24 ágúst, 2013

Ein hjólönd, tvær hjólendur

Eða væri kannski betra að tala um einn hjólanda og tvo hjólanda.
 Þar sem ég sit fyrir framan sjónvarpið, eins og stundum kemur nú fyrir, streymir til mín auglýsing frá samgöngustofu um öryggi þeirra sem kjósa að fara ferða sinna á reiðhjólum. Þetta er talsvert löng aulýsing, sem er ætlað að sýna það helsta sem gott er að hafa í huga þegar maður á leið um götur borgarinnar á farartæki á hjólum.
Ekki skal hér gert lítið úr mikilvægi þess boðskapar sem auglýsingin felur í sér, en vandi minn er sá, að ég tilheyri þeim undarlega og minnkandi hópi fólks (sjálfsagt fyrir aldurs sakir) sem missir æ meir af boðskapnum sem borinn er á borð, vegna þess hve óaðlaðandi eða jafnvel bara kengvitlaust málfarið á boðskapnum er. Sannarlega þarf ég að eiga við sjálfan mig í því efni.

Áður en lengra er haldið vil ég geta þess, að ég leitaði að mynd af hjólanda, en fann ekki. Hinsvegar var nóg af myndum til að hinum mikla vef, af hjólöndum.

Sé vilji til þess að fara þá leið sem birtist í ágætri auglýsingunni, opnast heill heimur af möguleikum til orðasmíða. Það væri þó kannski rétt að ákveða hvort á að byggja á orðmyndinni önd eða andi - það er nefnilega erfitt að þurfa stöðugt að hafa í huga svo ólík fyrirbæri sem önd og anda þegar viðkomandi orðmyndir koma fyrir bæði í eintölu og fleirtölu.

Orðmyndun af því tagi sem hér er um að ræða getur vissulega leyst þann vanda sem uppi er varðandi ýmis kynjuð orð sem fólk hefur verið að agnúast út í.

Hér koma svo nokkur dæmi:
Þingmaður  - þingandi (þingandar)/þingönd (þingendur)
Ráðherra - ráðandi (ráðandar)/ráðönd (ráðendur)
Kennari - kennandi (kennandar)/kennönd (kennendur)
Reiðmaður - ríðandi (ríðandar)/ríðönd (ríðendur)
Flugþjónn  - fljúgandi (flljúgandar)/fljúgönd (fljúgendur)

Dæmi um þessi orð í setningu gæti verið:

Þingendurnar kölluðu eftir því að ráðöndin gæfi skýringar á yfirlýsingunni.
Þingandarnir kölluðu eftir því að ráðandinn gæfi skýringar á yfirlýsingunni.

Mikilvægt er að ríðandinn hafi áhuga og gaman af samskiptum sínum við hestinn, þyki vænt um hann og umgangist hann sem jafningja og vin.Mikilvægt er að ríðöndin hafi áhuga og gaman af samskiptum sínum við hestinn, þyki vænt um hann og umgangist hann sem jafningja og vin.

Ekki meira um þetta mál. Bara halda áfram að beita hörkunni við að láta þetta yfir sig ganga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...