31 mars, 2009

Mýs í Skálholtsdómkirkju

Nei, það er engin dulin merking í fyrirsögninni.

Á þessum nístandi kalda síðasta marsdegi átti ég því láni að fagna, að vera leiðsögumaður 17 menntaskólanema frá HCAGymnasium í Þýskalandi, um hluta uppsveita Árnessýslu. Þarna voru skoðaðir og/eða sóttir heim, staðir eins og Geysir og Gullfoss (varla undarlegt), Jörfi á Flúðum og Hlemmiskeið í Skeið og Gnúp.


Eftir að hafa ekið tignarlega, undir leiðsögn minni um Laugarás var ekkert eftir nema Skálholt, en þar sagði sr. Egill fólkinu ágætlega frá staðnum og sögunni.


Það sem var hinsvegar ekki eins og mér fannst það ætti að vera, var, að þegar útidyrnar voru opnaðar, trítlaði mús í rólegheitum um anddyrið og kom sér síðan fyrir á bakvið ruslafötu. Fólkið var svo sem ekkert að láta þetta á sig fá og gekk inn í kirkjuna, þar sem það hlustaði fyrst á mig, eðlilega, og síðan á sr. Egil, eins og áður segir.


Meðan prestur talaði fór skyndilega kliður um hópinn, en ekkert meira. Ástæðan reyndist vera önnur mús sem trítlaði í rólegheitum fram og aftur í kórnum, stoppaði við og við og hnusaði af gólfinu og/eða maulaði á einhverjum molum sem þar var að finna. Sr. Egill lét sér í engu bregða við þessa stöðu mála, blessaði músina, og hélt erindi sínu áfram. Svo fór, að þegar músin gerði sig líklega til að fara að spígspora milli fóta áheyrenda, tók Pálmi (Hilmarsson, bílstjóri og samleiðsögumaður í ferðinni) á það ráð að stjaka henni frá og kom hún sér þá uppi undir ofni í kórnum.

Þetta var bara allt ágætt. Þarna eru kirkjumýsnar sjálfsagt enn og verða þar til einhverjir kirkjugestir sætta sig ekki við þá stöðu mála.











3 ummæli:

  1. Himanmýs af helgri gerð
    hafa verið þar á ferð
    skutust um að skima víða
    skemmta sér við hópinn fríða
    - einnig leiðsögn undraflott
    og þá hrærðu snjáldr' og skott.


    Glöddust þrátt og geystust um
    glaðar yfir selskapnum ....o.sv frv. bara eins og hver vill

    Bloggskapur um mýs í Skálholtskirkju
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  2. Auðvitað átti þetta að vera HIMNAMÝS - en ég hygg nú frekar að lesendur þessa bloggs og athugasemda hafi áttað sig á því
    H. kv

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...