31 ágúst, 2014

Nýja hænan í kofanum (2)

Skírn 2014
Það sem fer hér á eftir getur seint talist neinn skemmtilestur, en þeir fá hrós sem klára. :) 
-------
Ég held að pæling mín í fyrri hluta þessa pistils hafi reynst nokkuð gagnsæ, en til upprifjunar þá hljóðaði hún upp á það að í einhverjum skilningi hefði ég verið hænsnahirðir stærstan hluta ævi minnar.  Fyrsta reynsla mín í því starfi var hænsnaumhirðan í Hveratúni í æsku, en síðan valdi ég mér nám og starfsvettvang sem leiddi mig að störfum í skólakerfinu, síðustu tæpu 30 árin í heimavistarframhaldsskóla á  Suðurlandi, nánar tiltekið á  Laugarvatni. Það er þaðan sem ég hef séð einna mesta samlíkingu við starf mitt í æsku.

Inngangur 

Án þess að ég viti það með einhverri vissu, þá tel ég að í dýraríkinu, og þá aðallega meðal dýra sem eru hópsækin, þurfi þau dýr sem koma ný inn í hópinn að undirgangast einhverjar raunir, eða að sanna sig, áður en þau geta talið sig til hópsins. Þá er það alþekkt að dýr sem skera sig frá öðrum í hópnum, víkja frá því sem hópurinn telur eðlilegt, eiga erfiðara uppdráttar en önnur.  Ég þykist hafa heyrt eða lesið um að þetta teljist vera hluti af svokölluðu náttúruvali; gallaðir einstaklingar hafa síðri möguleika á að flytja erfðaefni sitt áfram (við slíkar aðstæður verður þá eineltið til, eitthvert mesta böl sem manninum fylgir, en sem verður líklega aldrei aflagt).
Skírn 2011
Hvað varðar það fyrrnefnda þá hefur maðurinn þróað með sér gegnum árþúsundin einhverskonar vígsluathafnir til að staðfesta fullgildingu einstaklinga inn í tiltekna hópa. Það er sama hvert litið er, hvarvetna þurfa einstaklingar að sanna sig til að öðlast hlutdeild í hópum.
Þeir gera það  með því að taka próf af einhverju tagi: bílpróf, stúdentspróf, háskólapróf, pungapróf, sveinspróf, meistarapróf, og svo framvegis.
Þeir gera það með vígslum eða formlegum inntökuathöfnum: prestvígslu, fermingu, skírn, doktorsvörn, svo einhver dæmi sú nefnd.
Þarna er um að ræða formlegar og viðurkenndar aðferðir við að taka fólk inn í hópa, þó svo samlíkingin við hænurnar mínar sé sannarlega sjáanleg.
Hugmyndirnar á bak við allar inntökuathafnir eða próf snúast auðvitað um að viðkomandi þarf að sanna með einhverjum hætti að hann sé þess verður að verða hluti hópsins.

Prófum og inntökuathöfnum má svo í grófum dráttum skipta í tvennt: formlegum og viðurkenndum, annarsvegar og óformlegum og ekki almennt viðurkenndum, hinsvegar.
Ég ætla að fjalla lítillega um um þessar síðarnefndu athafnir hér á á eftir.

Skírn 2011

"Busavígslur"

Hvað er busi?
Vísindavefur Háskólans svarar því svo:
Orðið busi hefur verið notað í íslensku frá því á 19. öld. Þá var það haft um stráka í neðsta bekk mennta- eða latínuskóla en nú er það haft jafnt um stráka og stelpur. Það er líklegast myndað af lýsingarorðinu novus ‘nýr’. Þágufall fleirtölu er novis en busi er hugsanlega myndað af síðari lið orðmyndarinnar novibus sem er ranglega myndað þágufall fleirtölu.
Þetta hugtak, "busi" merkir með öðrum orðum nýnemi, sem hefur komist í viðkomandi skóla á grundvelli fyrri afreka í námi, en á eftir að undirgangast innvígslu í samfélag þeirra nemenda sem fyrir eru í skólanum.  Þar með verða síðan til "busavígslur", sem eru eiginlega eins nálægt þeim raunum sem nýjar hænur í hænsnakofa þurfa að undirgangast og hugsast getur. Hugmyndin er væntanlega sú, að til þess að vera tækir í nemendasamfélagið þurfi nýir nemendur að standast ýmsar þolraunir. Það er ekki fyrr en að þeim loknum sem þeir teljast hæfir til að taka vígslu. Vígslan inn í nemendafélagið í Menntaskólanum að Laugarvatni felst í því að nýnemar eru vatni ausnir í Laugarvatni. Til verksins er notuð gömul skólabjalla og skírarinn (hávaxinn piltur úr 4. bekk) fer með texta á latínu (þó svo latína sé ekki lengur kennd í skólanum).
Skírn 2014

