31 október, 2009

Myndir og messa

Það þykir við hæfi að efna til fagnaðar til að rifja upp skemmtilegheit sem fólk hefur upplifað eða afrekað í sameiningu. Þessar samkomur kallast líklega oftast myndakvöld. Í fullkomnum heimi myndu þeir sem þátt tóku í hinu eftirminnilega afreki tína saman nokkrar bestu myndirnar sínar, af þeim hundruðum sem teknar voru, og senda á einn stað, þar sem samræmingaraðili tæki við þeim og setti saman í skemmtilega, hóflega langa sýningu, sem næði að fanga allt það helsta sem fyrir bar. Síðan fælist sýningin í því, að rennt væri í rólegheitum gegnum sýninguna og tökumönnum hverrar myndar fyrir sig gæfist færi á að tjá sig með hnyttnum hætti um tilurð sinna mynda.


Það var myndakvöld í gærkvöld til að rifja upp för fyrrverandi félaga í Skálholtskórnum til Berlínar í byrjun júní s.l. Hér er lítil upptaka frá þeirri för.
Ég segi ekkert um það hvort fyrirkomulag myndasýningar var með þeim hætti sem að ofan er lýst, en við eigum hinsvegar að vera farin að átta okkur á því, eftir niðurbrot samfélagsins að undanförnu, að heimurinn er ekki fullkominn og verður það ekki svo lengi sem mannkynið ræður einhverju á þessari jörð.
Hvernig svo sem myndasýningunum var háttað, var samkoman afskaplega skemmtileg; hófst með kóræfingu þar sem æfðir voru sálmar og katólsk messusvör. Ástæða þessa er sú að á morgun (sunnudag) hyggjast félagar úr þessum fyrrverandi kór, leggja land undir fót og syngja við messu í Kristskirkju í Landakoti. Hér er um að ræða loforð sem var gefið í tengslum við undirbúning Berlínarferðarinnar.


Æfingin reyndist hefjast allnokkru seinna en til stóð. Seinkunartímann nýtti kórfólkið til athafna sem fH hefur síðan kallað 'að laumast í músakornið'. Af þeim sökum eða öðrum, gekk æfingin einstaklega vel og var talin nægur undirbúningur fyrir biskupamessuna. Kórfólkið kann allflest hin katólsku messusvör frá því það tók þátt í katólskri messu á Skálholtshátíð og söng síðan nokkrar messur í Ítalíuför sinni skömmu síðar.

Ótrúlegu samsafni af ýmsu matarkyns, voru gerð skil á meðan áðurnefnd myndasýning hófst.
Að henni lokinni og meðan á henni stóð, hóf hljómsveit leik sem stóð síðan fram eftir.

Allt þetta gerðist í sérlega skemmtilegum húsakynnum Gistiheimilisins á Geysi.




27 október, 2009

Skór og hamborgarar

Það sem tilgreint er í fyrirsögninni, er auðvitað bara einhvers konar tilvísun í það Ísland sem var og er og verður væntanlega áfram, nema eitthvað nýtt komi til.

Það getur vel verið að minnið bregðist mér, en hér á landi voru eitt sinn framleiddir skór, á Akureyri nánar tiltekið, í skóverksmiðjunni Iðunni. Þetta voru sjálfsagt ágætis skór; Iðunnarskór. Þar kom að skósalan dróst mikið saman og stefndi í óefni. Þá brá verksmiðjan á það ráð að skella nýju nafni á skóna. Nú hétu þeir Puffins. Það var eins og við manninn mælt, salan rauk upp. Svo héld ég að merkið hafi verið selt til útlanda, eða eitthvað þvíumlíkt. - líklega vegna þess að framleiðslukostnaður var of mikill hérlendis. Hverjum dettur eiginlega í huga að framleiða skó á Íslandi? Það er hægt að fá miklu ódýrari skó frá útlöndum.

