25 september, 2015

Vem kan segla

Mallorca 1974: Þarna hafði, að sögn, einn félaginn unnið
talsvert af  freyðivíni í einhverjum leik í skemmtigarði
og hópurinn samfagnaði auðvitað.
Það var mikil tilhlökkun í hópi nýstúdenta frá ML sem hélt til Mallorca vorið 1974. Félagarnir, sem höfðu deilt gleði og sorgum  í fjóra vetur, töldu sig auðvitað vera orðna nokkuð sjóaða á flestum sviðum og hugðu gott til skemmtilegs tíma á sólarströnd.  Eðlilega voru væntingarnar mismunandi til ferðarinnar, en einhverjir, sem voru nú ekki mikið meira en svona nokkuð venjulegir íslenskir sveitamenn sem höfðu kynnst lítið eitt lífsreyndara fólk á Laugarvatni, hugðust heldur betur njóta þess að stíga á erlenda grund í fyrsta skipti af alvöru. Eitt af því fyrsta sem bar fyrir augu var, að því er virtist, venjuleg verslun við hlið hótelsins. Þegar þar var komið inn blöstu við hilluraðir með áfengi af ýmsum tegundum, á verði sem varla gat talist eðlilegt á íslenskan mælikvarða.
Það varð úr við þessar aðstæður, að ég festi kaup á rommi, en það var drykkur sem hafði á sér svona ákveðin suðrænan blæ í huganum. Síðan festi ég kaup á kóla drykk. í framhaldinu smakkaði ég og smakkaði síðan aðeins meira.
Hópurinn naut lífsins á Mallorca og ferðin var eins vel heppnuð og vonir stóðu til og segir ekki meira af henni, en síðan þá hef ég ekki smakkað þennan drykk án þess að vera kominn aftur til Mallorca, tvítugur að aldri.
Þarna er um að ræða þekkt fyrirbæri, tenging bragðs við ákveðnar aðstæður í fortíðinni.

Þessi pistill átti ekkert að vera um romm og kókakóla. Það bara gerðist einhvernveginn í samhengi þess sem hann átti að snúast um.

Hópurinn hvarf frá Mallorca eftir tilskilinn tíma og dreifðist í ýmsar áttir. Miðjarðarhafseyjan skapaði umgjörð síðustu samskipta okkar sem hóps og suma bekkjarfélagana hef ég ekki séð síðan, við aðra hef ég átt í nokkuð reglulegum samskiptum af einhverju tagi.

Þessar vikurnar hefur mér talsvert oftar en áður orðið hugsað til menntaskólaáranna. Fyrst vegna þess að fyrir nokkrum vikum lést Jóhanna Gestsdóttir, sem var bekkjarfélagi á Laugarvatni. Við útför hennar frétti ég af því að önnur bekkjarsystir mín væri langt leidd af samskonar sjúkdómi og hún lést síðan þann 11. september síðastliðinn. Útför hennar fer fram í dag.
Sigurveig um það leyti sem hún kom á Laugarvatn

Sigurveig Knútsdóttir hét hún og þegar hún kom á Laugarvatn hafði hún átt heima í Svíþjóð einhvern tíma. Hún hafði sig alla jafna ekki mikið í frammi, var ekki áhugamanneskja um íþróttir svo ég muni, var meira svona fyrir hugans ævintýr. Hún féll ágætlega inn í hópinn, sem átti oft góðar stundir saman.

Þar með kem ég að tengingunni við bragðminnið sem fjallað er um hér ofar.

Það gerðist nokkuð oft á góðri stund að fólk fór að syngja. Fastur liður í þeim söng var sænska barnagælan "Vem kan segla förutan vind". Þarna kom Sigurveig sterk inn með sænskubakgrunninn sinn. Hún sætti sig ekki við rangan framburð, eða að rangt væri farið með. Mest vinnan hjá henni fór í að kenna meðsöngvurum framburðinn á "skiljas" í þriðju línu, og það gekk misvel að koma honum frá sér svo Sigurveig væri ánægð.  Síðan þurfti hún ítrekað að benda á að maður segir "åror" en ekki "årer".
Ég læt hér textann fylgja og lít á hann sem minningu um ágæta bekkjarsystur.

Vem kan segla förutan vind,
vem kan ro utan  åror.
Vem kan skiljas från vännen sin,
utan at fälla tårar.

