31 mars, 2009

Mýs í Skálholtsdómkirkju

Nei, það er engin dulin merking í fyrirsögninni.

Á þessum nístandi kalda síðasta marsdegi átti ég því láni að fagna, að vera leiðsögumaður 17 menntaskólanema frá HCAGymnasium í Þýskalandi, um hluta uppsveita Árnessýslu. Þarna voru skoðaðir og/eða sóttir heim, staðir eins og Geysir og Gullfoss (varla undarlegt), Jörfi á Flúðum og Hlemmiskeið í Skeið og Gnúp.


Eftir að hafa ekið tignarlega, undir leiðsögn minni um Laugarás var ekkert eftir nema Skálholt, en þar sagði sr. Egill fólkinu ágætlega frá staðnum og sögunni.


Það sem var hinsvegar ekki eins og mér fannst það ætti að vera, var, að þegar útidyrnar voru opnaðar, trítlaði mús í rólegheitum um anddyrið og kom sér síðan fyrir á bakvið ruslafötu. Fólkið var svo sem ekkert að láta þetta á sig fá og gekk inn í kirkjuna, þar sem það hlustaði fyrst á mig, eðlilega, og síðan á sr. Egil, eins og áður segir.


Meðan prestur talaði fór skyndilega kliður um hópinn, en ekkert meira. Ástæðan reyndist vera önnur mús sem trítlaði í rólegheitum fram og aftur í kórnum, stoppaði við og við og hnusaði af gólfinu og/eða maulaði á einhverjum molum sem þar var að finna. Sr. Egill lét sér í engu bregða við þessa stöðu mála, blessaði músina, og hélt erindi sínu áfram. Svo fór, að þegar músin gerði sig líklega til að fara að spígspora milli fóta áheyrenda, tók Pálmi (Hilmarsson, bílstjóri og samleiðsögumaður í ferðinni) á það ráð að stjaka henni frá og kom hún sér þá uppi undir ofni í kórnum.

Þetta var bara allt ágætt. Þarna eru kirkjumýsnar sjálfsagt enn og verða þar til einhverjir kirkjugestir sætta sig ekki við þá stöðu mála.











27 mars, 2009

Afsakið.....

... sagði þjófurinn sem braust inn í íbúðina í Breiðholtinu, braut allt og bramlaði og stal öllu steini léttara. 
... sagði ofbeldismaðurinn sem hafði höfuðkúpubrotið fórnarlamb sitt.
... sagði sauðdrukkinn ökumaðurinn eftir að hann hafði ekið yfir heila fjölskyldu með þeim afleiðingum, að tveir náu sér aldrei.
... sagði kennarinn, þegar kom í ljós, að hann hafði kennt nemendum sínum að Ólafur Ragnar Grímsson væri fyrsti forseti Íslands.
... sagði nauðgarinn sem hafði eyðlagt líf 5 kvenna.
... sagði fíkniefnasalinn sem bar ábyrgð á því að hafa rústað lífi fjölda ungmenna.

A     F     S     A     K     I     Р

25 mars, 2009

Hvernig velur maður? (3)

Fjórflokkurinn þarf ekki endilega að vera það eina sem valið stendur um í komandi kosningum. Þessum hluta er ætlað að varpa nokkru ljósi á jákvæðar hliðar þess að kjósa aðra flokka, framboð eða lista. Enn sem komið er hafa komið fram 2 framboð/listar til viðbótar, (mér vitanlega (ekki veit ég þó alla hluti)) sem hyggjast bjóða fram í öllum kjördæmum. Það er örugglega hægt að sjá ýmislegt jákvætt við að kjósa þau.

Það var haft á orði í mín eyru, í framhaldi af jákvæðni minni í garð fjórflokksins, að ég muni ætla að kjósa þá alla. Mér er ljúft og skylt að greina, í því sambandi, frá því, að ég mun kjósa einn flokk, framboð eða lista, utankjörfundar. Ég er hinsvegar óvenjulega víðsýnn maður, sem hef þann merkilega hæfileika, að geta sett mig nokkuð vel inn í hugarheim allra - eða í það minnsta flestra. Það er þess vegna sem ég treysti mér til að setja mig í spor hins venjulega Íslendings, eins og hér er raunin.

Hinn venjulegi Íslendingur fylgist með fréttum daglega og les dagblöð og héraðsfréttablöð það sæmilega, að hann skannar fyrirsagnir pólitískra greina. (hverjum dettur í hug, að það sé einhver umtalsverður fjöldi fólks sem les alla þá býsn sem í boði er, og sem viðkomandi skrifari telur  jafngilda einhverju stórfenglegu afreki sem fjöldinn bíður eftir að fá að lesa? Ég verð að viðurkenna að ég þekki einn - hann er gamall unglingur sem notar stækkunargler við lesturinn.
Greinaskrif í blöð hafa afskaplega takmarkað gildi, því miður.

Á þessum góða degi hef ég ákveðið að greina frá jákvæðum ástæðum fyrir því að kjósa einn flokk og einn lista.


