11 maí, 2008

Málshættir eru skemmtilegir

Þetta er tími prófayfirferðar. Ég er nú svo undarlegur að að ég læt blessaða ungana læra heilan helling af málsháttum og orðtökum. Síðan er ég svo grimmur, að ég ætlast til þess að þeir (ungarnir) geti botnað og/eða útskýrt á prófi. Útkoman úr þessu er oftar en ekki það sem gerir mér kleift að sitja, brosandi í kampinn, við yfirferðina - svo er einnig nú. Ég ætla hér að tína til nokkur dæmi úr niðurstöðum málsháttabotnunarinnar í þetta sinn.
Það sem er feitletrað var viðbótin sem ungarnir áttu að klára sig af.
ONE CANNOT LOVE AND BE WISE
Hér eru nokkrar tillögur unganna:
ONE CANNOT LOVE AND DO HIS JOB RIGHT
ONE CANNOT LOVE AND BE LOVED
ONE CANNOT LOVE AND NOT LOVE IN RETURN
ONE CANNOT LOVE AND PLAY A VIDEO GAME

LOVE LAUGHS AT LOCKSMITHS
.. og tillögurnar:
LOVE LAUGHS AT ITSELF
LOVE LAUGHS AT WALLS
LOVE LAUGHS AT LOVELESS FOOLS
LOVE LAUGHS AT POVERTY
LOVE LAUGHS AT REASON
BAD NEWS TRAVELS FAST
... niðurstaða:
BAD NEWS IS GOOD NEWS
BAD NEWS IS FOR THE WEAK
BAD NEWS IS ANY NEWS
BAD NEWS IS BETTER THAN BAD THINGS
ALL'S WELL THAT ENDS WELL
...tvö dæmi
ALL'S WELL WITH A FULL STOMACH
ALL'S WELL IN LOVE AND WAR
A HUNGRY MAN IS AN ANGRY MAN
.... varð að:
A MARRIED MAN IS AN ANGRY MAN

og loks
A DEAF HUSBAND AND A BLIND WIFE ARE ALWAYS A HAPPY COUPLE
... þessi komst að eftirfarandi:
A DUMB COUPLE ARE ALWAYS A HAPPY COUPLE


Ekki verða málshættir í magann settir.

08 maí, 2008

Ekki minna en forsíðumynd


Þá tókst það loksins. Í morgun birtist mynd eftir mig sjálfan á forsíðu 24 stunda
Reyndar er það ekki sú sem hér má sjá, en af sama toga.
Það var árlegur vatnsslagur hér á Laugarvatni í gær og ef ekki er líf og fjör þá, er slíks ekki að vænta yfirleitt. Fyrir þá sem vilja sjá meira af myndum af þessum viðburði bendi ég á þessa slóð.

04 maí, 2008

Ekki tími fyrir neina leti eða pælingar

Hann segir það fyrir sunnan og hinumegin, að bloggskriftirnar snúist um að láta vita af því að þau hjónaleysin séu enn lífs og vissulega er það alltaf léttir þegar þessar tilkynningar koma með tiltölulega reglulegu millibili.
Það má eiginlega það sama segja af þeim sem hér lemur á lyklana; þessi tími er ekki góður til að velta umfjöllun um hinstu rök tilverunnar yfir mögulega lesendur. Vonandi fer staða mála heldur að skána upp úr næstu helgi, en mestu prófatörninni lýkur þann 15. maí.
Prófagerð, prófayfirferð og prófaskipulag á hug minn allan, auk þess sem fermingavertíðin er í hámarki og við vorum búin að taka að okkur að koma þar nokkuð að söng, þennan og næstu 2 sunnudaga. Við erum sem sagt núna nýkomin úr þeirri fyrstu í lotunni.
Þar fregnuðum við að Inga frá Kjarnholtum hafi látist í gær, svo fyrir þá sem til hennar þekktu.

