15 júní, 2009

Til að gefa fólki séns

Nú er ég búinn að skella inn nokkrum myndum frá ættarmóti afkomenda Elínar og Páls á Baugsstöðum. Ef einhver telur að sér vegið með þeim myndbirtingum sem þarna er að finna, bið ég hann hafa samband snarlega, á netf. pallsku@gmail.com. Ég mun þá snarlega fjarlægja viðkomandi mynd(ir). Trúið mér, margar voru verri en þessar. :)

Myndirnar eru HÉR

14 júní, 2009

Hvað gerðu Páll og Elín eiginlega?



Þetta meðal annars.
Þessi helgi fór nú að stórum hluta í að taka þátt í ættarmóti. Afkomendur þeirra Páls Guðmundssonar og Elínar Jóhannsdóttur komu saman á Baugsstöðum og í Laugarási.
Eins og búast mátti við, er fjarri því að allir þeir sem þarna áttu þátttökurétt hafi sé sér fært að taka þátt í allri dagskránni eða nokkrum hluta hennar yfirleitt. Það er ekkert við því að gera.
Ekki fjölyrði ég meira um það allt saman, en læt myndirnar tala.

Aðallega er ég nú að setja þetta hér fyrir þá Kvisthyltinga sem ekki gátu verið á staðnum.

Við Knarrarósvita var smalað í hópmynd.


Leggjamyndir voru síðan teknar um kvöldið á tjaldstæði Sólveigarstaðahjóna.

Guðný Pálsdóttir
var elsta barn Elínar og Páls sem þarna átti fulltrúa.
Elst barna hennar og Skúla, er Ásta
Hún er hér með sínu. Hún er 5. frá vinstri, fyrir þá sem ekki vita.

Önnur í röðinni er Sigrún, sem er þessi ljóshærða.


Sá þriðji er ég, auðvitað, en tel ekki nauðsynlegt að fjalla um það á mynd.
Sá fjórði er Benedikt, en hann var ekki viðstaddur myndatöku.
Sá fimmti er Magnús, en hann var ekki heldur viðstaddur myndatöku.


Siggeir Pálsson
var næst elsta barn Páls og Elínar.
Elsta barn hans og Unu Kristínar er Páll, sá í ljósa jakkanum.
Næst elst er Svanborg (Svana), sú í bláum jakka.
Þriða í röðinni er Elín (Ella). Hún er hér í rauðum jakka.
Fjórði í röðinni er Þórarinn. Hann var ekki viðstaddur myndatöku, en hér má sjá hans fólk.
Fimmta barnið er Guðný, sú rauðhærða.

Sigurður Pálsson
er þriðja barn Páls og Elínar sem lifði.

Hér er Ásta, sem er elst.

Þá er það Páll Georg, sem er annar frá hægri.


Þar með segi ég þetta gott.

13 júní, 2009

Mikilvægi Kvisthyltinga eða tómt rugl

Mikið hafði ég hugsað mér að taka góða tíma til að slaka á eftir utanlandsför. Sú hugsun var enn ofarlega í huga mér þegar ég tók upp tólið að morgni, daginn eftir heimkomu, og hringdi í byggingavöruverslun til að panta þó nokkurn slatta af 100mm PVC rörum. Sendinguna átti ég síðan von á að fá kannski undir helgi. Allt í góðu.
Ástæða símtalsins átti uppruna í þeirri miður skemmtilegu staðreynd, að frárennsli frá rotþró var stíflað, og var búið að vera svo um nokkra hríð. Það var með vondri samvisku sem Kvisthyltingar sinntu ýmsu því sem kallar á vatnsnotkun og frestur löngu útrunninn til að koma þessu í lag. (þið takið eftir, að ég minnist ekki á fD í því sambandi).
Nú fór ég í að tryggja mér einhvern þann sem gæti framkvæmt það lítilræði, sem þetta átti að kosta í vinnu. Ég hringdi í þrjá aðila - endaði, eftir ábendingar á Spóastaðabóndanum Þórarni, eftir að hafa tryggt aðgang að smágröfu Guðmundar á Iðu.
Þórarinn tók erindinu ljúflega, kvað hér vera um að ræða forgangsmál sem drífa þyrfti í - hann myndi koma seinnipartinn. Mér, sem hafði hlakkað verulega til að slaka á seinnipartinn, féll nánast allur ketill í eld, en lét á engu bera og fagnaði þessu, en grét innra með mér.

Ég kom heim úr vinnunni og skömmu síðar birtist Þórarinn með smágröfuna á kerru. Hann var ekki fyrr stiginn úr bíl sínum og búinn að taka gröfuna af kerrunni, en það varð sameiginleg niðurstaða okkar að hér væri um meira verk en svo að vitlegt væri að vinna það með svo veigalitlu tæki.

