21 desember, 2011

Óskiljanlegur tími

"Nei, ekki eina ferðina enn!!!" 
Ég ætla ekki að segja að ég hafi sagt þetta þegar ég glaðvaknaði á sjöunda tímanum í morgun. Ég ætla hinsvegar ekki að sverja fyrir að ég hafi ekki hugsað það.
"Þetta er nú bara einhver streita.", er alltaf viðkvæðið hjá fD, og þar hefur hún auðvitað alrangt fyrir sér. Ég reyni að horfa á þessa stöðu talsvert jákvæðari augum.

Ég hef aldrei skilið hversvegna fólk leggur sig á daginn, og leyfir sér að dásama það þessi ósköp. Ég lít á svoleiðis nokkuð sem hreina sóun á dásemdum hins vakandi lífs. Það er á daginn sem allt gerist, öll skynfærin nema umhverfið: augun birtu jólaljósanna, eyrun Ómar Ragnarssona syngjandi jólalag, nefið greinir daufan keim af piparkökubakstri gærdagsins (ég lýg því reyndar), fingurgómarnir nema mýkt hnappanna á lyklaborðinu. Svefninn hefur ekkert af þessu. Það er helst að hann fari með mann um lendur sem eiga fátt sameiginlegt með raunveruleikanum - ég ástundaði í nótt samkennslu þriggja grunnskólabarna í íslensku ásamt öðrum kennara - og ég sé á samskiptasíðu að oddivtann dreymdi tvö eldgos.  Það má vel halda því fram, allavega til að rökstyðja það að maður fer á fætur í jólafríi klukkan hálf sjö. að svefn sé mjög ofmetið fyrirbæri. 

Þá kemur þetta upp í hugann:
"Macbeth does murder sleep, the innocent sleep,
Sleep that knits up the ravelled sleeve of care,
The death of each day's life, sore labor's bath,
Balm of hurt minds, great nature's second course,
Chief nourisher in life's feast" (2.2.35-39).
Shakespeare segir svefninn vera saklausan, hann leysi upp flækjur hins daglega lífs, hann sé dauði lífs hvers dags, langþráð baðið eftir erfiði dagsins, áburður á þungan hug, annar rétturinn í máltíð náttúrunnar (annar rétturinn er aðalrétturinn), aðal næringin í veislu lífsins.

Svefninn er þá, sem sagt, harla miklvægur.

Þar með held ég bara áfram að vaka - þar til ég fer aftur að sofa.

Meira af saklausum svefni

19 desember, 2011

Hornsteinn að brú.

Í aftari röð, svona aðeins hægra megin, er stórt gat, sem höfundur skildi eftir sig.
Það eru örlög hans, enda kannski eins gott.
Það eru liðin einhver ár síðan ég tók þátt í kórsöng í Skálholtsdómkirkju. Ég ætla nú ekki að fara að rekja forsöguna, því hana hef ég sagt áður, með ýmsum hætti.

Hvað um það, í lok október kom póstur frá Þrúðu. (Þrúða er þessi manneskja sem er alltaf til í slaginn og telur ekkert eftir sér og fær oftar en ekki það hlutverk, vegna innrætis síns og persónulegra eiginleika, að vera hið sameinandi afl þess hóps sem eitt sinn skipaði Skálholtskórinn.) Í þessum pósti sagði, meðal annars:
Sæl verið þið kæru gömlu kórfélagar:)
Hilmar talaði um það í vor að hann langi svo að halda tónleika í Skálholti í tilefni af því að í haust eru 20 ár síðan hann kom í Skálholt. Hann treysti sér ekki til þess í haust, en nú langar hann að hafa litla snotra aðventutónleika í Skálholtskirkju 18. desember með Karítunum og okkur gömlu kórfélögunum í Skálholtskórnum. Stelpurnar í Karítunum hafa bókað kirkjuna 18. desember sem er sunnudagur.
Hvað segið þið um þetta? Mig dauðlangar allavega:)
Látið endilega heyra í ykkur. Ef af þessu á að verða, þarf að drífa í að gera "plan":)
Með kærri kveðju,
Þrúða
Það þurfti nú ekki að koma á óvart, en fleiri fyrrverandi kórfélaga "dauðlangaði" . Meira að segja þann sem kallar sig "þann gamla", en hann þykist vera löngu hættur öllu svona söngstússi (er búinn að vera að hætta í ein 10 ár). Hann skellti í einn tölvupóst, þar sem hann tjáði vilja sinn til að vera með.