Ég geri mér grein fyrir því, að einhverjum hafi þótt nóg um þegar síðasti hluti þjóðfélags á hverfanda hveli birtist, en ég lofa því að þeim þáttum er lokið í bili, að minnsta kosti. Ekki það að ég hafi ekki nóg um það málefni að segja, heldur þarf að að búa til um það skýrari hugsun áður en lengra er haldið.

Einn áhugasamur lesandi heillaðist af skrifunum, en átti í einhverju braski með að koma heillun sinni á framfæri og sendi mér því kveðskap ásamt því að biðja um leiðbeiningar. Ég læt kveðskapinn fylgja hér með í þeirri von að birtingin hafi ekki eftirköst.

Undir rappi:
Ekki kemst ég inn á blogg
aldrei fæ þar brýna gogg
nema fái að nýta mér
náðartakka bloggs hjá þér.

Lagboði:
Ó, hve dýrslegt er að sjá.
Finni ég ekki frið á ný
finnst mér rétt að gleyma því
að ég bloggið barði augum
býsna hress þá varð á taugum
Undarlega indælt var
allt sem skrifað sá ég þar
allt
Ef HÁ gerir engar athugasemdir mun ég birta höfundinn fullu nafni innan skamms, enda kveðskapurinn hreint ekki vondur.

Ekki er alltaf andinn með í för.

01 maí, 2008

Þjóðfélag á hverfanda hveli (3)

Enn hef ég ákveðið að birta hér óbirta, og reyndar ókláraða grein sem ég lamdi inn í tölvuna fyrir 4 árum, þegar ég var í einhverju svartsýniskasti. Ég var að freista þess að skilgreina hvernig stóð á því að heimurinn var eins og hann var. Ég lauk sem sagt ekki þessari grein - kannski vegna þess að ég komst að því í gegnum pælingarnar, að umræða af þessu tagi getur ekki verið einföld; það eru svo ótalmargir þættir sem orsaka það að hlutirnir eru eins og þeir eru.
Hérna fylgir síðasti hluti umræddrarar greinar. Mér þykir við hæfi að velja 1. maí til þessarar birtingar þar sem það er dagur baráttu hins óskilgreinda verkalýðs fyrir betri kjörum. Á þessum degi fjargviðrast menn oft yfir heimsósómanum og telja fram það sem betur má fara. Þetta er af þeim toga og kallar kannski fram einhver viðbrögð.
Ef ég verð síðar þannig stemmdur að mér finnst ástæða til að halda áfram með umfjöllunina, þá geri ég það, að sjálfsögðu.
Atvinnuþátttaka kvenna
Atvinnuþátttaka kvenna hlýtur að hafa átt þátt í því að möguleikar unglinganna á að fara að vinna strax að loknum grunnskóla, minnkuðu. Á svipuðum tíma fjölgaði framhaldsskólum og þeirri hugsun óx fiskur um hrygg að allir ættu að fá tækifæri til menntunar. Þessi þróun öll saman er auðvitað góðra gjalda verð. Hún hefur hinsvegar haft í för með sér ýmislegt sem huga hefði þurft að í upphafi, svona eftir á að hyggja.

