07 apríl, 2012

Ástand í áætlunarflugi


"Við förum ekki úr þessari flugvél fyrr en ég er búin að finna veskið mitt!"

Hér var fD að sjálfsögðu að lýsa yfir aðgerðaáætlun í framhaldi þess, að í upphafi flugs frá Keflavík til Kaupmannahafnar fyrir nokkru, missti hún, með einhverjum hætti sjónar á peningaveskinu sínu, sem var sannarlega bagalegt, eins og hver maður getur ímyndað sér. 
Flugtíminn milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar var 2 klukkustundir og 40 mínútur. Á leiðinni setti ég upp heyrnartól (sem aldrei þessu vant höfðu ekki gleymst heima), valdi mér hasarmynd upp á 90 mínútur. Myndina setti ég af stað um 10 mínútum eftir flugtak og henni lauk í þann mund er flugvélin lenti í Kastrup, tveim og hálfum tíma seinna. Þetta þýðir, að klukkutími af ferðinni fór í annað en að horfa á myndina, auðvitað þurfti að panta eitthvað að snæða og slökkva þorstann, eins og gengur og gerist, í um það bil 20 mínútur. Þar með er hægt að reiknað það út að 40 mínútur hafi farið í annað. Þetta annað fólst aðallega í að taka þátt í endurteknum tilraunum fD til að finna veskið sitt: í handtöskunni sinni, í fríhafnarpokanum, í myndavélatöskunni minni, og fríhafnarpokanum uppi í hillu, í jakkanum sínum og í jakkanum mínum, undir sætinu fyrir framan sig, undir sætinu fyrir framan mig, undir sætinu fyrir framan undarlega náunganum í gluggasætinu, sem eyddi tímanum í að stafla pillum í allskyns regluleg mynstur. Og svo aftur, og aftur, með tilheyrandi pælingum um hvar veskið gæti nú verið, eða ekki verið, þannig að ég var auðvitað í sífellu að taka af mér heyrnartólin til að fylgjast með vangaveltum um mögulega staði, sem kannski var eins gott.

Þegar flugvélin nálgaðist Kastrup var bara eitt öruggt: Kvistholtshjónin færu ekki frá borði án veskis fD.  
Það var útbúin sérstök flétta til að undarlegi náunginn í gluggasætinu myndi standa upp og fara á undan okkur. Því næst myndum við fara aftur inn í sætin okkar og bíða af okkur brottför annarra farþega. Undarlegi náunginn í gluggasætinu reyndist meira en tilbúinn að fara fram fyrir okkur og ég gerði mig kláran í að smeygja mér aftur inn í sætið mitt. Það var þá sem fD tók sig til, þar sem hún stóð milli sætaraðanna og beygði sig niður, þannig að hún gat teygt sig undir sætið sem hún hafði setið í. Þaðan kom hún með veskið týnda. Hún hafði ekki hátt um fundinn, ég sá bara veskið og hætti við að smeygja mér inn í sætið mitt. Við fórum síðan út í réttri röð eins og maður á að gera þegar maður gengur út úr flugvél.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...