01 apríl, 2009

Enn af Skálholtsdómkirkju


Okkur varð ekki um sel í morgun þegar við héldum til vinnu, en leið okkar liggur framhjá Skálholtsstað. Þegar við komum í beygjuna fyrir utan Laugarás blasti Skálholtskirkja við okkur, eins og venjulega, tignarleg í vesturátt. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Ég snarhemlaði og stökk út úr bílnum meðan fD sat kyrr, steinilostin og hóf að fara með bænirnar sínar.
Sú sjón sem við blasti, skar í augun eins á und á helgum líkama.

Óknyttafólk virðist hafa tekið sig til og útatað kirkjuna í graffiti. Sem betur fer var ég með myndavélina með mér og tók mynd af ósköpunum. Hana má sjá hér langt fyrir neðan.
Eftir að hafa tekið góðan tíma í að ná áttum, ók ég af stað aftur með fD, enn í hálfgerðu losti við hlið mér, muldrandi guðsorð af ýmsu tagi. Við ákváðum að keyra heim að Skálholti til að kanna málið frekar, en þá tók hreint ekki betra við. Allur vesturgafl kirkjunnar var líka útataður í kroti, og auðvitað smellti ég einni mynd af óskundanum.
Það var enginn kominn á stjá á Skálholtsstað og ég ákvað að raska ekki ró manna þar, enda hefði það ekki breytt neinu úr því sem komið var.
Þegar við komum svo við á heimleiðinni voru mættir menn og byrjaðir að setja upp vinnupalla við báða gafla kirkjunnar.

Ja, svei.



V A R Ú Ð
Það er á þína ábyrgð ef þú flettir neðar.

-------------------------------------------------------
Breyting 2. apríl
Það er engin ástæða til að fletta neðar, þar sem myndirnar af kirkjunni hafa verið fjarlægðar. Ástæða þess er sú, augljóslega, að nú er ekki dagurinn sem var í gær.

Ég hálf vona að þeir hafi ekki verið margir sem sáu ósköpin.




1 ummæli:

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...