09 nóvember, 2011

Skekinn er staður og skyndifriðaður


Ég hef áður fjallað um ýmislegt sem viðkemur sameignlegri sögu minni og Skálholtsstaðar. Ekki hef ég nú alltaf fjallað af elskusemi einni saman um allt sem þar hefur átt sér stað, enda man ég ekki eftir að það tímabil hafi verið uppi, að allt hafi farið fram með friði, spekt og eindrægni á Skálholtsþúfunni, eins og staðurinn er stundum kallaður hér í nágrenninu.

Saga Skálholts gegnum aldirnar hefur heldur ekki einkennst af löngum tímabilum friðar, eindrægni eða spektar. Mér hefur stundum dottið í hug að einhver álög væru á staðnum, með því jafnvel velmeinandi fólk á það til að umturnast þegar það kemst til einhverra áhrifa á staðnum.

Við, íbúar í Skálholtssókn, höfum löngum talið og teljum enn (þau okkar sem eitthvað hugsa á annað borð um það) að okkar hlutur í því er varðar málefni staðarins hafi aðallega falist í því koma þar inn sem þjónandi aðilar, til að skúra og þrífa, fremur en sem áhrifafólk um framkvæmdir rekstur eða stefnumótun. Ekki treysti ég mér til að fullyrða um hvort staðan er með þessum hætti þessi misserin, en þau voru það meðan ég kom enn einhvern veginn að málum þarna. Stefnumörkun og stjórnun Skálholtsstaðar er í höndum kirkjuráðs og/eða annarra embætta eða stofnana sem kirkjan hefur
komið á fót í því skyni að móta stefnu fyrir þennan merka stað, sem sannarlega á skilið allt hið besta.

Ég velti því oft fyrir mér, en ekki meira en það, hvort málefnum staðarins hefur verið komið fyrir eins og best verður á kosið. Ég hef yfirleitt komist að þeirri niðurstöðu með sjálfum mér, að svo væri ekki.
Ég hef spurt sjálfan mig hvað það er sem mælir sérstaklega með því að það séu prestlærðir menn sem fara með daglegan rekstur staðarins. Prestlærðir menn eru lærðir í því sem lýtur að boðun kristinnar trúar í gegnum helgihald af ýmsu tagi auk sálgæslu og annars þess sem maður býst við að fólk með þessa menntun sinni. Prestlærðir menn eru, mér vitanlega ekkert sérmenntaðir í rekstrarfræðum, t.d. hótelrekstri, ráðstefnuhaldi, fjármálumsýslu, stefnumótun, skipulagsmálum eða hverju því sem lýtur að veraldlegum hluta rekstrar á svona stað.
Sannarlega ætla ég ekki að fullyrða neitt um að þeir sem haldið hafa á málum í Skálholti hafi ekki verið fullfærir um það. Ef ég gerði slíkt væri ég að fara með fleipur, þar sem ég veit ekki hvernig þessu hefur verið fyrir komið öllu saman, veit bara, að nú er búið að segja um starfsfólkinu og búið að skyndifriða húsakostinn á staðnum, skömmu eftir að nýr vígslubiskup er tekinn við. Þessar ákvarðanir hljóta að eiga talsverðan aðdraganda og það sem fer í fjölmiðla er vísast bara toppurinn á ísjakanum - um það veit ég ekki heldur.

Það er fjallað um tilbúnar fornminjar, Þorláksbúð, sem ekki er allstaðar jafn vel tekið. Ég hef áður spurt hvernig það hefur gerst, að þetta mál fer svo langt sem raun ber vitni, án þess að nokkur maður rísi upp til andmæla? Á þeim tíma sem ég kom að málum var bara allt bannað sem með einhverjum hætti breytti ásýnd staðarins, harðbannað. Nú fréttist allt í einu af einhverju Þorláksbúðarfélagi, sem er langt komið með að búa til fornminjar undir kirkjuveggnum. Er það vegna aðkomu tiltekins þingmanns og einhverra leyndra þráða um valdakerfi tiltekins stjórnmálaflokks, sem þetta mál er komið svo langt sem raun ber vitni, undir yfirborðinu?  Sannarlega veit ég það ekki, en það má spyrja.

Ég finn til samúðar með fólki sem nú er búið að segja upp störfum, þó auðvitað verði í það minnsta hluti þess endurráðið eftir skipulagsbreytingar, eins og það er kallað.
Ég vil, eðlilega, sjá hlut Skálholtsstaðar sem mestan, þar sem ég bý nánast á þúfunni. Ég vil sjá kirkjunni auðnast að láta þá prestlærðu sjá um það sem þeir hafa lært og ráða fagfólk til að sinna veraldlegum þáttum í rekstri kirkjunnar, þó auðvitað megi þeir vera kristnir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...