Jag kan segla förutan vind,
jag kan ro utan åror.
Men ej skiljas från vännen min,
utan at fälla tårar.




Í hvert sinn sem ég hef heyrt þennan söng síðan hefur Sigurveig komið upp í hugann. Í hvert sinn sem Sigurveig hefur komið upp í hugann hefur mér dottið þessi söngur í hug, ásamt framburðarkennslunni.

Um ævigöngu Sigurveigar frá því leiðir skildust á Mallorca fyrir rúmum fjórum áratugum veit ég afskaplega lítið þó skömm sé frá að segja. Hún fór í listnám og hélt að minnsta kosti eina sýningu á grafíklistaverkum / dúkristum árið 1997. Þá náði hún sér í kennsluréttindi 1995 og starfaði síðan við kennslu í einhvern tíma. Loks  afrekaði hún það að eignast tvær dætur.

---------------

Í pistlinum um Jóhönnu nefndi ég von mína um að allur hópurinn sem eftir væri myndi hittast á Laugarvatni í maí árið 2024 til að fagna saman og minnast. Þá vissi ég ekki að nokkrum dögum síðar myndi annar bekkjarfélagi falla frá.  Ég verð að aðlaga von mína af þessu tilefni og taka undir orð sem enn ein bekkjarsystir mín lét frá sér fara fyrir stuttu, þar sem hún gerði athugasemd við að ég skyldi tala um árið 2024 í þessu sambandi í stað ársins 2019.
Ég vænti þess og vona, að í minningu þessara félaga okkar hittumst við öll á Laugarvatn til að fagna 45 ára stúdentsafmæli í maí 2019.

19 september, 2015

"Þú, þarna við súluna"

Aðdragandann að fyrirsögninni má rekja til ákvörðunar sem var tekin snemmsumars, þegar fréttir bárust af því, að víðfrægur sönghópur hyggðist halda tónleika í Skálholtskirkju þann 17. september. Hér var um að The King's Singers.  Það var ákveðið að kaupa miða á þessa tónleika.
Af málinu segir ekki frekar fyrr en á tónleikadegi þegar haldið var tímanlega til kirkju. EOS-inn var í farteskinu, ef heimilt skyldi reynast að taka myndir af hinum heimsþekktu listamönnum á hinum sögufræga stað.
Fyrir tónleikana spurði ég þann sem var í forsvari fyrir viðburðinum, hvort leyft væri að taka myndir og fékk við því afdráttarlausa neitun.  Við upphaf tónleikanna ítrekaði forsvarsmaðurinn í ávarpi til tónleikagesta, að myndatökur væru ekki leyfðar. Allt í góðu lagi með það. Þar sem ég er, í flestu afar, löghlýðinn maður, geymdi ég EOS-inn í töskunni þar til í hléi. Listamennirnir hurfu af vettvangi og þá fannst mér ekki úr vegi að taka myndir af söngpúltum þeirra félaga, sem ég og gerði. Þá bar að áðurnefndan forsvarsmann, sem hafði það á orði, að það myndi vera í lagi ef ég tæki einhverjar myndir af hópnum þegar þeir væru ekki að syngja, líklega fékk ég þarna ákveðna undanþágu vegna þess að hver maður gat séð að ekki hefði ég í huga að draga upp neinn farsíma til myndatökunnar, heldur sjálfan EOS-inn, sem er hið verklegasta tæki.

Hléinu lauk. Fólk fór að koma sér fyrir og ég stillti mér við súlu um miðja kirkju og stillti EOS-inn þannig að tryggt væri lysingin yrði viðunandi. Ég komst að því að ég myndi þurfa 12800 ISO til að myndirnar yrðu nægilega vel lýstar. Með því móti yrðu þær vissulega grófar, en einhverju varð að fórna.
"Þú þarna við súluna" Ég snéri mér við að um tveim metrum fyrir aftan mig sat mikilúðleg og ábúðarfull kona í sæti sínu. Ég gekk til hennar og viðurkenndi þar með að ég væri sá sem stóð við súluna.
"Já"
"Veistu ekki að það er bannað að taka myndir? Heyrðirðu ekki þegar það var tilkynnt áðan?"
Þarna var komin ein af þessum manneskjum sem telja það vera hlutverk sitt að sjá til þess að lögum og reglum sé framfylgt. Kallast það ekki "vigilante" á erlendum tungum?
"Jú, ég hef hinsvegar leyfi til að taka nokkrar myndir".
Þar með breyttist málflutningurinn snarlega og hún gerðist talsmaður annarra tónleikagesta sem þarna höfðu orðið fyrir grófu óréttlæti.
"Það er annað en var sagt við okkur". 
"Það getur vel verið"
Þar með snéri ég mér við, skildi vandlætingarfullt andlit talsmanns laga, regluverks og réttlætis, eftir, enda síðari hluti tónleikanna að hefjast.

