Myndin var tekin hér |
Í flestu hef ég leyft þessari stofnun að fara sínu fram án þess að það hefði einhver veruleg áhrif á mig. Stundum hef ég komist upp á kant við tiltekna þjóna hennar, líkar ekki aðrir, eða það sem þeir halda á lofti í nafni kristinnar trúar. Fyrir ríflega 30 árum fór ég að syngja með kór sem starfar á vegum kirkjunnar og hef þar marga fjöruna sopið. Fyrir allmörgum árum var ég kominn á fremsta hlunn með að kveðja þessa stofnun, en af því varð ekki og ég veit í rauninni ekki hversvegna. Hélt áfram þessu hlutleysi mínu, ekki síst vegna þess að það var ekkert sérstakt annað í boði og er reyndar ekki enn.
Þetta var fyrri hlutinn.
Í dag er rætt um stolin gögn og réttmæti þess að birta þau.
Hversvegna sá einhver ástæðu til að stela þeim?
Hversvegna þurfti að stela þeim?
Var þeim yfirleitt stolið?
Hvað felur það í sér að stela? Jú, líklega að taka eitthvað ófrjálsri hendi sem einhver annar á. "Þú skalt ekki stela" hljómar eitt boðorðanna. Ég samþykki auðveldlega, að ef maður stelur einhverju sem er í eigu einhvers annars, þá er það brot gegn lögum Guðs og manna, og allt það. Það er rangt.
Þá vaknar spurningin: "Hvenær er eitthvað eign einhvers?"
Það eru í gildi lög um bankaleynd. Um þau þessa leynd fann ég þetta í fljótu bragði:
Meginreglan um bankaleynd felur í sér þagnar- og trúnaðarskyldu fjármálafyrirtækja og starfsmanna þeirra gagnvart viðskiptamönnum. Reglan er lögfest í 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í íslenskum rétti virðast reglur um bankaleynd einkum byggjast á sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs en einnig búa að baki önnur sjónarmið á borð við vernd viðskiptahagsmuna banka og fjármálafyrirtækja. - Vigdís Sigurðardóttir lokaverkefni 2009
Fjármálafyrirtækjum ber að halda leyndum upplýsingum um viðskiptavini sína, hvað svo sem þeir eru að bardúsa. Ef einhver tekur sig til og kemur tilteknum upplýsingum af þessu tagi til fjölmiðils, telst það stuldur og þar með, væntanlega, siðferðilega rangt..
Nú er það hinsvegar svo, að fjármál flestra okkar, sem eigum í viðskiptum við banka, eru þess eðlis að opinber birting þeirra myndi á engan hátt skaða okkur. Gæti jafnvel orðið ýmsum okkar til framdráttar. Þannig má halda því fram, að bankaleynd skipti langflesta litlu eða engu máli.
Bankaleynd skiptir aðallega máli fyrir þá einstaklinga, fyrirtæki eða félög, sem þurfa að leyna einhverju. Þannig má ætla að bankaleyndin sé til komin vegna þeirra. Það eru ýmsir hagsmunir, sem geta þurft að fara leynt, og jafnvel má færa fyrir því lögmæt rök.
Í skjóli bankaleyndar hefur hinsvegar ýmislegt það átt sér stað og á sér stað, sem segja má að sé rótin að djúpstæðu vantrausti í þessu samfélagi. Í skjóli bankaleyndar á sér ýmislegt stað sem ekki þolir dagsins ljós jafnvel þó almannahagsmunir krefjist þess að þar um sé allt uppi á borðum.
Get ég kosið einstaklinga til að hafa forystu í málefnum þjóðarinnar, sem á sama tíma skara eld að eigin köku, ættmenna sinna og viðskiptafélaga í skjóli bankaleyndar? Á ég ekki rétt að að allt slíkt sé uppi á borðum.
Stjórnmál snúast nefnilega fyrst og fremst um traust.
Það erum við búin að reyna á undanförnum árum, að einstaklingar sem við höfum kosið til valda, hafa reynst eiga sér tvær hliðar: þá sem við sjáum, kannski leiftrandi af eldmóði þess sem vill berjast fyrir hag almennings og þá sem við fáum ekkert að vita um vegna þess að um það ríkir bankaleynd.
Þetta var síðari hlutinn
Nú hefur biskupinn, sem sagt tjáð sig um þessi mál og fjallar um það sem er siðferðilega rétt eða rangt. Við þetta vaknar þessi spurning í huga mér: Er það siðferðilega rangt að leyna kjósendur upplýsingum sem geta hafa afgerandi áhrif á það hvað þeir kjósa?
Ég tel að siðferðið eigi ekki aðeins að virka á annan veginn. Þeim sem vill gegna trúnaðarstörfum fyrir heila þjóð ber skylda til að koma hreint fram gagnvart henni. Annað er ekki boðlegt og í mínum huga beinlínis siðferðilega rangt.
Er það kannski svo að þjóðkirkjan telji sig þurfa að halda verdarhendi yfir valdhöfum, sérstaklega ef þeir tilheyra einum tilteknum stjórnmálaflokki? Nú, eða tilteknum flokkum. Hverjar eru skyldur kirkjunnar gagnvart almenningi, sem er leiddur inn í kjörklefann án þess að vita nákvæmlega hvort atkvæðið er greitt á réttum forsendum?
Já, það er svona með siðferðið og traustið. Það er sennilega ekki ætlað öllum.
Þetta var samantektin
Nú er ég, sem sagt kominn á brúnina. Er þetta dropinn sem fyllir mælinn?
Ég verð að eiga það við sjálfan mig.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli