26 október, 2017

Forsetinn snerti mig

Ekki vafðist fyrir okkur fD að ljúka því sem ljúka þurfti í höfuðstað Suðurlands í morgun, enda orðin með eindæmum þjálfuð í að vita hvað við þurfum í raun til að lifa með umtalsverðri reisn næstu vikuna. Það má segja, að minnismiðar séu að verða óþarfir í þessum kaupstaðarferðum.

Kannski var nú helsti tilgangurinn með þessari ferð að greiða atkvæði í þessum Alþingiskosningum sem framundan eru. Eins og fram hefur komið hér áður, hef ég verið nokkuð tvístígandi varðandi það hvernig atkvæði mitt geti nýst sem best þeim stjórnmálaflokkum sem næst standa  þeim gildum sem mér finnst mikilvægt að séu í hávegum höfð á þessu ísahlýja landi, þar sem varla er hægt að tala um að komið sé haust, ennþá, hvað þá vetur.

Konan sem sat bak við skrifborðið, vildi sjá skilríki, sló eitthvað inn, náði síðan í kjörseðil og umslag. Rétti mér þetta tvennt og benti mér síðan á að ganga eftir húsinu endilöngu þar til ég kæmi að kjörklefa, sem ég gerði auðvitað. Þar fann ég, bakvið sturtuhengi, aðstöðu þar sem gert var ráð fyrir að þeir sem inn kæmu, þyrftu ekki að setjast, enda kannski óþarfi, sérstaklega ef enginn vafi léki á hver skyldi nú fá atkvæðið. Ekki er því að neita, að ef efi minn hefði verið því meiri, hefði nú ekki verið slæmt að geta tyllt sér og ekki hefði nú blessaður kaffisopi, jafnvel smá koníaksdreytill komið sér illa við slíkar aðstæður, en ég var nú ekki svo langt frá niðurstöðunni.

Inni í kjörklefanum, eða sturtuhenginu, var sem sagt borð sem maður þurfti að standa við. Á því, uppi við vegginn, var röð af TRODAT stimplum, sem merktir voru hver með sínum bókstafnum. Ég lét augun reika frá einum stimplinum til annars, þar sem ég hafði opnað kjörseðilinn, en hann var næstum eins og fermingarkort. Utan á honum svartar, óreglulegar línur til að tryggja að ekki væri nú hægt að lesa í gegn, sem enginn möguleiki hefði verið á hvort sem var, enda seðillinn úr svokölluðum karton pappír.  Sennilega er þetta gert, eins og flest annað, sem þarna fer fram, til þess að draga úr líkum á að lögmæti utankjörfundaratkvæðagreiðslu yrði dregið í efa og jafnvel kært.
Ég neita því ekki, að hönd mín nánast réði því að ég tók einn stimpil, en ekki annan, enda staðfastlega þeirrar skoðunar, að að fjöldi stjórnmálaflokka sé ekki til þess fallinn að gera Ísland að betra landi. 
Ég tók stimpil og stimplaði á miðjan kjörseðilinn í þar til gerðan reit. Teningnum var kastað. Ég verð að lifa með þessari ákvörðun minni, og er bara nokkuð sáttur við hana, svona miðað við allt og allt. Ég ætlaði að þessu búnu, að skila kjörseðlinum og ljúka málinu þannig, en það var nú ekki svo einfalt. Ég verð að hafa fyrir því að koma atkvæðinu á skrifstofu Bláskógabyggðar eða fá einhvern til að fara með hann fyrir mig á kjördag í viðeigandi kjördeild, bara til þess að hægt verði síðan að flytja hann aftur á talningarstað í Suðurkjördæmi. Mikið bull, að mínu mati.  Við tóku pælingar um hver væri best til fallinn að sinna þessu verki, en ekki kom nú hver sem er til greina. Um þetta varð niðurstða og málið er í höfn.

X fær fólk víst ekki að setja á kjörseðla fyrr en á laugardag, en þá verð ég fjarri góðu gamni, ef að líkum lætur. Það verð ég að segja alveg eins og er, að mér er harla mikið sama um að missa af þeirri gleði, eins og í stefnir.  Mér sýnist að áfram verði það sama uppi á teningnum. Það verður þannig þar til hægt verður að bera traust til þeirra framboða og frambjóðenda sem vilja fá X-ið okkar við sinn staf á kjörseðlinum.

Djö... held ég nú að við værum mikið betur sett, ef stjórnmálamenn þyrftu að aflétta leynd af fjármálavafstri sínu með ættmennum og viðskiptafélögum.  Ég held, svei mér þá, að þetta fyrirbæri "bankaleynd", sé sá þáttur sem stendur mest í vegi fyrir því að á þessu landi verði hægt að byggja upp traust á ný.
Hvað um það, ekki raunar margt fleira um það að segja, en í lágvöruverðsverslun í framhaldinu rakst ég á  forseta og bæjarstjóra, harla brosmilda báða. "Það þýðir víst ekkert að eiga orð við þig", sagði forsetinn kankvís, um leið og hann snerti öxl mína létt (engan veginn kynferðislegt áreiti þar á ferð). "Nei, þannig held ég að tíma þínum væri ekki vel varið", svaraði ég.  Í framhaldinu brostum við hvert við öðru, forsetinn, bæjarstjórinn og ég. Ég sá ekki hvort fD brosti, en tel það fremur ólíklegt.
Forsetinn og bæjarstjórinn hurfu út í haustdaginn, en við fD keyptum okkur skyrdrykk.



