13 nóvember, 2011

Það verður að stöðva mig af.

13. nóv. 2011 - 12:10
Þetta er fyrirsögn á Pressunni:
Snjallsímar ógna háskólasamfélaginu: Nemendur ná prófum með hjálp símana -
„Það þarf að stöðva þá af“

Síðn er fjallað um það hverning gamaldags skólakerfið nær ekki að halda í við nútímann, og þar er að finna þessa tilvitnun í "the whistle blowers":

Það er hagur okkar allra, þjóðfélagsins og háskólasamfélagsins, að þeir hæfustu komist áfram og að þeir sem hafa hingað til komist upp með svindl og pretti séu stöðvaðir af.

Jæja, þá braust fram, nánast án þess að ég hefði taumhald á því, innsetning mín hér, í tilefni af dásamlegu þróunarferli íslenskrar tungu.
Kannski var hér vitnað í fíl sem er að reyna að klifra :).


Aumingjarnir litlu - þetta er svo erfitt!

Þessi mynd hefur gjarnan verið notuð í rökræðum um samræmd próf. Já, já, sannarlega er ósanngjarnt að gullfiskurinn þurfi að taka sama próf og apinn: reyna að klifra upp í tré. Við getum öll verið sammála um að það væri ójafn leikur og að gullfiskurinn myndi sennilega upplifa sjálfan sig sem tapara eftir þetta próf. Hann myndi skora miklu hærra í prófi þar sem reyndi á aðra þætti, til dæmis keppni í útlitsfegurð.  Það er jafn ósanngjarnt að ætlast til þess af hinum dýrunum á þessari mynd að reyna að klifra upp í þetta tré.

Ég geri ráð fyrir, að úr því það á að fara að prófa öll þessi ólíku dýr með sama prófinu, þá hafi þau öll verið samskonar námi - kannski námi í klifurfræði. Ef svo var, þá vaknar miklvæg spurning: hvernig kom það til að svo ólík dýr lentu í þessu sama námi? Hvernig var það ákveðið og af hverjum?
(Af myndinni að dæma eru dýrin búin að vera að læra fræði sín hjá manndýri, sem er nú ekkert sérlega þekkt af klifurgetu sinni).
Voru það foreldrar þessara dýra sem ákváðu að þau skyldi fara í þetta nám? Ef svo er, þá eru foreldrarnir sennilega annað hvort afar illa upplýstir um eðli og inntak námsins, eða þá að klifurfræðinám nýtur svo mikillar virðingar í samfélagi dýranna, að til að tryggja stöðu fjölskyldunnar, sjái foreldrarnir ekki aðra leið betri en setja afkvæmi sín í þetta nám.

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst að betra hefði verið að setja þessi dýr í mismunandi nám strax til að byrja með. Þá hefðu aparnir lagt sig eftir klifurfræðinni, fuglarnir farið í flugnám, fílarnir í aflfræðina, mörgæsin hefði rústað suðurskautsfræðinni, gullfiskurinn hefði plumað sig vel í fyrirsætunáminu, selurinn í haffræðinni og úlfurinn í söngnáminu. Við þessar aðstæður hefðu allir fengið að nýta styrkleika sína og allir komið út úr dýraskólanum fullir sjálfstrausts. Það sem myndi þar að auki vinnast við þetta fyrirkomulag væri, að samfélag dýranna yrði miklu sterkara ef það hefði vel menntuð dýr í sem flestum greinum.

Þetta má ekki. Hversvegna skyldi það nú vera?
Jú, klifurfræðin nýtur virðingar umfram aflfræðinámið. Hún er eftirsótt. Kannski reynist fræðilegi hlutinn ekki vera fílnum um megn, en hann "sökkar" örugglega í verklega prófinu. 
Eðlilega vorkenna foreldrar fílsins honum að þurfa að fara í eins próf og apinn. Þeim finnst það ekki vera jafnrétti. Það þurfi að prófa í klifurfræðinni þannig, að allir standi jafnfætis. Foreldrunum finnst kannski líka, að það sé of mikið álag fyrir afkvæmin að þurfa að fara í svona próf. Það eigi bara að sleppa prófum.

Getur það verið (nú bara spyr ég eins og fávís karl) að með því að koma námi dýranna þannig fyrir að þau megi helst aldrei lenda í aðstæðum þar sem þau standa og falla með verkum sínum, eða getu, eða hæfileikum, þá muni samfélag þeirra veikjast með einhverjum hætti?  Hvað þarf eitt lítið samfélag dýra eiginlega mikið af klifurfræðingum, jafnvel sívaxandi fjölda doktora í greininni, kannski með doktorspróf í rannsókn sinni á samhæfingu hægri framlims í öðru klifurtaki?

