11 desember, 2011

Flatkökusörudagur

Ég ákvað fyrir nokkru, eftir að samstarfsmenn mínir, hins kynsins, sem gamli unglingurinn myndi kalla  "húslegar og gott að hafa bardúsandi í eldhúsinu" (sem ég myndi aldrei láta mig dreyma um að gera lífs míns og stöðu vegna), komu með kökur á kennarastofuna, svona í tilefni aðventunnar. Mér fannst þessar Sörur bara góðar og sannfærði sjálfan mig um, að þannig bakstur hlyti ég að ráða við, engu síður en þær sem þarna var um að ræða, Jónur, án þess þó að reykja jónur.  Þegar ég ákveð svona þá er allt eins líklegt að ég framkvæmi það og í dag var dagur framkvæmda, eftir kaupstaðarferð með lista yfir það sem til þurfti.

Ég er búinn að komast að því að Söruuppskriftir eru margar til, en aðal munurinn liggur þó í kreminu, eftir því sem ég hef komist næst.  Botninn, eða það eina sem er bakað, er yfirleitt eins, hver sem uppskriftin er.

Ég valdi eina þessara uppskrifta, sem innihaldslega séð gaf loforð um ljúfar Sörur.

Ég undirbjó og framkvæmdi þetta Sörumál, með sérlega fagmannlegum hætti að mínu mati. Í fyrra þurfti ég oftar að spyrja fD um hefðir og venjur í kökubakstri. Núna var þetta svona rétt til að tékka á hvort ég væri ekki örugglega á réttri leið.

Hér gefur að líta nokkrar myndir af Sörubakstrinum. Fegurstu Sörur, en enginn gat svo sem átt von á öðru.

Gullnir Sörubotnar

Lungamjúk fyllingin

Markmiðið var að búa til frjálslegar Sörur - og það tókst fullkomlega.


Úr því ég var byrjaður tók ég aðra tegund líka, með lítilsháttar aðstoð (muscle).

Add caption
Svo lauk þessu á samvinnuverkefninu "Flatkökur á pallinum".



Sunnudagur á aðventu.

1 ummæli:

  1. Þegar... sörubakstur bakast
    best er þá, ef á að takast:
    vanda súkkulaðivalið
    og svo vinn' á köldum stað.
    Sjá til þess að súkkulaði
    -sem er haft í pottvatnsbaði-
    verði hvork' of heitt né kalt
    né renni bara út um aaaaaallt!


    Hirðkveðill gefur góð ráð um sörubakstur.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...