24 október, 2017

...sem fyllir mælinn?

Þessa mynd tók ég ófrjálsri hendi hér, en átti síðan aðeins við hana.
Sennilega myndi þetta teljast siðferðilega rangt - sem það eflaust er,
eins og svo margt í þeim veruleika sem við búum við.
Í gær fjallaði ég um þjóðkirkjuna, bankaleyndina, traust og siðferði. Engin smá viðfangsefni í nokkrum línum.
Það kann einhver að spyrja til hvers ég var nú að því og mér er ljúft að svara.
Ég er afskaplega þreyttur á því að geta ekki treyst sjórnvöldum eða stjórnmálaleiðtogum í þessu landi. Ekki fæ ég betur séð að en sama sé uppi á tenginum meðal margra samlanda minna og einnig meðal annarra þjóða.

Til þess að njóta trausts verður fólk sem tekur þátt í stjórnmálum að koma hreint fram, vera það sem það er, sannfæra kjósendur um að það sé ekki með óhreint mjöl í pokahorninu.
Ég geri mér auðvitað grein fyrir því, að til þess að komast áfram í stjórnmálum virðist þurfa að beita ýmsum meðulum sem ekki þola alltaf dagsljósið. Svona hefur þetta verið frá alda öðli, sjálfsagt.

Stjórnmálamennirnir eru eitt, en síðan eru það kjósendurnir. Þar er nú margur sauðurinn og þar á meðal þessir:
1. Kjósandinn sem  hefur afar skýra heildarsýn á það hvernig honum finnst að þjóðfélagið eigi að vera. Hann er tilbúinn að kjósa mismunandi stjórnmálaflokka eftir því hvernig honum finnst þeir uppfylla þessa sýn. Hann fylgist afar vel með öllum hliðum og leggur til hliðar fordóma sína gagnvart einstökum persónum eða málum, en lætur heildarsýnina á það hvernig honum finnst gott samfélag eigi að vera, ráða för og vali sínu á kjördegi. Þetta er nánast hinn fullkomni kjósandi.

2. Kjósandinn sem með einhverjum hætti, hvort sem það gerðist í foreldrahúsum, í gegnum nám sitt (nám sín (nýslenska)), tengslanet sitt, vonir sínar eða þrár, kýs ávallt það sama, óháð öllu öðru sem kann að gerast.
Þessi kjósandi les aðeins "réttu" miðlana, finnur sér ávallt einhverja kima til að styrkja skoðanir sínar, er tilbúinn að dreifa óhróðri um þá sem hafa aðrar skoðanir, og gerir leiðtoga síns flokks nánast að leiðtoga lífs síns, óháð því hvað sá hefur að geyma í raun.
Það skiptir þennan kjósanda engu máli, þó flokkurinn hans vinni beinlínis gegn því sem myndi henta manneskju í hans stöðu best.  Þetta er yfirleitt kjósandinn sem segist ekki vera pólitískur, vegna þess að hann hefur í rauninni ekki nein baráttumál utan að verja flokkinn sinn.

3. Kjósandinn sem lætur stundarhagsmuni ráða hvaða bókstaf hann merkir við í kjörklefanum. Hann stekkur á einhver afmörkuð mál sem einhver flokkur lofar í kosningabaráttu; lætur þau skipta öllu. Þetta geta jafnvel verið lítil og ómerkileg mál, en mál sem skipta þennan kjósanda miklu þá stundina. Þetta er kjósandinn sem veldur sveiflum í skoðanakönnunum. Þetta er kjósandinn sem stjórnmálamennirnir hamast við að reyna að sannfæra. Þetta er kjósandinn sem lætur glepjast af yfirboðum í aðdraganda kosninga.

4. Kjósandinn sem hefur engar ákveðnar lífsskoðanir, er bara nánast sama um þetta "helvítis kjaftæði". Þetta er kjósandinn sem lítur þannig á að atkvæði hans skipti engu máli, eða að það sé sama rassgatið undir öllum þessum póitísku drullukökusmiðum. Þetta er kjósandinn sem, annaðhvort mætir ekki á kjörstað, eða kýs þann flokk sem tókst að rétta honum einhverja dúsu, t.d. veitti nóg af bjór á kynningarfundinum, gaf honum bol, eða barmmerki.

Ég held að það sé strengur úr öllum þessum kjósendategundum í mér - misáberandi þó.

Ég ætlaði hinsvegar ekki að fjalla um tegundir kjósenda hér og nú, heldur áfram um spurninguna um traust.

TRAUST
Bankaleynd er sennilega stærsta uppspretta þess vantrausts sem nú ríkir í þessu samfélagi og þannig hefur það verið, líklega síðustu 15 ár. Þetta er óhemju eyðileggjandi fyrirbæri.  Í svo fámennu samfélagi sem við búum í er kjörlendi fyrir spillingu. Ættir og viðskiptafélagar birtast einhvernveginn allsstaðar þar sem góðir dílar eru gerðir, þar sem ríkiseignir eru seldar, þar sem einkahagsmunir koma við sögu.
Auðvitað er svona andrúmsloft líka gróðrarstía fyrir samsæriskenningar, en þær spretta fram þar sem vantraust er fyrir hendi.

