27 apríl, 2008

Hinn dulúðugi heimur hestamannsins


Í gær, þegar ég sat sveittur við próf það sem fjallað hefur verið um áður, fékk ég, aldrei þessu vant, send smáskilaboð (SMS) frá ónefndum sendanda, sem hljóðaði svo:

Ef þú ferð að mynda, taktu þá mynd af þeim rauðnösótta í útiganginum :).

Til að skilja þessa sendingu þarf, gótt fólk að búa yfir ýmiss konar þekkingu. Í fyrsta lagi hvaða merkingu ber að leggja í hugtakið 'rauðnösóttur'. Nú, ég fór í íslenska orðabók og fann þar eftirfarandi skýringu á orðinu 'nösóttur': (um hesta) með hvítan blett á flipanum. Þetta dugir eflaust ekki öllum, þannig að ég sló upp orðinu 'flipi' í sömu orðabók: vör á hesti - ergó: hér var um að ræða hest sem var með hvítan blett á vörinni. Þá fer skýringin að nálgast, en enn var þó eftir að átta sig á því hvað það er að vera 'rauðnösóttur' - er það kannski að vera með rauðan blett á vörinni? - hálfgerður jólasveinn, sem sagt.
Í öðru lagi þarf að átta sig á hvað 'útigangur' er í þessu samhengi. Orðið felur það einhvernveginn í sér merkinguna: einhver sem gengur úti. Orðabókin: vetrarbeit húsdýra.
Sem sagt óskin sem ég fékk senda í SMS hljóðaði upp á að taka mynd af hesti með rauðan blett á vörinni sem var í vetrarbeit (þó það sé komið sumar), með öðrum orðum, utandyra.
Jæja, ég er greiðvikinn maður, nýbúinn að ganga í gegnum svakalega þolraun, og tilbúinn til að skella mér út að ganga með myndavélina góðu. Þetta gerði ég nú eftir hádegið. Þar sem ég hafði hugmynd um hver hefði sent umrætt SMS, grunaði mig hvar í veröldinni þann rauðnösótta væri að finna: á sama stað og sá moldótti og ísbjörninn voru í síðustu myndatökuferð. Þangað var ferðinni heitið. Sá rauðnösótti átti samkvæmt skilgreiningu að vera á vetrarbeit, en þegar á staðinn var komið, var meint vetrarbeit auð og tóm. Ég lét þetta ekki aftra mér, heldur athugaði hvort þetta hefði kannski verið rangtúlkað hjá mér: þarna hefði átt að vera um innigang að ræða, en ekki útigang. Því fór ég inn í fjósið þar sem ég hafði hugmynd um að þann rauðnösótta gæti verið að finna, og sjá - þarna var allavega slatti af hrossum. Ég myndaði í gríð og erg í þeirra von að ég gæti fundið út þegar heim væri komið hver sá rauðnösótti væri.
Það gerði ég: sá rauðnösótti er á myndinni sem hér fylgir, og það passar: hann er með rauðan blett á vörinni.

Reifur er rauðnösóttur hestur.
-myndina hér að ofan má stækka með því að smella á hana - held ég

26 apríl, 2008

Kva, þetta er nú lítið mál!

Fyrirsögnin dregur eiginlega saman í nokkur orð hugsanir mínar í aðdraganda að svokölluðu heimaprófi í stjórnsýslurétti sem ég er nú nýbúinn að skila af mér. Ástæður þessarar bjartsýni voru aðallega eftirfarandi:
1. Það var ekkert óskaplega efnismikið námsefni í blaðsíðum talið sem lá til grundvallar. Aðallega upplýsingalög, stjórnsýslulög, bók um starfsskilyrði stjórnvalda og grein um valdmörk stjórnvalda. Sem sagt ekkert óyfirstíganlegt þar.
2. Ég var búinn að renna í gegnum þetta efni, hlusta á alla fyrirlestra og skrá hjá mér feiknin öll af glósum.
3. Kennari á námskeiðinu margsagði nemendum að lengd prófsins miðaðist við að hægt væri á leysa það á 3 klst., en við fengjum átta og hálfan tíma til að afgreiða málið.
KVA, ÞETTA ER NÚ LÍTIÐ MÁL
hugsaði ég í gær og fyrradag og í morgun klukkan að verða átta þegar ég hóf þennan merkisdag með því að koma mér fram úr. Þetta hugsaði ég líka í þann mund er ég opnaði póstinn minn í rólegheitum kl. 8.36, til að nálgast verkefnið, sem sent hafði verið í viðhengi kl 8.30. Maður varð nú að njóta staðgóðs morgunverðar áður en verkið hæfist!
Viðhengið var opnað og við blöstu 7 álitamál sem biðu úrlausnar minnar. Lítið mál. Ég byrjaði á að dunda mér við að setja upp haus á blaðsíðurnar og blaðsíðutal. Allt var þetta í rólegheitum, að sjálfsögðu. Svo hóf ég að skoða verkefnin nánar. Þetta virtist nú ekki vera svo voðalegt, enda hafði ég 8 tíma til að ljúka verkinu. Um hádegi, 3 tímum seinna, var ég búinn með tvö af þessum verkefnum. Hugsanirnar voru orðnar öðruvísi en fyrr. Ég hafði að vísu tekið mér stutt hlé tiltölulega snemma þegar frú Ásta kíkti í heimsókn með moggann, en það var ekkert umtalsvert.
Um klukkan eitt þótti mér orðið ljóst að mér yrði ekki stætt á öðru en draga úr kröfum mínum til rökstuðnings með hverju einasta atriði í hverju einasta verkefni. Kennarinn hafði nefnilega lagt gífurlega áherslu á það hve óhemju mikilvægt væri við úrlausnina, að telja fram hið augljósa, rökstyðja það t.d. hversvegna sveitarfélag teldist vera stjórnvald og á hvaða lögum og lagagreinum það byggðist. Nei, nú var svo komið að ég ákvað að hætta að gera svo miklar kröfur til sjálfs mín, þar sem ég varð að velja á milli þess að komast í gegnum verkefnin sjö og þess að sleppa endurtekningu augljósra smáatriða. Klukkan tifaði - ekkert stöðvar tímans þunga nið - sem olli því þegar klukkan var farin að ganga fjögur, að niðurinn í blóðflæði um líkamann vegna aukinnar innspýtingar adrenalíns var farin að valda nokkrum sjóntruflunum og svima. Þá nálgaðist ég meir og meir sykurfall þar sem ég taldi mig ekki hafa tíma til að nærast. Áfram mjakaðist verkið þó - með stöðugt minni kröfum um nákvæmni, og stöðugt styttri tíma til stefnu. Þá gerðist nokkuð sem ég hafði síst átt von á. Þannig er, að aðgangur að lagasafninu á www.althingi.is er nauðsynlegur við próf af þessu tagi, því ákvæði ýmissa laga koma til skoðunar. Mig vantaði tilteknar upplysingar úr sveitarstjórnarlögum og hugðist því skella mér á netið enn einu sinni til að finna svörin, en þá kom bara tilkynning um að ekkert netsamband væri fyrir hendi. Ég fór í gegnum helstu atriði sem ég kunni til að ráða bót á slíku smátriði, en án árangurs. NO NETWORK AVAILABLE. Við þessar aðstæður voru svartir deplar farnir að trufla sjónina. Ég endurræsti tölvuna og þagði náttúrulega ekki yfir þessu við frúna, sem var eitthvað að dunda sér við að lesa blöðin. Skömmu síðar heyri ég í gegnum blóðþrýstinginn: 'Það er allt í lagi með sambandið hjá mér'. Gat það átt sér stað, að á meðan splunkunýr og fullkominn Dellinn minn klikkaði á netsambandi, þá næði IBMinn í gegn eins og ekkert væri? Á þessu augnabliki var ekki tími til að velta sér upp úr því, heldur var stoltinu kyngt í snarhasti með blóðbragðinu og IBMinn fluttur á borðið við hliðina á Dellinum. Samband náðist og umræddar upplýsingar um sveitarstjórnarlög fundust. Þarna hafði hinsvegar tapast dýrmætur tími og óafturkræfur. Enn voru minnkaðar kröfurnar, ekki síst þar sem fyrir lá að ég þurfti að senda prófúrlausnina sem pdf skjal, sem kostaði netsamband við www.media-convert.com . Ég yrði þessvegna að vera búinn með prófið sjálft ekki seinna en 16.30 til að vera viss um að hafa tíma til að umbreyta skjalinu. Síðasta verkefnið sem hljóðaði upp á heil 18% varð af þessum sökum nokkuð snubbótt. Hvað um það - þarna varð að fórna hagsmunum. Þar sem ekkert samband var úr Dellinum varð ég að setja úrlausnina á kubb og flytja þannig yfir á IBMinn - þá kom auðvitað í ljós að skjalið úr Dellinum var docx, en IBMinn skildi ekki nema doc - þess vegna varð ég að fara aftur í Dellinn og vista skjalið þar sem doc og vista það svo aftur á kubbinn og flytja þannig í IBMinn og senda það þaðan til www.media-convert.com og láta umbreyta því í pdf. Á þessu stigi nálgaðist klukkan lokafrestinn afar hratt. Æðaslátturinn var orðinn meiri en svo að við yrði unað til lengdar. IBMinn sendi skjalið og IBMinn tók við skjalinu - vandalaust. Ég fann í flýti netföngin tvö sem úrlausnin skyldi send á, opnaði vefpóstinn og sló þau inn ásamt því að hengja úrlausnina við sem viðhengi. SVO ÝTTI ÉG Á SEND. Pósturinn fór og nokkrum mínútum síðar kom kvittun fyrir móttöku, en það mátti ekki tæpara standa. Þarna reyndist ekki um neinn létti að ræða þar sem mér þykir ljóst að afgreiðsla mín á síðustu þrem til fjórum verkefnunum hafi ekki verið með fullnægjandi hætti, en hvað um það.
Í útfallinu fór ég að athuga nánar með netsambandið á Dellinum. Krafðist meðal annars svara af menntaskólanemandum á bænum. Hann kvað sig hafa heyrt, að á sumum tölvum væri hægt að slökkva á netinu með einum takka. Leit á Dellinn og fann takka. Smellti honum til hliðar og......netsambandið datt inn. Svo djúpar höfðu hugsanir mínar verið, að ég hafði óviljandi farið að hreyfa til takka á hliðinni á blessuðum Dellinum.
Lokið er prófi í stjórnsýslurétti - megi ég ná því!

Próf eru púl hið mesta.

24 apríl, 2008

Í tilefni sumardagsins fyrsta


Tvær kerlingar voru að spjalla saman.
"Mikið er nú blessuð mjólkin góð."
"Ó, já. Það er nú ekki skrýtið, enda var Jesús skírður upp úr henni."
"Ekki aldeilis, heillin mín. Hann var nú skírður upp úr ánni Fjórtán!"

(SkM, 240408)

Nokkrar sumardagsmyndir

Þjóðfélag á hverfanda hveli (2)

GLEÐILEGT SUMAR
Á meðan ég er að pæla í því hvernig næsta frumsamin færsla mín skuli vera, þá held ég áfram að dæla hér inn vangaveltum mínum frá því árið 2004, og sem hvergi hafa birst fyrr en nú. Við að lesa þetta yfir aftur kemst ég að því, að ég er alveg sammála sjálfum mér ennþá. Árin 4 sem liðin er frá skrifunum hafa bara staðfest þetta allt saman enn betur. 3. kaflinn sem ber fyrirsögnina 'Atvinnuþátttaka kvenna' birtist svo við tækifæri.
Þó svo ég telji að þeir séu ekki margir sem nenna að lesa þetta þá lít ég svo á að hér sé um að ræða opinbera birtingu. Það vakti athygli mína, að í kjölfar fyrsta hluta þessarar greinar náði fjöldi þeirra sem heimsóttu síðuna nýjum hæðum, meirra að segja kom einn frá Möltu, en við nánari athugun kom í ljós að hann hafði gúgla PS-P640, margumrætt.
Hvað um það hér er annar hluti 'Þjóðfélags á hverfanda hveli':


Uppeldi
Uppeldi barna felst í fjölmörgum atriðum, sem hafa öll það megin markmið að búa barnið undir að verða nýtur þjóðfélagsþegn. Barnið þarf að tileinka sér ákveðna samskiptahætti, færni og þekkingu, sem síðar verður krafist af því sem fullorðnum einstaklingi. Það þarf ekki að fara í grafgötur um það, að það er hlutverk hinna fullorðnu að veita þennan undirbúning.
Það er viðurkennt, að einn mikilvægasti þáttur í góðu uppeldi er samkvæmni, þ.e. að samræmi sé í þeim skilaboðum sem börn fá frá umhverfinu. Þá er einnig viðurkennt að mikilvægt sé að halda til haga í uppeldinu þekkingu barna á umhverfi sínu, menningunni sem það sprettur upp úr, rótum þess: fjölskyldunni.
Það hlýtur að vera mikilvægt markmið uppeldis að stefna að því að móta einstakling sem veit hvaðan hann kemur, hver hann er og hvert hann vill stefna. Við erum í auknum mæli að missa sjónar af þessu markmiði. Uppeldi barna hefur verið að færast að stærstum hluta inn í stofnanir sem komið hefur verið upp, til að bregðast við breyttu samfélagi. Fólk með uppeldisfræðilega menntun tekur að sér, gegn greiðslu, að ala upp hina nýju þegna þjóðfélagsins. Þetta gera þeir á grundvelli ýmissa uppeldisfræðilegra kenninga, sem auðvelt er að deila á. Börnin eru áfram börn foreldra sinna til 18 ára aldurs og alin upp á þeirra ábyrgð. Þarna rofnar í umtalsverðum mæli sú samkvæmni sem að ofan er nefnd. Uppeldið sem börnin fá á leikskólanum eða í grunnskólanum fellur í afar mörgum atriðum ekki að þeim uppeldisaðferðum sem börnin þó fá í foreldrahúsum. Þau fá misvísandi skilaboð um marga mikilvæga þætti, t.d. er varða framkomu, matarvenjur, frelsi, tjáningu, svo eitthvað sé nefnt.
Takmarkaður samverutími er afar mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem orðið hafa á uppeldi barna á undanförnum 20-30 árum. Tíminn sem foreldrarnir hafa með börnum sínum hefur minnkað frá ári til árs. Foreldrar finna eðlilega til ábyrgðar sinnar á uppeldi barnanna og finna fyrir sektarkennd, þar sem þeir geta ekki sinnt uppeldi þeirra sem skyldi og geta ekki verið samvistum við börnin í jafn ríkum mæli og þeim finnst þeir ættu að vera. Afleiðingar þessarar sektarkenndar er sú, að foreldrarnir reyna að gera það sem þeir telja sitt besta fyrir börnin þann stutta tíma sem samvistirnar þó vara. Þeir dekra þau; finnst þeir geti afmáð sektarkenndina með því að kaupa sig frá henni. Þeir verja börnin með kjafti og klóm gagnvart stofnununum sem sjá um mikinn hluta uppeldisins; standa með börnunum gegnum þykkt og þunnt gegn ákvörðunum skólans eða afgreiðslu mála þar. Sektarkennd foreldra er eitt mesta böl sem á sér stað í tengslum við uppeldi barna í nútímanum.
Því lengri tími sem líður frá tíma stórfjölskyldunnar, því erfiðara eiga foreldrar með að höndla hlutverk sitt. Uppeldishlutverkið er ekki meðfætt, það er eitt þeirra mikilvægu þátta sem ein kynslóð þarf að geta miðlað til annarrar. Ungir foreldrar hafa enga meðfædda uppeldishæfileika. Stofnanauppeldi getur aldrei sinnt öllum þörfum barna; það er skylda foreldranna að taka ábyrgð á uppeldinu – gera þeir það, eða geta þeir það?
Það er umhugsunarefni hvort ekki er komið að því að setja þurfi á fót skóla fyrir verðandi foreldra, eða að minnsta kosti gefa kost á námskeiðum í framhaldsskóla, sem fjalla um fjölskylduna og uppeldisábyrgðina.

20 apríl, 2008

Annar blær

Þetta er dálítið merkileg og djúp tilfinning. Hún hefur áhrif á daglegt líf að því leyti að maður fer að spyrja spurninga sem engin svör eru við. Maður fer að vona allt hið besta. Já, þetta fer allt vel.
Svo heldur daglegt amstur bara áfram, framundan að ljúka við yfirferðina á Macbeth, eina ferðina enn, lifa af 'dimissio' og prófatímann. Þetta fær samt allt aðeins annan blæ.
Eftir að prófum er lokið og ganga flestir glaðir út í sumarið, en aðrir óglaðari, blasir við 10 daga heimsókn til vesturheimsks frændfólks. Í framhaldi hennar innritunartíminn og loks langþráð sumarfrí. Allt verður þetta með dálítið öðrum blæ.
Þetta var með dýpri og óræðari pælingum.
Látlaust áfram lífið flæðir.

Þjóðfélag á hverfanda hveli (1)

Í andleysi mínu á þessum sunnudegi kýs ég að varpa út í gegnum þennan fjölmiðil fyrsta hluta pælinga minna frá því árið 2004, og sem ég vék lítillega að í umfjöllun um veikindamál: 'Hvenær er maður veikur...?' hér fyrir neðan. Ef einhver nennir að lesa þetta þá verður hann eflaust margs fróðari, ef til vill jafnvel ósammála, en í slíkum tilvikum getur hann fært fram gagnrök í athugasemdum sínum við skrifin.
Sem sagt, njótið, eða farið á aðra síðu.
Það er auðvitað rétt að svo lengi sem elstu menn muna, að minnsta kosti frá því að hugtakið unglingur varð til, hefur verið litið svo á að þessi hópur væri fremur til vandræða en hitt. Áður en nauðsynlegt þótti að skilgreina fólk á aldrinum þrettán ára til tvítugs sem unglinga var það barn fram að fermingu og var þá tekið í fullorðinna manna tölu; sérstök skilgreining á þessum umrædda aldurshópi var ekki nauðsynleg þar sem strax og hægt var fór þetta ágæta fólk að lifa lífi fullorðinna með þátttöku í atvinnulífinu. Það voru forréttindi tiltölulega fárra að stunda nám umfram fremur skamman tíma í barnaskóla.

Það mun hafa verið í kringum bítlatímann sem hugtakið unglingur varð til. Allt í einu varð til menning sem var verulega frábrugðin því sem hinir fullorðnu áttu að venjast. Tónlist hins nýja tíma og sú múndering og sá hugsunarháttur sem fylgdi í kjölfarið féll ekki að viðteknum skilgreiningum á fólkinu milli tektar og tvítugs. Unglingamenningin varð til og hún festist stöðugt meira í sessi á næstu árum, ekki síst vegna stríðsbrölts Bandaríkjanna í Víet Nam. Hin svokallaða ’68 kynslóð var eitt afsprengi hinnar nýtilkomnu menningar.

Hvort kom á undan, unglingamenningin eða fjölskyldan á hverfanda hveli, skal ekki fullyrt, en það var á svipuðum tíma sem fjölskyldumynstrið fór einnig að taka breytingum. Stórfjölskyldan, með afa og ömmu, pabba og mömmu og börnin öll (fjölmennustu kynslóðir Íslandssögunnar), lét smám saman undan síga. Mamman fór í auknum mæla að leita út af heimilinu til að taka þátt í atvinnulífinu og afinn og amman fóru á elliheimili. Kjarnafjölskyldan varð til með nýjar þarfir sem samfélagið varð að mæta. Hugtökin dagheimili, róluvöllur, fóstra, og lyklabarn urðu til. Fyrirbærið unglingur varð dálítið hornreka í þessu öllu saman.

Það er kannski rétt á þessum punkti að lýsa þeirra skoðun að unglingakynslóðir undanfarinna 10 ára, að minnsta kosti, séu afrakstur afar óheppilegra uppeldisaðstæðna. Þetta unga fólk er engan veginn vont fólk, þvert á móti. Það er oftast fremur saklaust, jákvætt og velviljað svo langt sem það nær.

Það er eðlileg krafa að þess sé freistað að færa rök fyrir svona máflutningi.

Það var eðli stórfjölskyldunnar að sjá um sína. Foreldrarnir, afinn og amman bjuggu í miklu nábýli með börnunum. Börnin voru í náinni snertingu við daglegt líf foreldra sinna í einsleitu samfélagi. Með þessu móti var séð fyrir leið til að flytja áfram mikilvæga þætti í því sem kynslóðirnar á undan höfðu verið að dunda sér við. Bæði var þarna um að ræða að hin nýja kynslóð fékk tilfinningu fyrir því að vera hluti af fjölskyldu sem átti sér sögu og einnig og ekki síður að menning samfélagsins fékk farveg inn í framtíðina. Börnin og unglingarnir fengu tilfinningu fyrir samfélagi sínu og þeim siðum og menningu sem þar giltu.

Eins og getið er um hér að ofan, kom sá tími að samfélagið fór að breytast. Þá rofnaði margt. Þá breyttist margt. Sumt til góðs fyrir samfélagið, annað til ills. Meðal þess sem gott má teljast var að konum fjölgaði á vinnumarkaðnum og fyrirvinnum þar með. Þetta hlýtur þá að hafa bætt fjárhag fjölskyldna umtalsvert. Þá fjölgaði ört í ýmiss konar þjónustustörfum, ekki síst vegna þess að konur leituðu vinnu utan heimilis. Skólakerfið tók að þenjast út þar sem þeirri skoðun óx mjög ásmegin, að allir ættu að eiga rétt á góðri menntun. Tækniþróun tók mikinn kipp á svipuðum tíma og hefur ekki látið neinn bilbug á sér finna. Frelsi í fjölmiðlun kom í kjölfarið, með nýjar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, svokallaða ljósvakamiðla. Nýjustu stórbyltingar komu með upplýsinga- og fjarskiptatækninni. Þarna kom margt til á tiltölulega stuttum tíma, sem breytti samfélaginu í grundvallaratriðum. Sjálfsagt má segja, að einangraðir séu allir ofangreindir þættir jákvæðir fyrir þróun samfélagsins. En ef málið væri svo einfalt værum við íbúar fyrirmyndarsamfélagsins, þar sem okkur hefði tekist að finna hina einu sönnu leið til að leysa öll okkar vandamál. Svo einfalt er málið hins vegar ekki.

Á hraðri ferð okkar inn í hið hátæknivædda samfélag upplýsingatækni og fjármagnshyggju höfum við, sem samfélag, skapað aðstæður sem verða að teljast afar varhugaverðar ef litið er til framtíðar. Afar margt í uppeldisaðstæðum íslenskra barna gefur tilefni til að hafa áhyggjur. Hér á eftir eru tilteknar helstu ástæður fyrir þessari skoðun. Auðvitað er hér um að ræða skoðanir sem ekki byggjast á viðunandi fræðilegum grunni, og sem margar hverjar hafa ekki verið rannskaðar.
Kannski kemur framhaldið síðar, þegar svipað stendur á og núna.
Auðugur er andinn ekki' í dag.

19 apríl, 2008

Stemning enn á ný

Það er vissulega væntanleg viðbót innan tíðar, sem felur í sér óviðjafnanlega andlega dýpt, en þessu sinni minni ég bara á nýjar stemningsmyndir úr Laugarási, hérna.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...