1993 skelltu íslenskir athafnamenn sér í samstarf við stærstu hamborgarakeðju heims. Það var eins og við manninn mælt, landsmenn þyrptust að til að njóta þess að borða hamborgara með útlendu nafni. Ég verð að viðurkenna, að ég fór tvisvar þarna (ekki að eigin frumkvæði, reyndar) í því skyni að setja í mig þessa víðfrægu framleiðsluvöru. Fannst lítið til koma.
Nánast allir staðir sem selja hamborgara og flatbökur á þessu landi gera það í krafti einhvers erlends vörumerkis. Þeir eru þó til sem reyna við íslensk nöfn og ég veit ekki annað en einhverjir þeirra hafi af þessu þokkalegt lifibrauð.
Ég er nú svo mikið barn, að ég hélt að kjötið í þessum heimsfrægu borgurum kæmi frá íslenskum bændum (bara blandað með dónöldskum aðferðum) - annað fregnaði ég í gær, þar sem rætt var við eigandann sem er nú að loka búllunni. Hann kemur nú fram eins og drifhvít mjöll og talar um að nú muni íslenskir bændur fá mikil viðskipti frá honum.

Ég verð eiginlega að viðurkenna, í sambandi við þessi dæmi sem ég tek hér fyrir ofan og síðan ýmislegt það annað sem ég hef verið að fást við bæði hér og á öðrum vettvangi, að ég er að breytast ei nokkurs konar allsherjar mótmælanda.

Efst í huga ávallt er mér
allt sem styður lands vors fjós.
Nokkurskonar Helgi Hós.

24 október, 2009

Der Fall Rigoletto



Frumsýning hjá Kvistholtsmanninum stendur yfir núna í
Neuköllner Oper, Berlin:

Emanuela Orlandi, genannt La Gilda
Constanze Morelle/Alexandra Schmidt
Ercole Orlandi, genannt Rigoletto
Volker Briesemeister/ Jörg Gottschick
Alberto, genannt Duca
Egill Arni Palsson




Raoul Bonarelli, genannt Sparafucile
Tobias Hagge
Sabrina Minardi
Kristina Jean Hays
Gianluigi Marrone
Dejan Brkic
Flavio Carboni, genannt Monterone
Lars Grünwoldt
Paolo, ein Fremdenführer
Kerem Can
eine Frau (Stimme, Gesang, Gitarre)

Af heilsurækt og mannameini

Ég þarf stundum að velta því fyrir mér í drykklanga stund, þegar kemur að því að ákveða á eigin spýtur hvort mögulega sé rétt að fá sér heilsubótargöngu við þær aðstæður sem fyrir hendi eru hverju sinni. Þetta gerist síður þegar fD spyr mig, í framhjáhlaupi, hvort ég ætli að verða henni samferða í göngutúr. Þá er það yfirleitt spurning um að hrökkva eða stökkva.
Það er einkennilegt, ef maður lætur það eftir sér að velta því fyrir sér, að svona einföld ákvörðun skuli vefjast fyrir manni - skella sér í einhvern viðeigandi útifatnað og spássera síðan í hálftíma.

Þegar nánar er að gáð hinsvegar, er ekkert undarlegt við það. Ég minnist þess alltaf, að fyrir svona 30+ árum fannst mér það lítilmótleg iðja að fara út að ganga. Taldi það nú ekki vera til mikils. Ef maður hreyfði sig á annað borð þá skyldi það vera almennilegt - körfubolti, fótbolti eða eitthvað það annað sem verulega kæmi blóðinu á hreyfingu. Hugsunin var einfaldlega sú, að annað væri ekki til nokkurs gagns. Eftir því sem árunum fjölgaði dró úr tækifærum og löngun til að stunda kraftíþróttir af þessu tagi. Á sama tíma jókst ekki trúin á að hógværari hreyfing gæti komið í staðinn og það var þessvegna sem hreint engin hreyfing varð. Ég gerðist hreinn og beinn kyrrsetumaður.