Listamennirnir gengu inn kirkjugólfið og tónleikagestir fögnuðu og fögnuðu eins og full ástæða var til.
Ég smellti af tveim myndum þar sem hópurinn hneigði sig áður að söngurinn hófst á ný.

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015
....
Mér hefur orðið hugsað til þess að ef til vill ætti ég að verða mér úti um vesti sem myndi auðvelda mér lífið við aðstæður sem þessar. Dæmi um svona vesti má sjá á myndinni hér til vinstri. Með því móti myndi ég aðgreina mig frá "múgnum með myndsímana" og losna við leiðindi eins og þarna var um að ræða, að mínu mati. Ég er viss um að konan var að tjá það sem margir sem sáu til mín hugsuðu.
...........
Tónleikar The King's Singers voru afskaplega skemmtilegir, en öðrum lætur betur að lýsa hinum tónlistarlega þætti en mér.

Forsvarsmaðurinn, sem ég nefni hér að ofan er Margrét Bóasdóttir og mér skilst, án þess að hafa fyrir því fulla vissu, að hún hafi átt stóran þátt í að þessir tónleikar voru haldnir í Skálholti. Fyrir það á hún bestu þakkir.

16 september, 2015

Tenór á ný

Ítalía 2007: Með Bubbu (Rannveigu Pálsdóttur) og
Kristni (Kristmundssyni) á Caprí.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ástæða þess að ég ákvað að endurnýja samband mitt við Skálholtskórinn eftir nokkurra ára hlé, væri sú að ég teldi ótækt lengur að í kórinn vantaði sárlega þann fagra tenórhljóm sem lifnar í raddböndum mínum.
Ég get svo sem alveg sagt það og ég get vissulega trúað því, svona eins og sannir tenórar eiga að gera, en ég kýs að gera það ekki á þessum vettvangi. Það getur vel verið að ég velti mér upp úr aðdáun minni á silfurtærri fegurð raddar minnar í einrúmi heima og hver veit svo sem nema ég deili aðdáun minni á þeirri guðsgjöf sem ég bý yfir með fD? En það verður ósagt hér, enda lítillæti mitt of mikið til að fjölyrða um þessi mál.

Ef til vill er ástæðan fyrir skyndilegri endurkomu minni eitthvað tengd hækkandi aldri. Það kann að vera að mér hafi fundist að það væri nú farið að styttast í þeim tíma sem mér er gefinn á þessari jörð sem tenór og því siðferðisleg skylda mína að leyfa öðrum kórfélögum og tónleikagestum að njóta meðan notið verður. Það gæti mögulega verið að mér hafi fundist að þau gersemi sem raddbönd mín eru, yrðu að fá að njóta sín í eðlilegri tónhæð, annars væri það bara bassinn.
Mér líður seint úr minn þegar ónefndur (nú þarf ég að passa mig), eigum við að segja, aðili, sagði við ónefndan tenór, að rödd hans væri farin að dýpka eða dökkna og líklega réttast að hann færði sig í bassann. Eins og nærri má geta féllu þau orð í grýttan jarðveg og höfðu áralangar afleiðingar.  Ég skil viðbrögð tenórsins vel.

Berlín 2008: Einbeittir tenórar takast á við
Gunnar Þórðarson og Arvo Part
Það kann að vera, eftir allt sem á undan er gengið í aðkomu minni að kórmálum í fleiri áratugi en ég kæri mig um að fjalla um, reynist mér erfitt að slíta tengslin við það undursamlega samfélag sem kór er, ekki síst ef það reynir dálítið á, maður sér árangur og nýtur uppskerunnar þegar vel gengur. Á þessum vettvangi hef ég nokkuð oft fjallað um kórmál og ekki alltaf leiftrandi af jákvæðni, enda í þeim tilvikum, ástæða til, að mínu mati. Það breytir því ekki, að þegar kór er samstiga í því að gera vel, þá er gaman að þessu.

