Þetta er ekki hæna frá Hveratúni. |
Þegar ég var í kringum 10 ára aldur var ég maður með hlutverk á heimili fjölskyldunnar. Ég var hænsnahirðir og fóðraði hænur heimilisins, sem voru eitthvað í kringum 20 að jafnaði, bara svona venjulegar hænur, hvítar með rauðan kamb. Fóðrið var blanda af hænsnakorni og leifum sem hrutu af borðum Hveratúnsfólks. Starfi mínu fylgdi einnig sú ábyrgð að sjá til þess að hænurnar hefðu alltaf nóg að drekka, hleypa þeim út til að viðra sig á sumrin og ná í eggin sem þær notuðu til að greiða fyrir tilveru sína.
Ég veit ekki hvernig svo æxlaðist að ég fékk þetta hlutverk, en held því auðvitað fram að systkin mín hafi bara ekki talist hæf til starfans. Ég veit hinsvegar að þau munu bera fram aðrar skýringar á ástæðum þessa og munu örugglega halda því fram að þau hafi einnig sinnt fiðurfénu, en ég andmæli slíkum fullyrðingum.
Náið samneyti við hænur í svo litlum hóp, þar sem hver hæna fékk að lifa svo lengi sem henni entist heilsa, hafði óhjákvæmilega þau áhrif að hænsnahirðirinn myndaði tengsl við flokkinn. Hver hæna fékk nafn og þær höfðu mjög mismunandi persónueiginleka. Sumar voru gæfar, en aðrar vildu sem minnst samskipti hafa við hirði sinn.
Hænsnakofinn var bak við gamla bæinn, með einum suðurglugga og dyrnar sneru að bakhlið íbúðarhússins. Byggingarefnið var holsteinn. Innan dyra var borð vinstra megin þegar inn var komið og þar fyrir ofan prik sem íbúarnir settust á þegar rökkvaði. Í hægra horninu fjærst voru síðan varpkassarnir og mig minnir að í þá hafi verið settir hefilspænir. Loftið var rykmettað og með einhverju millibili þurfti að moka út úr kofanum og í staðinn var settur ilmandi spænir.
Ég tel að hænurnar í Hveratúni hafi verið það sem kallast núm "hamingjusamar hænur". Þær nutu útiverunnar í heimilsgarðinum fyrir framan suðurhlið íbúðarhússins (ég sé fyrir mér hænur spígsporandi á pallinum í Kvistholti, þar sem fD liggur og nýtur sólar. Afar rómatísk hugmynd). Hamingja þeirra fólst einnig í því að hafa svo umhyggjusaman hirði sem raun bar vitni.
Þar kom í lífi hænsnanna að þær drápust úr elli eða sjúkdómum. Ég hygg að ekki hafi verið mikið spáð í hvort þær verptu eða ekki, þó mig minni að hænsnabóndi í Hrunamannahrepp, sem var alltaf kallaður Blómkvist eða Blommi (Andrés Blómkvist Helgason í Miðfelli 3 (1927-2005)) hafi eitthvað komið að endurnýjun stofnsins. Ég minnist þess að hafa nokkuð oft fjarlægt hænsnalík úr kofanum.
Nýrra hænsna, sem voru varla komnar af ungaaldri beið ekkert sældarlíf til að byrja með. Oftar en ekki lögðust hænurnar sem fyrir voru á þær, gogguðu í hausinn á þeim eða plokkuðu af þeim fjaðrirnar. Eins og allir vita þá er í gildi skýr goggunarröð í hænsnakofum, og ég vissi hverju sinni hver var forystuhænan og hver var sú sem neðst var í goggunarröðinni.
Eftir raunirnar voru nýju hænurnar yfirleitt teknar í hópinn, en það kom vissulega fyrir að þær lifðu ekki af.
Ætli hænsnahaldi hafi ekki lokið í Hveratúni einhverju eftir að fjölskyldan flutti í nýja bæinn, eða eftir að ég komst á þann aldur að erfiðara var að fá mig til að sinna skyldum mínum. Ég efast ekki um að systkini mín muna þetta betur en ég, en svo mikið veit ég, að ég var farinn að nálgast tvítugt þegar ég borðaði fyrst kjúkling.
Ég er eiginlega farinn að ímynda mér að, þegar grannt er skoðað, hafi ég gegnt starfi hænsnahirðisins stærstan hlut lífs míns.
En meira um það næst.
takk fyrir að deila þessu með okkur vissi ekki að í Hveratúni hefðu verið hænur kv Sigrún Elfa
SvaraEyðaJá, hænur, mikil skelfing, kýr, hestur og sauðfé, en aldrei hundur eða köttur, svo merkilegt sem það er. :)
EyðaMan eftir að hafa sinnt þessum hænum,en þu varst örugglega aðal hænsnahirðirinn. Ein af hænunum ínum var nefnd "Bístur" gefið nafn af hirðinum.Vafalaust verið " enska" á þeim árum..
EyðaJá, já, ein hét Bístur :) Ég bara velti fyrir mér hvor systranna þú ert.
Eyða