17 október, 2009

Að fagna inni í sér

Það er spurning hvort það sem hér birtist hentar viðkvæmu fólki í trúarefnum.


Í gærkvöldi létum við fD verða af því að skella okkur á tónleika í dómkirkjunni í Skálholti. Tilefni þess að ég lauma þessari færsku hér inn, er ekki tónleikarnir sjálfir. Þeir voru svo sem ágætir, að öðru leyti en því að í Dagskránni voru kynntir til sögu 5 (kammer)kórar, en reyndust síðan bara vera tveir - en hvað um það.


Í upphafi kynnti stjórnandi eins kórsins það sem framundan var, en lauk máli sínu á því að geta þess sérstaklega, að ekki væri leyft að klappa í kirkjunni.

Eins og nærri má geta fagnaði ég innra mér mér - en klappaði ekki fyrir þessari yfirlýsingu. Nú gat ég samviskulaust sleppt því að láta í ljós eitthvert þakklæti fyrir eitthvað sem mér fannst kannski hundleiðinlegt, en hefði að öðrum kosti fundist ég þurfa að klappa fyrir, öðrum til samlætis.
- Nú gat ég notið þess að sjá kórfélagana engjast í vandræðalegu brosi eftir hvert lag.
- Nú gat ég notið þagnarinnar á milli lagi með því að hugleiða hinstu rök tilverunnar í þeirri fullvissu að þetta væri allt Guði til dýrðar.
- Nú gat ég notið þess að hlusta á hóstann sem tónleikagestir höfðu haldið í sér meðan lagið var flutt.
- Nú gat ég notað tímann til að kíkja enn einusinni á dagskrá tónleikanna til að sjá hvað væri næst á dagskrá.

Já ég fagnaði og þakkaði innra með mér þeim, sem einhverntíma hafði látið sér detta í hug að það væri líklega ekki Guði þóknanlegt að vera með hávaða í húsi Hans.
Ég trúi ekki öðru, en þess finnist einhvers staðar staður í heilagri ritningu, að það sé andstætt vilja Guðs að beita svo groddalegri aðferð við að þakka fyrir flutning á þeirri Guðs gjöf sem tónlistin er.
Ég trúi ekki öðru en að dómkirkjan í Skálholti hafi verið útvalin sem hið eina guðshús á landinu þar sem að Guðs boði hafði verið ákveðið, að ekki skyldi fagnað með því að lemja saman lófum handa. Þar skyldu tónleikagestir standa á fætur í lok tónleika, og láta þannig, með tjáningarríkum andlitssvip, í ljós velþóknun sína og þakklæti.

Í gærkvöld þakkaði ég fyrir tónlistarflutninginn með því að gera ekkert útvortis. Þakklætið átti sér stað í innstu hugarfylgsnum og ég held að það hafi ekki borist í umtalsverðum mæli til þeirra sem þarna fluttu afrakstur mikillar vinnu sinnar við æfingar og ferðalög, jafnvel landa á milli.
(Ég verð reyndar á játa, að eftir tónleikana, þegar nánast engir hinna ekki mörgu tónleikagesta voru farnir, stilltu kórarnir sér upp til myndatöku og endurtóku þar eitt þeirra laga sem þeir höfðu flutt. Að því loknu gerðist það, að áheyrendurnir klöppuðu dýrslega og það undarlega gerðist að kórfólkið brosti ósvikið. Þakklæti okkar, hinna vel uppöldu, klapplausu Tungnamanna, komst þannig til skila að lokum.)

<<<<<>>>>><<<<<>>>>><<<<<>>>>><<<<<

Ég ætla mér ekki, umfram það sem ég hef þegar gert, að hefja upp einhverja baráttu fyrir einhverjum tilteknum aðferðum við að láta í ljósi þakklæti og gleði á tónleikum í dómkirkjunni í Skálholti. Þeir sem ráða þar húsum hafa ákveðið hvernig sýna skuli þakklæti og gleði þar innan dyra. Forsendur fyrir þeirri ákvörðun eru mér hreint ekki kunnar. Það getur vel verið að þeir hafi komist að þessari niðurstöðu í samtölum sínum við Guð almáttugan, eða með einhverjum fyrirmælum í heilagri ritningu, eða bara vegna þess sem þeim finnst. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja. Þeir ráða þessu guðshúsi og þurfa að setja okkur ótemjunum skorður að því er varðar hegðun og framkomu.

Mér kann að finnast, að það sé margt annað sem er mikilvægara, þegar kemur að því að boða og viðhalda kristinni trú, en að setja reglur af þessu tagi. Þar getur t.d. verið um það að ræða að freista þess að gera kirkjustarf aðlaðandi fyrir þá sem ekki eru endilega allt of sterkir á því sviði. Finnist mér það, þá verður svo að vera.

<<<<<>>>>><<<<<>>>>><<<<<>>>>>

Þetta eru pælingar gests sem er að fara á tónleika í dómkirkjunni í Skálholti:

Ek ég bljúgur upp á staðarhlaðið,
ætla mér í guðshús eftir baðið.
Við mér blasir voldug Skálholtstrappa,
víst er um að eigi má þar klappa.

1 ummæli:

  1. er það ekki "henti viðkvæmu fólki í trúarefnum"? Ekki það að ég sé neitt sérstaklega menntaður í Ýslensku :)

    Annars er góð vísa varðandi klappið aldrei of oft kveðin. Og er það staðarhöldurum í Skálholti til háborinnar skammar að leyfa verkum og verkfærum guðs (tónlist og flytjendum) ekki að hljóta þakkir fyrir eins og vera ber.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...