Ég hef upplifað margt á kórævi minni og þar standa upp úr ótrúlega skemmtilegar ferðir á erlenda grund.  Líklega voru þær alltaf  gulrótin sem hélt öllu saman - sameiginlegt markmið sem glæddi áhuga umfram þann sem verður til af söngnum einum saman.

Berlín 2008: Á tónleikastað.

Ég kom á fyrstu kóræfingu í gærkvöld. Við fD mættum reyndar bæði og hún hyggst takast á við allra hæstu sóprantóna að fítonskrafti.
Í tenórstólana voru mættir tveir tenórar á besta aldri. Meðalaldur tenóra við upphaf þessa söngárs er 64,6 ár. Þar eru menn vel hærðir með grásprengt upp í hvítt hár.  Það var rætt um að mögulega bætist einn tenór í hópinn, sem lílega verður til þess að meðalaldurinn nær 65+. Allt hið besta mál og allar kenningar um að með aldrinum lækki rödd tenóra þannig að þeir verði að leita í bassann, eru húmbúkk eitt. Þarna virtist einmitt hið gagnstæða vera raunin og vel gæti verið að kliðmjúkur altinn fái frekar notið fyrrum tenóra þegar tímar líða.

Megi þetta allt fara vel.

13 september, 2015

Réttasaga

Tungnaréttir 2015: Myndin er tekin áður en allt fylltist af fólki.
Svitinn perlaði á enni margra þeirra sem greindu mörkin og sviftu fénu síðan í rétta dilka. Það var oftar en ekki peli í rassvasanum, svipurinn fól í sér innri spennu og einbeitingu þannig að ekkert komst að nema koma þessari í dilkinn og ná í næstu. Kappið og einbeitingin skein úr andlitunum og það var engu líkara en dáttarfólkið fengi greitt fyrir hvern haus. Meginmarkmið þessa dags var að reka féð inn í almenninginn og deila því síðan á dilkana í samræmi við eyrnamörkin. Svo voru ótal undirmarkmið sem ég kann eðlilega ekki skil á, verandi sá sem ég er.
Mikilvægi dagsins fyrir þá sem þarna heimta fé af fjalli er ótvírætt. Þó svo stór hluti þeirra lífvera sem þarna voru  og sem hafa notið lífsins í frelsi óbyggðanna í tvo til þrjá mánuði, verði orðnar að kjöti á diskum landsmanna eða í frystikistum þeirra innan nokkurra vikna, er réttadagur, hátíðisdagur.
Réttir af einhverju tagi 1980:
Egill Árni skellti sér á bak. Oddný á
Brautarhóli atast í fénu.
Hann er ekkert sérstakur hátíðisdagur fyrir mig, eins og nærri má geta. Vildi gjarnan að svo væri, en hlutverk mannanna á lífsgöngunni eru misjöfn og gæðum misskipt. Okkur kann að finnast það ósanngjarnt, en þannig er lífið víst: ósanngjarnt.  Þegar hugsað er með þessum hætti lítum við kannski framhjá því að þó  við njótum ekki gæða sem aðrir njóta, þá njótum við ýmissa gæða sem aðrir ekki njóta. Svona er það nú bara.

Það var ekki laust við að gætti dálítils pirrings meðal einhverra þeirra sem þarna drógu féð í dilka, í garð þeirra sem þarna voru staddir með ekkert annað hlutverk en að hitta fólk, taka myndir, þvælast (aðallega fyrir), upplifa sérkenni íslenskrar sveitamenningar eða kannski bara til að fá tækifæri til að setja í pelann og dreypa á honum að morgni dags og fram eftir degi og/eða taka þátt í víðfrægum réttasöng.
Það var mikill mannfjöldi í Tungnaréttum í gær, eiginlega á mörkum þess sem hægt er að koma fyrir án þess að hreinlega trufla það starf sem þurfti að eiga sér stað. En veðrið var með allra besta móti.