Skírnin hefur ekki verið umdeild og að mínu mati er hún afar skemmtileg hefð. Aðdragandi skírnarinnar; það sem nemendur hafa bætt við gegnum árin, er það sem umdeilt er og það með réttu.
Ég ætla ekki að eyða tíma í að lýsa því hvernig þessi aðdragandi hefur farið fram, ég hef talið að þær athafnir hafi ekki sýnt eldri nemendur í mjög jákvæðu ljósi.  Sannarlega hafa þeir litið á þær "hefðir" sem um hefur verið að ræða sem skemmtun eða grín og þannig hefur það verið, þegar grannt er skoðað. Þessi skemmtun eða grín, var hinsvegar klædd í einstaklega neikvæðan búning, sem einkenndist af dýrslegum öskrum og ógnandi búningum (svartir plastpokar og sósulitur), sem gerði, að mínu mati ekkert annað en gera lítið úr eldri nemendum og þar með námi þeirra í skólanum: þeir sýndu mátt sinn og megin með því að vísa beint í dýrslegt eðli, en ekki þroska hins menntaða einstaklings. Með öðrum orðum fólust þessar athafnir í því að þeir sem eldri voru og þroskaðri gerðu lítið úr sjálfum sér í stað þess að sýna fram á andlega yfirburði sína.
Skírn 2014
Í allmörg ár hafa skólayfirvöldin ljóst og leynt freistað þess að fara þá leið að vinna með nemendum að því að breyta innihaldi þeirra "hefða" sem mótuðust í aðdraganda skírnarinnar í vatninu og því er ekki að neita að það tókst að talsverðum hluta. Gleðin og galsinn varð stöðugt ríkari þáttur í uppákomunum. Það sem erfiðast og nánast ómögulegt reyndist, var að fjarlægja umbúnaðinn og þar skipti litlu þó ýmis gagnmerk rök væru færð fram. "Hefðunum" mátti ekki breyta, í það minnsta ekki með góðu. Þar kom til aðallega tvennt, að því er ég tel: annarsvegar vildi engin stjórn verða stjórnin sem átti þátt í að afnema "hefðirnar" og hinsvegar voru fyrrverandi nemendur ákafir í því að viðhalda þessum og héldu þeim skoðunum mjög á lofti - þar til þeirra börn nálguðust framhaldsskólaaldur.

Hvernig urðu svo þessar "hefðir" "busavikunnar" til?  Jú, þær voru eftirlíkingar á svipuðu fyrirbæri í öðrum framhaldsskólum, þar sem hver apaði eftir öðrum, en ekki upphugsaðar og mótaðar innan skólans.
-------------
Skírn 2011
Á þessu hausti sýndi stjórn nemendafélagsins þann kjark, að vinna með skólastjórnendum að því að umbylta aðdraganda skírnarinnar. Í stað svartra ruslapoka og sósulitar komu litríkir skrípabúningar og fastir þættir sem verið hafa undanfarin ár voru hreinlega skornir af og aðrir jákvæðari settir inn.  Á þessu hausti var þetta fyrirkomulag prufukeyrt, og mun vonandi mótast sem jákvæður þáttur í skólalífinu.

Grundvallaratriðið í mótttöku nýnema in framhaldsskóla er að þeim finnist þeir velkomnir, en jafnframt að þeir fái tækifæri til að blandast eldri nemendum með skemmtilegum uppákomum.
------------
Svo er það nú annað mál, en samt tengt og sem lengi má ræða, en það er hvort við erum farin að vernda börn of mikið, of lengi.  Hvenær rennur upp sá tímapunktur að við teljum börnin okkar orðin fær um að takast á við allt óréttlætið og erfiðleikana sem fylgja því að vera fullorðin manneskja?
Ég get sagt óskaplega margt um það, en nenni því bara ekki núna.

Ég held áfram enn um sinn að vera nokkurskonar hænsnahirðir, en ég held að skjólstæðingarnir nú séu á réttri leið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...