Í mínum huga er veruleiki okkar í þessu landi lagskiptur:
- það er sá veruleiki sem blasir við okkur og sem öllum má ljóst vera að er fyrir hendi.
- það er sá veruleiki sem venjulegt fólk/almenningur sér ekki. Það sem gerist á lokuðum fundum, óformlegum fundum, í Öskjuhlíðinni, á einhverri paradísareyju í suðurhöfum, í skíðaskála í suður Evrópu, á krá í Amsterdam, í ræktinn.  Á þessum veruleika ættum við að byggja val okkar á stjórnmálaleiðtogum, en það mun vera siðferðilega rangt að veita okkur upplýsingar um hann. Hann er á þeim stað sem lögin banna okkur að fara. Lögin sem voru sett í þágu..........

Svo er það spurningin um sannleikann. Hver er hann þessi sannleikur? Er hann gamall eða nýr?
Sannleikur er það sem satt er og rétt. Raunveruleiki.  Það sem er ekki raunverulegt er þá væntanlega ekki sannleikanum samkvæmt.  Þá þarf að velta fyrir sér hver raunveruleikinn er. Er hann það sem blasir við okkur dags daglega, eða er hann ef til vill eitthvað það sem lúrir undir yfirborðinu og okkur á að vera siðferðilega ómögulegt að nálgast? Lifum við þá í einhverjum gerviheimi?

---------

Af heilum hug get ég lýst því yfir hér, að ég verð ekki tengdur einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki, þó vissulega falli skoðanir mínar að langstærstum hluta að stefnumálum þeirra stjórnmálaflokka sem vinstra megin eru við miðjuna.  Sannarlega skammast ég mín ekki fyrir það, er stoltur, ef eitthvað er.  
Ég hef heldur ekki farið sérstaklega dult með það, að ég hef nokkra óbeit á þeim öflum í stjórnmálum sem teljast standa hægra megin í þessu litrófi. Þá hef ég megna óbeit á persónudýrkun þegar stjórnmál eru annars vegar. 
Svona er ég og ég tel að mikið þurfi að ganga á, áður en einhverjum tekst að breyta mér að þessu leyti. Hlekkir á síður sem eiga að sannfæra mig um að ég fari villur vega, þar með talið á umfjöllun um I C E S A V E,  skipta nákvæmlega engu að þessu leyti.

🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆

Þar hafið þið það, þessi fáu sem höfðu þrek til að lesa alla leið, ekki síst ef þið hafið haft nægilega opinn huga til að skilja hvað ég er að fara.

Markmið mín með þessum skrifum eru ekki að reyna að sannfæra einhvern um að hann ætti ef til vill að endurskoða pólitiska hugsun sína eða skoðanir.  Ég veit að það mun ekki gerast.  Þau snúast, tel ég, aðallega um að skýra þessi mál með sjálfum mér og halda því til haga fyrir síðari tíma, hve rétt ég reyndist nú hafa haft fyrir mér alla tíð.
😎




23 október, 2017

Er þetta dropinn?

Myndin var tekin hér
Ég var skírður og fermdur ásamt öllu því helsta  sem maður gerir innan þjóðkirkjunnar. Ég telst vera í þjóðkirkjunni.
Í flestu hef ég leyft þessari stofnun að fara sínu fram án þess að það hefði einhver veruleg áhrif á mig. Stundum hef ég komist upp á kant við tiltekna þjóna hennar, líkar ekki aðrir, eða það sem þeir halda á lofti í nafni kristinnar trúar.  Fyrir ríflega 30 árum fór ég að syngja með kór sem starfar á vegum kirkjunnar og hef þar marga fjöruna sopið. Fyrir allmörgum árum var ég kominn á fremsta hlunn með að kveðja þessa stofnun, en af því varð ekki og ég veit í rauninni ekki hversvegna. Hélt áfram þessu hlutleysi mínu, ekki síst vegna þess að það var ekkert sérstakt annað í boði og er reyndar ekki enn.

Þetta var fyrri hlutinn.

Í dag er rætt um stolin gögn og réttmæti þess að birta þau.
Hversvegna sá einhver ástæðu til að stela þeim?
Hversvegna þurfti að stela þeim?
Var þeim yfirleitt stolið?
Hvað felur það í sér að stela? Jú, líklega að taka eitthvað ófrjálsri hendi sem einhver annar á. "Þú skalt ekki stela" hljómar eitt boðorðanna. Ég samþykki auðveldlega, að ef maður stelur einhverju sem er í eigu einhvers annars, þá er það brot gegn lögum Guðs og manna, og allt það. Það er rangt.
Þá vaknar spurningin: "Hvenær er eitthvað eign einhvers?"

