ég er þess fullviss, að hann muni nú sýna og sanna úr hverju hann er gerður, með kaffipokaskrautið í fremstu víglínu. Við munum vonandi sjá sumum íslenskra heimila gert gott. Umsátrinu um þau mun vonandi ljúka - vonandi ekki á kostnað þeirra heimila sem ekki upplifðu þetta umsátur.

Kaffið var ágætt.

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...