Eitt meginhlutverk konunnar gegnum árhundruðin var að ala önn fyrir börnunum, hvaða skoðanir sem fólk vill síðan hafa á því. Þegar konur fóru síðan í stórauknum mæli að afla sér menntunar og taka þátt í atvinnulífinu var ekki óeðlilegt í ljósi sögunnar, að þær leituðu í menntun og störf sem snúa að uppeldi og umönnun barna. Það voru konur sem tóku að sér umönnun barna þeirra fjölskyldna þar sem báðir foreldrar stunduðu atvinnu utan heimilis. Sókn kvenna hófst fljótlega einnig inn í grunnskólana. Á upphafsárum þessarar þróunar, þegar þessi mikli fjöldi kvenna streymdi út á vinnumarkaðinn, var það áfram svo að karlinn á heimilinu var fyrirvinnan, tekjur konunnar voru ekki endilega grundvallaratriði í afkomu fjölskyldunnar. Þetta gilti ekki síst í þeim tilvikum sem konur urðu kennarar. Eftir því sem konum fjölgaði í kennarastétt versnuðu kjör kennara. Karlarnir urðu að leita á önnur mið og kvenkennarar fylltu grunnskólana. Staðan þar nú er sú, að konur sinna yfirgnæfandi meirihluta þeirra starfa sem þar eru í boði. Það er með öðrum orðum komin upp sú staða, að afar stór hluti þeirra barna, sem farið hafa í gegnum grunnskóla á undanförnum 10-15 árum hefur aldrei haft karlkyns kennara. Í beinu framhaldi af kvennavæðingu grunnskólanna hefur það sama átt sér stað í framhaldsskólum landsins.

Þetta gerist á sama tíma og hjónaskilnuðum hefur farið fjölgandi og við slíkar aðstæður fær móðirin í flestum tilvikum forræðið yfir börnunum. Þetta hefur haft það í för með að umtalsverður hluti drengja hefur aldrei haft venjulega karlkyns fyrirmynd. Þetta gerist á sama tíma og videóvæðingin og upplýsingatæknin ryðja sér til rúms, og það er þá væntanlega þangað sem drengirnir leita sér karlímynda. Efnið sem þeir hafa leitað í er í flestum tilvikum hasarkennt eða íþróttatengt og þar birtast því oftar en ekki ýktar myndir af karlmanninum sem eru ekki raunhæfar sem sannar fyrirmyndir fyrir unga drengi í leit að sjálfum sér. Það sama má reyndar segja um ungar stúlkur. Þeirra upplifun af karlmennskuímyndinni hlýtur í mörgum tilvikum að vera afar fjarskakennd.
Það má fullyrða að þeir tímar sem uppi eru núna einkennist all mikið af kreppu karlmannsins í samfélaginu. Hér fylgja nokkrar mögulegar ástæður þess:

Það má ímynda sér að hið kvenlæga uppeldi í gegnum skólakerfið sé að verða til þess að piltar finna sig ekki innan þess. Í þeim blundar karlmennskan, en þeir eiga í erfiðleikum með að höndla hana í heimi konunnar. Hún brýst því fram í ýmsu formi, oftast fremur neikvæðu í garð náms. Kvenlegar áherslur í skólastarfinu virðast henta stúlkum betur og þær eru í síauknum mæli að blómstra innan þess, sem endurspeglast með skýrum hætti í umtalsverðum meirihluta þeirra í framhalds- og háskólum. Með sama hætti eru skilaboðin til piltanna í skólakerfinu þau að þeir séu til vandræða, sem má vel ímynda sér að hægt sé að rekja til þess að nútímaskólinn henti ekki eðlislægum eiginleikum karla.
Sú mynd sem birtist af karlmanninum í samfélaginu er í auknum mæli sú, að hann undiroki konur, misþyrmi þeim, nauðgi þeim, haldi þeim frá því að fá að njóta sín í mikilvægum stjórnunarstöðum í samfélaginu.

Það má segja að upplifun pilta af hlutverki sínu einkennist af ákveðnum vanmætti, eða uppgjöf gagnvart kvenlegu uppeldi skólakerfisins. Þeir upplifa sig stöðugt meira í vörn gagnvart hinum kvenlegu gildum sem eru allsráðandi í öllu þeirra uppeldi. Þeir upplifa sig æ oftar sem tapara eftir meðferð skólakerfisins.
....... hér var svo komið að ég fann ekki rétta tóninn fyrir framhaldið. Þegar skrifin hófust þá bar greinin vinnuheitið: AUMINGJAVÆÐINGIN, og markmiðið var að fjalla um það að nútímaforeldrar, margir hverjir ganga afar langt í að gera börnin sína að aumingjum: "Æi, greyið þú ert ert svo veik(ur) að þú ættir ekkert að fara í skólann í dag." (þó ekki sé nokkur skapaður hlutur að krakkanum). En greinin leiddist síðan yfir í það sem hér hefur birst í þrem hlutum undir heitinu Þjóðfélag á hverfanda hveli. Umfjöllun um aumingjavæðinguna, sem er vissulega afsprengi breyttra þjóðfélagshátta, bíður enn.

