15 júlí, 2013

Aðdáun barnabarna

Kvistholt haustið 1983 - í ljósa hringnum
Þegar maður er búinn að búa á sama staðnum áratugum saman, fer ekki hjá því, að umhverfið taki breytingum, þó svo maður taki ekki beinlínis eftir því, svona frá ári til árs. Þegar íbúðarhúsið í Kvistholti var byggt í byrjun 9da áratugar síðustu aldar var trjágróðurinn vissulega til staðar þar sem  talsverðu hafði verið  plantað af trjágróðri í landið á allmörgum árum þar á undan. Sá gróður var hinsvegar ekkert sérlega áberandi orðinn, enda var veðurfar á landinu talsvert kaldara þá, en síðustu tvo áratugina. Trjám var þá plantað þétt, því það mátti búast við að talsverður hluti plantnanna lifði ekki af.
Kvistholt 1984
Þannig gáfu furutrén í Sigrúnarlundi, svokölluðum (nafngiftin er tilkomin vegna drauma systur minnar um sólbaðsstað í framtíðinni) ekki tilefni til neinna ráðstafana á þeim tíma.
En árin liðu og skjólið á sólpallinum fyrir ofan hús varð sífellt meira. fD gat sólbakað sig æ betur eftir því sem árin liðu og tilefni gafst til. Furan í Sigrúnarlundi teygði sig æ hraðar til himins, það sama mátti segja um grenitré og birki. Allur þessi gróður naut þess að sumarhitinn í uppsveitum hækkaði. Afföll urðu engin. Af þessu hlaust mikil samkeppni um sólarljósið, þar sem eitthvað varð að láta undan. Hæfustu trén lifðu af. Vandinn var hinsvegar sá, að trén töldu sig öll vera hæfust og þeystust upp í himinblámann í átt til sólar. Fyrir neðan þau, nær jörðu, myndaðist skuggi.

Síðustu árin hefur það orðið æ ljósara, eftir því sem sá hluti sópallsins sem nýttist til sóldýrkunar minnkaði, að það þyrfti að grípa til ráðstafana. Stofnar furunnar og grenisins í næsta nágrenni, gildnuðu ár frá ári og áhyggjurnar yfir því hvernig hægt væri að bregðast við jukust að sama skapi. Það hefur ekki síst verið vegna talsverðar íhaldssemi fD þegar nefnt var að það þyrfti að fella tré, sem þetta hefur dregist. Það má með sanni segja, að trjárisarnir hafi leitt til þess að það bærist nánast ekki hár á höfði á pallinum, neð þegar einstaka "hringrok", eins og fD kýs að kalla það þegar vindsveipir fara um pallinn á góðviðrisdegi, lætur á sér kræla.

Á þessu vori gerðist þrennt sem breytti stöðunni:
1. fD virtist ekki lengur vera jafn afhuga því að fella tré og áður hafði verið.
2. Skuggarnir á sólpallinum voru orðnir þannig, að í þær fáu klukkustundir sem sást til sólar, reyndist þörf á að aðlaga sólbaðsstaði að tíma dags, til að lenda ekki í skugga.
3. Sonurinn frá Álaborg gisti Kvistholt í vikutíma með fjölskyldu sinni.

Þegar þetta þrennt kom saman sýndist komið tækifæri og tilefni til aðgerða.

Felld tré merkt með rauðm hringjum.
Ég valdi þrjú tré sem helst komu í veg fyrir sólardýrkun, fékk að láni keðjusög hjá Hveratúnsbóndanum og þá var ekkert að vanbúnaði.

Einn örfárra sólardaga sumarsins var notaður til að fella tré. Engin smá tré.
Fall þeirra gat, ef ekki væri rétt að staði, valdið talsverðum usla, ekki bara með skemmdum á íbúðarhúsinu eða pallinum, heldur einnig ýmisskonar skrautgróðri sem enn fékk á sig sólarglætu dagspart á góðum degi.
Þarna kom sér vel að búa yfir einstakri verkkunnáttu, þar sem skógarhögg var annarsvegar. Trén féllu, eitt af öðru, nákvæmlega (næstum) eins og lagt var upp með. Á pallinum sátu barnabörnin fjögur í stúkusætum og hrópuðu hvatningu til afans, sem auðvitað efldi hann í ásetningi sínum að láta nú ekkert fara úrskeiðis.
Aðdáendur afa, frá visntri: Emilía Ísold Egilsdóttir, Rakel Jara Þorvaldsdóttir,
Gabríel Freyr Þorvaldsson og Júlía Freydís Egilsdóttir
"Afi, afi! Áfram afi! Afiiiiii!"
Hvatningin, ekki síst, varð til þess að felldum trjám fjölgaði frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir.
Eftirleikurinn var nokkur, þar sem það þurfti að fjarlægja feiknin öll af greinum, en sú vinna reyndist mér talsvert auðveldari en hefði getað orðið, með því, að meðan ég kastaði mæðinni eftir átökin við keðjusögina, sá Álaborgarsonurinn um að saga allar greinar af felldum trjám, auk þess sem hann bútaði stofnana í hæfilegar lengdir, til nýtingar í eitthvað (ég efast ekki um að fD finnur þar verkefni fyrir mig á næstu vikum og mánuðum og árum).

Nú er bara að vona að sólin fari að skína á pallinn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...