09 mars, 2013

Vitleysingar úr hófi fram?

Ég viðurkenni það, að þó svo ég beri það ekki utan á mér dags daglega, þá blundar í mér vitleysingur sem er til ýmislegt sem víkur af þeirri braut sem ég ætti að ganga ef tekið er mið af aldri og stöðu í samfélaginu. Ég komst að því fyrir nokkrum dögum, að það sama gildir um flesta samstarfsmenn mína.

Í gærkvöld var haldin árshátíð nemendafélagsins í skólanum þar sem ég starfa. Það hafði komið fram ósk um það frá nemendum að starfsmenn myndu hafa eitthvað fram að færa, enda boðið til ágætis hátíðakvöldverðar með vönduðum skemmtiatriðum. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig það gerðist, en svo fór að fólk var kallað saman á kennarastofunni á tilteknum tíma í vikunni, því þar skyldi tekið upp atriði fyrir árshátíðina. Það lá fyrir að til stæði að skella í Harlem shake, svokallað, en það er eitt þeirra tískufyrirbæra sem skella yfir veröldina, eða í það minnsta hinn vestræna heim, hvert á fætur öðru. Einhver spurði svo skemmtilega sem svo: "Hvernig væri nú að heimurinn hætti að planka, eða dansa Gangnam style, nú eða fíflast í Harlem skake og færi í staðinn að hugsa?". Þeir sem ekki vita þegar, í hverju þetta felst, þá er til dæmis slóð að fyrirbærinu hér.

Ekki ætla ég að fjölyrða um hvernig upptakan gekk, að öðru leyti en því, að rétt eftir hádegið, í miðri viku, má segja að dagfarsprúðir starfsmenn hafi nánast gjörsamlega tapað sér í stigvaxandi taumleysi þessa fyrirbæris. Ef ekki hefði verið gripið í taumana áður en það varð of seint, er ekki erfitt að ímynda sér hvað hefði getað gerst.

Það var ákveðið fyrirfram, að uppökunni yrði eytt að lokinni einni sýningu á árshátíðinni. Meðal annars þessvegna varð þetta nú úr.

Í gærkvöld var afraksturinn síðan sýndur. Ég hef farið á tónleika heimsfrægra popphljómsveita og upplifað fagnaðarlæti æstra áhanga, séð upptökur frá tónleikum Bítlanna á hátindi ferilsins. Ég hef ekki áður upplifað önnur eins fagnaðar- og hrifningarlæti og þau sem þarna brutust fram.  Sannarlega viðurkenni ég að ég hafði kviðið þessari sýningu nokkuð - svona verandi eins og ég er. Kvíðinn reyndist hafa verið ástæðulaus og nú finnst mér miklu frekar að þarna hafi starfsmenn skólans sýnt á sér hlið sem lýsir ansi vel þeim óþvinguðu samskiptum sem ríkja í hópnum og góðum starfsanda.
Ég er meira að segja orðinn efins um að rétt sé að eyða upptökunni, en auðvitað verða allir þátttakendur að samþykkja að hún fái að fara sem eldur í sinu um veröld alla.

Þetta var í það minnsta bara ansi gaman.

24 febrúar, 2013

Aflgjafi fólksins

Ég hef verið hálf orkulaus undanfarin ár.
Mér varð ástæða þess ljós í gær.
Ég komst líka að því hvað það er sem hafði valdið því, að smám saman átti ég erfiðara með ýmislegt í daglegu lífi mínu: lélegri við að fara úr með ruslið, latari við að fara í kirkju, hættur í kórnum, tæmdi ekki gamla hreiðrið úr fuglahúsinu, hætti að nenna að blogga af eins miklum krafti og áður...... Svo má lengi telja upp þætti í lífi mínu sem ég hef smám saman hætt að sinna af sama krafti og áður. Mér datt aldrei í hug að leita skýringarinnar á ástandinu, enda hafði ég ekki áttað mig á að það væri fyrir hendi. Það virðist hafa sigið yfir mig, fyrst eins og gagnsæ hula sem smám  saman varð þykkari, þar til ég var nánast kominn á hættusvæði í ýmsum skilningi, þar sem hvaeiðana gat gerst án þess ég hefði dug í mér til að takast á við það.