Það er hægt að spyrja margs, en mín kynslóð er væntanlega farin að draga sig töluvert til baka í þessari umræðu. 

Því læt ég staðar numið núna - þurfti bara að koma þessu frá. Held kannski áfram síðar.



12 nóvember, 2011

Vor í nóvember


Í dag lagði ég leið mína út fyrir Laugarás með myndagræjurnar mínar, sem kann kannski að þykja undarleg ráðstöfun, enda fátt utan þess eðalþorps sem kallar á mig til myndatöku.

Ég fór á þrjá staði í dag: upp á Reykholt fyrir ofan gamla barnaskólann, á brekkubrúnina hjá Vegatungu og loks efst á Torfastaða- eða Reykjaheiði.

Að vissu leyti klúðraði ég þessu, enda er alveg ósköp sem þarf að muna að stilla rétt. 

Myndirnar eru hér.

11 nóvember, 2011

Vísast bara vitleysisgangur

Æ, maður verrður að geta leyft sér smávegis frávik frá því að vera stöðugt upptekinn af því að vera vandur að virðingu sinni.


Ég er nú samt með lítilsháttar bakþanka - látum svo vera.

09 nóvember, 2011

Skekinn er staður og skyndifriðaður


Ég hef áður fjallað um ýmislegt sem viðkemur sameignlegri sögu minni og Skálholtsstaðar. Ekki hef ég nú alltaf fjallað af elskusemi einni saman um allt sem þar hefur átt sér stað, enda man ég ekki eftir að það tímabil hafi verið uppi, að allt hafi farið fram með friði, spekt og eindrægni á Skálholtsþúfunni, eins og staðurinn er stundum kallaður hér í nágrenninu.

Saga Skálholts gegnum aldirnar hefur heldur ekki einkennst af löngum tímabilum friðar, eindrægni eða spektar. Mér hefur stundum dottið í hug að einhver álög væru á staðnum, með því jafnvel velmeinandi fólk á það til að umturnast þegar það kemst til einhverra áhrifa á staðnum.

Við, íbúar í Skálholtssókn, höfum löngum talið og teljum enn (þau okkar sem eitthvað hugsa á annað borð um það) að okkar hlutur í því er varðar málefni staðarins hafi aðallega falist í því koma þar inn sem þjónandi aðilar, til að skúra og þrífa, fremur en sem áhrifafólk um framkvæmdir rekstur eða stefnumótun. Ekki treysti ég mér til að fullyrða um hvort staðan er með þessum hætti þessi misserin, en þau voru það meðan ég kom enn einhvern veginn að málum þarna. Stefnumörkun og stjórnun Skálholtsstaðar er í höndum kirkjuráðs og/eða annarra embætta eða stofnana sem kirkjan hefur
komið á fót í því skyni að móta stefnu fyrir þennan merka stað, sem sannarlega á skilið allt hið besta.

Ég velti því oft fyrir mér, en ekki meira en það, hvort málefnum staðarins hefur verið komið fyrir eins og best verður á kosið. Ég hef yfirleitt komist að þeirri niðurstöðu með sjálfum mér, að svo væri ekki.
Ég hef spurt sjálfan mig hvað það er sem mælir sérstaklega með því að það séu prestlærðir menn sem fara með daglegan rekstur staðarins. Prestlærðir menn eru lærðir í því sem lýtur að boðun kristinnar trúar í gegnum helgihald af ýmsu tagi auk sálgæslu og annars þess sem maður býst við að fólk með þessa menntun sinni. Prestlærðir menn eru, mér vitanlega ekkert sérmenntaðir í rekstrarfræðum, t.d. hótelrekstri, ráðstefnuhaldi, fjármálumsýslu, stefnumótun, skipulagsmálum eða hverju því sem lýtur að veraldlegum hluta rekstrar á svona stað.
Sannarlega ætla ég ekki að fullyrða neitt um að þeir sem haldið hafa á málum í Skálholti hafi ekki verið fullfærir um það. Ef ég gerði slíkt væri ég að fara með fleipur, þar sem ég veit ekki hvernig þessu hefur verið fyrir komið öllu saman, veit bara, að nú er búið að segja um starfsfólkinu og búið að skyndifriða húsakostinn á staðnum, skömmu eftir að nýr vígslubiskup er tekinn við. Þessar ákvarðanir hljóta að eiga talsverðan aðdraganda og það sem fer í fjölmiðla er vísast bara toppurinn á ísjakanum - um það veit ég ekki heldur.

