31 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (2)

Skírn 2014
Það sem fer hér á eftir getur seint talist neinn skemmtilestur, en þeir fá hrós sem klára. :) 
-------
Ég held að pæling mín í fyrri hluta þessa pistils hafi reynst nokkuð gagnsæ, en til upprifjunar þá hljóðaði hún upp á það að í einhverjum skilningi hefði ég verið hænsnahirðir stærstan hluta ævi minnar.  Fyrsta reynsla mín í því starfi var hænsnaumhirðan í Hveratúni í æsku, en síðan valdi ég mér nám og starfsvettvang sem leiddi mig að störfum í skólakerfinu, síðustu tæpu 30 árin í heimavistarframhaldsskóla á  Suðurlandi, nánar tiltekið á  Laugarvatni. Það er þaðan sem ég hef séð einna mesta samlíkingu við starf mitt í æsku.

Inngangur 

Án þess að ég viti það með einhverri vissu, þá tel ég að í dýraríkinu, og þá aðallega meðal dýra sem eru hópsækin, þurfi þau dýr sem koma ný inn í hópinn að undirgangast einhverjar raunir, eða að sanna sig, áður en þau geta talið sig til hópsins. Þá er það alþekkt að dýr sem skera sig frá öðrum í hópnum, víkja frá því sem hópurinn telur eðlilegt, eiga erfiðara uppdráttar en önnur.  Ég þykist hafa heyrt eða lesið um að þetta teljist vera hluti af svokölluðu náttúruvali; gallaðir einstaklingar hafa síðri möguleika á að flytja erfðaefni sitt áfram (við slíkar aðstæður verður þá eineltið til, eitthvert mesta böl sem manninum fylgir, en sem verður líklega aldrei aflagt).
Skírn 2011
Hvað varðar það fyrrnefnda þá hefur maðurinn þróað með sér gegnum árþúsundin einhverskonar vígsluathafnir til að staðfesta fullgildingu einstaklinga inn í tiltekna hópa. Það er sama hvert litið er, hvarvetna þurfa einstaklingar að sanna sig til að öðlast hlutdeild í hópum.
Þeir gera það  með því að taka próf af einhverju tagi: bílpróf, stúdentspróf, háskólapróf, pungapróf, sveinspróf, meistarapróf, og svo framvegis.
Þeir gera það með vígslum eða formlegum inntökuathöfnum: prestvígslu, fermingu, skírn, doktorsvörn, svo einhver dæmi sú nefnd.
Þarna er um að ræða formlegar og viðurkenndar aðferðir við að taka fólk inn í hópa, þó svo samlíkingin við hænurnar mínar sé sannarlega sjáanleg.
Hugmyndirnar á bak við allar inntökuathafnir eða próf snúast auðvitað um að viðkomandi þarf að sanna með einhverjum hætti að hann sé þess verður að verða hluti hópsins.

Prófum og inntökuathöfnum má svo í grófum dráttum skipta í tvennt: formlegum og viðurkenndum, annarsvegar og óformlegum og ekki almennt viðurkenndum, hinsvegar.
Ég ætla að fjalla lítillega um um þessar síðarnefndu athafnir hér á á eftir.

Skírn 2011

"Busavígslur"

Hvað er busi?
Vísindavefur Háskólans svarar því svo:
Orðið busi hefur verið notað í íslensku frá því á 19. öld. Þá var það haft um stráka í neðsta bekk mennta- eða latínuskóla en nú er það haft jafnt um stráka og stelpur. Það er líklegast myndað af lýsingarorðinu novus ‘nýr’. Þágufall fleirtölu er novis en busi er hugsanlega myndað af síðari lið orðmyndarinnar novibus sem er ranglega myndað þágufall fleirtölu.
Þetta hugtak, "busi" merkir með öðrum orðum nýnemi, sem hefur komist í viðkomandi skóla á grundvelli fyrri afreka í námi, en á eftir að undirgangast innvígslu í samfélag þeirra nemenda sem fyrir eru í skólanum.  Þar með verða síðan til "busavígslur", sem eru eiginlega eins nálægt þeim raunum sem nýjar hænur í hænsnakofa þurfa að undirgangast og hugsast getur. Hugmyndin er væntanlega sú, að til þess að vera tækir í nemendasamfélagið þurfi nýir nemendur að standast ýmsar þolraunir. Það er ekki fyrr en að þeim loknum sem þeir teljast hæfir til að taka vígslu. Vígslan inn í nemendafélagið í Menntaskólanum að Laugarvatni felst í því að nýnemar eru vatni ausnir í Laugarvatni. Til verksins er notuð gömul skólabjalla og skírarinn (hávaxinn piltur úr 4. bekk) fer með texta á latínu (þó svo latína sé ekki lengur kennd í skólanum).
Skírn 2014