Þetta hefur komið jafn mikið aftan að mér og dvínandi sjónin. Ég las alltaf talsvert mikið áður fyrr, en upp úr fertugu fór að draga úr lesáhuganum, að það var ekki fyrr en eftir um fimm ár dvínandi lestraráhuga, að ég uppgötvaði að ég þyrfti að fá mér gleraugu.

Það er eins með þetta sem ég uppgötvaði í gær.

Sem oft áður lagði ég leið mína á Hjúkrunarheimilið Lund til að hitta aldraðan föður, sem vill helst aldrei vara sammála síðasta ræðumanni, jafnvel þó hann sé það. Þarna var marg rætt, og í tilefni þessarar miklu helgar pólitískrar pælinga og stefnumörkunar, var pólitíkin rædd eftir því sem tilefni gafst til. Gamli maðurinn var framsóknarmaður og þar af leiðandi áskifandi að Tímanum. Kaupfélag Árnesinga sá heimilinu fyrir helst öllum vörum. Höfn kom ég ekki inn í á æskuárum nema ef til vill fyrir einhver hrapalleg mistök.
Mig grunar, og hef fengið þann grun nokkuð vel staðfestan eftir ýmsum leiðum, að síðan Steingrímur hætti sem formaður, hefur hugsjónin sem þessi stjórnmálaflokkur byggði tilveru sína á, látið á sjá, ekki síst fyrir það að mengun hugarfarsins í áralöngu samstarfi við helsta andstæðinginn og orðrómur um að forystumennirnir væru gagnsýrðir af spillingu, að sá gamli hafi orðið afhuga þessum flokki, en það hefur hann auðvitað aldrei viðurkennt. Þvert á móti er hann ávallt tilbúinn að verja hugsjón samvinnuhreyfingarinnar, hugsjón samvinnu og bræðralags, sem virðist nú ekki vera lengur til og margir fyrrum forystumenn gengnir í björg þar sem þeir leggja stund á andstæðu samvinnu og bræðralags.
Meðal þess sem kom til umræðu á Lundi í gær var dagblaðalestur. Ég lýsti skoðunum mínum á blaðsneplinum sem ég hef ekki einusinni lesið forsíðuna á, frá því fyrrum seðlabankastjóri tók við ritstjórninni. Þá glotti sá gamli og sagði: "Mogginn er aflgjafi fólksins." Við það rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað var þarna komin ástæðan fyrir magnleysi mínu og sinnuleysi undanfarin ár.

Megi ég halda áfram að vera latur að fara út með ruslið.

26 janúar, 2013

Eldri borgara í sláturhúsið (2)

Þrátt fyrir að mér hafi verið bent á að líklegt sé að byggingin sem uppahaflega gegndi hlutverki sláturhúss hérna í Laugarási, væri nú í eigu Byggðastofnunar og hefði verið afskrifuð sem ónýt, breytir það ekki ýkja miku um það, að ég tel að staðurinn, með eða án þessa ónýta húss væri afar hentugur fyrir þá starfsemi sem ég fjallaði um í síðasta pistli og mér sýnist að framundan sé að opinberir aðilar sem með þetta hafa að gera, hvort sem það er 2000 m² byggingin eða 3ja hektara landið, taki nú þau skref sem þarf til.

Sér búið að dæma húsið ónýtt þá er væntanlega ýmislegt í stöðunni og þessu skelli ég fram hér:

1. Það er hægt að gera ekkert - láta húsið grotna niður - sem er auðvitað ekki ásættanlegt.
2. Auðvitað er hægt að fjarlægja bygginguna, sem er sjálfsagt ekki hrist fram úr erminni - hver bæri slíkan kostnað?
3. Byggðastofnun gæti afhent hús og lóð eigendum Laugarásjarðarinnar til umsýslu gegn einhverju lágmarksgjaldi. (þetta er eini hluti Laugarásslandsins sem er ekki í eigu landeigenda). Þetta þætti mér góður kostur og til þess fallinn að eitthvað gerist þarna að því tilskildu að einhver samstaða verði um það hér í uppsveitum - en það er því miður er ekki á visan að róa með það.
4. Nýr eigandi velur, eftir að kostir í stöðunni hafa verið metnir, annað hvort að rífa húsið og fjarlægja með það í huga að byggja upp aftur, eða þá gera nauðsynlegar endurbætur og byggja núverandi hús upp í samræmi við þá starfsemi sem því er ætlað að hýsa.

