04 desember, 2011

"Þau eru nú ekki að gera sig hjá þér, þessi jólaljós!"

Þessi árstími kallar fram afskaplega misvísandi tilfinningar. Jú, jú, jólafríið framundan (ein þriggja meginástæðna þess að maður sækir í svona starf eins og mitt, að sögn þeirra sem þar eru ekki innvígðir), en jafnframt þarf að gera ýmislegt, og þeir sem hér hafa fylgst með, vita að mér finnst betra að una við aðstæður þar sem ekki þarf að vera að gera eitthvað, sérstaklega ef það er eitthvað sem ég vildi gjarnan vera án.


Undanfarin ár hef ég smám sanan verið að eflast í kaupum á og uppsetningu á jólaseríum utan dyra. Þessu sinni byrjaði ég óvenju senmma, á laugardeginum fyrir fyrsta sunnudag í aðventu, sem þykir eðlilegur tími á Laugarvatni, en út í hött í mínu umhverfi.  Ég fékk fljótlega smáskilaboð, þar sem látin var í ljós undrun vegna þessa tiltækis míns. Í þessari fyrstu atrennu skellti ég nú bara upp tveim yfirlætislausum jólaseríum - varla að þetta sæist. Ég hef hinsvegar verið að huga að aukningu bæði  á seríufjölda og fjölbreytni í ljósavali og því var það nú, að ég bætti við tveim talsvert öflugum seríum, sem ég síðan er nú nýbúinn að skella upp, af einstakri natni og metnaði. Ég lagði það á mig að fara úr í norðan garrann og gaddinn til að undirbúa með þeim hætti hátíð ljóss, árs og friðar. Þrátt fyrir að við lægi kali, lét ég það ekki á mig fá - barðist áfram, staðfastur og einbeittur í því sem gera þurfti og ég vildi gera.

Síðan fórum við, heimaverandi Kvisthyltingar í gönguferð. Þegar heim var komið sagði hinn þau orð sem mynda fyrirsögnina þessu sinni. Viðbrögð mín voru engin í fyrstu, en þarna var um að ræða, að mínu mati, ótrúlega lítilsvirðingu við allt það sem ég hafði lagt á mig, bæði að því er varðar fjárútlát og vinnu. Það leið nú svo sem ekki á löngu áður en fD lauk við athugasemd sína, sennilega vegna viðbragðaleysis míns. Hún hafði, sem sé, tekið eftir því (ég reyndar líka) að jólaljósin sjást hreint ekki frá þjóðveginum, vegna trjágróðurs í vetrardvala. 

Nú má spyrja: 
- Er ég að standa í þessu fyrir einhverja sem aka framhjá, segja kannski: "Jaaáááúú, ok", áður en þeir bruna áfram inn í nóttina?
- Er ég að þessu fyrir Laugarásbúa, sem rölta framhjá við og við í heilsbótargöngu? 
- Er ég að þessu fyrir mig og mína (bara tvö, enn sem komið er, en það stendur til bóta), til að varpa ljósi á myrkrið þannig að birtan ein ríki í hjörtunum?

Auðvitað er gaman þegar einhverjir utanaðkomandi tjá aðdáun sína á einhverju sem maður gerir, það vita nú allir, en ég held að það sem ræður mestu, þegar ég tek mig til í seríumálum, er þetta síðastnefnda. Auðvitað verð ég að viðurkenna, að jólaseríurnar mínar sjást ekki innan úr húsinu, en ég veit að þær eru þarna - sé þær þegar ég fer í vinnu að morgni og síðan aftur þegar þegar ég kem
heim að kvöldi. Þannig er tilganginum náð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...