Skírnin hefur ekki verið umdeild og að mínu mati er hún afar skemmtileg hefð. Aðdragandi skírnarinnar; það sem nemendur hafa bætt við gegnum árin, er það sem umdeilt er og það með réttu.
Ég ætla ekki að eyða tíma í að lýsa því hvernig þessi aðdragandi hefur farið fram, ég hef talið að þær athafnir hafi ekki sýnt eldri nemendur í mjög jákvæðu ljósi.  Sannarlega hafa þeir litið á þær "hefðir" sem um hefur verið að ræða sem skemmtun eða grín og þannig hefur það verið, þegar grannt er skoðað. Þessi skemmtun eða grín, var hinsvegar klædd í einstaklega neikvæðan búning, sem einkenndist af dýrslegum öskrum og ógnandi búningum (svartir plastpokar og sósulitur), sem gerði, að mínu mati ekkert annað en gera lítið úr eldri nemendum og þar með námi þeirra í skólanum: þeir sýndu mátt sinn og megin með því að vísa beint í dýrslegt eðli, en ekki þroska hins menntaða einstaklings. Með öðrum orðum fólust þessar athafnir í því að þeir sem eldri voru og þroskaðri gerðu lítið úr sjálfum sér í stað þess að sýna fram á andlega yfirburði sína.
Skírn 2014
Í allmörg ár hafa skólayfirvöldin ljóst og leynt freistað þess að fara þá leið að vinna með nemendum að því að breyta innihaldi þeirra "hefða" sem mótuðust í aðdraganda skírnarinnar í vatninu og því er ekki að neita að það tókst að talsverðum hluta. Gleðin og galsinn varð stöðugt ríkari þáttur í uppákomunum. Það sem erfiðast og nánast ómögulegt reyndist, var að fjarlægja umbúnaðinn og þar skipti litlu þó ýmis gagnmerk rök væru færð fram. "Hefðunum" mátti ekki breyta, í það minnsta ekki með góðu. Þar kom til aðallega tvennt, að því er ég tel: annarsvegar vildi engin stjórn verða stjórnin sem átti þátt í að afnema "hefðirnar" og hinsvegar voru fyrrverandi nemendur ákafir í því að viðhalda þessum og héldu þeim skoðunum mjög á lofti - þar til þeirra börn nálguðust framhaldsskólaaldur.

Hvernig urðu svo þessar "hefðir" "busavikunnar" til?  Jú, þær voru eftirlíkingar á svipuðu fyrirbæri í öðrum framhaldsskólum, þar sem hver apaði eftir öðrum, en ekki upphugsaðar og mótaðar innan skólans.
-------------
Skírn 2011
Á þessu hausti sýndi stjórn nemendafélagsins þann kjark, að vinna með skólastjórnendum að því að umbylta aðdraganda skírnarinnar. Í stað svartra ruslapoka og sósulitar komu litríkir skrípabúningar og fastir þættir sem verið hafa undanfarin ár voru hreinlega skornir af og aðrir jákvæðari settir inn.  Á þessu hausti var þetta fyrirkomulag prufukeyrt, og mun vonandi mótast sem jákvæður þáttur í skólalífinu.

Grundvallaratriðið í mótttöku nýnema in framhaldsskóla er að þeim finnist þeir velkomnir, en jafnframt að þeir fái tækifæri til að blandast eldri nemendum með skemmtilegum uppákomum.
------------
Svo er það nú annað mál, en samt tengt og sem lengi má ræða, en það er hvort við erum farin að vernda börn of mikið, of lengi.  Hvenær rennur upp sá tímapunktur að við teljum börnin okkar orðin fær um að takast á við allt óréttlætið og erfiðleikana sem fylgja því að vera fullorðin manneskja?
Ég get sagt óskaplega margt um það, en nenni því bara ekki núna.

Ég held áfram enn um sinn að vera nokkurskonar hænsnahirðir, en ég held að skjólstæðingarnir nú séu á réttri leið.

30 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (1)

Þetta er ekki hæna frá Hveratúni.
Það kann að virðast undarlegt að ég skuli skrifa það sem hér fer á eftir, en fyrir því eru ástæður sem ég mun fjalla um í framhaldinu.

