Í gær, þegar ég sat sveittur við próf það sem fjallað hefur verið um áður, fékk ég, aldrei þessu vant, send smáskilaboð (SMS) frá ónefndum sendanda, sem hljóðaði svo:
Ef þú ferð að mynda, taktu þá mynd af þeim rauðnösótta í útiganginum :).
Til að skilja þessa sendingu þarf, gótt fólk að búa yfir ýmiss konar þekkingu. Í fyrsta lagi hvaða merkingu ber að leggja í hugtakið 'rauðnösóttur'. Nú, ég fór í íslenska orðabók og fann þar eftirfarandi skýringu á orðinu 'nösóttur': (um hesta) með hvítan blett á flipanum. Þetta dugir eflaust ekki öllum, þannig að ég sló upp orðinu 'flipi' í sömu orðabók: vör á hesti - ergó: hér var um að ræða hest sem var með hvítan blett á vörinni. Þá fer skýringin að nálgast, en enn var þó eftir að átta sig á því hvað það er að vera 'rauðnösóttur' - er það kannski að vera með rauðan blett á vörinni? - hálfgerður jólasveinn, sem sagt.
Í öðru lagi þarf að átta sig á hvað 'útigangur' er í þessu samhengi. Orðið felur það einhvernveginn í sér merkinguna: einhver sem gengur úti. Orðabókin: vetrarbeit húsdýra.
Sem sagt óskin sem ég fékk senda í SMS hljóðaði upp á að taka mynd af hesti með rauðan blett á vörinni sem var í vetrarbeit (þó það sé komið sumar), með öðrum orðum, utandyra.
Jæja, ég er greiðvikinn maður, nýbúinn að ganga í gegnum svakalega þolraun, og tilbúinn til að skella mér út að ganga með myndavélina góðu. Þetta gerði ég nú eftir hádegið. Þar sem ég hafði hugmynd um hver hefði sent umrætt SMS, grunaði mig hvar í veröldinni þann rauðnösótta væri að finna: á sama stað og sá moldótti og ísbjörninn voru í síðustu myndatökuferð. Þangað var ferðinni heitið. Sá rauðnösótti átti samkvæmt skilgreiningu að vera á vetrarbeit, en þegar á staðinn var komið, var meint vetrarbeit auð og tóm. Ég lét þetta ekki aftra mér, heldur athugaði hvort þetta hefði kannski verið rangtúlkað hjá mér: þarna hefði átt að vera um innigang að ræða, en ekki útigang. Því fór ég inn í fjósið þar sem ég hafði hugmynd um að þann rauðnösótta gæti verið að finna, og sjá - þarna var allavega slatti af hrossum. Ég myndaði í gríð og erg í þeirra von að ég gæti fundið út þegar heim væri komið hver sá rauðnösótti væri. Það gerði ég: sá rauðnösótti er á myndinni sem hér fylgir, og það passar: hann er með rauðan blett á vörinni.
Reifur er rauðnösóttur hestur.
-myndina hér að ofan má stækka með því að smella á hana - held ég
Tungumál hestamannþjóðflokksins er náttúrulega kapítuli út af fyrir sig.
SvaraEyðaMér sýnist þetta annars bara vera eins og rispa eða nýgróið sár á hrossinu. Datt ekki í hug að komið væri nafn á svona fyrirbæri.
Páll!
SvaraEyðaÞú ert á villigötum. Útigangurinn er út við gömlu ruslahauga. Þar muntu finna þann eina sanna rauðnösótta sem btw er ættaður frá Neðra-Ási í Skagafirði.
Gengur betur næst - :-)
Þetta er nú hin skemmtilegasta lesning. Ég bið að heilsa honum Djákna, rauðnösötta sveitunga mínum ef þú rekst á útiganginn hans Benna ;)
SvaraEyðaKveðja
Soffía