05 júní, 2017

Af barnasprengjukynslóðinni

Ég hef nefnt það hér, að ég fermdist árið 1967. Um fermingaraldurinn verður tónlistin í kringum
mann á einhvern hátt mótandi afl í lífinu. Unglingar eru alltaf með tónlist við höndina og máta hana við tilfinningar sínar. Ég hef haldið því fram að tónlistarlega séð tilheyri ég einni heppnustu kynslóð sem uppi hefur verið.
Hér ætla ég að sýna nokkur dæmi um það sem ég á við, en þau eru öll frá árinu 1967, fermingarárinu mínu. Þetta er bara örlítið brot af því sem átti þátt í að móta mig. Það má eiginlega segja að út frá tónlistinni sem kom fram á unglingsárum hefi ég að einhverju leyti tekið stefnur í lífinu, eða mótað mér lífsskoðun. Það á vísast við um alla unglinga á öllum tímum: tónlistin á mótunarárunum hjálpar þeim í einhverjum skilningi að finna sig.
Á þessu ári byrjaði hippamenningin, svokallaða, að festa rætur. Við vorum aðeins of ung til að tileinka okkur hana, en það munaði ekki miklu.
Næstu árin báru keim að hippamenningunni hjá okkur; sítt ár, litríkur fatnaður, peace merki um hálsinn, útvíðar buxur, þykksólaðir skór.

Þá að dæmunum:
1.  Ég þarf auðvitað ekki að minnast á Bítlana sem gáfu út eitt mesta stórvirki sitt "Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band". Ekki þarf að hafa mörg orð um það, en ekki held ég að ég hafi þá leitt mjög hugann að innihaldinu í þessu lagi. 



2. Um miðjan maí, nánast sama dag og við fermingarsystkinin staðfestum skírn okkar í Skálholti, rataði þetta lag inn á vinsældalista. Það var og er, að mínu mati ein þeirra perla sem standa upp úr meðal þeirrar tónlistar sem síðan hefur hljómað. Já, já, maður verður að taka stórt upp í sig. 


3. 10 dögum eftir ferminguna hélt þessi snillingur tónleika í Stokkhólmi.


4. Það var líka margt léttara, eins og t.d. þetta:


5. Og svo var þetta líka, sem ég, með réttu eða röngu, tel hafa átt þátt í að skapa það sem síðar varð að hippamenningunni, með blómabörnin sín. Sumarið 1967 hreiðruðu ungmenni um sig í ákveðnu hverfi San-Francisco með blóm í hárinu og ást og frið á vörum.



Ég gæti haldið lengi áfram við að flytja ykkur í huganum 50 ár til baka, þegar 10 Tungnamenn gengu upp að altarinu í Skálholtskirkju og sögðu "Já" við spurningu prestsins.  Kannski var sá tími ekkert sérlega merkilegur, eða frábær meðan á honum stóð, en hann hefur þroskast einstaklega vel.

Í Skálholtskirkju, 14. maí 1967.  Myndin er spegluð eins og glöggir munu sjá.




04 júní, 2017

Uppeldi og viðhald

Það fæðist barn í þennan heim, sem er vissulega ekki í frásögur færandi, í það minnsta ef það er ekki þitt barn eða þinna.
Foreldrarnir eru yfirmáta stoltir af litlu krúttbollunni sinni og kalla eftir því, með myndum af afkvæminu, að aðrir "læki" myndirnar á ólíkustu miðlum og skrifi jafnvel eitthvað yfirmáta fallegt um krúttsprengjuna.  Þetta er ekkert undarlegt í sjálfu sér, enda ung börn yfirleitt afskaplega falleg fyrirbæri og kalla á aðdáun og væntumþykju.
Svo líða dagarnir, mánuðirnir og árin. Hversdagurinn er algengari en hátíðirnar. Daglegt líf er kannski ekkert stórfenglegt svona út á við, en það er einmitt þar sem reynir á.  Þar þarf að veita umhyggju, næringu, fæði, klæði og skjól,,,, og uppeldi.  Þar skiptir máli hvernig á málum er haldið, því lengi býr að fyrstu gerð og allt það.
Sem betur fer, á þessu landi er það sennilega algengara að umhverfi barna sé til þess fallið að úr verði góðir einstaklingar, vel byggðir, sem njóta síðan góðs viðhalds.  Skrýtið orð "viðhald" í þessu samhengi.