Þessi bygging og landið er til sölu og ekkert fjallað um að húsið sé ónýtt:

Þetta eru helstu upplýsingar af vef Þjóðskrár:
smella á til að stækka.

Svo er bara að koma málinu af stað ef það hefur ekki þegar verið gert.

23 janúar, 2013

Eldri borgara í sláturhúsið

Ætli ég verði ekki að biðjast velvirðingar á svo skelfilegri fyrirsögn, en mér fannst bara að hún hlyti að vekja nokkra athygli, enda er hún alveg sannleikanum samkvæm ef það er lesið sem á eftir kemur.

Ég hef áður fjallað um hótelabæinn Laugarás, en hér hefur verið starfrækt hótel með þrem mismunandi nöfnum frá því sláturhúsið var selt fyrir allmörgum árum. Hér var fyrst Hótel Iðufell en við af því tók Hótel Hvítá og s.l. sumar kallaðist það Hótel Laugarás.

Ekki veit ég það fyrir víst, en mér skilst að banki eigi nú þetta stóra hús sem stendur á bakka Hvítár, rétt fyrir neðan glæsilega Hvítárbrúna. Þetta hús er nú, að því er virðist, yfirgefið. Á hressingargöngu okkar fD um helgina síðustu létum við verða af því að láta gönguleiðina liggja um hlaðið á sláturhúsinu (það hefur aldrei verið kallað annað hér í Laugarási). Við létum meira að segja verða af því að leggja andlit að rúðu hér og þar.

Í þann mund er athugun okkar á aðstæðum lauk, smellti fD fram þeirri hugmynd þarna væri kjörinn staður til að koma upp dvalar- og hjúkrunarheimili. Auðvitað er það hárrétt athugað. Húsnæðið er tilbúið að hluta til og enginn vafi á að þarna væri að að útbúa ágætan stað til að eyða síðustu æviárunum. Þar fyrir utan myndi starfsemi af þessu tagi styrkja mög heilsugæslustöðina sem er í 500 metra fjarlægð, svo ekki sé nú talað um þorpið sjá´lft, sem sannarlega veitir ekki af að fara að þróast áfram.

Ætli séu ekki eitthvað um 15-20 ár síðan hrepparnir sem stóðu að Laugaráslæknishéraði fóru af stað með metnaðarfullar hugmyndir um byggð fyrir eldri borgara á svipuðum slóðum og barnaheimili Rauða krossins stóð á sínum tíma. Þessar hugmyndir voru komnar svo langt, að það var búið að byggja sýningarhús. Samstaðan um verkefnið brast og ekkert varð úr þessu, því miður.

Ég beini því hér með til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu, að þessir aðilar sameinist um að húsið verði keypt og það síðan aðlagað að þörfum dvalar- og hjúkrunarheimilis fyrir aldraða.

Auðvitað hangir fleira á spýtunni og það lýtur ekki síst að því hve nærri mér sjálfum pælingar um heimili af þessu tagi eru nú. Fyrir utan gamla unglinginn hann föður minn, þá veit ég um fjölmarga eldri borgara af svæðinu hér í kring sem hafa þurft að flytjast á Selfoss, Stokkseyri, Hveragerði eða Hellu þegar sá tími hefur komið. Það hjúkrunarheimili sem mér vitanlega starfar nú í uppsveitunum er á Blesastöðum, en það hýsir fremur fáa einstaklinga, að mér skilst.
Þar fyrir utan lít ég auðvitað svo á að ekki sé ráð nema í tíma tekið með mig, kominn á þennan aldur.

Ég skal styðja við að þessi hugmynd fái framgang, eins og mér er unnt.

20 janúar, 2013

Allsendis óboðlegt

Landslið er það kallað og jú, það er skipað fræknum leikmönnum, sem reyndar leika nánast allir á erlendri grund, sem er allt í lagi því þeir hafa af leiknum bærilega atvinnu, sem þeim stæði ekki til boða hér. Þessir leikmenn eru íslenskir og keppa fyrir hönd þjóðarinnar sem ól þá og undir fána hennar. Þegar leikir hefjast standa þeir teinréttir undir þjóðsöngnum og syngja með, hver með sínu nefi.
Gegnum árin hefur handbolti orðið nokkurskonar þjóðaríþrótt og hér hafa orðið til leikmenn og þjálfarar sem hafa náð afburða árangri. Fyrir nokkrum árum sá Forseti Íslands ástæðu til að sæma landsliðsmenn í þessari grein Fálkaorðunni, við hátíðlega athöfn. Fálkaorðan er virðingar- og þakklætisvottur sem forsetinn afhendir fyrir hönd þjóðarinnar. Því er haldið að okkur að þarna séu á ferð strákarnir okkar, strákar þjóðarinnar.