Þegar ég var í kringum 10 ára aldur var ég maður með hlutverk á heimili fjölskyldunnar. Ég var hænsnahirðir og fóðraði hænur heimilisins, sem voru eitthvað í kringum 20 að jafnaði, bara svona venjulegar hænur, hvítar með rauðan kamb. Fóðrið var blanda af hænsnakorni og leifum sem hrutu af borðum Hveratúnsfólks.  Starfi mínu fylgdi einnig sú ábyrgð að sjá til þess að hænurnar hefðu alltaf nóg að drekka, hleypa þeim út til að viðra sig á sumrin og ná í eggin sem þær notuðu til að greiða fyrir tilveru sína.

Ég veit ekki hvernig svo æxlaðist að ég fékk þetta hlutverk, en held því auðvitað fram að systkin mín hafi bara ekki talist hæf til starfans. Ég veit hinsvegar að þau munu bera fram aðrar skýringar á ástæðum þessa og munu örugglega halda því fram að þau hafi einnig sinnt fiðurfénu, en ég andmæli slíkum fullyrðingum.

Náið samneyti við hænur í svo litlum hóp, þar sem hver hæna fékk að lifa svo lengi sem henni entist heilsa, hafði óhjákvæmilega þau áhrif að hænsnahirðirinn myndaði tengsl við flokkinn. Hver hæna fékk nafn og þær höfðu mjög mismunandi persónueiginleka. Sumar voru gæfar, en aðrar vildu sem minnst samskipti hafa við hirði sinn.

Hænsnakofinn var bak við gamla bæinn, með einum suðurglugga og dyrnar sneru að bakhlið íbúðarhússins. Byggingarefnið var holsteinn. Innan dyra var borð vinstra megin þegar inn var komið og þar fyrir ofan prik sem íbúarnir settust á þegar rökkvaði. Í hægra horninu fjærst voru síðan varpkassarnir og mig minnir að í þá hafi verið settir hefilspænir.  Loftið var rykmettað og með einhverju millibili þurfti að moka út úr kofanum og í staðinn var settur ilmandi spænir.

Ég tel að hænurnar í Hveratúni hafi verið það sem kallast núm "hamingjusamar hænur". Þær nutu útiverunnar í heimilsgarðinum fyrir framan suðurhlið íbúðarhússins (ég sé fyrir mér hænur spígsporandi á pallinum í Kvistholti, þar sem fD liggur og nýtur sólar. Afar rómatísk hugmynd). Hamingja þeirra fólst einnig í því að hafa svo umhyggjusaman hirði sem raun bar vitni.

Þar kom í lífi hænsnanna að þær drápust úr elli eða sjúkdómum. Ég hygg að ekki hafi verið mikið spáð í hvort þær verptu eða ekki, þó mig minni að hænsnabóndi í Hrunamannahrepp, sem var alltaf kallaður Blómkvist eða Blommi (Andrés Blómkvist Helgason í Miðfelli 3 (1927-2005)) hafi eitthvað komið að endurnýjun stofnsins.  Ég minnist þess að hafa nokkuð oft fjarlægt hænsnalík úr kofanum.

Nýrra hænsna, sem voru varla komnar af ungaaldri beið ekkert sældarlíf til að byrja með. Oftar en ekki lögðust hænurnar sem fyrir voru á þær, gogguðu í hausinn á þeim eða plokkuðu af þeim fjaðrirnar. Eins og allir vita þá er í gildi skýr goggunarröð í hænsnakofum, og ég vissi hverju sinni hver var forystuhænan og hver var sú sem neðst var í goggunarröðinni.
Eftir raunirnar voru nýju hænurnar yfirleitt teknar í hópinn, en það kom vissulega fyrir að þær lifðu ekki af.

Ætli hænsnahaldi hafi ekki lokið í Hveratúni einhverju eftir að fjölskyldan flutti í nýja bæinn, eða eftir að ég komst á þann aldur að erfiðara var að fá mig til að sinna skyldum mínum. Ég efast ekki um að systkini mín muna þetta betur en ég, en svo mikið veit ég, að ég var farinn að nálgast tvítugt þegar ég borðaði fyrst kjúkling.

Ég er eiginlega farinn að ímynda mér að, þegar grannt er skoðað, hafi ég gegnt starfi hænsnahirðisins stærstan hlut lífs míns.

En meira um það næst.
  

27 ágúst, 2014

Af gömlum unglingi og fleiru.

Skúli Magnússon
Haustið er að ganga í garð og gróður jarðar býr sig undir að tryggja upprisu að vori. Mannlífið skiptir um takt og daglegt líf Kvisthyltinganna tveggja, sem eftir eru í kotinu þegar börn og barnabörn eru horfin til síns heima til að sinna sínu, er sem óðast að komast í fastar skorður og því líkur á að upp verði tekinn þráðurinn á þessum vettvangi sem ýmsum öðrum.