Það eru í gildi lög um bankaleynd. Um þau þessa leynd fann ég þetta í fljótu bragði:

Meginreglan um bankaleynd felur í sér þagnar- og trúnaðarskyldu fjármálafyrirtækja og starfsmanna þeirra gagnvart viðskiptamönnum. Reglan er lögfest í 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í íslenskum rétti virðast reglur um bankaleynd einkum byggjast á sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs en einnig búa að baki önnur sjónarmið á borð við vernd viðskiptahagsmuna banka og fjármálafyrirtækja. -  Vigdís Sigurðardóttir lokaverkefni 2009


Fjármálafyrirtækjum ber að halda leyndum upplýsingum um viðskiptavini sína, hvað svo sem þeir eru að bardúsa. Ef einhver tekur sig til og kemur tilteknum upplýsingum af þessu tagi til fjölmiðils, telst það stuldur og þar með, væntanlega, siðferðilega rangt..

Nú er það hinsvegar svo, að fjármál flestra okkar, sem eigum í viðskiptum við banka, eru þess eðlis að opinber birting þeirra myndi á engan hátt skaða okkur. Gæti jafnvel orðið ýmsum okkar til framdráttar. Þannig má halda því fram, að bankaleynd skipti langflesta litlu eða engu máli.


Bankaleynd skiptir aðallega máli fyrir þá einstaklinga, fyrirtæki eða félög, sem þurfa að leyna einhverju. Þannig má ætla að bankaleyndin sé til komin vegna þeirra. Það eru ýmsir hagsmunir, sem geta þurft að fara leynt, og jafnvel má færa fyrir því lögmæt rök.


Í skjóli bankaleyndar hefur hinsvegar ýmislegt það átt sér stað og á sér stað, sem segja má að sé rótin að djúpstæðu vantrausti í þessu samfélagi. Í skjóli bankaleyndar á sér ýmislegt stað sem ekki þolir dagsins ljós jafnvel þó almannahagsmunir krefjist þess að þar um sé allt uppi á borðum.


Get ég kosið einstaklinga til að hafa forystu í málefnum þjóðarinnar, sem á sama tíma skara eld að eigin köku, ættmenna sinna og viðskiptafélaga í skjóli bankaleyndar? Á ég ekki rétt að að allt slíkt sé uppi á borðum.


Stjórnmál snúast nefnilega fyrst og fremst um traust.

Það erum við búin að reyna á undanförnum árum, að einstaklingar sem við höfum kosið til valda, hafa reynst eiga sér tvær hliðar: þá sem við sjáum, kannski leiftrandi af eldmóði þess sem vill berjast fyrir hag almennings og þá sem við fáum ekkert að vita um vegna þess að um það ríkir bankaleynd.


Þetta var síðari hlutinn



Nú hefur biskupinn, sem sagt tjáð sig um þessi mál og fjallar um það sem er siðferðilega rétt eða rangt. Við þetta vaknar þessi spurning í huga mér: Er það siðferðilega rangt að leyna kjósendur upplýsingum sem geta hafa afgerandi áhrif á það hvað þeir kjósa?




Ég tel að siðferðið eigi ekki aðeins að virka á annan veginn. Þeim sem vill gegna trúnaðarstörfum fyrir heila þjóð ber skylda til að koma hreint fram gagnvart henni. Annað er ekki boðlegt og í mínum huga beinlínis siðferðilega rangt.


Er það kannski svo að þjóðkirkjan telji sig þurfa að halda verdarhendi yfir valdhöfum, sérstaklega ef þeir tilheyra einum tilteknum stjórnmálaflokki? Nú, eða tilteknum flokkum. Hverjar eru skyldur kirkjunnar gagnvart almenningi, sem er leiddur inn í kjörklefann án þess að vita nákvæmlega hvort atkvæðið er greitt á réttum forsendum?


Já, það er svona með siðferðið og traustið. Það er sennilega ekki ætlað öllum.


Þetta var samantektin



Nú er ég, sem sagt kominn á brúnina. Er þetta dropinn sem fyllir mælinn?

Ég verð að eiga það við sjálfan mig.





15 október, 2017

Öfug sálfræði #kosningar 2017

Ef maður vill vinna málstað fylgis á þessum tímum, er vísast leiðin að beita öfugri sálfræði.
Ég get hamast þangað til ég fæ blóðbragð í munninn, og ælu upp í háls, við að leiða fram rök fyrir því að það sé hin argasta fásinna, að styðja tiltekinn stjórnmálaflokk, eða flokka, eða einstaka stjórnmálamenn.
Ég væri í rauninni aðeins að fullnægja tjáningarþörf minni: "Mikið djö.. er þetta gott hjá mér!"
"Þarna kýldi ég hann/hana kalda(n)!"
Það er nefnilega þannig, að mínu mati, með stjórnmálaskoðanir, að þær herðast eftir því sem fleiri rök eru leidd fram gegn þeim. Það gengur meira að segja svo langt, að skjöl sem tengjast suðrænum eyjum breytast í eitthvert jákvætt fyrirbæri í höfðum þeirra sem hafa stillt sér upp við hlið frambjóðanda sem tengist slíkum skjölum. Fólk herðist í trúnni, sérstaklega það fólk sem ekki býr yfir neinni sérstakri sannfæringu, eða lífsskoðun, sem er yfir hið persónulega hafin.

Fólk forherðist og þegar upp er staðið verður engin breyting. Hvenær ætlar okkur að skiljast þetta?