Ég ætla alls ekki að gagnrýna karlalandsliðið í handknattleik, sem nú keppir á heimsmeistaramóti fyrir hönd þjóðarinnar.Umfjöllun um það væri á allt öðrum nótum.

Ég gagnrýni það, að til þess að geta fylgst með leikjum liðsins í stórmótum verð ég að velja milli þriggja möguleika:
a. kaupa áskrift sem er núna, samkvæmt upplýsingum sem ég fann á vefnum, rétt tæpar 7000 kr fyrir einn mánuð.
b. hlusta á lýsingu á leikjunum á Rás 2.
c. Finna einhvern straum á vefnum og horfa á leikinn þar, jafnvel með sérdeilis skemmtilegum arabískum lýsendum.

Auðvitað hef ég vel efni á því að kaupa mánaðar áskrift að Stöð 2 sport. Ég geri það samt ekki.
Ástæðurnar eru þessar helstar:

a. Ég get verið einstrengingslegur á sumum sviðum, ekki síst þegar mér finnst mér vera misboðið. Svo erum um þá staðreynd að landsleikir skuli vera sýndir í áskriftarsjónvarpi og þar með snúist þetta um hvaða stöð bauð best í réttinn til að sýna frá þessum leikjum. Ég er Íslendingur, hef áhuga á að fylgjast með landsleikjum og á að hafa sama rétt til þess og hver annar, óháð efnahag, búsetu eða aldri. Ef svo er ekki gæti ég hneigst til að líta á karlalandsliðið í handknattleik sem "strákana þeirra" eða "strákana ykkar".

b. Ég þekki talsvert marga sem hafa ekki efni á að greiða 7000 krónur  til að horfa á útsendingar frá leikjum karlaliðsins í handknattleik. Þarna er ekki síst um að ræða barnmargar fjölskyldur, þar sem þarf að forgangsraða í hvað fjármunir eru settir. Þar með missa börnin og unglingarnir af því að upplifa sig sem hluta af þjóð sem þau geta verið stolt af. Þetta eru allt Íslendingar, sem myndu fagna því að geta hrópað til stuðnings liðinu fyrir framan sjónvarpið sitt. Þar að auki gæti þetta auðveldað þeim að takast á við fjárhagsörðuleika sína, ekki síst á þessum tíma árs.

c. Ég veit um talsvert marga sem hafa í fjöldamörg á notið þess að fylgjast með íslenskum landsliðum takast á við erlenda andstæðinga. Þetta fólk er komið á efri ár, er ennþá með greiðu uppi á þaki, eða býr á dvalarheimilum þar sem skorið er niður allt sem til sparnaðar má verða, þar á meðal áskrift að einkastöðvum. Þetta fólk getur ekki einusinni straumað í gegnum tölvur sem það á ekki til.

Ég veit vel að þetta, sem einhverjir myndu kalla "tuð" breytir ekki miklu. Ég vona að það náist í gegn sem nú er unnið að, að einokun á útsendingu frá landsleikjum , verði bönnuð. Það væri framfaraskref.

Svo fer ég að leita að arabísku stöðinni fyrir kvöldið.

Og hvað á maður svo að kjósa?

Fyrirsögnin er spurning sem fær að svífa um í hugum þeirra sem hafa tök á að nýta atkvæðisrétt sinn í vor. Það má reikna með að vitleysisgangurinn í stjórnarandstöðunni haldi nú áfram af enn meiri þrótti en hingað til og þá er langt til jafnað.
Ætli það verði ekki að lágmarki 9 flokkar eða klúbbar sem verða í boði fyrir kjósendur. Ég ætla hér að tiltaka 4 sem munu líklega ekki ná tilskilið hlutfall atkvæða og síðan 5 sem má telja líklegt að nái fulltrúum á þing.