Tungnaréttir 1984: Þorvaldur Skúli á hestbaki
á örlagaári í lífi Kvisthyltinga.
Ég hef oft farið í réttir, allt frá barnæsku. Þegar ég leiði hugann að réttarferðum barnæskunnar er það ekki sauðféð sem kemur fyrst í hugann, heldur rigning í Skeiðaréttum (við kölluðum þær það) og fullir kallar að slást, veltandi í drullipolli. Næst kemur í hugann lamb á réttarvegg sem hafði verið skorið á háls.  Já, nærtækustu minningarnar eru ekki beinlínis fallegar, en þær brenndu sig í barnshugann. Nú er öldin önnur. Ég hef ekki séð fulla kalla slást í réttum áratugum saman.

Við Kvisthyltingar fórum oftast í réttir þegar börnin voru ung (þrátt fyrir áfallaröskun föðurins á æskuárum). Það var auðvitað gaman að leyfa þeim að upplifa það sem þarna fór fram; gerast áæðnari eftir því sem árin liðu, fá jafnvel að taka þátt í að draga.  Þegar þau voru síðan sjálf farin að átta sig á því hve hlutverk þeirra var lítilfjörlegt, minnkaði áhuginn á þessum ferðum.




Tungnaréttir 1985: Guðný Rut nýtur sín á hestbaki.
Ég ætla ekki að halda því fram, að tilgangurinn með réttaferðum sé enginn. Það er með þær, fyrir fólk eins og mig, eins og fermingarveislur og jarðarfarir, þú hittir þar fólk sem þú sér sjaldan. Í gær hitti ég til dæmis fyrrum Laugarásbúa sem ég hafði ekki séð síðan um miðjan sjöunda áratuginn. Slíkt gerir það þess virði að kíkja í réttir, þó ekki sé annað.

EOS-inn var með í réttum í gær, mér til halds og trausts. Ég notaði hann óspart og hann brást mér ekki frekar en fyrri daginn.




Tungnaréttir 1996. Brynjar Steinn ásamt föður sínum,
Hilmari, Hófí og Helga í Hrosshaga

04 september, 2015

Á besta aldri

Jóhanna Ólöf  Gestsdóttir, 40 ára stúdent.
Vorið 2004 komu saman á Laugarvatni fyrstu stúdentarnir sem fögnuðu 50 á stúdentsafmæli. Þeir komu síðan aftur á Laugarvatn á síðasta ári, allir nema einn, í tilefni af 60 ára afmælinu, þá orðnir um áttrætt. Sá eini sem ekki kom lést nokkrum dögum fyrir hátíðina og hafði verið búinn að gera ráðstafanir til að vera viðstaddur. Það er auðvitað gaman þegar svona hópur, sem gekk saman gegnum súrt og sætt í fjögur ár á mótunarárum, nær allur svo háum aldri.

Ég fagnaði 40 ára stúdentsafmæli vorið 2014 ásamt hópi bekkjarfélaganna. 25 vorum við sem lukum stúdentprófi frá ML vorið 1974, 9 okkar kláruðu sig af máladeild og 16 af eðlis- og náttúrufræðdeild.
Við, þessi 9 sem lukum máladeildinni, erum nú orðin 8.   Þann 29. ágúst síðastliðinn lést Jóhanna Ólöf Gestsdóttir, eða Jóka, eins og hún var kölluð í okkar hópi. Jóhanna er jarðsungin í dag.

Það er nú svo með stúdentahópana sem hverfa frá Laugarvatni á hverju vori, að þeir halda mismiklu sambandi eftir að menntaskólaárunum lýkur. Það fer hver sína leið, finnur sér farveg til að ferðast um gegnum lífið. Hópurinn okkar Jóhönnu hefur nú ekkert verið sérstaklega samheldinn, hverju svo sem þar er um að kenna, en við höfum flest vitað hvert af öðru, sumir hafa haldið hópinn vel og ræktað vináttu frá þessum árum. Flest höfum nokkrum sinnum komið saman á Laugarvatni til að júbilera. Jóhanna sinnti þeim þætti vel, þó svo hún hafi ekki átt samleið með hópnum öll 4 árin á Laugarvatni. Hún kom inn í bekkjarhópinn í 2. bekk og var síðan utan skóla, í það minnsta frá áramótum í 4. bekk.

1974
Sama árið og hún útskrifaðist eignaðist hún frumburðinn og giftist Baldri Garðarssyni. Þau slitu samvistum. Seinni maður Jóhönnu var Kristján Sigurðsson og þau eignuðust 4 börn saman.