Nú, allra síðustu ár hef ég smám saman verið að gefast upp fyrir þeirri hugmyndafræði, að öll hreyfing sé af hinu góða. Ég get hinsvegar haldið því fram, að sú hugljómun sé heldur seint á ferðinni. Liðamótin eru væntanlega farin að gefa sig og helv. gigtin mann lifandi að drepa (segjum það bara). Göngutúrarnir sem farnir eru þegar veður og færð leyfa, eru hvorki langir né áreynslumiklir, en smám sam held ég að ég sé að sættast á þá hugmynd, að þeir komi að einhverju gagni. Með nýja gangstígnum er þetta að verða nánast eins og að svífa á skýi; eggslétt malbikið gælir við skósólana. Á þessum fyrsta vetrardegi skín sólin og það er enginn umtalsverður kuldi sem virðist geta skapað umtalsverð óþægindi.
Ég er nánast búinn að sannfæra sjálfan mig um, að nú er tíminn til að rísa úr 'letistráknum' og ganga mót lækkandi sól. Koma síðan til baka, rjóður í kinnum, trúandi að allt sé bjartara og betra.

Já - ég held að það sé komið að því - ekkert að gera nema ýta á 'publish post', og hlaupa síðan út til að fagna vetrinum,








Já, er það ekki bara?



Jú - það held ég, svei mér þá.



Jamm - ég held að það geri mér gott.

Einmitt - styrkir vöðva og gefur hraustlegt og gott útlit.

Ekki hika lengur - nú fer það alveg að gerast....
Og núna...


...gerist það!

17 október, 2009

Að fagna inni í sér

Það er spurning hvort það sem hér birtist hentar viðkvæmu fólki í trúarefnum.


Í gærkvöldi létum við fD verða af því að skella okkur á tónleika í dómkirkjunni í Skálholti. Tilefni þess að ég lauma þessari færsku hér inn, er ekki tónleikarnir sjálfir. Þeir voru svo sem ágætir, að öðru leyti en því að í Dagskránni voru kynntir til sögu 5 (kammer)kórar, en reyndust síðan bara vera tveir - en hvað um það.


Í upphafi kynnti stjórnandi eins kórsins það sem framundan var, en lauk máli sínu á því að geta þess sérstaklega, að ekki væri leyft að klappa í kirkjunni.

Eins og nærri má geta fagnaði ég innra mér mér - en klappaði ekki fyrir þessari yfirlýsingu. Nú gat ég samviskulaust sleppt því að láta í ljós eitthvert þakklæti fyrir eitthvað sem mér fannst kannski hundleiðinlegt, en hefði að öðrum kosti fundist ég þurfa að klappa fyrir, öðrum til samlætis.
- Nú gat ég notið þess að sjá kórfélagana engjast í vandræðalegu brosi eftir hvert lag.
- Nú gat ég notið þagnarinnar á milli lagi með því að hugleiða hinstu rök tilverunnar í þeirri fullvissu að þetta væri allt Guði til dýrðar.
- Nú gat ég notið þess að hlusta á hóstann sem tónleikagestir höfðu haldið í sér meðan lagið var flutt.
- Nú gat ég notað tímann til að kíkja enn einusinni á dagskrá tónleikanna til að sjá hvað væri næst á dagskrá.

Já ég fagnaði og þakkaði innra með mér þeim, sem einhverntíma hafði látið sér detta í hug að það væri líklega ekki Guði þóknanlegt að vera með hávaða í húsi Hans.
Ég trúi ekki öðru, en þess finnist einhvers staðar staður í heilagri ritningu, að það sé andstætt vilja Guðs að beita svo groddalegri aðferð við að þakka fyrir flutning á þeirri Guðs gjöf sem tónlistin er.
Ég trúi ekki öðru en að dómkirkjan í Skálholti hafi verið útvalin sem hið eina guðshús á landinu þar sem að Guðs boði hafði verið ákveðið, að ekki skyldi fagnað með því að lemja saman lófum handa. Þar skyldu tónleikagestir standa á fætur í lok tónleika, og láta þannig, með tjáningarríkum andlitssvip, í ljós velþóknun sína og þakklæti.

Í gærkvöld þakkaði ég fyrir tónlistarflutninginn með því að gera ekkert útvortis. Þakklætið átti sér stað í innstu hugarfylgsnum og ég held að það hafi ekki borist í umtalsverðum mæli til þeirra sem þarna fluttu afrakstur mikillar vinnu sinnar við æfingar og ferðalög, jafnvel landa á milli.
(Ég verð reyndar á játa, að eftir tónleikana, þegar nánast engir hinna ekki mörgu tónleikagesta voru farnir, stilltu kórarnir sér upp til myndatöku og endurtóku þar eitt þeirra laga sem þeir höfðu flutt. Að því loknu gerðist það, að áheyrendurnir klöppuðu dýrslega og það undarlega gerðist að kórfólkið brosti ósvikið. Þakklæti okkar, hinna vel uppöldu, klapplausu Tungnamanna, komst þannig til skila að lokum.)