Ég fylgist nú sennilega með stjórnmálaumræðu svipað og meðaljóninn; heyri það sem fram kemur í fremur einslitum fjölmiðlum, en er ekkert sérstaklega að kafa djúpt ofan í stefnuskrár, því þær tel ég nú ekki segja nema brot af því sem þarna er á ferðinni - svona þegar upp er staðið.

Þegar að kjörborði kemur í vor er mér ætlað að setja kross fyrir framan einhvern listabókstaf og þá þarf ég, sem ábyrgur kjósandi (að eigin mati) að vera tilbúinn.

Ég byrja á að nefna þá flokka eða hreyfingar hér fyrir neðan, sem ég hef ekki trú á að fái minn kross og ekki þingmenn heldur:

1. Dögun er mín mínum huga fremur ábyrgðarlaus kverúlantaflokkur. Einhverskonar klúbbur fólks sem ekki hefur annað fram að færa að óraunhæf mótæli við hvernig komið er fyrir fólkinu í landinu og heimilunum í landinu. (Það er Dögunarfólks að breyta þessari sýn minni).

2. Hægri grænir er annar kverúlantaflokkur, en þessi má gjarnan fá eins og 4,5% atkvæða og þar með pota aðeins í stóra bróður.

3. Samstaða ber nafn sem er eitt mesta öfugmæli sem stjórnmálaafl hefur tekið sér. Þar fengu kverúlentarnir og mannkynslausnararnir að taka yfir með fyrirsjáanlegum áfleiðingum.

4. Píratapartíið tek ég ekki til skoðunar, einfaldlega vegna nafngiftarinnar. Virkar á mig með sama hætti og þegar íslenskir mótorhjólastrákar fara að kalla sig Outlaws eða Hell's Angels.

Þá eru þeir fjórir frá, sem ég mun ekki leiða hugann að við kjörborðið bæði vegna þess að mér hugnast þeir engan veginn og kannski ekki síður vegna þess að mig langar að koma atkvæði mínu fyrir þar sem það getur mögulega haft áhrif á niðurstöðu kosninganna. Þeir eru hinsvegar fleiri, flokkarnir sem ekki fá að njóta pælinga minna um krossinn á næstu mánuðum, en þessir munu sennilega fá menn á þing (taldir í sömu röð og á myndinni):

A. Björt framtíð hefur verið talin einhverskonar systurflokkur Samfylkingarinnar. Þar lítur margt nokkuð vel út, en þar getur líka margt breyst. Ef þessum flokki tekst að halda úti þeim sem telja sig hafa lausnir á öllum vanda mannkyns án þess að hafa hugmynd um hvað þeir eru að tala, þá gæti hér verið á ferðinni valkostur. Um það fullyrði ég ekki á þessu stigi, ekki síst í ljósi þeirrar sögu sem framboð utan fjórflokksins hafa.

B. Framsóknarflokkurinn á, af ástæðum sem ég skil ekki, víst fylgi, ekki síst í einhverjum landsbyggðarkjördæmum. Ég er af framsóknarættum og bý á landsbyggðinni, en leiði samt ekki hugann að því að ljá þessum flokki atkvæði og alls ekki eftir birtingarmynd hans frá hruni. Ég sé hann, með núverandi forystu, sem mikinn populistaflokk, sem hefur mistekist að ná hljómgrunni. Hann á sér fortíð sem er með ýmsum hætti, en framtíð hans virðist mér ekki munu verða beisin.

C. Samfylkingin hefur átt góða spretti frá hruni og hefur tekist að kljást við afleiðingar þessi sem gerðist, með fremur ábyrgum hætti. Samfylkingin er hinsvegar að fara að skipta um formann á næstunni og þá kemur betur í ljós fyrir hvað hún stendur. Eins og staðan er nú virðist hún stefna í átt til meiri kratisma (eins og ég skil það fyrirbæri), sem mér hefur aldrei hugnast neitt sérstaklega.