Viðfangsefni mitt þessu sinni er sú breyting sem varð í lífi okkar, afkomenda Skúla Magnússonar, garðyrkjubónda í Hveratúni, þegar hann lét gott heita í byrjun ágúst og kvaddi jarðlífið eftir langa og nokkuð vel útfærða glímu við Elli kerlingu. Hann var á 96. áldursári og þótti það bara orðið ágætt, kvaddi sáttur, saddur lífdaga.
Við skildum og skiljum það vel að hann var tilbúinn að hverfa á braut. Þannig er nú lífinu einusinni háttað, að það tekur enda einhverntíma og svo langt líf sem hans er hreint ekki sjálfsagt, en þakkarvert. Þrátt fyrir að allir væru nokkuð sáttir við þessi málalok, var þarna um að ræða endinn á langri sögu og þar með fylltumst við trega og söknuði. Okkar bíður auðvitað það hlutskipti að halda áfram okkar leið á okkar forsendum. Við systkinin erum nú kominn á þann aldur að við teljumst, eftir því sem ég best veit, fullfær um að kunna fótum okkar forráð, en samt... með "gamla unglingnum" hvarf töluvert mikilvægur þáttur í tilveru okkar, rétt eins og gerist oftast, allsstaðar og á öllum tímum þegar lífi lýkur.

Ég nefndi langa sögu, sögu sem hófst við aðstæður sem nútímamaðurinn á erfitt með að ímynda sér. Pabbi fæddist í september, veturinn eftir að frostaveturinn mikli hafði valdið fólki ýmsum búsifjum. Foreldrar hans, eins og svo margir aðrir í þeirra sporum, liðu fyrir skort á jarðnæði á láglendinu, svo þau tóku það til bragðs að flytja að Rangárlóni við norðanvert Sænautavatn í Jökuldalsheiði, líklegast vorið 1918, með tvo syni á barnsaldri og þann þriðja á leiðinni. Sjá einnig hér.

Það er eiginlega ekki fyrr en maður fer að skoða þau lífskjör sem svokölluðu almúgafólki voru búin á fyrri hluta síðustu aldar ofan í kjölinn út frá einhverjum sem maður þekkir, sem maður áttar sig á hvílikar breytingar hafa átt sér stað.  Það hlýtur að vera mikið spunnið í þær kynslóðir sem þurftu að takast á við tilveruna á fyrri hluta tuttugustu aldar, ekki síst þann hluta þeirra sem þurfti að leggja á sig ómælt erfiði til að hafa í sig og á.  Þetta fólk fann leiðir til lífsbjargar, en það þurfti líka að færa fórnir. Föðurforeldrar mínir eru, til að mynda, sagðir hafa eignast 10 börn, en einungis sex þeirra náðu að vaxa úr grasi.  Faðir minn var sendur um sex ára gamall í fóstur á næsta bæ, líklegast til að létta á barnmörgu heimili.  Eftir það ólst hann upp með Sigurði Blöndal, syni hjónanna í Mjóanesi og síðar á Hallormsstað, sem hann hefur ætíð vísað til sem fóstbróður síns.
Þar sem ég sit og skrifa þetta fæ ég þær fregnir að Sigurður hafi látist í gær. Þeir fóstbræðurnir munu því ferðast áfram saman, nú á slóðum sem ég kann ekki að fjalla um.

Ég ætla nú ekki að fara að rekja ævigöngu föður míns, en hann dvaldi í Hveratúni til haustsins 2012, en þá varð það úr að hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu.
Fram til þess síðsta tókst honum að halda léttri lund og þeim sem heimsóttu hann mætti alltaf brosandi andlitið, eða í það minnsta glott út í annað. Hann spurði frétta og tók í nefið og svo spurði hann aftur frétta. Hann var ekkert mikið fyrir að gera sjálfan sig og sína líðan að umfjöllunarefni, hafði meiri áhuga á því sem var að öðru leyti um að vera. Svo þegar umræðuefnið þraut um stund kom fyrsta línan í einhverri vísu, svona einskonar biðleikur til að kalla fram frekari frásagnir. Þessi var til dæmis nokkuð algeng

Svo er það við sjóinn viða
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
     hvað er auðvitað alveg rétt!
Í hjónabandi að lifa og líða
uns lausakaupamet er sett.
          (ég hef ekki fundið höfundinn)

Við sem umgengumst hann lærðum þessar vísur smám saman og þá fór hann að láta sér nægja að fara með fyrstu línuna og beið svo eftir að við kláruðum dæmið og svo skellihló hann á viðeigandi stöðum.