27 apríl, 2008

Hinn dulúðugi heimur hestamannsins


Í gær, þegar ég sat sveittur við próf það sem fjallað hefur verið um áður, fékk ég, aldrei þessu vant, send smáskilaboð (SMS) frá ónefndum sendanda, sem hljóðaði svo:

Ef þú ferð að mynda, taktu þá mynd af þeim rauðnösótta í útiganginum :).

Til að skilja þessa sendingu þarf, gótt fólk að búa yfir ýmiss konar þekkingu. Í fyrsta lagi hvaða merkingu ber að leggja í hugtakið 'rauðnösóttur'. Nú, ég fór í íslenska orðabók og fann þar eftirfarandi skýringu á orðinu 'nösóttur': (um hesta) með hvítan blett á flipanum. Þetta dugir eflaust ekki öllum, þannig að ég sló upp orðinu 'flipi' í sömu orðabók: vör á hesti - ergó: hér var um að ræða hest sem var með hvítan blett á vörinni. Þá fer skýringin að nálgast, en enn var þó eftir að átta sig á því hvað það er að vera 'rauðnösóttur' - er það kannski að vera með rauðan blett á vörinni? - hálfgerður jólasveinn, sem sagt.
Í öðru lagi þarf að átta sig á hvað 'útigangur' er í þessu samhengi. Orðið felur það einhvernveginn í sér merkinguna: einhver sem gengur úti. Orðabókin: vetrarbeit húsdýra.
Sem sagt óskin sem ég fékk senda í SMS hljóðaði upp á að taka mynd af hesti með rauðan blett á vörinni sem var í vetrarbeit (þó það sé komið sumar), með öðrum orðum, utandyra.
Jæja, ég er greiðvikinn maður, nýbúinn að ganga í gegnum svakalega þolraun, og tilbúinn til að skella mér út að ganga með myndavélina góðu. Þetta gerði ég nú eftir hádegið. Þar sem ég hafði hugmynd um hver hefði sent umrætt SMS, grunaði mig hvar í veröldinni þann rauðnösótta væri að finna: á sama stað og sá moldótti og ísbjörninn voru í síðustu myndatökuferð. Þangað var ferðinni heitið. Sá rauðnösótti átti samkvæmt skilgreiningu að vera á vetrarbeit, en þegar á staðinn var komið, var meint vetrarbeit auð og tóm. Ég lét þetta ekki aftra mér, heldur athugaði hvort þetta hefði kannski verið rangtúlkað hjá mér: þarna hefði átt að vera um innigang að ræða, en ekki útigang. Því fór ég inn í fjósið þar sem ég hafði hugmynd um að þann rauðnösótta gæti verið að finna, og sjá - þarna var allavega slatti af hrossum. Ég myndaði í gríð og erg í þeirra von að ég gæti fundið út þegar heim væri komið hver sá rauðnösótti væri.
Það gerði ég: sá rauðnösótti er á myndinni sem hér fylgir, og það passar: hann er með rauðan blett á vörinni.

Reifur er rauðnösóttur hestur.
-myndina hér að ofan má stækka með því að smella á hana - held ég

26 apríl, 2008

Kva, þetta er nú lítið mál!