D. Sjálfstæðisflokkurinn telst nú hafa fylgi 37-40% kjósenda. Það segja margir, að allt sé betra en íhaldið, en ég vil kannski frekar segja sem svo, að allt sé skárra en íhaldið. Ég hef aldrei íhugað þann möguleika að kjósa þennan flokk og það er óbreytt. Ég tel mig þar að auki vera einn af kannski helmingi kjósenda, sem man hvað gerðist hér fyrir nokkrum árum og hafa kallað eftir einhverri iðrun frá þessum flokki. Hann freistar þess nú að sannfæra okkur um það, 5 árum eftir að hann leiddi þetta samfélag fram af hengiflugi, að honum sé treystandi fyrir landsstjórninni. Hann hefur gott aðgengi að fjölmiðlum og fjármagni til þess arna, og er á góðri siglingu, að því er virðist.

E. Vinstri grænir er í mínum huga skrítin blanda af fólki sem er með höfuðið rétt skrúfað á búkinn og nánast öfgafólks á hinum ólíkustu sviðum. Fyrrnefndi hluti blöndunnar hefur staðið sig vel í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili og virðist vera með báða fætur á jörðinni. Hinn hlutinn er algerlega óaalandi eins og hann hefur birst mér.  Ef stjórnmálaflokkar væru þannig samsettir, að allir yrðu að hafa sömu skoðun í öllum málum, væru þeir eitthvað um 200.000 hér á landi. Það ættu menn að geta séð og þar blasir við afar skýrt dæmi þar sem þrír þingmenn þessa flokks yfirgáfu hann vegna einhvers máls, en gátu svo auðvitað ekki náð saman um annað og fóru hver í sína áttina.
Þessi flokkur þarf að losa sig við öfgaflokksímyndina áður en mér getur hugnast að greiða honum leið til áhrifa áfram með atkvæðinu mínu.

Af ofangreindu má sjá, að enn á ég nokkuð í land. Margt þarf að skýrast, en það veit ég, að sá flokkur er ekki til, sem ég er sammála að öllu leyti. Mín bíður að finna út hver kemst næst því. Það er áhugavert að sjá hvernig tekst að þrengja hringinn.

Niðurstöður skoðanakannana á fylgi stjórnmálaflokka
2012 | 2013
6. sept [3]2. okt [4]1. jan [5]
Merki Bjartrar framtíðar Björt framtíð4,5%4,9%12,3%
Dögun3,7%3,6%3,0%
Merki Framsóknar Framsóknarflokkurinn13,8%14,2%13,1%
Hægri grænir3%4,4%2,6%
Merki Samfylkingarinnar Samfylkingin20,7%19,4%19,1%
Merki Samstöðu Samstaða3%2,4%1,3%
Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðisflokkurinn36%37%36,3%
Merki Vinstri grænna Vinstrihreyfingin – grænt framboð13,3%12,4%9,1%
Snið:Píratapartýið--2,5%

06 janúar, 2013

Upp og niður eða bara flatt

Hversvegna er ég með klút fyrir andlitinu?
Nú er þessari lotu að ljúka, enn eina ferðina. Framundan hin daglega rútína næstu mánuðina. Fram til þessa hafa mánuðirnir janúar og febrúar verið í heldur litlu uppáhaldi hjá mér, en þó neita ég því ekki, að eftir því sem árunum fjölgar dregur stöðugt úr mismunandi viðhorfum mínum til hins og þessa. Ætli ég sé ekki að ná endanlega því stigi að vera ekki að velta mér of mikið upp úr hvað kemur næst. Leifarnar af spennu, tilhlökkun, kvíða eða leiðindum æskunnar eru kannski að jafnast út; hæðir og lægðir að verða eins og Suðurlandsundirlendið með fjallahringinn í fjarskanum. Það þarf meira til nú en áður að komast á tindana eða renna sér niður í dalina; það þarf að þvælast langar leiðir til að komast þangað og tilgangurinn með því verður jafnframt óljósari.

Þetta mun duga til að flestir sem lesa eru þegar hættir. Ég hef nefnilega nokkuð oft fengið þær athugsemdir við skrif mín, að þau séu of flókin og að það sé erfitt að skilja hvað ég er að fara. Ég held að það sé aðallega vegna þess að mér hættir til að nota of mörg orð til að segja það sem hægt er að segja í miklu styttra máli. En þá væri horft fram hjá því, að tilgangur minn með þessu er ekki bara að segja frá einhverju efni eða lýsa einhverjum viðhorfum, heldur ekki síður að reyna að klæða þessa þætti í einhvern orðabúning og þannig þjálfa sjálfan mig í að koma frá mér hugsunum. Það verður svo að vera, ef ég skilst fremur illa á stundum.