Dvölin á Lundi á Hellu er kapítuli út af fyrir sig. Miðað við allt og allt held ég að betri staður til ljúka langri vegferð sé vandfundinn. Þetta segi ég ekki endilega vegna þess að mér finnist Hella í sjálfu sér vera sérlega hentugur staður fyrir aldraða í uppsveitum Árnessýslu, heldur vegna þess, að starfsfólkið á Lundi er einstaklega vel starfi sínu vaxið.
Við setjum lög og reglur um aðbúnað hinna ýmsu þjóðfélagshópa, meðal annars þeirra sem þurfa einhverja aðhlynningu síðustu árin. Þar er gert ráð  fyrir lágmarksfermetrafjölda á mann, lágmarks lofthæð og hvaðeina sem varðar ytri aðbúnað.
Ég leyfi mér að segja að húsakynnin eru ekki það sem mestu máli skiptir, heldur fólkið sem hefur þann starfa að annast um þá sem aldraðir eru, reynsluboltana, sem eiga langa og viðburðaríka sögu, en eru smám saman að missa krafta, eru orðnir vígamóðir í baráttu sinni við áður nefnda Elli, tapa heyrn eða sjón og jafnvel dvelja æ meir á sviðum sem raunveruleikinn nær ekki alveg til.  Við þessar aðstæður er það starfsfólkið sem skiptir sköpum. Það þarf að nálgast öldungana þar sem þeir eru á hverjum tíma og reyna að setja sig í spor þeirra, sinna þeim og þörfum þeirra af nauðsynlegri þolinmæði og umhyggju, spjalla við það og grínast við það.
Lífsgæði aldraðra felast ekki síst í því að þeir fái að njóta þess að finnast þeir skipta máli.

Hér fyrir ofan var ég að lýsa nálgun starsfólksins á Lundi, eins og við systkinin upplifðum hana. Rangæingar eru eflaust þakklátir fyrir að svo samhent, velhugsandi og dugmikið fólk skuli starfa við umönnun aldraðra á Lundi.
Svona fólk eiga aldraðir skilið í lok ævidagsins og fyrir umhyggjuna, velvildina og nærgætnina erum við systkinin afar þakklát.

Við sem stöndum undir samfélagsrekstrinum hverju sinni, skuldum öfum okkar og ömmum hverju sinni það, að síðustu áranna fái þau að njóta áhyggjulaust og við bestu aðstæður.  Nútíminn talar mikið um að horfa fram á veginn, en sannleikurinn er auðvitað sá, að ef ekki væri sá vegur sem þegar hefur verið farinn, þá væri heldur enginn vegur framundan.
---------
Í lokin skelli ég hér myndbandi af söng Laugaráskvartettsins. Þeir flytja Nú máttu hægt, en lagið er eftir H. Pfeil og ljóðið eftir Þorstein Erlingsson. Upptakan var gerð í Skálholti 16. ágúst. Laugaráskvartettinn skipa æskufélagar úr Laugarási: Egill Árni og Þorvaldur Skúli Pálssynir frá Kvistholti og Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt í Laugarási. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti sem myndaði og klippti, meðupptökumaður hljóðs var Guðný Rut Pálsdóttir frá Kvistholti.
Laugaráskvartettinn flutti þetta lag við útför afa síns og fyrrum nágranna.

NÓTT (Nú máttu hægt)




21 júlí, 2014

Í sunnlenskri sól


Maður má ekki forsmá það sem máttarvöldin þó veita manni af heimsins gæðum. Það er mikilvægt að halda því til haga að sólin komst óhindrað á pallinn í Kvistholti í gær í eina klukkustund og 35 mínútur og er það lengsta samfellt sólskin á þessu sumri.
Það þarf varla að geta þess að fD nýtti þennan tíma til hins ítrasta til að safna forða d-vítamíns fyrir veturinn. Sólbaðið var auðvitað lengra en sem nemur þeim tíma sem sást til sólar, enda uppi sú kenning að sólarljósið gagnist svo lengi sem maður sér skuggann af sjálfum sér á sólbekknum. Á grundvelli þessarar kenningar náði sólskinssleikurinn allt að 4 klukkustundum, sem verður að teljast harla gott.

Ég mátti, að venju, þegar yfirleitt sést að það er sól á himni, sitja undir hneykslan fD á því að ég væri að "húka inni í svona góðu veðri" og í framhaldi af því lét ég til leiðast að liggja gegnum mesta sólskinið, án sjáanlegs árangurs.
Ekki efa ég það að á næstu vikum, í það minnsta áður en vetur leggst að, fái ljóshnötturinn að senda geisla sína í æ rikara mæli óhindrað á sólsjúka Kvisthyltinga.