Það var æft lítillega, en óorðaður, sameiginlegur skilningur allra sem að komu, að ég held, var sá, að það væri ekki nákvæmni hins þaulæfða kórs, sem sýna skyldi á tónleikunum, heldur eitthvað allt annað.

Tónleikarnir voru í gær, þann 18. desember, eins og fram kemur hér að ofan.

Karíturnar voru auðvitað afbragð, og við hin sannarlega líka, þó segja megi að þar skipti máli hvaða mælikvarði var notaður.

Við lok tónleikanna reis nýr vígslubiskup úr sæti og hafði yfir orð, sem ekki er hægt að skilja með öðrum hætti en þeim, að það sé hafin brúarbygging. Ef svo er, þá er það mikið fagnaðarefni.

Nú velti ég því fyrir mér hvort tími sé til kominn fyrir mig panta efni, eða hvort efnið sem til er sé kannski nægilega mikið.

MYNDIR

13 desember, 2011

Lituð heyrn

Það virðist vera svo, að nú sé þátturinn magnaði (á ónefndri útvarpsstöð) Reykjavík sídegis, sé kominn í eitt allsherjar stríð við núverandi stjórnvöld í þessu landi. Þeir félagar sem þar ráða för, eða ekki, mega þetta að sjálfsögðu mín vegna.

Í gær, 12. des., ræddu þeir við nýfrelsaðan Lobba, og í dag annan speking, Ólaf Arnarson, sem leit yfir sviðið, með ótrúlega hlutlægum hætti og lýsti því m.a. yfir, að allt okkar besta fólk væri flúið, eða að flýja land. Hversvegna er hann, þessi ofurspekingur, ekki farinn? Eða síðdegismennirnir? Þeir eru hér enn með ónytjungunum og gamalmennunum.

Hvað um það. Það sem sló mig hvað mest í málflutningnum í dag var sú fullyrðing þessa a.....a manns, að það mætti ekki gagnrýna ríkisstjórnina (auðvitað athugasemdalaust af síðdegismanninum) - það kæmi alltaf einhver og slægi niður gagnrýnina.

Ég nálgast nú sennilega að tilheyra gagnslausa gamalmennahópnum sem eftir er, og hef því heyrt margt, en aldrei hef ég heyrt aðra eins gagnrýni á stjórnvöld og undanfarin þrjú ár. Það sem meira er, gagnrýnin sem ég hef heyri, sem daglegan skammt úr fjölmiðlum, er með eindæmum rakalaus og vanstillt.

Það heyra ekki allir eins.

11 desember, 2011

Flatkökusörudagur

Ég ákvað fyrir nokkru, eftir að samstarfsmenn mínir, hins kynsins, sem gamli unglingurinn myndi kalla  "húslegar og gott að hafa bardúsandi í eldhúsinu" (sem ég myndi aldrei láta mig dreyma um að gera lífs míns og stöðu vegna), komu með kökur á kennarastofuna, svona í tilefni aðventunnar. Mér fannst þessar Sörur bara góðar og sannfærði sjálfan mig um, að þannig bakstur hlyti ég að ráða við, engu síður en þær sem þarna var um að ræða, Jónur, án þess þó að reykja jónur.  Þegar ég ákveð svona þá er allt eins líklegt að ég framkvæmi það og í dag var dagur framkvæmda, eftir kaupstaðarferð með lista yfir það sem til þurfti.

Ég er búinn að komast að því að Söruuppskriftir eru margar til, en aðal munurinn liggur þó í kreminu, eftir því sem ég hef komist næst.  Botninn, eða það eina sem er bakað, er yfirleitt eins, hver sem uppskriftin er.

Ég valdi eina þessara uppskrifta, sem innihaldslega séð gaf loforð um ljúfar Sörur.

Ég undirbjó og framkvæmdi þetta Sörumál, með sérlega fagmannlegum hætti að mínu mati. Í fyrra þurfti ég oftar að spyrja fD um hefðir og venjur í kökubakstri. Núna var þetta svona rétt til að tékka á hvort ég væri ekki örugglega á réttri leið.

Hér gefur að líta nokkrar myndir af Sörubakstrinum. Fegurstu Sörur, en enginn gat svo sem átt von á öðru.