Það varð því úr að sótt var risabeltagrafa að Spóastöðum. Það var einmitt þá sem flutningbíllinn birtist, með 100mm PVC rörin sem ég hafði pantað um morguninn og ég sá sæng mína út breidda. Þórarinn vildi bara klára málið, grafan væri upptekin næstu daga í öðru. Eftir tölluverða leit fannst gamla lögnin og viðkomandi endar, í hverja ný lögnin skyldi tengjast. Flaumur mikill braust fram þegar koma að þeim stað þar sem stíflan ljóta var.

Nýju rörin voru síðan tengd við báða enda - varanleg lögn var komin - grafið yfir - búið.
Allt þetta ferli var með ólíkindum snaggaralegt hjá öllum viðkomandi. Pjúúúh.
Ég get ekki neitað því að eftir að allt var búið var mér létt. Nú gat ég farið að njóta þess að slaka á um stund, en það var nú ekki reyndin.......................

Berlín - Kjörfurstastræti og allt það

Ekki var kórsöngur eina ástæða ferðar Kvisthyltinga til Berlínar, því þar býr frumburður okkar ásamt konu sinni og frumburði þeirra, sem við höfðum ekki séð um nokkurra mánaða skeið. Það þarf náttúrulega ekkert að fjölyrða um það, en það er voðalega gaman að fara í svona heimsókn og sjá hvernig ungfrú Júlía stækkar og þroskast með ógnarhraða. 
Þá skemmdi engan veginn fyrir að Oslómaðurinn skellti sér yfir í helgarferð.



Þessi dvöl okkar í Kjörfurstastræti hafði þær afleiðingar að:
- nú þekkjum við afa- og ömmubarnið betur en áður - heilmikill grallari hér á ferð.
- við fengum afar góða hreyfingu í gönguferðum til og frá og milli lestarstöðva, tónleikastaða og dvalarstaðs.
- við þekkjum nú lestakerfi Berlínar, ofanjarðar jafnt sem neðanjarðar bara nokkuð vel.
- við tókum síður þátt í útúrsjóðandi gleðskap kórfélaga vítt og breitt um þessa söguþrungnu borg. Þótt gleðin hafi haft sína kosti þá var valið ekki erfitt. "Been there, done that" - eða þannig.

Mæðgurnar urðu okkur samferða til föðurlandsins og dvelja í skagfirskri sveitasælu meðan tenórinn undirbýr krefjandi hlutverk sitt í Wagneróperu.

Í Kjörfurstastræti að koma
var kannski það besta við allt.


12 júní, 2009

Berlín - kórhluti

Það hefur verið minnst á það hér áður, að framundan væri ferð félaga í fyrrverandi Skálholtskórnum til Berlínar til að halda tvenna tónleika.
Þessari ferð er nú lokið.
Hún gekk jafn vel ef ekki betur en vonir stóðu til. 
Það var gaman að taka þátt í þessu dæmi.
Maður er orðinn hálfgerður heimsborgari eftir að vera búinn að öðlast hagnýtan skilning á lestakerfi borgarinnar.
Ég lenti í samtali við þýskann innistæðueiganda á Edge reikningi sem vonaðist til að ná sambandi við sendiherra landsins á tónleikum okkar - en það kom bara enginn sendiherra. (Hann var að vísu á stóru tónleikunum)

Á tónleikunum í Gethsemanekirkjunni, á laugardagskvöldi með 100 manna þýskum kór, þar sem fluttar voru tvær krefjandi messur með 30 manna hljómsveit fyrir 1000 manns, stóðu hinir íslensku tenórar sig gríðarlega vel, en tveir þeirra reyndust hafa litla blöðru eða mikla sýniþörf. Þetta birtist þannig að í örstuttu hléi tóku þeir sig til og tróðust úr efstu röð í gegnum allan hópinn, til að komast á snyrtinguna, að eigin sögn, en kannski voru þeir bara að vekja athygli á sér. Þeir uppskáru að minnsta kosti nokkur klöpp þegar þeir birtust aftur, eins og hljómsveitarstjórar, eða einsöngvarar, rétt í þann mund þegar næsta atriði hófst. Hverjir þeirra 5 sem hér sjást, voru þeir?:

Já, getið nú.

Aðrir íslenskir kórfélagar stóðu sig einnig vel, að því ég held.
Eftir þessa tónleika var nokkurskonar mótttaka þar sem íslenskum sönglögum og uppákomum fjölgaði eftir því sem leið á kvöld og nótt. 
Sögur fóru daginn eftir af léttum og kátum hóp, sem síðan naut lífsins (eða frelsisins, frá einhverju sem var heima) og skemmti starfsfólki hótelsins og hvort öðru og sjálfu sér fram undir morgun. Það er í góðu lagi.

