09 september, 2013

Hugans íþrótt og ævintýr

Ég er ekki skákmaður og þar af leiðandi ekki viðræðuhæfur um þau ævintýr sem menn geta ratað í með því að færa taflmenn fram og aftur um taflborð, drepandi mann og annann.

En ég á þessa fínu spjaldtölvu. 
Ef maður á spjaldtölvu og segir þannig A, þá þarf maður einnig að segja B með því að velja sér einhver viðeigandi (helst ókeypis) ÖPP til að koma fyrir undir fingurgómunum, í þau skipti sem maður metur sem svo að þörf sé að liðka gripinn.
Ég er sem sagt búinn að appa spjaldtölvuna mína talsvert.

Eitt appanna sem ég ákvað að skella þarna inn er skákapp, ekki síst vegna þess að mér fannst litirnir í því hæfa vel spjaldtölvunni minni, og einnig vegna þess að það kann að gefa nokkuð jákvæða mynd af mér að vera með svona app, ef einhver skyldi nú rekast inn á appasafnið mitt.

Þegar maður er búinn að fá sér app, blasir við að það þarf að nota það (app sem er ekki notað er til einskis gagns, og því ber að eyða). Ég ákvað, sem sagt að smella létt á skákappið á skjánum, og óðar breiddist það yfir allan gluggann. Ég gat þarna valið um ýmsa möguleika, en í sem stystu máli þá valdi ég að tefla á 1. stigi við appið (eða forritið sem stýrir því). Taflborðið birtist á skjánum, og ég mátti byrja, sem var augljóst, þar sem hvítu mennirnir voru mín megin á borðinu. (Ég væri að ljúga (sem er sannarlega fjarri mér), ef ég héldi því fram að ég hafi aldrei prófað svona skákforrit í tölvu, því það hef ég svo sannarlega gert, en það eru líklega ein 10 ár síðan, svo lenti ég einhverntíma í byrjun 9. áratugs síðustu aldar í að stýra skákmótum í grunnskólanum sem ég starfaði við eftir Monrad kerfi (Reykholtsskóla)). Ég kann mannganginn, og ýmis fleiri grundvallaratriði, en ég hef aldrei komist svo langt að fara að hugsa út meira en einn leik fram í tímann.

Hvað um það, sem hvítur ákvað ég að flytja fram peð um tvo reiti (veit ekki hvort það var Sikileyjarvörn). Appið brást við með því að dúndra samsvarandi svörtu peði samsvarandi vegalengd fram á borðið. Svona hélt þetta áfram þar til ég ákvað að koma drottningunni minni í leik - það var ómögulegt að hafa hana aðgerðalausa þarna í bakgrunni orrustuvallarins. Ég skellti henni á ská, nokkra reiti fram á borðið, en var ekki fyrr búinn að því, en appið skaust fram með biskupsfjanda sem mér hafði yfirsést, og steindrap drottinguna. Fyrstu viðbrögð mín (eitt sekúndubrot) voru vonbrigði með sjálfan mig og ef til vill örlítið skert sjálfsmynd. Ég vissi auðvitað að drottningin er einn mikilvægast bardagamaðurinn í skák. Ég var ótrúlega fljótur að skima um skjáinn - kann að hafa gotið auga örskamma sund í átt til fD, sem auðvitað reyndist ekkert vera að fylgjast með taflmennskunni - neðst á skjánum, mín megin, var bjargvættur minn, UNDO-takkinn. Eftir að ég hafði smellt á hann, lifnaði drottningin mín við, eins og ekkert hefði gerst, og biskupsskömmin hvarf aftur í launsátur, en nú vissi ég hvar hann var og gat haldið áfram með það í huga.

Ég ætla hreint ekki að rekja þessa skák leik fyrir leik, en mikið óskaplega reyndist hann mér vel, UNDO-takkinn og ég vann með glæsibrag og appið óskaði mér til hamingju með árangurinn.

Lifi UNDO.

Ég vona að einhverjir átti sig á hver "moralen er" með þessari sögu.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...