Hús eru byggð, stór og lítil.
Að mörgu leyti má segja að þau þurfi það sama og börnin, Falleg hús, sem er vel við haldið, endast lengi og gegna hlutverki sínu vel, áratugum og jafnvel árhundruðum saman. Ending þeirra ákvarðast auðvitað að stórum hluta af því hvernig grunnurinn var lagður. Hverjir byggðu og hverjum var ætlað viðhaldið.  Sum hús eru byggð af einstaklingum sem bera síðan ábyrgð gangvart sjálfum sér, á því að viðhaldið sé það gott að gott verð fáist ef húsið er selt.

Önnur hús eru byggð á öðrum forsendum; t.d. til að halda nafni einhvers á lofti. Þau hús er þá alla jafna byggð fyrir almannafé til pólitískrar upphafningar einhverra einstaklinga, eða sameiginlegt átaksverkefni þjóðar til að halda á lofti trú eða menningu hennar.

Það er yfirleitt gert mikið með þessi hús og mikið í þau lagt. Færustu byggingamenn fengnir til að hanna og reisa, Mestu listamennirnir fengnir til að fegra og skreyta.  Þessar byggingar eru stolt þjóðarinnar. Þær eru eign þjóðarinnar.
Svo líða árin og áratugirnir.
Hversdagurinn tekur við.
Pólitíkusarnir byggja ný hús í nafni þjóðarinnar, en þó aðallega til að halda eigin nafni á  lofti.
Það er þarna sem byggingar eiga það til að verða munaðarlausar. Þær eru búnar að fá öll "lækin" og aðdáunina. Þar með telst markmiðinu náð.  Það telst víst ekki neinum til framdráttar að sinna viðhaldi.

Hver á að sinna viðhaldi þjóðargersema? ÉG að gera það?" segja menn. "Ég á engan pening í það. Hann fer allur í nýju, glæsilegu bygginguna sem ég er að reisa. Það verða einhverjir aðrir að sjá um þessar gömlu byggingar".

Þannig er þetta.
Samanburður við börnin.
Þegar kúfnum af myndasýningunum, með öllum "lækunum" og krútt "kommentunum" er lokið, er barnið látið í hendur annarra og þeim ætlað að sjá um uppeldið.
Foreldrarnir taka myndir fyrir samfélagsmiðla á jólum, páskum og jafnvel hvítasunnu, eða einhverjum sérstökum hátíðastundum. Eftir því sem tímar líða fækkar þessum myndum, og "lækunum" fækkar að sama skapi. Þörfin fyrir "lækin" hverfur ekki og það er búið til nýtt barn, til að endurvekja, í hugum annarra, einhverskonar aðdáun.
Öðrum er ætlað á sjá um uppeldið, öðrum er ætlað að sjá um viðhaldið. Hverjir eru þeir? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Fylgir nægilegt fjármagn? Eru þeir kannski sjálfir að búa til sín eigin börn, eða byggja sínar byggingar?

Við lifum á tímum þar sem  við erum lítið að velta fortíðinni fyrir okkur, hvað þá framtíðinni. Við lifum í núinu, rétt eins og hundurinn sem fyrirgefur eiganda sínum allt og þakkar honum ekkert. Eins og fuglar himinsins sem gleðja með söng sínum, en geta lent í kattarkjafti á morgun.

Það er eins og við lifum í samhengislausum heimi.

Ég ætla að hætta hér, áður en ég sekk mikið dýpra. Einnig tel ég að þú sért ein(n) afar fárra sem hafa lesið alla leit hingað niður.

Við þig segi ég: "Gleðilega hátíð"


.

01 júní, 2017

Hálf öld er stuttur tími

F.v. Páll, Pétur, Silli, Einar, Gunni, Steini, Maggi,
sr. Guðmundur, Loftur, Ragnhildur, Þrúða.
Í einhverju limbói milli þess að vera barn og unglingur. Það var engra spurninga spurt, bara gert eins og maður átti að gera. Uppreisn gegn þessu kom aldrei til greina. Eftir að hafa verið reglulegur kirkjugestur, aðallega fyrir tilstuðlan móður minnar, Guðnýjar í Hveratúni, var aldrei spurning um annað en staðfesta skírnina með því að fermast. Ég ímynda mér stundum hvað hefði gerst ef ég hefði sett niður fótinn og harðneitað. Þá sviðsmynd tekst mér ekki að kalla fram í hugann. Ekki neita ég því að það hafa orðið allnokkrar breytingar á samfélaginu á þeim fimmtíu árum sem eru horfin í aldanna skaut síðan.