11 júlí, 2014

Keðjusagarfrúin

"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég, harla slakur, þar sem við Kvistholtshjón renndum úr hlaði stórmarkaðs í höfuðstað Suðurlands um hádegisbil í dag. Innkaupin höfðu gengið átakalaust fyrir sig og ég hafði meira að segja sýnt talsvert frumkvæði í innkaupunum, þó flest af því væri allt annað en stóð að listanum hjá fD, þar á meðal rauðrófur og chili.
"Ég ætla að kaupa keðjusög", kom svarið, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þó ég hafi ekki látið á neinu bera, fór lítillega um mig við þessa ákveðnu yfirlýsingu. Ég renndi meira að segja í huganum yfir það sem gerst hafði í innkaupaferðinni en fann ekkert það í henni sem gæti gefið tilefni til að keypt yrði keðjusög, en hvað vissi ég svo sem? Eitt var mér ljóst, þegar fD er búin að taka svo eindregnar ákvarðanir verður þeim ekki breytt, nema hún geri það sjálf.
"Það er nefnilega það" sagði ég því og renndi mér út úr hringtorginu í átt að annarri byggingavöruversluninni.
"Nei, ekki í þessa. Ég ætla að fara í hina". Þar með var komin fram tvöföld ákvörðun sem erfitt yrði að hagga: það skyldi keypt keðjusög í tiltekinni byggingavöruverslun, og ekki meira um það að segja.
Ég fann fljótlega leið til að snúa við, enn ekki alveg viss um hvernig ég ætti að taka þessu öllu saman, en brátt fékk ég meira að vita.
"X (sálfræðingur) sagðist hafa notað keðjusög sem hann hefði fengið hjá þessari byggingavöruverslun til að saga niður tré hjá sér og þó stofnarnir væru 40 cm í þvermál hafi sögin runnið í gegnum þá eins og hnífur smjör við stofuhita. Ég vil þannig  keðjusög". 
Nú, úr því X hafði sagt þetta, hlaut það að vera rétt. Ég velti fyrir mér örskotsstund hvort blandan sálfræðingur og keðjusög gæti með einhverju móti orsakað hættuástand á heimilinu, en sá strax að þar gæti ekki verið rökrænt samhengi.

Þar með renndum við í hlað á réttri byggingavöruverslun.

Þar innan dyra var allt í rólegheitum, en svo undarlega sem það hjómar var, eins og fyrir yfirnáttúrulega krafta, búið að raða upp á borð keðjusögum af ýmsum gerðum, beint á móti innganginum. Það sem meira var, þær voru með 25% afslætti. Á þeim, tímapunkti varð mér ljóst, að út úr þessari verslun færum við ekki keðjusagarlaus.
Ég fann á endanum afgreiðslumann sem ku vita ýmislegt um keðjusagir og sýndi honum með látbragði sverleika þeirra trjáa sem hún þyrfti að ráða við.

"Ég vil fá sög eins og sálfræðingurinn notaði". Það var fD sem kom þarna inn í umræðuna, og hafði í engu slegið af ákveðni sinni.  Þar með gengum við í halarófu inn í vélaleigusalinn. Þar kom í ljós að tiltaknar Texas vélar voru aðallega notaðar í leigunni, svo þær hlutu að vera réttu vélarnar. Það voru teknar niður tölur svo ekkert færi á milli mála. Síðan voru fest kaup á sálfræðingsvélinni, með 25% afslætti.
"Þarf að gera eitthvað fleira?" spurði ég þar sem við renndum úr hlaði byggingavöruverslunarinnar.
"Nei, ekkert fleira", og þar með lá leið í Kvistholt, með keðjusögina.
Við renndum í hlað og við blöstu tilvonandi fórnarlömb keðjusagarinnar.
"Þau eru ekki næstum því jafn sver og þú sýndir afgreiðslumanninum."
Ég kvað fD misminna um sverleika trjáa í Kvistholti sem biðu nú dauða síns.
Ég get nefnilega líka verið ákveðinn.

--------------

Ég reyndi nýlega að fá vottorð hjá Pétri þess efnis, að ég þyldi ekki búðarölt. Hann neitaði, en sagði aðeins að maður ætti að forðast það sem maður þyldi ekki.
Ég lét mynda á mér mjóbakið í dag. Kannski kemur þá í ljós að ég þoli ekki skógarhögg. Hver veit?.

Varðandi X þá vil ég ekki nafngreina hann fyrr en hann hefur gefið mér til þess leyfi.

23 júní, 2014

Línuvörðurinn sem handleggsbrotnaði

Línuvörðurinn á góðri stund til hægri á myndinni.
Það er hálfgert norðvestan áhlaup á Bolungarvík, en það kemur ekki í veg fyrir að mikilvægur leikur Bolungarvíkuliðsins og ónefnds aðkomuliðs fari fram. Áhorfendur streyma á völlinn og það er hugur í fólkinu. Korteri fyrir leik gengur á með vongóðum hrópum um að nú verðið aðkomuliðið tekið í nefið.