<<<<<>>>>><<<<<>>>>><<<<<>>>>><<<<<

Ég ætla mér ekki, umfram það sem ég hef þegar gert, að hefja upp einhverja baráttu fyrir einhverjum tilteknum aðferðum við að láta í ljósi þakklæti og gleði á tónleikum í dómkirkjunni í Skálholti. Þeir sem ráða þar húsum hafa ákveðið hvernig sýna skuli þakklæti og gleði þar innan dyra. Forsendur fyrir þeirri ákvörðun eru mér hreint ekki kunnar. Það getur vel verið að þeir hafi komist að þessari niðurstöðu í samtölum sínum við Guð almáttugan, eða með einhverjum fyrirmælum í heilagri ritningu, eða bara vegna þess sem þeim finnst. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Þeir ráða þessu guðshúsi og þurfa að setja okkur ótemjunum skorður að því er varðar hegðun og framkomu.

Mér kann að finnast, að það sé margt annað sem er mikilvægara, þegar kemur að því að boða og viðhalda kristinni trú, en að setja reglur af þessu tagi. Þar getur t.d. verið um það að ræða að freista þess að gera kirkjustarf aðlaðandi fyrir þá sem ekki eru endilega allt of sterkir á því sviði. Finnist mér það, þá verður svo að vera.

<<<<<>>>>><<<<<>>>>><<<<<>>>>>

Þetta eru pælingar gests sem er að fara á tónleika í dómkirkjunni í Skálholti:

Ek ég bljúgur upp á staðarhlaðið,
ætla mér í guðshús eftir baðið.
Við mér blasir voldug Skálholtstrappa,
víst er um að eigi má þar klappa.

13 október, 2009

Laugarás í dag


Það liggur við að Laugarásbúar þurfi að efna til fagnaðar í tilefni af atburðum dagsins. Lengi hefur verið beðið eftir göngustíg meðfram aðalgötunni. Í dag lauk þeirri bið í drynjandi vélagný. Meira að segja rjúpan spígsporaði sallaróleg um svæðið og samfagnaði okkur þessum meinlausu þorpurum.
Næst á dagskrá er væntanlega að skella mold milli vegar og göngustígs og einnig í vegkantinn á
móti, koma af stað grassprettu og slá síðan á tveggja vikna fresti allt sumarið.

Ég fagna þessu verki. Það ber að þakka það sem vel er gert.

Það kom mér nokkuð á óvart, að ekki skyldi vera drifið í því að lagfæra Skúlagötu, eins og ég hef áður nefnt. Á staðinn var kominn mikill vélafloti sem hefði lokið því verki snarlega, með viðunandi undirbúningi.

-<- span="">

Að öðru leyti setja öryggisráðstafanir mikinn svip á saklaust sveitaþorp þessa dagana. Maður þorir sig varla að hræra vegna myndavéla sem skrá hverja hreyfingu.

Verklegir lásar loka nýppsettum, öflugum hliðum.

Þjófavarnakerfi væla þegar smáfuglarnir koma of nálægt.

Skyldi sá tími koma, að efnt verði til þjálfunar í notkun skotvopna?


11 október, 2009

Vegna Guðmundi

- ég komst ekki vegna hestinum sem lá á veginum.
- vegna fækkun sjúklinga var spítalinn lagður niður.
- hann fagnaði vegna sameiningu sveitarfélaga
- vegna fréttaaukanum missti ég af matnum.
- ég hringdi vegna lögregluþjóninum sem hafði komið á staðinn.
- vegna samningu laga um réttarbætur til handa Jóni.

Tvær ofangreindra setninga komu fyrir í fréttum í kvöld.
Hafa lesendur eitthvað við þær að athuga?

Ég hef það vissulega og mér virðist að þessi tjáningarmáti sé orðinn regla frekar en undantekning.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...