Það er reyndar ekkert sérstaklega margt sem ég man frá þessum tíma; einstaka smámyndir koma upp í hugann og þá aðallega fyrir tilstuðlan myndefnis í tengslum við þennan merkisviðburð í sögu Hveratúnsfjölskyldunnar.
Ég man eftir fermingarbarnamóti á Laugarvatni, í Húsó (Lindinni). Þangað mætti ég með myndavél (kodak instamatic), man bara eftir einni svarthvítri mynd af jafnaldra sem var að taka mynd af mér. Held að það hafi verið Áslaug Eiríksdóttir frá Grafarbakka í Hrunamannahreppi. Að auki gerðist þarna eitt og eitt atriði, sem ekki verður rifjað upp hér.

Orgelið tekið til kostanna
Um aðdraganda fermingarinnar er frekar fátt að segja.
Ég hafði verið að læra á orgel hjá Guðjóni Guðjónssyni organista, sem síðan gerðist prestur (kannski vegna reynslunnar af að reyna að kenna mér) og ég held að hann hafi lengi starfað sem slíkur í Svíþjóð. Allavega hvarf hann af landi brott einhverntíma. Ég var hinsvegar í orgeltímum hjá honum. Ekki veit ég hvort orgelnám mitt var tilefnið, en í Hvertún kom gamalt kirkjuorgel, svona sem maður þurfti að stíga. Á þessa græju æfði ég mig á "fjárlögunum" og mig grunar að móðir mín hafi lagt að mér að undirbúa mig fyrir að leika á þetta orgel í fermingarveislunni. Sem ég auðvitað gerði - ávallt hlýðinn.

Sr. Guðmundur Óli Ólafsson var presturinn sem undirbjó hópinn með kristilegri uppfræðslu, tvær stúlkur og átta pilta. Einhvern veginn finnst mér að frú Anna (Magnúsdóttir) hafi aldrei verið fjarri og hafi haldið mikið til utan um hina praktísku hlið þessa. Hún var það þeirra hjóna sem hafði agann á okkur. Maður vogaði sér ekki að vera með neinn uppsteyt þegar hún var nálæg, ekki það að ég hafi nokkurntíma verið með uppsteyt - aðrir voru ef til vill meira í því, þó ekki telji ég að svo hafi verið.

Allt annar bragur á fólkinu.
Fermingardagurinn væri í algerri þoku, nema vegna þeirra mynda sem til eru og sem Gústi (Gústaf Sæland) mágur minn og þá tiltölulega nýbakaður faðir, tók. Gústi tók ekki bara myndirnar, hann sá einnig um hárgreiðsluna. Þarna var bítlatískan ekki búin að ná neinni festu hér í uppsveitum. Ennþá réðu þeir Elvis Prestley og Cliff Richards hártísku ungra karlmanna og Gústi kunni sannarlega á slíkri greiðslu lagið, enda sjálfur ávallt vandlega greiddur með  góðum skammti af briljantíni.  Það var þannig greiðsla sem ég fékk, en myndirnar sýna hana glögglega.  Ekki man ég hvort það var á undan eða eftir þessum tím sem menn greiddu í píku, eins og það kallaðist, en þannig greiðslu fékk ég ekki hjá Gústa.

Ég er viss um að einhver fermingarsystkina minna muna eftir athöfninni sjálfri, fyrir hana og eftir. Ég man ekkert um þann tíma, annaðhvort var ég í einhverju losti af streitu, eða ekkert sérstakt gerðist.  Jú, ég man að ég gekk fyrstur á eftir sr. Guðmundi inn í kirkjuna, úr Biskupshúsinu, en þar bjuggu prestshjónin þá, og síðastur út, eftir að skírnin hafði verið staðfest með pomp og prakt, móður minni án efa til mikillar gleði. Einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að faðir minn hafi ekki sýnt af sér jafn mikinn áhuga á tilstandinu, en hann lék með, eins og góðum eiginmanni sæmir.

Þetta var nú aðeins
veraldlegt líka.
Svo var það veislan, og allir þessir venjulegu fermingagestir. Það voru fermingargjafirnar, það var veislukaffið, með glæsilegri rjómatertu. (mér hefur alltaf þótt rjómaterta með betra bakkelsi).
Ég lék, kófsveittur á orgelið og fékk klapp og hrós í kjölfarið. Mér fannst ég aldrei ná góðum tökum á þessu spiliríi, kannski vegna þess að ég var frekar latur við æfingar.