Dómaratríóið gerir sig klárt og allt er til reiðu, en það er ekki laust við að hann sé dálítið óöruggur með verkefni sitt þar sem hann er nýbúinn að fá réttindi til að starfa sem línuvörður í annarri deild. Það er smá hnútur í maganum; það eru aðallega rangstöðurnar sem hann kvíðir, því þær eru afar viðkvæmar og vandmeðfarnar. Ekki dregur það úr kvíðanum að eiginkonan er komin til að fylgjast með leiknum og hún er alltaf tilbúin að láta hann heyra af því ef henni finnst honum ekki takast vel upp. Þá eru börnin hans tvö einnig á leiknum og eðlilega er honum mikið í mun að takst vel upp af þeim sökum.

Þetta bara verður að ganga vel.

Það er ákveðið að hann verði á hliðarlínunni fjær áhorfendastæðunum og það er honum nokkur léttir því þá heyrir hann síður tilfallandi ónot frá mögulega ósáttum áhorfendum. Hann gætir í fyrri hálfleik þess vallarhelmings sem Bolungarvíkurliðið sækir á og áhorfendurnir eru flestir bolvískir.

Leikurinn er flautaður á og átök liiðanna hefjast. Hvorugt liðið ætlar sér að gefa þumlung eftir í því ati. Leikurinn færist fram og aftur um völlinn og hann verður ávallt að gæta þess að vera í góðri stöðu varðandi rangstöðuna, fyrir utan að verða að fylgjast nákvæmlega með hvort liðið setur boltann útaf og í hvora áttina hann á að benda með flagginu, einkennisbúnaði línuvarða.

Hann hann er farinn að mæðast, en hingað til hefur allt gengið vel. Hann er búinn að veifa á nokkrar rangstöður, athugasemdalaust að mestu, og hann hefur veifað rétt á innköstin.  Þegar líður á fyrri hálfleik á hann stöðugt erfiðara með að fylgja varnarlínu aðkomuliðsins og eftir mestu hlaupn sér hann stjörnur, en hann SKAL ekki lát á neinu bera.
Hann verður líklega að fara að hætta að reykja.

Seinni hálfleikur er flautaður á, og hann er upphafshress, telur sig munu ráða vel við þetta eftir frekar velheppnaðan fyrri hálfleik. Áfram gengur boltinn hratt villli vallarhelminga og hann verður að hlaupa fram og hlaupa til baka, aftur og aftur, ávallt einbeittur á varnarlínu Bolvíkinga, sem enn hafa ekki skorað og ekki fengið á sig mark heldur.
Skyndilega hefst enn ein stórsókn aðkomuliðsins og hann tekur á sprett með öftustu varnaramönnum, en þá vill það til að hann flækir  hægri fæti óvænt aftur fyrir þann vinstri og fellur til jarðar. Hann verður að halda veifunni í hægri hendi, en það þýðir að hann hefur bara þá vinstri til að bera fyrir sig, sem hann og gerir.
Hann heyrir smellinn greinlega.
Honum sortnar fyrir augum.
Auðvitað bægir adrenalínið mesta sársaukanum frá til að byrja með, en svo langar hann að öskra frá sér nístandi sársaukann sem heltekur hann skömmu síðar.
Leikurinn heldur áfram og það virðist enginn hafa tekið eftir honum. Leikkurinn er í járnum og hvorugt liðið ætlar að gefa færi á sér. Dómarinn fylgist einbeittur með leikmönnunum, en síður með línuvörðunum, að minnsta kosti ekki þeim sem nú reynir að brölta á fætur með illa brotinn handlegginn, veinandi inni í sér af sársauka.
Ef hann væri leikmaður væri nú þegar búði að kalla á sjúkrabíl..... en hann er línuvörður og línuverðir njóta ekki sömu þjónustu meðan á leik stendur og leikmennirnir.
Það dansa stjörnur fyrir augum hans og tárin streyma úr augunum. Hann sér allt í móðu, en er samt staðinn á fætur, staðráðinn í að standa sína plikt, en kemst fljótlega að því að það mun ekki ganga. Hann verður að fá aðhlynningu.
Þar sem hann er fjær áhorfendum, getur hann ekki vakið athygli þeirra á bágindum sínum og eina leiðin sem hann sér, sér til bjargar, er að lyfta upp veifunni og veifa. Það er hinsvegar merki um leikbrot af einhverju tagi, en ekki handleggsbrot.
Þar sem ekkert sérstakt er í gangi í leiknum hunsar dómarinn veifuna, og sendir línuverðinum skýrt merki um að svona geri maður bara ekki. Hann verður að ná athygli, svo hann heldur áfram að veifa og nú eru leikmennirnir farir að hlæja að þessum ruglaða línuverði og allir hættir að taka mark á honum. Það er ekki fyrr en aðkomuliðið missir boltann útaf og hann dæmir því innkastið, sem allt verður vitlaust og leikmenn Bolungarvíkur hnappast að honum í bræði sinni. Þá tekst honum á gera grein fyrir því, eftir langa syrpu af fúkyrðum, hvernig komið er, en það fer ekki á milli mála, þegar grannt er skoðað, að um er að ræða opið brot á vinstri framhaldlegg.
Eðlilega er brugðist við þegar þetta liggur fyrir og línuvörðurinn fær viðeigandi aðstoð.

