08 apríl, 2012

Það eru sumir í álnum.

Þennan fékk ég. Spurning um hve vel hann á við. Vel, ef til vill.
Mér þætti þó ekki slæmt ef þessi speki gengi eftir þeim gagnvart þeim sem urðu sér úti um álnir með slíkum hætti, að ekki telst falla innan ramma laga og réttar.

Unginn minn, málshátturinn minn og páskaliljurnar mínar.
Varla falla þau undir álnir.

07 apríl, 2012

Ástand í áætlunarflugi


"Við förum ekki úr þessari flugvél fyrr en ég er búin að finna veskið mitt!"

Hér var fD að sjálfsögðu að lýsa yfir aðgerðaáætlun í framhaldi þess, að í upphafi flugs frá Keflavík til Kaupmannahafnar fyrir nokkru, missti hún, með einhverjum hætti sjónar á peningaveskinu sínu, sem var sannarlega bagalegt, eins og hver maður getur ímyndað sér. 
Flugtíminn milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar var 2 klukkustundir og 40 mínútur. Á leiðinni setti ég upp heyrnartól (sem aldrei þessu vant höfðu ekki gleymst heima), valdi mér hasarmynd upp á 90 mínútur. Myndina setti ég af stað um 10 mínútum eftir flugtak og henni lauk í þann mund er flugvélin lenti í Kastrup, tveim og hálfum tíma seinna. Þetta þýðir, að klukkutími af ferðinni fór í annað en að horfa á myndina, auðvitað þurfti að panta eitthvað að snæða og slökkva þorstann, eins og gengur og gerist, í um það bil 20 mínútur. Þar með er hægt að reiknað það út að 40 mínútur hafi farið í annað. Þetta annað fólst aðallega í að taka þátt í endurteknum tilraunum fD til að finna veskið sitt: í handtöskunni sinni, í fríhafnarpokanum, í myndavélatöskunni minni, og fríhafnarpokanum uppi í hillu, í jakkanum sínum og í jakkanum mínum, undir sætinu fyrir framan sig, undir sætinu fyrir framan mig, undir sætinu fyrir framan undarlega náunganum í gluggasætinu, sem eyddi tímanum í að stafla pillum í allskyns regluleg mynstur. Og svo aftur, og aftur, með tilheyrandi pælingum um hvar veskið gæti nú verið, eða ekki verið, þannig að ég var auðvitað í sífellu að taka af mér heyrnartólin til að fylgjast með vangaveltum um mögulega staði, sem kannski var eins gott.

Þegar flugvélin nálgaðist Kastrup var bara eitt öruggt: Kvistholtshjónin færu ekki frá borði án veskis fD.  
Það var útbúin sérstök flétta til að undarlegi náunginn í gluggasætinu myndi standa upp og fara á undan okkur. Því næst myndum við fara aftur inn í sætin okkar og bíða af okkur brottför annarra farþega. Undarlegi náunginn í gluggasætinu reyndist meira en tilbúinn að fara fram fyrir okkur og ég gerði mig kláran í að smeygja mér aftur inn í sætið mitt. Það var þá sem fD tók sig til, þar sem hún stóð milli sætaraðanna og beygði sig niður, þannig að hún gat teygt sig undir sætið sem hún hafði setið í. Þaðan kom hún með veskið týnda. Hún hafði ekki hátt um fundinn, ég sá bara veskið og hætti við að smeygja mér inn í sætið mitt. Við fórum síðan út í réttri röð eins og maður á að gera þegar maður gengur út úr flugvél.

31 mars, 2012

Fer FI212 eða ekki?

"Við erum nú ekkert að fara af stað á næstunni" sagði fD snemma í morgun, en hélt samt áfram að taka til í töskuna. "Flugið er horfið af textavarpinu".
Þetta var upphafið að talsverðri krísu sem nú er loks til lykta leidd. Flugfélagið sem eitt sinn var allra landsmanna og er nýverið orðið stundvísasta flugfélagið komst ekki vel frá þessu máli.

Örlitlu efafræi var reyndar sáð í huga mér í gærkvöldi þegar ég ákvað að innrita okkur á netinu. Á brottfararspjaldinu stóð réttur flugtími, er þar kom fram að BOARDING væri 5 tímum seinna. Þetta afgreiddi ég nú bara sem einhver tölvumistök.