Stolt systranna, Sigrúnar og Ástu, leynir sér ekki.
Já, ekki veit eg annað en þetta hafi verið ágætis dagur, þó þarna hafi ég verið í einhverskonar miðpunkti, sem ég var og er allajafna heldur lítið fyrir.

Svo hélt lífið áfram og um haustið hófst samskiptasaga mín við Laugarvatn í Laugardal, sem hefur staðið síðan, með litlum hléum.

Þennan dag, 14. maí, 1967, hvítasunnudag, staðfestu þessi ungmenni skírn sína í Skálholtsdómkirkju:
Einar Jörundur Jóhannsson frá Ljósalandi
Geirþrúður Sighvatsdóttir frá Miðhúsum (Þrúða í Miðhúsum)
Gunnar Sverrisson frá Hrosshaga  (Gunni í Hrosshaga)
Loftur Jónasson frá Kjóastöðum  (Loftur á Kjó)
Magnús Kristinsson frá Austurhlíð (Maggi í Austurhlíð)
Páll Magnús Skúlason frá Hveratúni  (ég)
Pétur Ármann Hjaltason frá Laugargerði (Pési)
Ragnhildur Þórarinsdóttir frá Spóastöðum (Ragnhildur á Spó(astöðum))
Sigurður Þórarinsson  Reykholti (Silli)
Þorsteinn Þórarinsson frá Fellskoti (Steini í Fellskoti).

Sex okkar búa enn í Biskupstungum - geri aðrir árgangar betur.

Fjölskyldan í Hveratúni með tvær nýjar viðbætur, Skúla Sæland
og Agnar Örn Arason.


28 maí, 2017

Hagkvæmni, hraði, peningar

Það er alltaf verið að breyta einhverju. Oft er það gert undir því yfirskini að breytingin verði til þess að bæta eitthvað. Svo er til fólk eins og ég, sem efast oft um að breytingarnar séu til góðs. Hversvegna skyldi ég, maðurinn sem er nýskriðinn á eftirlaun, hafa einhvern rétt á að vera ósammála einhverjum breytingum? Hvað kemur mér það svo sem við? 
Það má spyrja að því.

Það er búið að stytta nám í framhaldsskólum í 3 ár. Nú er að koma í ljós, eins og vel var hægt að sjá fyrir, að álag á nemendur hefur aukist og þeir hafa minni tíma til að þroskast á öðrum sviðum, á mikilvægustu þroskaárum ævinnar.  Eru þessi ár í framhaldsskóla að breytast í erfiðustu og jafnvel leiðinlegustu ár ævinnar úr því að vera einhver eftirminnilegasti og skemmtilegasti tíminn, bara til þess að þóknast einhverjum hagkvæmnissjónarmiðum?

Ég hef verið andvígur þessari styttingu frá því hún kom fyrst til tals -  og hana nú.  Fyrir því eru þessar ástæður helstar:

1. Njótum lífsins, ekki síst meðan við erum ung og frjáls og ekki kominn í einhvern skuldaklafa. Stundum íþróttir, lærum á hljóðfæri syngjum í kór.

2. Okkur liggur ekkert á í gegnum lífið. Hverju breytir það svo sem í lífi okkar þó við ljúkum námi í skólakerfnu einu ári fyrr eða seinna? Verðum við einhverju bættari þó við kaupum okkur íbúð einu ári fyrr en við hefðum annars gert?  Missum við kannski af rétta lífsförunautnum ef við erum of lengi í skóla?
 
Ég hef ekki nálgast það að öðlast trú á þessu þriggja ára námi, þrátt fyrir að hafa komið að undirbúningi þess á ýmsum stigum, einfaldlega vegna þess að rökin fyrir því falla ekki að lífsskoðun minni. Mitt mat tekur mið af manneskjunni, en ekki atvinnulífinu eða sparnaði ríkissjóðs, eða bara yfirleitt einhverjum fjárhagslegum þáttum eða hagkvæmni. Við eigum ekki þetta líf til að geta þjónað atvinnulífinu. Atvinnulífið á að þjóna okkur.