Að taka á einhverjum tímapunkti í lífinu ákvörðun um að kjósa tiltekið stjórnmálaafl felur í sér ákveðna skuldbindingu gagnvart sjálfum sér. Flökti maður síðan í trúnni og telji eitthvað annað mögulega betra, kostar það talsverða sálarangist, því með því að viðurkenna að maður hafi valið rangt, er maður jafnfram að tapa ákveðinni sjálfsvirðingu. Viðurkenna að maður hafi verið vitlaus síðast þegar kosið var. 

Að viðurkenna slíkt fyrir sjálfum sér, er í eðli sínu niðurbrjótandi atferli. Maður bíður hnekki gagnvart sjálfum sér. Maður er helv.... aumingi og vitleysingur. Nei, maður verður að standa keikur með sínum flokki. Annað er ekki boðlegt eða til umræðu.

Til þess að komast hjá því að upplifa sjálfan sig sem vitlausan aumngja, sem hefur enga lífsskoðun, eða hugsjón, hlýtur niðurstaðan að verða sú, að maður kýs áfram það sama og síðast, hvað sem eyjum í suðurhöfum líður.

Ég held að væri frekar reynandi, að fara hina leiðina, leggja áherslu á hið jákvæða og uppbyggilega, en það er víst ekki valkostur, og því hef ég tekið þá stefnu með sjálfum mér, að benda ekki sveitungum mínum, til dæmis, sem ég kýs að nefna ekki á nafn, frekar en ég hef þegar gert, á villuna sem þeir hafa ratað í með afstöðu sinni - það forarsvað sem þeir eru komnir út á.

Nei, ég ætla bara að þegja og leyfa þeim að vaða áfram í villu og svíma; taka með sínum hætti þátt í því að gera endanlega út af við þessa þjóð, og allt það.  Það er bara hreint ekkert sem ég get gert við því.

Vissulega viðurkenni ég, að það eru til hópar sem hægt er að hafa áhrif á, en þeir eru þessir helstir:

1. Ungt fólk, sem er svo heppið að fá tækifæri til að móta eigin lífsskoðun og hugsjónir, en taka það ekki með sér úr foreldrahúsum. Við þeim blasir hinsvegar sá vandi, að íslensk stjórnmálaumræða snýst frekar um hagsmuni en hugsjónir.

2. Fólk sem er laust við að burðast með sómakennd af einhverju tagi.

3. Fólk sem hagar seglum eftir vindi, og þá þeim vindi sem líklegastur er til að blása því, og aðeins því, áfram til betra lífs. Þá oft betra lífs sem byggir á peningalegum hagnaði af einhverju tagi.

Fólk með sjálfsvirðingu, breytir ekki pólitískri afstöðu sinni svo glatt og er tilbúið að ganga lengra en góðu hófi gegnir, til að verja eitthvað, sem allt eins líklega kemur því frekar illa  en vel.

Þetta var pólitískur pistill dagsins.

Það var fallegt við Hvítá í dag.



10 október, 2017

Ástleysi? Sjálfhverfa? Kunnáttuleysi? Skilningsleysi?

Allt sem ég mögulega læt frá mér fara hér fyrir neðan, er eitthvað almennt, sem beinist ekki að neinum einstaklingum, lífs eða liðnum. Bara almennar vangaveltur um aðstæður barna á þessu landi, eins  og þær birtast mér eða ættu að birtast mér, karlinum, á þeim aldri sem ég er, laus við ábyrgð af barnauppeldi, sem í mínu tilviki lauk fyrir talsvert löngu, á öðrum og talsvert ólíkum tíma og var mögulega ekkert sérstakt, þannig séð. 
Mögulega var sá tími að ýmsu leyti ekkert skárri en í dag, að þessu leyti. En börnin eru hinsvegar óbreytt þegar þau fæðast.