Það er fjallað um tilbúnar fornminjar, Þorláksbúð, sem ekki er allstaðar jafn vel tekið. Ég hef áður spurt hvernig það hefur gerst, að þetta mál fer svo langt sem raun ber vitni, án þess að nokkur maður rísi upp til andmæla? Á þeim tíma sem ég kom að málum var bara allt bannað sem með einhverjum hætti breytti ásýnd staðarins, harðbannað. Nú fréttist allt í einu af einhverju Þorláksbúðarfélagi, sem er langt komið með að búa til fornminjar undir kirkjuveggnum. Er það vegna aðkomu tiltekins þingmanns og einhverra leyndra þráða um valdakerfi tiltekins stjórnmálaflokks, sem þetta mál er komið svo langt sem raun ber vitni, undir yfirborðinu?  Sannarlega veit ég það ekki, en það má spyrja.

Ég finn til samúðar með fólki sem nú er búið að segja upp störfum, þó auðvitað verði í það minnsta hluti þess endurráðið eftir skipulagsbreytingar, eins og það er kallað.
Ég vil, eðlilega, sjá hlut Skálholtsstaðar sem mestan, þar sem ég bý nánast á þúfunni. Ég vil sjá kirkjunni auðnast að láta þá prestlærðu sjá um það sem þeir hafa lært og ráða fagfólk til að sinna veraldlegum þáttum í rekstri kirkjunnar, þó auðvitað megi þeir vera kristnir.

05 nóvember, 2011

Hvernig fara þau að því að opna þær ekki?

Einu sinni fyrir ævalöngu ætlaði ég að fara að safna frímerkjum, þá undir áhrifum frá Barnablaðinu Æskunni, en þar var einhver Sigurður Þorsteinsson, að mig minnir, með frímerkjaþátt.


Ég byrjaði og svo hætti ég.
Ætli ég hafi ekki komist að þeirri niðurstöðu, að söfnunarárátta væri ekki hluti af persónueiginleikum mínum. Ég hef haldið mig við það síðan og ekki verið sakaður um söfnunaráráttu, nema þá helst þegar fD telur að ég ætti að henda einhverju sem ég tel mig geta haft not af síðar.

Í dag tókum við þátt í safnaradegi með því að skjótast í næstu sveit, þar inn í félagsheimilið, þar sem söfnunarnördarnir voru búnir að koma sýnisgripum sínum fyrir. Yfirleitt var þarna ekki um heil söfn að ræða, en t.d. á pennasafnarinn tæpl. 35000 penna! Ég veit að uglur fG eru talsvert miklu fleiri en þarna voru sýndar (fG fór þá leið að ráða sýningardömur til að sjá um uglurnar fyrir sig - kannski til......æi..ég nenni ekki að spinna það lengra).

Þarna var margt til sýnis: Auglýsingabæklingar fyrir landbúnaðartæki, límmiðar af niðursuðudósum, fuglastyttur, gömul lækningatæki, hnífar, pennar, bjöllur, smáleirtau, silfurskeiðar, krúsir, þjóðbúningadúkkur...og síðast en ekki síst smáflöskur með áfengum drykkjum í - eða það er allavega sagt - ætli það sé nú bara ekki litað vatn í flestum.


Það var allavega bara nokkuð vel varið tímanum sem fór í þessa skoðunarferð.
Fleiri myndir

Dæmir þær úrhrök

Í morgunsárið fór gamli unglingurinn með fyrstu vísuna, ég fann síðan framhaldið með mínum aðferðum.





Ég þekki konur með eld í æðum 
frjálsar í skapi, fyndnar í ræðum,
sem þekkja lífið og lífsins sorgir
en minnast aldrei á brunnar borgir.


Æskan er svívirt og eiðar lognir
en brennumennirnir í burtu flognir.
Heimurinn dæmir þær hyggju spilltar
um nætur bestar, í nautnum villtar.

Dæmir þær úrhrök og einskis virði
og dræpi þær eflaust ef hann þyrði.
"Heimur, skolaðu hendur þínar,
ég þekki sjálfur systur mínar."

Konur sem dansa með dauðann í hjarta.
Þær kunna að elska en ekki að kvarta.
Konur sem hlægja og hylja tárin,
þær brosa fegurst þá blæða sárin

Böðvar Guðjónsson frá Hnífsdal


Nú er ekkert annað fyrir áhugamenn en að velta fyrir sér hvað hér býr að baki.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...