FRJÁLSLYNDI FLOKKURINN (F)
1. Ég vil breyta kvótakerfi í sjávarútvegi í grundvallaratriðum. 
2. Kallinn í brúnni virkar vel á mig, hann er vestfirkt hörkutól og einhvern veginn ímynd Íslendingsins sem blundar í okkur öllum.
3. Mér finnst að fjórflokkurinn og fjölmiðlar hafi farið illa með flokkinn með því að hunsa hann gjörsamlega. Þessvegna vil ég styðja hann.
4. Það hafa sumir viljað kalla mig 'kverúlant', sem ég er auðvitað ekki, en vissulega veit ég hvað þjóðinni er fyrir bestu í öllum málum.
5. Ég hef ákveðnar efasemdir um að það sé rétt að fólk, hvaðan sem er í heiminum, setjist hér að og hljóti sömu réttindi og vel ættaðir Íslendingar.
6. Eins og alltaf, þá höfðar lítilmagninn til mín og, því miður, hefur flokkurinn lent í nokkrum hremmingum í kosningabaráttunni. Það er mér næg ástæða í sjálfu sér, fyrir því að ljá honum atkvæði mitt.


L-LISTINN (L)
1. Ég vil endurreisn í íslenskum stjórnmálum og efnahag.
2. Ég vil varðveita fullveldi Íslands og hafna þessvegna hugmyndum um að leita eftir viðræðum um hugsanlega aðild Íslands að ES, hvað þá sækja um!
3. Ég er sammála þessum orðum eins samstuðningsmanns míns:"Það blása  ferskir og hressandi vindar úr nösum foringjans og liðsmenn virðast merktir velvilja, heiðarleika og heilbrigðri almennri skynsemi: engin glýja í augum; ekkert stórkallaraus um aðra. Aðeins vilji til að taka þátt í að reisa okkur við - með okkur.
4. Foringinn er, hvorki meira né minna, Tungnamaður, sem nægir mér til að styðja hann heilshugar. Annar, prestvígður forystumaður listans, er einnig fyrrverandi Tungnamaður og enn Tungnamaður í hjarta, og því réttur maður á réttum stað.
5. Þó svo foringinn hafi talið útrás vera sterkan leik og boðið sjálfan sig fram í höfuðborginni (5% jú nó) þá tel ég, að andi hans svífi svo kröftuglega enn yfir vötnunum í Suðurkjördæmi, að það sé ekki nema sjálfsagt mál að styðja listann. Hofsóski frambjóðandinn í fyrsta sæti lofar góðu.
6. Ekki dregur það úr spenningi mínum fyrir þessum lista, að mér hefur borist njósn af því, að annar og jafnvel aðrir Tungnamenn muni prýða listann, meira að segja mun hann/annar þeirra vera nær en margur hyggur.
7. (Ég sagðist í upphafi geta átt það til að bæta viðbótarástæðu inn) Það er mér mikið ánægju- og fagnaðarefni, að verðandi þingmenn listans verða ekki bundnir af neinu sérstöku (nema þessu með Evrópusambandið). Það getur orðið skemmtilegt.


Nú hef ég talið fram jákvæðar ástæður þess að kjósa 6 flokka, framboð, eða lista. Vissulega veit ég um fleiri aðila sem eru að velta því fyrir sér að bjóða fram í öllum kjördæmum, en mun bíða með umfjöllun um þá/þau þar til eitthvað bitastæðara liggur fyrir í formi fyrirsagna í dagblöðum og skyldutilkynninga í ljósvakafjölmiðlum.

Það er svo, að ég fór fram á það við lesendur, að þeir bættu við fleiri jákvæðum ástæðum fyrir því að kjósa tiltekna flokka/framboð/lista, en ekkert efni hefur borist utan eitt 'komment', sem kom fyrirfram og sem ég hef sannarlega nýtt mér.  Enn gefst lesendum færi á að tjá sig, nema þeir séu bara svona sáttir við úttektina, - eða svo ósáttir, að þeir treysta sér ekki til að koma fram með málefnalegar tillögur.

Þetta verður að koma í ljós.


22 mars, 2009

Hvernig velur maður? (2)

Nú er það orðið ljóst að VIÐ vinnum Eista með yfirburðum og þessvegna lítil spenna og af þeim sökum hægt að halda áfram að velta fyrir sér jákvæðum ástæðum til að kjósa flokkana sem okkur standa til boða í komandi kosningum. Ég er, sem sagt, búinn með tvo, en nú koma hinir tveir fjórflokkanna.


VINSTRI HREYFINGIN, GRÆNT FRAMBOÐ (V)
(ég nennti ekki að minnka merkið til samræmis)
1. Í mikilli sókn og ber örugglega ekki ábyrgð á stöðu þjóðarinnar, enda ekki setið í ríkisstjórn frá því flokkurinn var stofnaður (nema undanfarnar vikur).
2. Hefur verið að sýna hvers hann er megnugur og fyrir hvað hann stendur, á síðustu vikum.
3. Formaðurinn hefur óskoraðan stuðning í flokknum og lofar að víkja áður en fólk verður leitt á honum.
4. Hefur skýra stefnu í flestum málum - maður veit hvað maður hefur hann, ennþá. 
5. Ég er vinstrisinnaður og var meira að segja í Alþýðubandalaginu.
6. Ég er ánægður með að þetta er hugsjónaflokkur frekar en hagsmuna.
7. Einn núverandi þingmanna, sem hefur alltaf verið orsök þess að ég hef ekki getað kosið flokkinn, náði ekki mögulegu þingsæti í forvali.