Fyrirsögnin dregur eiginlega saman í nokkur orð hugsanir mínar í aðdraganda að svokölluðu heimaprófi í stjórnsýslurétti sem ég er nú nýbúinn að skila af mér. Ástæður þessarar bjartsýni voru aðallega eftirfarandi:
1. Það var ekkert óskaplega efnismikið námsefni í blaðsíðum talið sem lá til grundvallar. Aðallega upplýsingalög, stjórnsýslulög, bók um starfsskilyrði stjórnvalda og grein um valdmörk stjórnvalda. Sem sagt ekkert óyfirstíganlegt þar.
2. Ég var búinn að renna í gegnum þetta efni, hlusta á alla fyrirlestra og skrá hjá mér feiknin öll af glósum.
3. Kennari á námskeiðinu margsagði nemendum að lengd prófsins miðaðist við að hægt væri á leysa það á 3 klst., en við fengjum átta og hálfan tíma til að afgreiða málið.
KVA, ÞETTA ER NÚ LÍTIÐ MÁL
hugsaði ég í gær og fyrradag og í morgun klukkan að verða átta þegar ég hóf þennan merkisdag með því að koma mér fram úr. Þetta hugsaði ég líka í þann mund er ég opnaði póstinn minn í rólegheitum kl. 8.36, til að nálgast verkefnið, sem sent hafði verið í viðhengi kl 8.30. Maður varð nú að njóta staðgóðs morgunverðar áður en verkið hæfist!
Viðhengið var opnað og við blöstu 7 álitamál sem biðu úrlausnar minnar. Lítið mál. Ég byrjaði á að dunda mér við að setja upp haus á blaðsíðurnar og blaðsíðutal. Allt var þetta í rólegheitum, að sjálfsögðu. Svo hóf ég að skoða verkefnin nánar. Þetta virtist nú ekki vera svo voðalegt, enda hafði ég 8 tíma til að ljúka verkinu. Um hádegi, 3 tímum seinna, var ég búinn með tvö af þessum verkefnum. Hugsanirnar voru orðnar öðruvísi en fyrr. Ég hafði að vísu tekið mér stutt hlé tiltölulega snemma þegar frú Ásta kíkti í heimsókn með moggann, en það var ekkert umtalsvert.
Um klukkan eitt þótti mér orðið ljóst að mér yrði ekki stætt á öðru en draga úr kröfum mínum til rökstuðnings með hverju einasta atriði í hverju einasta verkefni. Kennarinn hafði nefnilega lagt gífurlega áherslu á það hve óhemju mikilvægt væri við úrlausnina, að telja fram hið augljósa, rökstyðja það t.d. hversvegna sveitarfélag teldist vera stjórnvald og á hvaða lögum og lagagreinum það byggðist. Nei, nú var svo komið að ég ákvað að hætta að gera svo miklar kröfur til sjálfs mín, þar sem ég varð að velja á milli þess að komast í gegnum verkefnin sjö og þess að sleppa endurtekningu augljósra smáatriða. Klukkan tifaði - ekkert stöðvar tímans þunga nið - sem olli því þegar klukkan var farin að ganga fjögur, að niðurinn í blóðflæði um líkamann vegna aukinnar innspýtingar adrenalíns var farin að valda nokkrum sjóntruflunum og svima. Þá nálgaðist ég meir og meir sykurfall þar sem ég taldi mig ekki hafa tíma til að nærast. Áfram mjakaðist verkið þó - með stöðugt minni kröfum um nákvæmni, og stöðugt styttri tíma til stefnu. Þá gerðist nokkuð sem ég hafði síst átt von á. Þannig er, að aðgangur að lagasafninu á www.althingi.is er nauðsynlegur við próf af þessu tagi, því ákvæði ýmissa laga koma til skoðunar. Mig vantaði tilteknar upplysingar úr sveitarstjórnarlögum og hugðist því skella mér á netið enn einu sinni til að finna svörin, en þá kom bara tilkynning um að ekkert netsamband væri fyrir hendi. Ég fór í gegnum helstu