Myndirnar eru frá Tungnarétturm, 2011 |
Maður gerði það barnanna vegna, þegar enn voru börn á bænum, að skjótast þarna uppeftir á réttadegi. Eftir það hefur minna farið fyrir réttaferðum, og þá helst notuð sú afsökun að taka myndir. Það er sæmilega viðurkennd iðja.
Ég neita því ekki, að ég öfunda sauðfjáreigendur og fjölskyldur þeirra nokkuð af því að eiga dag sem þeir njóta svo mjög sem raun ber vitni. Mér hefur skilist að þær hefðir sem tengjast þessum degi gefi aðfangadagskvöldi ekkert eftir: fara í leitir, fara á móti safninu, ríða í réttirnar með réttapelann, draga féð í dilka, þreifa á hryggjum, skála, syngja, reka heim, belgja sig út af indælis kjötsúpunni og enda svo daginn á réttaballi fram undir morgun, fara í fjósið klukkan hálf sjö. Hvað veit ég svo sem um þetta allt? Svo mikið veit ég að þetta er nánast heilagur dagur og einnig flest sem að honum lýtur.
Á unglingsaldri gat maður skellt sér á þrjá dansleiki í réttavikunni því þá voruTungnaréttir á miðvikudegi, Hrunaréttir og Skaftholtsréttir á fimmtudegi og Reykja(Skeiða)réttir á föstudegi. Ball á hverju kvöldi við undirleik merkra hljómsveita þess tíma: Steina spil, Mána, Tríói Óskars Guðmundssonar. Þetta var mörgum erfið vika, en ógnar skemmtileg.
Réttadögunum var breytt, ekki síst til að fleiri gætu tekið þátt í gleðinni, en ýmsir bændur áttu erfitt með að sætta sig við breytingarnar, enda fannst þeim einhverjum óinnvígðum ekki koma þetta neitt við. Ég minnist þess að ef maður ætlaði að vara viðstaddur það sem raunverulega gerist í réttum, þurfti að drífa sig á fætur fyrir allar aldir - vera kominn uppeftir um áttaleytið á réttadag, að öðrum kosti var allt búið. Með tilkomu meiri túristaáherslu eru menn víst að byrja aðeins seinna.
Eins og ég nefni hér ofar, voru Reykja(Skeiða)réttir á föstudegi og þar var oft mest fjörið og mest rigningin, svona í minningunni. Mér líður seint úr minni að sjá dauðadrukkna réttagesti slást eins og hunda í einhverskonar leðjuslag. Ég reikna með að það hafi heyrt til undantekninga, en greyptist í barnsminnið.
Já - ég lét réttir framhjá mér fara þetta haustið, en samfagnaði í huganum þeim sem njóta þess að eiga svona dag sem hluta af af þeirri hringrás sem árin flytja með sér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli