Fyrirsögnin dregur eiginlega saman í nokkur orð hugsanir mínar í aðdraganda að svokölluðu heimaprófi í stjórnsýslurétti sem ég er nú nýbúinn að skila af mér. Ástæður þessarar bjartsýni voru aðallega eftirfarandi:
1. Það var ekkert óskaplega efnismikið námsefni í blaðsíðum talið sem lá til grundvallar. Aðallega upplýsingalög, stjórnsýslulög, bók um starfsskilyrði stjórnvalda og grein um valdmörk stjórnvalda. Sem sagt ekkert óyfirstíganlegt þar.
2. Ég var búinn að renna í gegnum þetta efni, hlusta á alla fyrirlestra og skrá hjá mér feiknin öll af glósum.
3. Kennari á námskeiðinu margsagði nemendum að lengd prófsins miðaðist við að hægt væri á leysa það á 3 klst., en við fengjum átta og hálfan tíma til að afgreiða málið.
KVA, ÞETTA ER NÚ LÍTIÐ MÁL
hugsaði ég í gær og fyrradag og í morgun klukkan að verða átta þegar ég hóf þennan merkisdag með því að koma mér fram úr. Þetta hugsaði ég líka í þann mund er ég opnaði póstinn minn í rólegheitum kl. 8.36, til að nálgast verkefnið, sem sent hafði verið í viðhengi kl 8.30. Maður varð nú að njóta staðgóðs morgunverðar áður en verkið hæfist!
Viðhengið var opnað og við blöstu 7 álitamál sem biðu úrlausnar minnar. Lítið mál. Ég byrjaði á að dunda mér við að setja upp haus á blaðsíðurnar og blaðsíðutal. Allt var þetta í rólegheitum, að sjálfsögðu. Svo hóf ég að skoða verkefnin nánar. Þetta virtist nú ekki vera svo voðalegt, enda hafði ég 8 tíma til að ljúka verkinu. Um hádegi, 3 tímum seinna, var ég búinn með tvö af þessum verkefnum. Hugsanirnar voru orðnar öðruvísi en fyrr. Ég hafði að vísu tekið mér stutt hlé tiltölulega snemma þegar frú Ásta kíkti í heimsókn með moggann, en það var ekkert umtalsvert.
Um klukkan eitt þótti mér orðið ljóst að mér yrði ekki stætt á öðru en draga úr kröfum mínum til rökstuðnings með hverju einasta atriði í hverju einasta verkefni. Kennarinn hafði nefnilega lagt gífurlega áherslu á það hve óhemju mikilvægt væri við úrlausnina, að telja fram hið augljósa, rökstyðja það t.d. hversvegna sveitarfélag teldist vera stjórnvald og á hvaða lögum og lagagreinum það byggðist. Nei, nú var svo komið að ég ákvað að hætta að gera svo miklar kröfur til sjálfs mín, þar sem ég varð að velja á milli þess að komast í gegnum verkefnin sjö og þess að sleppa endurtekningu augljósra smáatriða. Klukkan tifaði - ekkert stöðvar tímans þunga nið - sem olli því þegar klukkan var farin að ganga fjögur, að niðurinn í blóðflæði um líkamann vegna aukinnar innspýtingar adrenalíns var farin að valda nokkrum sjóntruflunum og svima. Þá nálgaðist ég meir og meir sykurfall þar sem ég taldi mig ekki hafa tíma til að nærast. Áfram mjakaðist verkið þó - með stöðugt minni kröfum um nákvæmni, og stöðugt styttri tíma til stefnu. Þá gerðist nokkuð sem ég hafði síst átt von á. Þannig er, að aðgangur að lagasafninu á www.althingi.is er nauðsynlegur við próf af þessu tagi, því ákvæði ýmissa laga koma til skoðunar. Mig vantaði tilteknar upplysingar úr sveitarstjórnarlögum og hugðist því skella mér á netið enn einu sinni til að finna svörin, en þá kom bara tilkynning um að ekkert netsamband væri fyrir hendi. Ég fór í gegnum helstu atriði sem ég kunni til að ráða bót á slíku smátriði, en án árangurs. NO NETWORK AVAILABLE. Við þessar aðstæður voru svartir deplar farnir að trufla sjónina. Ég endurræsti tölvuna og þagði náttúrulega ekki yfir þessu við frúna, sem