Gullnir Sörubotnar

Lungamjúk fyllingin

Markmiðið var að búa til frjálslegar Sörur - og það tókst fullkomlega.


Úr því ég var byrjaður tók ég aðra tegund líka, með lítilsháttar aðstoð (muscle).

Add caption
Svo lauk þessu á samvinnuverkefninu "Flatkökur á pallinum".



Sunnudagur á aðventu.

09 desember, 2011

Sala á landi


Áfram held ég í tilefni heilsíðuumfjöllunar í Sunnlenska fréttablaðinu í gær af umræðum um mögulega sölu jarðarinnar Laugaráss. Þessi jörð er í Bláskógabyggð, áður Biskupstungum, en er í eigu hreppa í uppsveitum Árnessyslu. Það er dálítið sérkennilegt að nokkrir hreppar eigi saman jörð sem er innan eins þeirra, en það á sínar, sögulegu skýringar, sem ég tel ekki ástæðu til að ég sé að fjalla um hér og nú.

Það er talað um að selja Laugarás og þar með þau lönd sem íbúar þar leigja af sveitarfélaginu Bláskógabyggð. Það væri nú harla kaldranalegt að auglýsa jörðina Laugarás til sölu á almennum markaði, bara si svona. Auðvitað gæti ýmislegt gott hlotist af því, en það gæti líka farið á annan veg.
Það er talað um að Bláskógabyggð, sem situr uppi með þessa jörð innan sinna vébanda, kaupi jörðina af hinum hreppunum. Það væri auðvitað bara ágætis lausn fyrir íbúa Laugaráss, en mér finnst að samhliða slíkum gerningi þyrfti að liggja fyrir, að sveitafélögin á svæðinu hafi lagt á hilluna, um aldur og ævi, eða í það minnsta til talsvert langrar framtíðar, hugmyndir um að sameinast í eitt sveitarfélag.  Það munaði nú ekki miklu hér um árið að það skref yrði tekið og eftir nokkrar minni sameiningar síðan, án stórslysa, má reikna með að tilhugsunin um eitt sveitarfélag uppsveitanna sé ef til vill ekki jafn fráhrindandi og hún var þá í hugum margra. Enn er verið að flytja verkefni til sveitarfélaga frá ríkinu og því eykst enn þörfin á að þau séu í stakk búin til að takast á við þau.
Nú ættum við að spyrja hverju við töpum á því að sameinast, frekar en spyrja hvað við græðum. Ég sé ekki að við myndum tapa neinu, við myndum hinsvegar, líklega græða slatta.

Sem sagt: ef ekki er búið að útiloka sameiningu þessara sveitarfélaga á næstu árum, þá er auðvitað ekki ástæða til að orða það að Bláskógabyggð kaupi. Sambærilegar aðstæður því gætu verið t.d. svona:
Hjón ákveða að skilja. Þau eiga 50.000.000 króna einbýlishús. Það þeirra sem býr áfram í húsinu borgar hinu 25.000.000 og eignast allt húsið. Þau fyrrverandi hjónakorn komast síðan að því eftir einhvern tíma, að skilnaðurinn hafi verið mistök; þau elski hvort annað ofurheitt eftir allt saman. Það sem flutti út og fékk 25.000.000 frá því sem eftir var, flytur aftur inn - búið að eyða peningnum í samfélagsleg verkefni, en það þeirra sem keypi hitt út hefur lilfað við nokkuð þröngan kost síðan, en búið að eignast fasteign, en þar með fest mikið fé.  Hin  siðferðilega spurning væri: á það sem út flutti, og fékk 25.000.000, að greiða þá upphæð aftur þegar það flytur inn á ný?

------

Laugarásland er ekki að öllu leyti í eigu uppsveitahreppanna. Sláturhúslóðin er eignarland. Væri það kannski inni í myndinni að bjóða íbúum að kaupa leigulönd sín á einhverju viðráðanlegu verði?   
Ef Laugarásland væri óbyggð jörð þá væri sannarlega ekki ástæða til að gera mál úr því þó það væri boðið til sölu á almennum markaði. Hér er ekki um að ræða óbyggða jörð, heldur koma við sögu íbúar, sem settust hér að á tilteknum forsendum. Til þess er skylt að líta, og því má segja að umfjöllun eins og í Sunnlenska fréttablaðinu sé dálítið vafasöm, sem fyrsti pati sem (margir) íbúar í Laugarási fá af þessari umræðu.