Í morgun kom síðan yfirlýsing fD.
- Textavarpið hafði hent fluginu út.
- Airport.is greindi frá seinkun um 5 tíma.
- Ekkert símanúmer fannst til að fá staðfestingu.
- Kl. 8:17 var flugið aftur komið á réttan tíma á airport.is.

Verðandi flugfarþegar stukku til og hraðpökkun átti sér stað þar til tvenn smáskilaboð komu komu í símann minn, þar sem flugfélagið lýsti hryggð sinni yfir seinkun á fluginu um 5 tíma. Þar kom einnig þetta fram, nákvæmlega svona: Upplýsingar í sím  - sem sagt ekkert símanúmer.

Nú var staðan sú að sms greindi frá seinkun, airport.is var með flugið á áætlun og ekkert símanúmer fannst, sem hafa mætti samband við.

Þá hringdi ég í 118 og þar fékk ég uppgefið símanúmer IGS og var sagt að þar myndi fólk svara mér, sem það reyndist ekki gera - það hringdi bara út.

Enn var staðan óbreytt og klemman snérist um hvort trúa ætti textavarpinu og airport.is eða sms sendingunni. Ákveðið að treysta því fyrra og hraðpökkunin hélt áfram, enda að verða komið á áætluðum brottfarartíma frá Kvistholti.

Ég ákvað þó að reyna betur við 118 - kannski var til annað númer.
Nú setti ég þolinmóða konuna sem svaraði, alveg inn í málið. Hún fór á airport.is og sá þar, að flug FI212 var komið á áætlun 5 tímum síðar en upprunaleg áætlun hljóðaði upp á.

Með þessar upplýsingar í hendi, og í samræmi við sms og textavarp, var pökkun sett á bið; brottför úr sveitasælunni frestað um 5 tíma.

Auðvitað verður Kvistholt vel vaktað þá daga sem við fD sinnum erlendis búandi Kvisthyltingum í nokkra daga.

29 mars, 2012

O, sole mio - Egill Árni Pálsson

Ég fjallaði lítillega um kórana sem sungu á tónleikunum í Háteigskirkju, laugardaginn 24. mars, s.l. Ég minntist líka á tvo einsöngvara.
Nú er ég búinn, í sveita míns andlits, að prófa mig áfram með að útbúa upptöku frá söng annars þeirra:  Egils Árna Pálssonar, þannig, að ég treysti mér að setja þau vinnubrögð mín fyrir sjónir lesenda minna. Hér er ekki fullkomin myndvinnsla á ferð, en ég er nú þeirrar skoðunar, að söngurinn nálgist það svið frekar. Í þessu er ég auðvitað ekki hlutlaus, en ef ég væri það, væri ég sömu skoðunar, held ég. :)


28 mars, 2012

Heyr, himna smiður


Á laugardaginn var (24. mars) voru haldnir tónleikar tveggja kóra Menntaskólans að Laugarvatni í Háteigskirkju: þess sem var stofnaður fyrir tuttugu árum, og sem starfaði til 2002 undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar og þess sem var stofnaður síðastliðið haust, undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur. Með kórunum lék tríó Kjartans Valdemarssonar, fyrrum kórfélagarnir þau Egill Árni Pálsson, tenór og Kristjana Skúladóttir, sungu sitt lagið hvort.

Þetta voru sérlega skemmtilegir tónleikar, og hér er sýnishorn: eldri kórinn syngur Heyr, himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson, við texta Kolbeins Tumasonar.

Hér má sjá báða kórana flytja Jómfrú Mariae dans eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, þar sem hann og Unnur Sigmarsdóttir syngja einsöng. Textann gerði sr. Daði Halldórsson.

22 mars, 2012

Loðfirðingarógur

Nýjasta vísan sem gamli unglingurinn skellti fram nú áðan fjallar um rógburð, sem ekki verður nægilega hefnt fyrir.

Að launa það þú laugst á mig,
Loðfirðingarógur,
hrykki ekki að hýða þig
Hallormsstaðaskógur.

Loðfirðingur mun vera einstaklingur frá Loðmundarfirði.

Tildrög:Við skoðun reyndist þessi vísa vera eftir Pál Ólafsson. Ekki er vitað hverju séra Sigurður Gunnarsson á Valþjófsstað á að hafa logið á Pál en ekki hefur Páll verið ánægður með það. Um það ber þessi ferskeytla hans vott.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...