Skoðun mín er nú sú, að það sé verið að draga okkur inn í leiðinda samfélag þar sem allt þarf að vera óskaplega hagkvæmt. Menntakerfið á að taka mið af því sem hentar atvinnulífinu best, frekar en að veita ungu fólki tækifæri til að blómstra á eigin forsendum: leita þeirra leiða sem hentar því sem manneskjum, frekar en sem vinnudýrum sem fá að eyða tíma hér á jörð til að þjóna einhverju öðru frekar en eigin hamingju.

Einmitt þessi ár í framhaldsskóla eru árin þar sem ungt fólk ætti helst að fá tækifæri til að kynnast ýmsum þeim möguleikum sem í boði eru. Nám í framhaldsskóla á að vera "breitt nám" þar sem nemendurnir fá að snerta á mörgu. Þó þeir ætli sér að verða trésmiðir eða verkfæðingar, eiga þeir að kynnast ýmsu sem snertir aðra óskylda þætti lífsins. Þeir eiga að kynnast landinu sínu, sögu, listum, tungumálum. Þeir eiga að læra á samskipti milli fólks, sálfræði, heimspeki, umgengni við náttúruna.  Það má endalaust telja upp það sem mikilvægt er að allir sem hafa lokið námi ættu að fá einhverja innsýn í.

Það er ekki fallegt að segja það, en ég hef það á tilfinningunni að aukin dómharka og vaxandi fáfræði, hér á landi og ekki síður annarsstaðar sé til komin ekki síst vegna þess að menntun er of sérhæfð of fljótt.  Stórkostlegur verkfræðingur sem veit ekki hvar Raufarhöfn er, eða hvenær Ísland varð lýðveldi, er í mínum huga ekki menntaður. Ætli hann myndi ekki bara kallast "fagidjót"

Stytting framhaldsskólans kallar á aukna sérhæfingu í náminu.
Aukin sérhæfing veldur því að fólk fær lakari menntun. Menntun eins og ég vil hafa hana.

Hvert er nú tilefni þessa pistils?

Ég skelli þessu hér úr mér í fljótheitum nú, af tveim megin ástæðum:
a. Það verður erfitt að veita mér áminningu og víkja mér úr starfi úr þessu.
b. ÞETTA HÉR, en þarna tjáir einn spekingurinn sem nú situr í ábyrgðarstöðu á Alþingi, skoðanir sínar á ágæti styttingar náms til stúdentsprófs. Samfélag eins og hann vill standa að, er óravegu frá þeirri sýn sem ég hef.  Ég skil reyndar ekki hversvegna ekki var barist harðar á móti þessum hugmyndum sem við sitjum nú uppi með afleiðingarnar af.

Ekki neita ég því, að það má ætla að það verði til eitthvert jafnvægi, eftir nokkur ár. Það er hinsvegar allt eins líklegt að einhver ráðamaður eða einhver spekingur sem nær eyrum ráðamanna, verði þá búinn að finna upp enn eitt hjólið, sem á að bjarga öllu. Þar með mun hefjast enn ein kollsteypan og menntakerfið situr í súpunni.  Nú er það mjög laskað, eftir stjórnmálamenn sem hugsa skammt.

Ráð til að auka hagkvæmni

Svona rétt í lokin, til að benda ráðamönnum sem aðhyllast mikilvægi hagkvæmninnar í menntakerfinu, tel ég að það myndi spara mikinn kostnað og leiða til aukinnar ánægju allra, þegar upp væri staðið að:
a. Setja upp skil í skólakerfinu við 11 ára aldur, þar sem ákveðið væri á grundvelli hæfileika barnanna og áhuga, hvort þau færu í verknám eða bóknám. Þetta myndi örugglega fara öfugt ofan í foreldra sem telja að börnin þeirra eigi að ljúka stúdentsprófi eftir bóknám, en myndi spara samfélagin heilan helling í kennslukostnaði og draga mjög úr því tapi sem nemendur á rangri braut upplif ansi oft, ekki síst á sálinni.
b. Hefja formlegt skólanám við 4 ára aldur. Það er alveg hægt að kenna börnum á þessum aldri að lesa og reikna.
c. Nýta árin 10 í grunnskóla betur, með því að flytja talsvert að námsefni framhaldsskólans niður í grunnskólann.
d. Hvetja til aukins aga í jákvæðri merkingu þess orðs.


Það eru alltaf að koma fram stefnur sem eiga að bjarga heiminum, sú sem fjallað er um hér fyrir neðan, kom og fór.  Hennir svipar nokkur til þess sem nú er efst á baugi.