Nýfæddur ég
Ef ég væri nýfæddur í dag, myndi ég í rauninni bara gera kröfu um eitt: skilyrðislausa ást og umhggju foreldra minna.  Mér væri alveg sama um hvernig rúmið mitt væri, eða vagninn, eða rúmfötin, eða fötin, eða bleyjurnar, eða snuðin... eða hvort ég fengi æpadd.
Ég myndi bara vilja geta treyst því að foreldrar mínir sæju um mig og sæju til þess að mig skorti ekkert af því sem mér væri nauðsynlegt, hugsuðu um mig nótt sem nýtan dag, leiðbeindu mér, kenndu mér, töluðu við mig, læsu fyrir mig, kenndu mér muninn á réttu á röngu, væru alltaf tilbúin að efla mig og bæta, styddu með ráðum og dáð gagnvart þeim og með þeim sem síðar tækju við mér og aðstoðuðu mig við menntun mína.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi reikna með, þau teldu það ekki eftir sér, að fórna stórum hluta af frelsi sínu fyrir mig, myndu leggja mikið á sig til að æska mín veitti mér þann grunn sem væri mér nauðsynlegur þegar ég síðar færi út að kanna heiminn.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja að ást þeirra til mín og umhyggja fyrir velferð minni myndi aldrei flökta, að þeim væri það ljóst, dag og nótt, að ég væri eitthvað sem fyllti þau stolti og að þau bæru á því ábyrgð að sá grunnur sem ég færi með út í heiminn væri nægilega traustur til þess að líkurnar á því að ég hrasaði yrðu sem minnstar.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja vera í leikskóla bara hálfan daginn, hinn helminginn með foreldrum mínum, sem veittu mér alla þá athygli sem ég hefði þörf fyrir, segðu mér hvað ég mætti og mætti ekki, hrósuðu mér fyrir það sem ég raunverulega gerði vel þannig að ég gæti þá bætt mig enn meira, leyfðu mér að vera hluta af lífi sínu, létu mig ekki þurfa að keppa við neitt um athygli þeirra, létu mig finna að ég væri mikilvægur og skipti máli.  Mér væri alveg sama þó við slepptum því að fara út að borða, eða til útlanda, eða í bíó, eða í hvalaskoðun. Mér væri alveg sama þó húsgögnin heima hjá okkur væru gömul og slitin, mér væri alveg sama þó bíllinn væri gömul drusla, mér væri alveg sama þó sjónvarpið væri túbusjónvarp.  Mér væri alveg sama um allt þetta efnislega, bara ef ég hefði þá, eins mikið og mögulegt væri, alltaf strax og þau væru búin að vinna á daginn, alltaf þegar þau ættu frí, allar helgar, alltaf.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi ekki gera ráð fyrir að foreldrar mínir væru mikið í einhverju þar sem ég kæmi ekki við sögu. Ég myndi vilja vera aðalpersónan, ekki þannig endilega að allt snerist í kringum mig, heldur þannig að ég gæti alltaf notið fullrar athygli þegar ég þyrfti á að halda, ekki hálfa athygli, eða brots úr athygli - fullrar athygli.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi gera rað fyrir því að foreldrar kynnu að vera foreldrar, að þeir bara kynnu það. Vissu að með því að ákveða að eiga mig, væru þeir að fórna eigin frelsi,  vissu að þeir þyrftu að setja mér mörk, vissu að samvera mín við þau væri nauðsynlegur þáttur í uppeldi mínu, vissu að leikskólinn eða grunnskólinn gæti aldrei komið í stað þeirra, vissu að það væri enginn annar en þeir, sem bæru endalega ábyrgð á því hvað úr mér yrði.


-------------------

Ég setti þetta ekki hér niður á skjá til að reyna að kalla fram einhverja sektarkennd hjá foreldum ungra barna. Tilgangur minn er nú bara að freista þess vekja til umhugsunar, ekki bara foreldra, heldur alla þá sem koma að barnauppeldi.
Sannarlega neita ég því ekki, að mér finnst átta til níu stunda vistunartími barna á því viðkvæma aldursskeiði sem leikskólabörn eru á, fjarri því að vera viðunandi fyrir þroska þeirra og sálarlíf.

Með þessum skrifum er ég ekki að og vil ekki beina spjótum að foreldrum, en aðstæður þeirra eru jafn mismunandi og þeir eru margir.
Mögulega erum við búin að búa okkur til samfélag þar sem báðir foreldrar þurfa vinna nótt sem nýtan dag til að hafa í fjölskylduna og á.
Mögulega eru kröfur okkar um efnisleg gæði komnar talsvert út fyrir það sem nauðsynlegt er eða skynsamlegt.
Mögulega er kominn tími til að endurhugsa þetta allt saman.
Huga meira inn á við.

08 október, 2017

Klemma

Ég fæddist inn í og ólst upp á því sem kallað hefur verið "framsóknarheimili". Á slíkum heimilum, á tíma áður en jafnvel sjónvarpið var komið til sögunnar, var ekki um að ræða aðra fjölmiðla en flokksblaðið Tímann, sem kom í knippum tvisvar til þeisvar í viku og ríkisútvarpið, sem þá útvarpaði á einni rás, sem var líkust því sem rás 1 er í dag.  Þetta var einfaldur heimur, verð ég að segja.

Að óbreyttu hefði ég haldið áfram að vera grjótharður framsóknarmaður fram á þennan dag. Það fór hinsvegar svo, að á þeim tíma  ævinnar þegar stjórnmálaskoðanir tóku að festast að einhverju ráði, lá leið mín úr foreldrahúsum og ég uppgötvaði annarskonar hugmyndir um hvernig þjóðfélagið ætti að vera. Það varð til ákveðin lífsskoðun eða sýn á þjóðfélagið, sem tengdist ekki einstökum persónum eða stjórnmálaflokkum endilega, heldur fól hún í sér, að ég þurfti að velja milli flokka í kosningum, sem héldu fram svipaðri sýn og ég hafði.  Það er fjarri því, að þessi lífssýn mín hafi eitthvað að gera með mína eigin hagsmuni eða fjölskyldunnar. Ég hef þá staðföstu trú að þjóðfélagi sé best þannig komið, að einkahagsmunum, viðskiptahagsmunum, hagsmunum einstakra stétta aða hópa, sé eins fyrir komið. Með öðrum orðum, það á ekki að hygla að einum á kostnað annars. það eiga allir að taka þátt, hver eftir því sem hann getur.

Ég geri mér grein fyrir að það eru og verða hópar og einstaklingar í samfélaginu sem telja sig "jafnari" en aðra. Það er verkefni samfélagsins að halda þeim í skefjum.

Ég játa það, að stundum hefur framsóknarmaðurinn í mér (fjórðungi bregður til fósturs) látið á sér kræla, en hefur ekki náð neinni fótfestu, enda tel ég framsóknarflokkinn hvorki vera né fara þó margt sé þar að finna (ef horft er framhjá hversu ólánlega þeim flokki hefur stundum tekist með val á forystu) sem fellur að sýn minni.

