24 október, 2009

Af heilsurækt og mannameini

Ég þarf stundum að velta því fyrir mér í drykklanga stund, þegar kemur að því að ákveða á eigin spýtur hvort mögulega sé rétt að fá sér heilsubótargöngu við þær aðstæður sem fyrir hendi eru hverju sinni. Þetta gerist síður þegar fD spyr mig, í framhjáhlaupi, hvort ég ætli að verða henni samferða í göngutúr. Þá er það yfirleitt spurning um að hrökkva eða stökkva.
Það er einkennilegt, ef maður lætur það eftir sér að velta því fyrir sér, að svona einföld ákvörðun skuli vefjast fyrir manni - skella sér í einhvern viðeigandi útifatnað og spássera síðan í hálftíma.

Þegar nánar er að gáð hinsvegar, er ekkert undarlegt við það. Ég minnist þess alltaf, að fyrir svona 30+ árum fannst mér það lítilmótleg iðja að fara út að ganga. Taldi það nú ekki vera til mikils. Ef maður hreyfði sig á annað borð þá skyldi það vera almennilegt - körfubolti, fótbolti eða eitthvað það annað sem verulega kæmi blóðinu á hreyfingu. Hugsunin var einfaldlega sú, að annað væri ekki til nokkurs gagns. Eftir því sem árunum fjölgaði dró úr tækifærum og löngun til að stunda kraftíþróttir af þessu tagi. Á sama tíma jókst ekki trúin á að hógværari hreyfing gæti komið í staðinn og það var þessvegna sem hreint engin hreyfing varð. Ég gerðist hreinn og beinn kyrrsetumaður.

Nú, allra síðustu ár hef ég smám saman verið að gefast upp fyrir þeirri hugmyndafræði, að öll hreyfing sé af hinu góða. Ég get hinsvegar haldið því fram, að sú hugljómun sé heldur seint á ferðinni. Liðamótin eru væntanlega farin að gefa sig og helv. gigtin mann lifandi að drepa (segjum það bara). Göngutúrarnir sem farnir eru þegar veður og færð leyfa, eru hvorki langir né áreynslumiklir, en smám sam held ég að ég sé að sættast á þá hugmynd, að þeir komi að einhverju gagni. Með nýja gangstígnum er þetta að verða nánast eins og að svífa á skýi; eggslétt malbikið gælir við skósólana. Á þessum fyrsta vetrardegi skín sólin og það er enginn umtalsverður kuldi sem virðist geta skapað umtalsverð óþægindi.
Ég er nánast búinn að sannfæra sjálfan mig um, að nú er tíminn til að rísa úr 'letistráknum' og ganga mót lækkandi sól. Koma síðan til baka, rjóður í kinnum, trúandi að allt sé bjartara og betra.

Já - ég held að það sé komið að því - ekkert að gera nema ýta á 'publish post', og hlaupa síðan út til að fagna vetrinum,








Já, er það ekki bara?



Jú - það held ég, svei mér þá.



Jamm - ég held að það geri mér gott.

Einmitt - styrkir vöðva og gefur hraustlegt og gott útlit.

Ekki hika lengur - nú fer það alveg að gerast....
Og núna...


...gerist það!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...