Jóhanna, já.
Ég held að ég megi segja á ég hafi ekki þekkt hana mjög náið, sem persónu, en það man ég að hún hafði ákveðnar skoðanir og var ófeimin við að tjá þær. Að því leyti breyttist konan ekkert þó árunum fjölgaði.
Eins og oft vill verða í bekkjakerfisskóla þá mótast samskiptin í hverjum bekk mest í 1. bekk og þroskast síðan eftir því sem ofar dregur. Af þessum sökum má segja að Jóhanna hafi ekki algerlega náð að samsama sig þessum hóp og að sumu leyti voru samskipti hennar ekki minni við árganginn á undan okkur, en innan hans steig hún fyrst niður fæti í skólanum. Áður en hún kom á Laugarvatn hafði hún lokið eins árs námi við framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Akranesi.

Ævistarfið snérist um ungt fólk. Fimm eignaðist hún börnin og kom til manns og ótölulegur fjöldi ungmenna naut leiðsagnar hennar sem kennara og það sem ég ræddi við hana um uppeldismál bendir til að þau hafi verið hennar hjartans mál og starfsvettvangur hennar hentaði því vel. Á s.l. vori lauk hún viðbótardiplómanámi í náms- og kennslufræði frá HÍ, svo hún var greinilega ekki á þeim buxunum að fara að hægja verulega á.

Brotthvarf Jóhönnu úr jarðlífinu fær mann til að staldra aðeins við, velta fyrir sér því sem allir vita auðvitað, en ýta jafnharðan frá sér. Okkur er mældur mislangur tími og mælinguna þá þekkir enginn.

Eftir tæp 8 ár, vorið 2024 kemur þessi hópur saman aftur til að júbílera á Laugarvatni. Þá verður í það minnsta engin Jóka til að gleðjast með, en vonum að við hin fáum hist þar til að rifja upp sameiginlega sögu og deila því sem á dagana hefur drifið.

40 ára júbílantar sem hittust á Laugarvatni vorið 2014.
Frá vinstri: Smári Björgvinsson, Páll M Skúlason, Ólafur Þór Jóhannsson,
Lára Halldórsdóttir, Haraldur Hálfdánarson, Jarþrúður Þórhallsdóttir,
Eiríkur Jónsson, Jason Ívarsson.
Þarna hafði Jóhanna  brugðið sér frá og við gátum ekki hafnað góðu boði
hennar Bubbu (Rannveigar Pálsdóttur),um að smella af okkur mynd.


31 ágúst, 2015

Í lífshættu á Kili

Ég þakka fyrir að sitja hér fyrir framan tölvuskjáinn í góðu yfirlæti í stað þess að öðruvísi sé komið fyrir mér. Reynsla gærdagsins hefur kennt mér (reyndar er ég alltaf að læra það sama í þessum efnum) að það sé mikilvægt að hugsa hvert skref áður en það er tekið. Ég hef reyndar haft þetta að leiðarljósi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Oft hef ég hinsvegar staðið frammi fyrir aðstæðum sem verða til þess að ég gleymi einu og einu skrefi og það var það sem gerðist í gær.

Við fD skelltum okkur í Kerlingarfjöll. Ég, með alla myndatökuútgerðina mína og hún með litlu spjaldtölvuna sína. Ég, til að taka myndir til að dunda mér síðan við í myndvinnsluforritum. Hún til að taka myndir á spjaldtölvuna sína til að finna flott form og liti til að mála eftir á dimmum vetrardögum sem framundan eru. Í sambandi  við spjaldtölvuna stóð ein spurning fD uppúr: "Af hverju sé ég bara sjálfa mig?" Ég læt lesendur um að finna út tilefni spurningarinnar.

Hér ætla ég ekki að fjalla um þær dásemdir sem í Kerlingarfjöllum er að finna, nema með nokkrum myndum, heldur það sem gerðist þegar myndatökum var lokið og haldið var í áttina heim aftur.