Nú er ég kominn í talsverða klemmu.
Ég hef verið þeirrar eindregnu skoðunar að maður eigi að kjósa eftir sannfæringu sinni, eins og hún endurspeglast í skoðunum manns á því hvernig samfélaginu í heild verði best borgið. Ég hef gert fremur lítið úr því þegar fólk kýs á öðrum forsendum, t.d. vegna ástar á einhverjum stjórnmálaleiðtoga, eða á grundvelli einkahagsmuna, eða "af því bara".


Þá er það klemma mín
Nú stend ég frammi fyrir því að velja milli einkahagsmuna og lífsskoðana þegar ég geng að kjörborðinu.
Ástæðan?
Fyrir nokkrum mánuðum birti einn þingmanna stjórnmálaflokks, sem ég hef oft ljáð atkvæði mitt, opinberlega þá skoðun súna að ég ætti að "fokka mér" og að ég væri "ofboðslega vitlaus".
Að vísu sagði hann þetta ekki berum orðum, þessi "ágæti" þingmaður, heldur samþykkti hann þessa skoðun á mér, með því á smella á hnappinn þar sem fólk getur látið sér vel líka það sem einhver segir. Hann, sem sagt, "lækaði" þessa skoðun.
Ef einhver áttar sig ekki á um hvað málið snýst, þá má eitthvað um það hér.

Ég hélt þá, að framundan væru nokkur ár þar til ég þyrfti aftur að gera upp við mig hvernig atkvæði mínu yrði best varið, en nú blasri við að ég þarf að ákveða mig með hraði.
Á ég að kjósa flokk þar sem forystumennirnir taka þátt í því, á samfélagsmiðlum, að fordæma fólk sem það þekkir ekki?
Á ég að kjósa flokk sem hýsir kima þar sem mannhatur fær að þrífast?
Á ég að velja þann flokk sem ég kemst næst því að deila skoðunum með?

Ég breyti ekki þeirri skoðun minni, að maður á að kjósa í samræmi við sannfæringu sína á því hvað kemur samfélaginu í heild best. Ég neita því hinsvegar ekki, að persónulegir hagsmunir hljóti að koma við sögu.

Svona er nú það.

---------------------------
Það er af ásettu ráði sem ég fjalla ekki um einstaklinga, eða einstaka flokka (nema, framsóknarflokkinn, auðvitað). Ég er búinn að læra það að slíkt breytir engu. Fylgjendur verða bara meiri fylgjendur og andstæðingar meira andstæðingar.

05 október, 2017

Er ég orðinn ellibelgur?

Síminn hringdi í gærmorgun. Hringjandinn reyndist vera ágætur nágranni til áratuga. Var dálítið hikandi við að bera upp erindið þar sem mögulega, hugsanlega myndi ég móðgast. Ég kvað mig ekki móðgunargjarnan mann og hvatti til þess að ljóstrað yrði upp um það sem þarna væri um að ræða.
Ég fékk að heyra hvað málið snérist um og varð ekkert móðgaður. Bara miklu frekar þakklátur fyrir hugulsemina sem að baki bjó og enn eina staðfestingu þess hve gott það er að eiga heima í litlu samfélagi þar sem fólk þekkist meira og minna.
Erindið var að láta mig vita af því, að í dag er fyrsta samvera eldri borgara í Bergholti, milli kl. 14 og 16.
Ég viðurkenni, að ég á dálítið erfitt með að ná utan um þetta allt saman, svo bráðungur sem ég nú er. Ég neita því ekki, að ég spurði sjálfan mig hvort þessi vikulega, tveggja tíma samverustund, þar sem fólk í eldri kantinum kemur saman til að spjalla um lífið og tilveruna, stunda handverk, spila, eða prjóna, eða bara hvaðeina sem hentar. væri eitthvað fyrir mig.

Ég er óhjákvæmilega, með þeirri ákvörðun minni, að láta af störfum og hefja töku eftirlauna talsvert fyrr en flestir gera, kominn með annan fótinn í þann þjóðfélagshóp sem talað er um sem eldri borgara, aldraða eða bara ellibelgi. Ég á það sameiginlegt með þessum hópi, að ég þarf ekki lengur að láta vekjaraklukkuna hringja og bruna síðan í vinnuna á hverjum virkum degi.  Ég ræð tíma mínum sjálfur og ákveð því sjálfur í hvað ég nota hann.

Það sem ég á kannski síður sameiginlegt með þessum hópi er, að ég verð ekki formlega eldri borgari fyrr en eftir ein þrjú ár. Þetta eru þrjú ár sem ég vænti þess að lifa beggja megin þeirrar línu sem einhverntíma var ákveðið að draga milli þeirra sem fullgildir teljast á vinnumarkaði og þeirra sem eru að hefja, með formlegum hætti ferð sína inn í sólarlag lífsins, með öðrum orðum, að undirbúa sig fyrir hið óhjákvæmilega, sem allra bíður, mis fljótt, reyndar.
Þessi lína er auðvitað mannanna verk, einhver meðalvegur sem hefur í rauninni ekkert með að gera einstaklinga, enda þeir jafn mismunandi og þeir eu margir.  Við þekkjum öll fólk sem hefur ekki verið ætlað að ná þessari línu og einnig fólk sem gengur til starfa á hverjum degi þó komið sé vel yfir nírætt. Um þetta vitum við bara hreint ekki neitt.