FRAMSÓKNARFLOKKURINN (B)
1. Lítilmagninn sem langar að rísa úr öskustónni. Ég styð lítilmagnann.
2. Ný forystusveit sem lætur í það minnsta í það skína, að hér sé nýr flokkur á ferð.
3. Þekkt andlit nýs formanns sem leggur mikið á sig til að skapa sér stöðu innan flokksins og út á við einnig.
4. Ég er miðjumaður í pólitík og ánægður með að flokkurinn hefur ekki vikið frá því aðalsmerki sínu að vera til í allt (opinn í báða enda).
5. Mér finnst gott að geta aftur viðurkennt að ég sé Framsóknarmaður. Ég er búinn að hafa hljótt um það of lengi.
6. Ég treysti því að kafbátarnir sem hafa stýrt flokknum bak við tjöldin hafi endanlega fengið vota gröf.
7. Af því að ég er í Suðurkjördæmi verð ég að lýsa ánægju minni með nýja manninn í fyrsta sæti, sem ég hélt alltaf að væri Sjálfstæðismaður, jafnvel þó að hann sé Hreppamaður.


Þá er fjórflokkurinn afgreiddur. Ég vona að lesendur verði nægilega upprifnir til að leggja til fleiri jákvæða þætti til að  hjálpa okkur, hinum almennu kjósendum að taka afstöðu.

Framundan er að gera jákvæða úttekt á öðrum flokkum og framboðum.

Hvernig velur maður? (1)




Ætli ég sé ekki í hópi venjulegra Íslendinga sem fá tækifæri til að nota þann stjórnarskrárbundna rétt sinn, að kjósa til Alþingis þann 26. apríl, n.k.

Í mínum huga er þetta nánast helgur réttur, sem fólki ber skylda til að umgangast af mikilli ábyrgð.

Nú ætla ég að vera ábyrgi kjósandinn, sem byrjar á að leita þess jákvæða í öllum hlutum. Orðinn hundleiður á kreppukjaftæðinu.

Við vitum að fjórflokkurinn, svokallaði, mun bjóða fram í kosningunum.
Hvers vegna ætti ég að kjósa þá flokka sem þarna er að finna? Hér mun ég reyna að ímynda mér 6 ástæður fyrir því að kjósa einhvern fjórflokkanna (kannski jafnvel aukaástæður líka)


SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN (D)
1. Hann er stór, svona eins og Manchester United, og vinnur oftast. Það er best að styðja þá stóru.
2. Hann er að endurreisa sig og ég reikna með að hann biðjist afsökunar á mannlegum mistökum sem leiddu þjóðina þangað sem hún er núna, og taki nýja stefnu fyrir íslenska þjóð.
3. Það er vel ættaður og vel látinn formaður að taka við flokknum.
4. Ég hef alltaf kosið flokkinn (hef jafnvel fengið starf þess vegna) og það gerðu foreldrar mínir líka. Ég er hægrisinnaður.
5. Merki flokksins felur í sér ótrúlega orku, sem litur hans endurspeglar svo fallega.
6. Þetta er flokkur mesta stjórnmálaleiðtoga 20. aldarinnar, og ég er viss um að andi hans fær áfram að svífa yfir vötnunum.
7. Þar sem ég er í Suðurkjördæmi, er ég afar ánægður með hinn öfluga mann fólksins, sem er í 2. sæti listans.

SAMFYLKINGIN (S)
1. Hann er stór, svona eins og Manchester United, og vinnur oftast. Það er best að styðja þá stóru.
2. Það er nýr formaður að taka við flokknum, sem nýtur óskoraðs trausts þjóðarinnar.
3. Flokkurinn vill að við göngum í Evrópusambandið.
4. Ég á langa sögu sem krati og kann vel við flokk sem er ekki beinlínis vinstra megin eða hægra megin.
5. Ég laðast að svona flokki sem maður veit ekki alveg hvar stendur, því það gefur betra færi á að bregðast við nýjum aðstæðum, til hagsbóta fyrir íslenska þjóð.
6. Merkið og nafnið höfða mjög til mín. 

Þar sem það er erfiðara en leit út í upphafi að tína til jákvæðar ástæður venjulegs Íslendings, fyrir því að kjósa tiltekna stjórnmálaflokka, verð ég að efna til framhalds eftir handboltaleikinn.

21 mars, 2009

Þessi þekkist, að minnsta kosti


Hér með hef ég komist að því að forritið fína leysir ekki allan vanda, enda myndi þá útkoman teljast fremur ómerkileg. Þetta reyndist verða ríflega tveggja tíma vinna undir miður skemmtilegu sjónvarpsefni þetta kvöldið - eins og svo mörg önnur, reyndar.




Jæja, hver er þetta svo - til að halda því til haga?

Svo er hérna annar - svona aukageta.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...