Seinni tónleikarnir voru okkar eigin, með íslenskri tónlist að mestu í Elias-Kuppelsaal á mánudagskvöldi. Ég viðurkenni, að ekki leist mér á raddlegt ástand sumra félaganna á síðustu æfingunni, en úr því rættist furðu vel.
Fullt hús þarna líka og frábærar móttökur. Við hjónakornin auðvitað ósköp stolt af syninum, tenórnum, sem stóð sannarlega fyrir sínu. Við öll vorum líka stolt af öðrum einsöngvurum sem þarna tróðu upp, stolt af þessu fínu hljóðfæraleikurum sem voru í för, stolt af okkur sjálfum fyrir flottan hljóm. 
Allt í þessu fína með það allt saman.

Þeir voru nokkrir sem lögðu á sig ómælda vinnu í undirbúningi og framkvæmd. Þeir vita hverjir þeir eru og ég veit það líka. Þakka þeim.

Ári var þetta ágæt ferð
ei verður lengi' um það rifist.
Játa það bara, jess ég verð
að jákvæður, hafi ég hrifist.

11 júní, 2009

Frá kvartsjúkum Laugarásbúa

Við getum öll verið sammála um, að þar sem umhverfið er snyrtilegt og öllu vel við haldið, líður fólki betur en ella. Það er af þessum sökum, m.a. sem Bláskógabyggð gerir samning á hverju vori við einhvern aðila, sem fær það verkefni að halda opnum svæðum á tilteknum stöðum í sveitarfélaginu í góðu standi. Þetta birtist okkur afar vel á Laugarvatni og í Reykholti. Ásýnd þessara þorpa er sérlega snyrtileg og maður fær þá hugmynd af þeim, í fljótu bragði að minnsta kosti, að snyrtimennska sé í hávegum höfð. Í Bláskógabyggð er þriðja þorpið, sem ber nafnið Laugarás, þar sem því miður, er aðra sögu að segja. Ég get ekki varist þeirri hugsun, að Laugarás sé hreint ekkert tilgreint sem hluti af samningi um umhirðu opinna svæða í þéttbýliskjörnum innan sveitarfélagsins. Að vísu kemur einhver við og við og slær leikvöllinn, en þar við situr. 


Menn eru farnir að veigra sér við að kvarta yfir sinnuleysinu gagnvart Laugarási í þessum efnum, enda fátt annað leiðinlegra, en hjá því verður hreint ekki komist. Nú nálgast þjóðhátíðardagurinn og enn hefur ekki verið snert á gróðirnum sem sprettur vel meðfram aðalveginum í gegnum þorpið. Sláttuvélarnar voru farnar að suða annarsstaðar í byrjun maí.

Það á ekki að þurfa að kvarta ár eftir ár yfir þeirri vanrækslu, sem ég tel að sé hér um að ræða.

Um langa hríð hefur malbik á Skúlagötu (einu hliðargötunni sem yfirleitt hefur verið malbikuð (og það að hluta)), fengið að brotna upp í rólegheitunum án þess að lyft sé fingri til viðgerða. Um þennan veg fer öll umferð upp brekkuna að austurbyggð.



Að mínu mati á sveitarfélagið að hafa sjálft frumkvæði að því að sjá til þess að ástand opinna svæða og megin gatna sé viðunandi. Annað er ekki ásættanlegt.

03 júní, 2009

Eitt andardráttartak

Ég er þess fullviss, að ekki hefi ég tekið þátt í jafnmörgum samkundum áður á jafnstuttum tíma og á laugardegi og sunnudegi um hvítasunnuhelgina. Talan sem ég tel hér fram er 5, frá hádegi á laugardegi eitthvað framyfir miðnættið á sunnudagskvöldi.
Það verð ég að viðurkenna að þó ég sé alræmt samkvæmisljón, þá var þetta í efri kanti þess sem ég tel rétt að leggja á sig.
Ég mun ekki telja fram allt það sem þarna fór fram, enda vita þeir sem þetta lesa væntanlega flest um það.
Ég fylltist einhverri ólýsanlegri orku í gær, eftir að ég hafði heyrt af því um helgina að ranabjöllu $#"/=)%$#"!) - ið væri aftur lagst á viðjuna með veginum. Ég nýtti þennan kraft til að útvega mér viðeigandi efni hjá hG og úða síðan viðjuna í bak og fyrir þar til kúturinn var tómur. Mér til ánægju sá ég í dag að bévítans kvikindin voru horfin.
Keflavíkurferð í dag tók sinn toll og get ég ekkert gert annað núna en skrifað, enda kallar það ekki á neina sérstaka orku nema í þeim tilvikum sem ég ætla að segja eitthvað af viti.

Næstu dagar stefna í að vera þrungnir endurfundum og ævintýrum. 

(engin vísa - of erfitt í ljósi andlegrar ofþornunar)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...