Ekki er vitað til þess að þessi línuvörður hafi gætt línunnar eftir þetta.
Og hann reykir enn.

ps. þessa frásögn heyrði ég hjá fD fyrir stuttu, í örútgáfu, þar sem leikur í HM var í gangi og henni þótti við hæfi að trufla einbeitingu mína.  Það þarf ekki að taka fram að henni þótti þetta afar fyndið atvik. Tók það reyndar fram að línuvörðurinn, sem ekki verður nefndur hér á nafn hafi ekki enn áttað sig á hinni kómísku hlið málsins.

ps ps Ég vona að mér verði einhverntíma fyrirgefið hve frjálslega ég hef hér farið með staðreyndir málsins.

22 júní, 2014

Af ákvörðunum og líðan fugla.

Ekki neita ég því að maríuerluparið sem tók sig til, að því er virðist upp úr þurru, á þjóðhátíðardeginum, við að efna í hreiður í fuglahúsi, sem Álaborgarmaðurinn smíðaði fyrir áratugum síðan í handmennt í Reykholtsskóla, gladdi mig.
Maríuerlupar kom sér upp ungum í þessu húsi fyrir tveim árum okkur til ómældrar ánægju. Reyndi aftur í fyrra, en hætti við, að öllum líkindum vegna ógnandi tilburða krumma, sem þá hafði komið sér upp ungviði í Ólafslandi svokölluðu.
Fyrr á þessu voru varð vart við parið þar sem það kannaði aðstæður, en ekkert varð þá úr framkvæmdum.
17. júní hófst verkið hinsvegar af fullum krafti og hver goggfyllin á fætur annarri hvarf inn í húsið og Kvisthyltingar glöddust. Sannarlega þótti þetta heldur seint farið af stað og talið líklegt að fyrra varp parsins hafi farist fyrir með því egg eða ungar hafi endað í hrafnskjafti.
Eftir margar ferðir með efni fór að rigna og það sem meira var, það settist hrafn um stund í trjátopp í Sigrúnarlundi.  Hreiðurgerðinni var hætt og ekkert hefur gerst í húsinu síðan. Það síðasta sem ég sá til parsins í kringum þessa tilraun til hreiðurgerðar var annað þeirra norpandi í hellirigningu um kvöld, skammt frá húsinu, skömmu eftir að krummi hafði sest í furutoppinn.

Ég velti því fyrir mér hvernig maríuerla tekur ákvarðanir.  Kannski bara svona: "Þarna er krummi uppi í tré og núna veit hann að ég er að fara að búa til hreiður í húsinu og hann kemur svo þegar ég er búin að verpa og tekur eggin". Það getur svo sem verið að það hafi verið úrhellið sem fældi parið frá, en það hóf síðan hreiðurgerð á öðrum stað í nágrenninu og ekki veit ég hvernig það hefur gengið.

Ungar krumma hér í næsta nágrenni, eru allir þrír farnir úr hreiðrinu. Sá fyrsti virðist hafa hrapað til dauða eftir átök við systkin sín, löngu fyrir tímann. Sá næsti virðist  einnig hafa yfirgefið hreiðrið heldur snemma því hann er ófær um að fljúga og virðist hafa tognað eða brákað væng við brottförina úr laupnum. Hann heldur til hér uppi í brekku fyrir neðan Kirkjuholt og væri sjálfsagt gustukaverk að einhver áhugamaður um hrafnauppeldi tæki mál hans til umfjöllunar. Sá þriðji virðist hafa komist klakklaust frá þessu. 30% árangur - ekki veit ég hvað hrafnshjónunum
finnst um það.

Þetta var stutt yfirferð um fuglalífið í grennd við Kvistholt þetta vorið.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...