08 desember, 2011

的中國池軸

Í Sunnlenska fréttablaðinu í dag er fjallað um mögulega sölu á Laugarásjörðinni. Margt gæti ég nú sagt um það og mun kannski gera síðar, en fyrst þetta:

Í greininni er vitnað í ýmsa, m.a. Ólaf Björnsson:

Að sögn hans eru sölumöguleikar jarða af þessari stærð ágætir og að íslenskir jafnt sem erlendir aðilar hafi mikinn huga á jörðum af þessari stærð. (ég samdi þetta reyndar ekki)

林地未來


Fyrirsögnin þýðir: Hið kínverska Laugarás - á einhverri útgáfu af því máli, segir Google mér  :)

04 desember, 2011

"Þau eru nú ekki að gera sig hjá þér, þessi jólaljós!"

Þessi árstími kallar fram afskaplega misvísandi tilfinningar. Jú, jú, jólafríið framundan (ein þriggja meginástæðna þess að maður sækir í svona starf eins og mitt, að sögn þeirra sem þar eru ekki innvígðir), en jafnframt þarf að gera ýmislegt, og þeir sem hér hafa fylgst með, vita að mér finnst betra að una við aðstæður þar sem ekki þarf að vera að gera eitthvað, sérstaklega ef það er eitthvað sem ég vildi gjarnan vera án.


Undanfarin ár hef ég smám sanan verið að eflast í kaupum á og uppsetningu á jólaseríum utan dyra. Þessu sinni byrjaði ég óvenju senmma, á laugardeginum fyrir fyrsta sunnudag í aðventu, sem þykir eðlilegur tími á Laugarvatni, en út í hött í mínu umhverfi.  Ég fékk fljótlega smáskilaboð, þar sem látin var í ljós undrun vegna þessa tiltækis míns. Í þessari fyrstu atrennu skellti ég nú bara upp tveim yfirlætislausum jólaseríum - varla að þetta sæist. Ég hef hinsvegar verið að huga að aukningu bæði  á seríufjölda og fjölbreytni í ljósavali og því var það nú, að ég bætti við tveim talsvert öflugum seríum, sem ég síðan er nú nýbúinn að skella upp, af einstakri natni og metnaði. Ég lagði það á mig að fara úr í norðan garrann og gaddinn til að undirbúa með þeim hætti hátíð ljóss, árs og friðar. Þrátt fyrir að við lægi kali, lét ég það ekki á mig fá - barðist áfram, staðfastur og einbeittur í því sem gera þurfti og ég vildi gera.

Síðan fórum við, heimaverandi Kvisthyltingar í gönguferð. Þegar heim var komið sagði hinn þau orð sem mynda fyrirsögnina þessu sinni. Viðbrögð mín voru engin í fyrstu, en þarna var um að ræða, að mínu mati, ótrúlega lítilsvirðingu við allt það sem ég hafði lagt á mig, bæði að því er varðar fjárútlát og vinnu. Það leið nú svo sem ekki á löngu áður en fD lauk við athugasemd sína, sennilega vegna viðbragðaleysis míns. Hún hafði, sem sé, tekið eftir því (ég reyndar líka) að jólaljósin sjást hreint ekki frá þjóðveginum, vegna trjágróðurs í vetrardvala. 

Nú má spyrja: 
- Er ég að standa í þessu fyrir einhverja sem aka framhjá, segja kannski: "Jaaáááúú, ok", áður en þeir bruna áfram inn í nóttina?
- Er ég að þessu fyrir Laugarásbúa, sem rölta framhjá við og við í heilsbótargöngu? 
- Er ég að þessu fyrir mig og mína (bara tvö, enn sem komið er, en það stendur til bóta), til að varpa ljósi á myrkrið þannig að birtan ein ríki í hjörtunum?

Auðvitað er gaman þegar einhverjir utanaðkomandi tjá aðdáun sína á einhverju sem maður gerir, það vita nú allir, en ég held að það sem ræður mestu, þegar ég tek mig til í seríumálum, er þetta síðastnefnda. Auðvitað verð ég að viðurkenna, að jólaseríurnar mínar sjást ekki innan úr húsinu, en ég veit að þær eru þarna - sé þær þegar ég fer í vinnu að morgni og síðan aftur þegar þegar ég kem
heim að kvöldi. Þannig er tilganginum náð.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...