atriði sem ég kunni til að ráða bót á slíku smátriði, en án árangurs. NO NETWORK AVAILABLE. Við þessar aðstæður voru svartir deplar farnir að trufla sjónina. Ég endurræsti tölvuna og þagði náttúrulega ekki yfir þessu við frúna, sem var eitthvað að dunda sér við að lesa blöðin. Skömmu síðar heyri ég í gegnum blóðþrýstinginn: 'Það er allt í lagi með sambandið hjá mér'. Gat það átt sér stað, að á meðan splunkunýr og fullkominn Dellinn minn klikkaði á netsambandi, þá næði IBMinn í gegn eins og ekkert væri? Á þessu augnabliki var ekki tími til að velta sér upp úr því, heldur var stoltinu kyngt í snarhasti með blóðbragðinu og IBMinn fluttur á borðið við hliðina á Dellinum. Samband náðist og umræddar upplýsingar um sveitarstjórnarlög fundust. Þarna hafði hinsvegar tapast dýrmætur tími og óafturkræfur. Enn voru minnkaðar kröfurnar, ekki síst þar sem fyrir lá að ég þurfti að senda prófúrlausnina sem pdf skjal, sem kostaði netsamband við www.media-convert.com . Ég yrði þessvegna að vera búinn með prófið sjálft ekki seinna en 16.30 til að vera viss um að hafa tíma til að umbreyta skjalinu. Síðasta verkefnið sem hljóðaði upp á heil 18% varð af þessum sökum nokkuð snubbótt. Hvað um það - þarna varð að fórna hagsmunum. Þar sem ekkert samband var úr Dellinum varð ég að setja úrlausnina á kubb og flytja þannig yfir á IBMinn - þá kom auðvitað í ljós að skjalið úr Dellinum var docx, en IBMinn skildi ekki nema doc - þess vegna varð ég að fara aftur í Dellinn og vista skjalið þar sem doc og vista það svo aftur á kubbinn og flytja þannig í IBMinn og senda það þaðan til www.media-convert.com og láta umbreyta því í pdf. Á þessu stigi nálgaðist klukkan lokafrestinn afar hratt. Æðaslátturinn var orðinn meiri en svo að við yrði unað til lengdar. IBMinn sendi skjalið og IBMinn tók við skjalinu - vandalaust. Ég fann í flýti netföngin tvö sem úrlausnin skyldi send á, opnaði vefpóstinn og sló þau inn ásamt því að hengja úrlausnina við sem viðhengi. SVO ÝTTI ÉG Á SEND. Pósturinn fór og nokkrum mínútum síðar kom kvittun fyrir móttöku, en það mátti ekki tæpara standa. Þarna reyndist ekki um neinn létti að ræða þar sem mér þykir ljóst að afgreiðsla mín á síðustu þrem til fjórum verkefnunum hafi ekki verið með fullnægjandi hætti, en hvað um það.
Í útfallinu fór ég að athuga nánar með netsambandið á Dellinum. Krafðist meðal annars svara af menntaskólanemandum á bænum. Hann kvað sig hafa heyrt, að á sumum tölvum væri hægt að slökkva á netinu með einum takka. Leit á Dellinn og fann takka. Smellti honum til hliðar og......netsambandið datt inn. Svo djúpar höfðu hugsanir mínar verið, að ég hafði óviljandi farið að hreyfa til takka á hliðinni á blessuðum Dellinum.
Lokið er prófi í stjórnsýslurétti - megi ég ná því!

Próf eru púl hið mesta.

24 apríl, 2008

Í tilefni sumardagsins fyrsta


Tvær kerlingar voru að spjalla saman.
"Mikið er nú blessuð mjólkin góð."
"Ó, já. Það er nú ekki skrýtið, enda var Jesús skírður upp úr henni."
"Ekki aldeilis, heillin mín. Hann var nú skírður upp úr ánni Fjórtán!"

(SkM, 240408)

Nokkrar sumardagsmyndir

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...