Við vissum að ferðin þarna uppeftir gæti tekið einhvern tíma þannig að það var ákveðið að taka með nesti, útileguborðið, útilegustólana og gastæki til að hita vatn í kaffi. Eftir Kerlingarfjöll þurftum við síðan að finna góðan og ofurrómantískan grasbala til að koma græjunum fyrir, hita vatnið og snæða í guðsgrænni náttúrunni á fjöllum. Þennan stað fundum við við Gýgjarfoss í Jökulfalli við veginn upp í Kerlingarfjöll. Hreint indæll staður og það sem meira var, þarna gat ég æft mig í að taka myndir af fossinum meðan vatnið hitnaði. Í sem stystu máli, settum við allt upp. Kúturinn var settur í gastækið, potturinn á og vatn í hann, skrúfað frá gasinu og kveikt á. Að því búnu kom ég þrífætinum fyrir á góðum stað og tók að mynda í gríð og erg. Ég prófaði mismunandi stillingar á filternum, mismunandi ljósop, mismunandi hraða og mismunandi hitt og þetta.
"Á að rjúka svona úr gastækinu?" spurði fD þar sem hún stóð allt í einu fyrir aftan mig, en myndatakan fór fram í um 20 m fjarlægð frá eldunarstaðnum.  Mér varð litið við og sá hvar blásvartur reykur liðaðist upp af tækinu, augljóslega ekki úr pottinum. Það fór um mig við þessa sjón, eins og vænta mátti. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Annaðhvort var tækið bilað, eða ég hafði gert einhver mistök við tengingar.

"Nei, það á ekki að rjúka svona úr tækinu" varð mér á orði í huganum þar sem ég skildi myndatökutækin eftir á bersvæði við beljandi Jökulfallið á sama tíma og túristarúta nam staðar skammt frá, og hraðaði mér í átt að eldunarstaðnum. Þarna var augljóslega eitthvað mikið að, en eins og vænta mátti sýndi ég fumlaus viðbrögð þótt inni í mér ólgaði óvissan um hvað þarna gæti gerst í þann mund er ég nálgaðist tækið til að slökkva á því.  Ég byrjaði á að loka snöfurmannlega fyrir gasstreymið og átti  von á því að þá og þegar spryngi gaskúturinn í andlitið á mér.  Tækið allt var orðið glóandi heitt, en gaskútnum er komið fyrir inni í því, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Eftir nokkra stund hvarf ég aftur að tækinu þó svo hættan á sprengingu væri enn ekki liðin hjá og tók pottinn af hellunni, en hún er laus. Þá blasti við mér miði á hellunni sem greindi frá því, svo ekki varð um villst, að hluti af því að græja tækið til notkunar væri að snúa hellunni við. Þá rifjaðist það upp fyrir mér og þannig hafði ég gert þetta áður. Þarna hafði ég haft hugann meira við myndatökur en eldamennsku og því fór sem fór.

Mér tókst að snúa hellunni rétt og þegar tækið hafði kólnað nokkuð kveikti ég aftur á því og nú var allt með eðlilegum hætti, vatnið hitnaði, brauðið var smurt og álegg skorið. Það var etið og drukkið í guðsgrænni náttúrunni  og einu áhyggjurnar sneru að því hvort við vektum meiri athygli túristanna sem framhjá fóru, en vegurinn framundan, með þeim mögulegu afleiðingum, að þeir ækju á Qashqai þar sem hann stóð í vegarkantinum.

Svo var fram haldið ferðinni heim á leið.