Það veit sá sem allt veit, að ekki ætlaði ég mér, þegar ég hóf þennan pistil, að fara að láta hann snúast um skilin milli þess sem er og verður og þar með hætti ég því.

Viðbrögð mín við símtalinu voru bara jákvæð, um leið og ég taldi síður líkur á að ég myndi sækja þessar samverustundir að óbreyttu. Ég hef yfirdrifið nóg að gera og í eðli mínu er ég talsverður einfari og hentar því afar vel að dunda mér einn í áhugamálum mínum. Svo verður áfram, óháð einhverjum línum sem samfélagið tengir mig við. Eingöngu háð því hve lengi höfuðið á mér virkar í samræmi við það sem ég ætlast til af því.
Ég er viss um að einhverjir munu halda því fram að eitthvað sé ég nú farinn að bera þess merki að andlegt atgervi sé á undanhaldi, en slíku mótmæli ég auðvitað harðlega.

Er Facebook málið?
Mér skildist á nágranna mínum, sem hringdi, að sá hópur sem hittist í Bergholti væri ekki mikið fyrir Facebook, eða tölvupósta, eða tölvur yfirleitt. Hugmyndir um samskipti með slíkum hætti munu hafa verið slegnar út af borðinu. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu, að síminn væri hentugasta samskiptatækið og settar hafa verið upp úthringilínur, sem felast í því, að hver hópmeðlimur fær það verkefni að hringja í einn eða fleiri aðra þegar þörf er að koma skilaboðum áleiðis.
Það er fjarri mér að gagnrýna þessa aðferð. Símtölin geta leitt til þess að fólk fer að spjalla saman um lífið og tilveruna ásamt því að greina frá því sem framundan er (ef það gleymist þá ekki).

Megintilgangur pistilsins
Kynslóðaskil eru óvenju mikil um þessar mundir. Fólkið sem nú er um sjötugt, er eiginlega yngsta fólkið sem hefur tileinkað sér tölvusamskipti að einhverju ráði, svona á heildina litið.  Milli tölvukynslóðarinnar og símakynslóðarinnar er aldeilis heilmikið bil.  Þeir sem nú eru um sjötugt eru að byrja að þrýsta á þá sem eldri eru, varðandi þessi mál, en enn sem komið er, án árangurs, að mér skilst.
Að máli við mig kom kona sem einmitt dasar línuna á milli þeirra tveggja heima sem áður eru nefndir. Hún bað mig að búa til hóp á Facebook, sem ætlaður væri fólki á aldursbilinu frá sextugu og upp úr.
Ég neita því ekki, að ég varð nokkuð hugsi, en þar sem ég er bara samilega fljótur að hugsa enn, taldi ég þarna vera á ferð góða hugmynd, ekki síst þar sem hún átti uppruna sinn í hópi "hinna". Það er nefnilega þannig að talsvert margir í þeim hópi fólks sem kominn er yfir sjötugt er bara alveg þokkalega tölvulæs og tilbúinn í að dansa þann dans fram í rauðan dauðann. Ég taldi að þarna væri hægt að byggja brú milli kynslóðanna beggja vegna línunnar sem dregin hefur verið.


Ég stofnaði hóp á Facebook.
Hópurinn kallast "Sextíu plús í Biskupstungum".
Ég bjó ekki bara til þennan hóp, heldur tilgreindi ég eftirfarandi sem tilgang hans:

Vettvangur fyrir fólk í Biskupstungum, sem hefur náð þeim góða aldrei sem hér um ræðir. Hér getur verið um að ræða fólk sem enn er á fullu í starfi og leik, fólk sem er aðeins farið að hægja á sér og fólk sem hefur lokið atvinnuþátttöku, en vill gjarnan halda áfram að njóta þess sem efri árin eiga að hafa upp á að bjóða.
Þessi hópur er engan veginn stofnaður til höfuðs ágætu Félagi eldri borgara í Biskupstungum, heldur miklu fremur til að styðja við og koma á framfæri sýn núverandi öldunga og einnig þeirra sem eitt sinn verða vonandi öldungar, á lífið og tilveruna.
Hér er ekki um að ræða félag, heldur nokkurskonar tengslahóp og í hann er boðið öllum þeim í Biskupstungum sem orðnir eru sextugir og sem eru virkir á Facebook.


Þegar ég var búinn að þessu, skilgreindi ég hann sem leynilegan hóp og bauð í hann örfáum einstaklingum, sem ég þóttist viss um að myndu ekki gera úr honum eitthvert stórmál.

Þannig er staðan nú og verður svo að óbreyttu, þó mér finnist æskilegt að hafa einhvern svona vettvang fyrir fólk á minum aldri og eldra, sem á ekki að snúast um aldur, heldur kannki frekar svipuð áhugamál, því áhugi fólks tengist að stórum hluta aldri þess. T.d. er mikið talað um ungabörn á kennarastofu sem ég þekki til, um þessar mundir, sem er í sjálfu sér ekki óeðlilegt.

Svo hef ég margt fleira um þessi mál að segja, en geri það síðar.

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...