19 desember, 2011

Hornsteinn að brú.

Í aftari röð, svona aðeins hægra megin, er stórt gat, sem höfundur skildi eftir sig.
Það eru örlög hans, enda kannski eins gott.
Það eru liðin einhver ár síðan ég tók þátt í kórsöng í Skálholtsdómkirkju. Ég ætla nú ekki að fara að rekja forsöguna, því hana hef ég sagt áður, með ýmsum hætti.

Hvað um það, í lok október kom póstur frá Þrúðu. (Þrúða er þessi manneskja sem er alltaf til í slaginn og telur ekkert eftir sér og fær oftar en ekki það hlutverk, vegna innrætis síns og persónulegra eiginleika, að vera hið sameinandi afl þess hóps sem eitt sinn skipaði Skálholtskórinn.) Í þessum pósti sagði, meðal annars:
Sæl verið þið kæru gömlu kórfélagar:)
Hilmar talaði um það í vor að hann langi svo að halda tónleika í Skálholti í tilefni af því að í haust eru 20 ár síðan hann kom í Skálholt. Hann treysti sér ekki til þess í haust, en nú langar hann að hafa litla snotra aðventutónleika í Skálholtskirkju 18. desember með Karítunum og okkur gömlu kórfélögunum í Skálholtskórnum. Stelpurnar í Karítunum hafa bókað kirkjuna 18. desember sem er sunnudagur.
Hvað segið þið um þetta? Mig dauðlangar allavega:)
Látið endilega heyra í ykkur. Ef af þessu á að verða, þarf að drífa í að gera "plan":)
Með kærri kveðju,
Þrúða
Það þurfti nú ekki að koma á óvart, en fleiri fyrrverandi kórfélaga "dauðlangaði" . Meira að segja þann sem kallar sig "þann gamla", en hann þykist vera löngu hættur öllu svona söngstússi (er búinn að vera að hætta í ein 10 ár). Hann skellti í einn tölvupóst, þar sem hann tjáði vilja sinn til að vera með.

Það var æft lítillega, en óorðaður, sameiginlegur skilningur allra sem að komu, að ég held, var sá, að það væri ekki nákvæmni hins þaulæfða kórs, sem sýna skyldi á tónleikunum, heldur eitthvað allt annað.

Tónleikarnir voru í gær, þann 18. desember, eins og fram kemur hér að ofan.

Karíturnar voru auðvitað afbragð, og við hin sannarlega líka, þó segja megi að þar skipti máli hvaða mælikvarði var notaður.

Við lok tónleikanna reis nýr vígslubiskup úr sæti og hafði yfir orð, sem ekki er hægt að skilja með öðrum hætti en þeim, að það sé hafin brúarbygging. Ef svo er, þá er það mikið fagnaðarefni.

Nú velti ég því fyrir mér hvort tími sé til kominn fyrir mig panta efni, eða hvort efnið sem til er sé kannski nægilega mikið.

MYNDIR

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...