24 júní, 2015

Sundbuxnakaupin

Það er svo komið að 10 ára gamlar sundbuxur mínar eru komnar úr tísku og ekki bara það, því þær hafa einnig orðið fyrir útlitsáverkum vegna þess að þær hafa verið notaðar til ýmissa annarra athafna sen sunds gegnum árin.  Niðurstaða mín varð sú, í tilefni af fyrirhugaðri ferð, þar sem gert er ráð fyrir að fólk sé frekar í sundbuxum en þessum venjulegu, svörtu vinnubuxum, að ég yrði að endurnýja sundbuxurnar.
Þetta tilkynnti ég fD og hún gerði ekki athugasemdir við þessar niðurstöðu mína.
Auðvitað vissi ég að val á sundbuxum gæti orðið  allt annað en einfalt því þar koma að ótal breytur sem get haft áhrif á valið.  Það hvarflaði að mér að  mér að það væri nú gott ef kæmi nú svona spurningaleikur á Fb: What kind of swimsuit suits you best? Take the test. Þá þyrfti ég bara að svara svona 10 spurningum og fengi niðurstöðuna svart á hvítu. Það er enginn svona spurningaleikur í gangi.
Svo hófst ferðin til höfuðstaðar Suðurlands, en þar þurfti að sinna ýmsum erindum, meðal annars að athuga hvort þar fengjust viðeigandi sundbuxur. Þó margt annað sem gerðist í þessari kaupstaðarferð hafi verið óendanlega skemmtilegt og fróðlegt, þá einbeiti ég mér bara að þessu sundbuxnamáli hér og nú.
A
Það var auðvitað fD sem stakk upp á líkegustu versluninni og ég átti allt eins von á að hún héldi áfram að stinga upp á, alveg þar til búið væri að greiða fyrir mögulegar buxur.
Þar sem enginn var Fb leikurinn til að hjálpa mér við val á svona flík, þá varð ég sjálfur að búa mér til spurningar með helstu breytum, því auðgljóslega yrði um margt að velja og mikilvægt að ég setti fram sjálfstæða skoðun þegar kæmi að sundbuxnavalinu.
Hér eru áhugaverðar spurningar sem sundbuxnakaupandi gæti þurft að svara til að taka upplýsta ákvörðun:
1. Hvað ertu gamall?
   Valkostirnir væru einhver aldursbil
2. Hvernig ertu í vexti?
   Valkostirnir væru á bilinu frá vaxtarræktarmaður upp í "Hvað áttu við?"
B
3. Hjúskaparstaða?
    Valkostir frá því að vera á lausu og upp í "harðgiftur í 40 ár"
4. Stundarðu sund?
    Valkostir frá aldrei og upp í daglega.
5. Hefurðu þörf fyrir að vera áberandi.
    Valkostir frá því að vera "nei engan veginn" og upp í "nú, auðvitað".
6. Hverjar eru stjórnmálaskoðanir þínar?
    Valkostir eru þetta venjulega frá vinstri til hægri.
C
7. Hver er uppáhaldsliturinn þinn?
    Valkostir óræðir, en eitthvað sem tengist litum. 
8. Til hvers ætlar þú að nota sundbuxurnar?
     Valkostir tengjast óhjákvæmilega svarinu við spurningu 4.
9. Hefur þú frelsi til að kaupa þær sundbuxur sem þig langar í?
   Valkostir á bilinu "Nei, alls ekki" og upp í "Já, auðvitað! Þó það nú væri!"
10. Vantar þig raunverulega sundbuxur?
    Vakostir frá "Neeeei, ætli það" og upp í "Auðvitað! Hverskonar hálfvitaspurning er þetta?"

Ég var örugglega búinn að fara í gegnum allar þessar spurningar í
huganum þegar við fundumm sundbuxnarekkann í búðinn sem fD hafði bent mér á.
D
Afgreiðslumaðurinn var unglingspiltur og fór yfir helstu þætti í úrvali sundbuxna verslunarinnar. Af einhverjum ástæðum benti hann mér ekki að þær sundbuxur sem maður kallaði alltaf "sundskýlu" áður fyrr. Síðan benti hann á flokk sundbuxna sem hann sagði að fylgdi ákveðið vandamál með stærðir - það þyrfti að gefa upp mittismál. "Þá verður bara að mæla", varð mér á orði og sú umfjöllun varð ekki lengri og ungi maðurinn hvarf á braut eftir að hafa bent mér á að það væri sjálfsagt að ég fengi að máta, ef ég vildi! Þrátt fyrir að mátun á sundbuxnum væri möguleg, hélt ég áfram að skoða.


E
Þarna var ákveðinn flokkur sundbuxna þar sem stærðirnar voru gefnar upp sem S, M, L, XL og XXL.
"Þú þarft ekki stærra en XL(?/!)" - ég set þarna tvo möguleika um greinamerki þar sem mér var ekki fullljóst hvernig skilja bæri það sem fD sagði.
Þessar sundbuxur voru til í þrem litum, og þá má sjá á meðfylgjandi myndum. Þegar stærðin var klár í huga mér stóð ekkert annað út af en liturinn.
"Það sér minnst á svörtu" - heyrðist í sjálfskipuðum ráðunaut mínum.

Ég fór úr þessari búð með sundbuxur í poka, en hvaða lit of lögun skyldi ég hafa valið?  A, B, C, D eða E?
 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...