Nú horfi ég fram á sextugasta ár ævi minnar og fimmta ár frá hruni. Á ég eitthvað að vera að velta mér upp úr því?
Að því er varðar hið fyrrnefnda þá held ég að það verði frekar ástæða til á sama tíma að ári. Um hið síðarnefnda get ég sagt margt, enda ekki skoðanalaus á þeim vettvangi og framundan mikið uppgjör, þar sem þessi undarlega þjóð verður kölluð til, til að ákvarða hvaða öfl það verða sem hún vill að móti stefnuna næstu fjögur ár í það minnsta. Á hverjum degi tjáir ótölulegur fjöldi fólks skoðanir sínar á allskyns miðlum. Þar takast á tvær fylkingar, tvær þjóðir, nánast. Stundum velti ég því fyrir mér hvort það sé mikill munur á þessu ástandi og borgarastyrjöld. Hvergi örlar á sátt, hvergi virðist vera snertiflötur þar sem hægt væri að byrja að byggja upp. Sjálft sameiningartákn þjóðarinnar, sem ég hef þar til fyrir rúmum átta árum litið á sem svo, er orðið stærsta sundrungaraflið. Þetta ástand gefur ekki tilefni til bjartsýni um framhaldið.
Í grunninn má segja, að tveir hópar takist á:
a. þeir sem vilja minnka mun milli þjóðfélagshópa með sem mestum jöfnuði á öllum sviðum. Til að svo megi verða þarf að koma til innheimta skatta og þeir síðan notaðir til að jafna kjörin í gegnum velferðarkerfi og menntun, meðal annars.
b. þeir sem vilja stækka kökuna sem til skipta er, en draga á sama tíma úr jöfnuði þannig, að þeir sem ráði fjármagninu verði færari en áður um að deila því sem þeir telja sig geta verið án, til þeirra sem minna mega sín.

Eins og staðan er nú virðist seinni hópurinn munu fara með sigur af hólmi á komandi vori. Ekki get ég annað en velt fyrir mér hvað það getur haft í för með sér og þá hvarflar hugurinn til þess tíma þegar bankarnir útdeildu af rausnarskap sínum styrkjum til góðra og verðugra málefna og réðu í gegnum það æ meiru um hverjir komust af.
Ef staðan væri sú, að stærstu gerendurnir í hinu "svokallaða" hruni, væru búnir að játa á sig herfileg mistök og ef þeir væru búnir, af auðmýkt, að biðja þjóð sína afsökunar á því að hafa leitt hana fram af hengiflugi, myndi málið horfa öðruvísi við mér. Þetta hafa þeir ekki gert og þeir munu ekki gera það. Þeir þekkja sína þjóð. Frá árinu 2009 hafa þeir látlaust haft uppi sama sönginn um þá sem, eftir sigur í kosningum, tóku að sér það vanþakkláta starf, að koma þessu landi á réttan kjöl. Þeir eru búnir að telja stórum hluta þessarar þjóðar trú um að allur vandinn sem Björgu að kenna. Hvaða hluti þjóðarinnar skyldi það nú vera? Sjálfsagt er hann fjölskrúðugur, en hér eru nokkrar tilgátur:
- þeir sem eiga og hafa beinan hag af því að kökunni sé misskipt.
- þeir sem ala með sér þann draum að þeirra tækifæri muni koma og að þá verði gott að búa við misskiptingu (þeir-hæfustu-lifa-af - hugsunin, eða ameríski draumurinn)
- þeir sem eru nánast búnir að gleyma hvað gerðist árið 2008 og er fyrirmunað að mynda tengingu milli þess og þess sem á undan fór.
- þeir sem fyrir ætternis sakir og hefða voga sér ekki að líta í kringum sig á hinum pólitíska vettvangi.
- þeir sem telja sig vera ópólitíska.
- þeir sem eru auðveldlega útsettir fyrir áróðri í fjölmiðlum, en gerendurnir ráða fjölmiðlum í þessu landi, utan kannski einum, sem er óspart úthrópaður sem sorprit.
- mig langar að nefna einn hóp enn, en hann trúir því staðfastlega, að Björg sé versta ríkisstjórn sögunnar, af þeirri ástæðu einni, að gerendurnir segja það.

Ekki mikil bjartsýni hér á ferð, en það lagast.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...