var eitthvað að dunda sér við að lesa blöðin. Skömmu síðar heyri ég í gegnum blóðþrýstinginn: 'Það er allt í lagi með sambandið hjá mér'. Gat það átt sér stað, að á meðan splunkunýr og fullkominn Dellinn minn klikkaði á netsambandi, þá næði IBMinn í gegn eins og ekkert væri? Á þessu augnabliki var ekki tími til að velta sér upp úr því, heldur var stoltinu kyngt í snarhasti með blóðbragðinu og IBMinn fluttur á borðið við hliðina á Dellinum. Samband náðist og umræddar upplýsingar um sveitarstjórnarlög fundust. Þarna hafði hinsvegar tapast dýrmætur tími og óafturkræfur. Enn voru minnkaðar kröfurnar, ekki síst þar sem fyrir lá að ég þurfti að senda prófúrlausnina sem pdf skjal, sem kostaði netsamband við www.media-convert.com . Ég yrði þessvegna að vera búinn með prófið sjálft ekki seinna en 16.30 til að vera viss um að hafa tíma til að umbreyta skjalinu. Síðasta verkefnið sem hljóðaði upp á heil 18% varð af þessum sökum nokkuð snubbótt. Hvað um það - þarna varð að fórna hagsmunum. Þar sem ekkert samband var úr Dellinum varð ég að setja úrlausnina á kubb og flytja þannig yfir á IBMinn - þá kom auðvitað í ljós að skjalið úr Dellinum var docx, en IBMinn skildi ekki nema doc - þess vegna varð ég að fara aftur í Dellinn og vista skjalið þar sem doc og vista það svo aftur á kubbinn og flytja þannig í IBMinn og senda það þaðan til www.media-convert.com og láta umbreyta því í pdf. Á þessu stigi nálgaðist klukkan lokafrestinn afar hratt. Æðaslátturinn var orðinn meiri en svo að við yrði unað til lengdar. IBMinn sendi skjalið og IBMinn tók við skjalinu - vandalaust. Ég fann í flýti netföngin tvö sem úrlausnin skyldi send á, opnaði vefpóstinn og sló þau inn ásamt því að hengja úrlausnina við sem viðhengi. SVO ÝTTI ÉG Á SEND. Pósturinn fór og nokkrum mínútum síðar kom kvittun fyrir móttöku, en það mátti ekki tæpara standa. Þarna reyndist ekki um neinn létti að ræða þar sem mér þykir ljóst að afgreiðsla mín á síðustu þrem til fjórum verkefnunum hafi ekki verið með fullnægjandi hætti, en hvað um það.
Í útfallinu fór ég að athuga nánar með netsambandið á Dellinum. Krafðist meðal annars svara af menntaskólanemandum á bænum. Hann kvað sig hafa heyrt, að á sumum tölvum væri hægt að slökkva á netinu með einum takka. Leit á Dellinn og fann takka. Smellti honum til hliðar og......netsambandið datt inn. Svo djúpar höfðu hugsanir mínar verið, að ég hafði óviljandi farið að hreyfa til takka á hliðinni á blessuðum Dellinum.
Lokið er prófi í stjórnsýslurétti - megi ég ná því!
Próf eru púl hið mesta.
LOL...
SvaraEyðaKennari að taka próf.
Hingað til hef ég bara séð kennaranema taka próf. Þetta hlýtur að vera 10x fyndnara...
Njóttu samt árangursins og vonandi hefur náð með glans.
Hér sýnist manni vera í gangi sama ósanngirnin og við nemendur þurfum að gangast undir. Þ.e að engin skilji hvað maður er að gang í gegnum um og að allir eru ömurlegir :) Jahh svona er að vera unglingur í dag, það hefur greinilega ekkert með aldur að gera :)
SvaraEyðaAumingja Palli...
SvaraEyðaÞú átt alla mína samúð.
Það styttist í heimaprófið mitt sem ég hef litið álíka augum og þú lýsir: "Það verður ekkert mál".
Stærðfræðiprðofið er aftur á móti ekki heimapróf og ég hef kviðið því heil ósköp. Kannski maður snúi þessu bara við. Rúlli upp stærðfræðinni og skríði sagnfræðina sökum prófafyrirkomulags.
Kær kveðja,
Aðalheiður.