13 nóvember, 2011

Aumingjarnir litlu - þetta er svo erfitt!

Þessi mynd hefur gjarnan verið notuð í rökræðum um samræmd próf. Já, já, sannarlega er ósanngjarnt að gullfiskurinn þurfi að taka sama próf og apinn: reyna að klifra upp í tré. Við getum öll verið sammála um að það væri ójafn leikur og að gullfiskurinn myndi sennilega upplifa sjálfan sig sem tapara eftir þetta próf. Hann myndi skora miklu hærra í prófi þar sem reyndi á aðra þætti, til dæmis keppni í útlitsfegurð.  Það er jafn ósanngjarnt að ætlast til þess af hinum dýrunum á þessari mynd að reyna að klifra upp í þetta tré.

Ég geri ráð fyrir, að úr því það á að fara að prófa öll þessi ólíku dýr með sama prófinu, þá hafi þau öll verið samskonar námi - kannski námi í klifurfræði. Ef svo var, þá vaknar miklvæg spurning: hvernig kom það til að svo ólík dýr lentu í þessu sama námi? Hvernig var það ákveðið og af hverjum?
(Af myndinni að dæma eru dýrin búin að vera að læra fræði sín hjá manndýri, sem er nú ekkert sérlega þekkt af klifurgetu sinni).
Voru það foreldrar þessara dýra sem ákváðu að þau skyldi fara í þetta nám? Ef svo er, þá eru foreldrarnir sennilega annað hvort afar illa upplýstir um eðli og inntak námsins, eða þá að klifurfræðinám nýtur svo mikillar virðingar í samfélagi dýranna, að til að tryggja stöðu fjölskyldunnar, sjái foreldrarnir ekki aðra leið betri en setja afkvæmi sín í þetta nám.

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst að betra hefði verið að setja þessi dýr í mismunandi nám strax til að byrja með. Þá hefðu aparnir lagt sig eftir klifurfræðinni, fuglarnir farið í flugnám, fílarnir í aflfræðina, mörgæsin hefði rústað suðurskautsfræðinni, gullfiskurinn hefði plumað sig vel í fyrirsætunáminu, selurinn í haffræðinni og úlfurinn í söngnáminu. Við þessar aðstæður hefðu allir fengið að nýta styrkleika sína og allir komið út úr dýraskólanum fullir sjálfstrausts. Það sem myndi þar að auki vinnast við þetta fyrirkomulag væri, að samfélag dýranna yrði miklu sterkara ef það hefði vel menntuð dýr í sem flestum greinum.

Þetta má ekki. Hversvegna skyldi það nú vera?
Jú, klifurfræðin nýtur virðingar umfram aflfræðinámið. Hún er eftirsótt. Kannski reynist fræðilegi hlutinn ekki vera fílnum um megn, en hann "sökkar" örugglega í verklega prófinu. 
Eðlilega vorkenna foreldrar fílsins honum að þurfa að fara í eins próf og apinn. Þeim finnst það ekki vera jafnrétti. Það þurfi að prófa í klifurfræðinni þannig, að allir standi jafnfætis. Foreldrunum finnst kannski líka, að það sé of mikið álag fyrir afkvæmin að þurfa að fara í svona próf. Það eigi bara að sleppa prófum.

Getur það verið (nú bara spyr ég eins og fávís karl) að með því að koma námi dýranna þannig fyrir að þau megi helst aldrei lenda í aðstæðum þar sem þau standa og falla með verkum sínum, eða getu, eða hæfileikum, þá muni samfélag þeirra veikjast með einhverjum hætti?  Hvað þarf eitt lítið samfélag dýra eiginlega mikið af klifurfræðingum, jafnvel sívaxandi fjölda doktora í greininni, kannski með doktorspróf í rannsókn sinni á samhæfingu hægri framlims í öðru klifurtaki?

Það er hægt að spyrja margs, en mín kynslóð er væntanlega farin að draga sig töluvert til baka í þessari umræðu. 

Því læt ég staðar numið núna - þurfti bara að koma þessu frá. Held kannski áfram síðar.



3 ummæli:

  1. Verð að viðurkenna að ég skildi alls ekki hvert þú ert ert að fara með þessu?!?!

    Getur maður valið að fara í eitthvað nám áður en maður veit hvort það sé það sem manni langar, eða áður en maður veit hverjir styrkleikar manns eru?

    Þyrfti jafnvel að setja krakka í 10 bekk í grunnskóla í matspróf sem segir til um, út frá áhuga og getu, hvaða leið væri best að fara?

    Þetta var flókið aflestrar og skildi lesanda eftir í lausu lofti :)

    SvaraEyða
  2. Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.

    SvaraEyða
  3. Kjarninn er - það er verið að setja fólk í nám sem það hvorki ræður við né hefur áhuga á. Til þess að þeir áhugalausu og getulausu komist síðan í gegn koma fram kröfurnar um "fjölbreytt námsmat" sem hentar öllum. Samræmd próf eru aflögð þar sem þau þykja ekki henta öllum.

    Í Þýskalandi (þó það sé nú ekki að öllu leyti góð fyrirmynd :)) verða skil um 11 ára aldur milli þeirra sem fara í bóklegt nám og verklegt í það minnsta í einhverjum hlutum landsins - (er víst talsvert umdeilt).
    Það sem ég er að segja: það er líklega best, þegar upp er staðið, að fólk læri það sem það hefur áhuga á og getu til. Ekki flókið.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...