Utilitarianism

The Disadvantages of Utilitarianism

1. We Can’t Predict The Future
If you are judging your actions based on the outcome, then there is no way to make an accurate judgment. It is extremely difficult to correctly determine what the exact consequences of your actions will be. This makes the ideals behind utilitarianism a mute point.

2. Who Decides Good and Bad?
Who exactly is the say what is good and what is bad? Everyone is wired differently, and has different beliefs on these things. Some people believe that alcohol brings happiness, while others disagree and believe that it is poison. Who is right? When so much of morality is left up to judgment, issues will inevitably arise.

3. Missed Opportunities
Many situations require quick decisions. This is nearly impossible to do as a utilitarian. Every decision must be calculated to determine who it will effect and it what ways it will effect them. Often times, the opportunity to make the truly correct decision is lost during this time of calculation.

4. Favoritism Is Natural
How can someone make a utilitarian decision if their own loved ones are on the line? This is not possible, because your instincts will take over and you will make the decision that is in the favor of those you love.

27 maí, 2017

Vissulega frekar endanlegt

Haustið 1970, eða fyrir næstum 47 árum, hóf ég að ganga um húsnæði Menntaskólans að Laugarvatni.  Þar hef ég gengið síðan, ef frá eru talin 12 ár, frá 1974 til 1986.

Símtalið
Vorið 1986 fékk ég þetta símtal frá Kristni Kristmundssyni, skólameistara. Hann var í einhverjum vandræðum með enskukennara og og hafði dottið í hug að biðja mig að sækja um, en á þessum tíma var ég grunnskólakennari og reyndar orðinn nokkuð móður í því starfi - fannst kannski of mikið af tíma mínum færi í annað en það sem ég hafði menntað mig til.
Kristinn hitt vel á og ég var ráðinn. Við tók erfiðasti vetur á starfsferlinum, með 37 tíma kennslu á viku. Það hlaut eitthvað að gefa sig, og gerði það, reyndar.  Svo varð þetta smám saman léttara.

Ég hef starfað við Menntaskólann að Laugarvatni síðan, eða í 31 ár. Þó enn sé ég á besta aldri, tel ég þetta komið gott.

Á þessum degi verð ég formlega afmunstraður.


Ég ætla ekki að reyna að halda því fram, að það takist ekki á í mér ýmsar kenndir á þessum vegamótum, en um það fæ ég engu ráðið. Ég kýs að líta að þennan dag sem nýtt upphaf. Framundan geta verið fjölmörg spennandi ár.

Þessu getur líka lokið á morgun.

Í dag er borinn til grafar eiginmaður fermingarsystur minnar og nánast jafnaldri.  Þannig er nú bara þetta líf okkar mannanna.

Enginn veit sína  ævina fyrr en öll er og það er kannski eins gott.

Í dag geng ég út í sumarið, jafn tvítugur í anda og ávallt, með sama hætti og nýstúdentarnir.  Verkefnin framundan eru óþrjótandi og nú er bara að vona að starfsemi höfuðsins fái að haldast sem lengst.

Veri eftirlaunaaldurinn velkominn.



22 maí, 2017

Það sem maður ekki veit getur verið gott að læra

Sú var tíð, að ég vissi ekki að ef einhver sem ætti fjögur epli og gæfi tvö, ætti tvö epli eftir.  Svo áttaði ég mig á því og fannst eftir það, að það væri með ólíkindum að fólk skyldi ekki átta sig á þessu.  
Svona hefur þetta gengið síðan: ég veit ekki eitthvað og síðan flýtur vitneskjan um það inn í höfuð mitt og ég skil í rauninni hreint ekki hversvegna hún var þar ekki alltaf.  Ég fæ enn, stöðugt staðfestingu á ófullkomleika mínum og er fyrir nokkru búinn að átta mig á því, að ég mun aldrei vita allt sem ég ætti sennilega að vita, eða sem er þess virði að vita.
Ég er ekki einn um að vera svona því þetta á við um okkur öll.  


Í síðasta pistli ýjaði ég að lítilsháttar vanda sem tengdist bílaleigubifreið sem ég hafði umráð yfir í borg Margrétar drottningar fyrir nokkrum dögum.  Ævistarf mitt kallar á að ég deili þeirri þekkingu sem ég innbyrti á þessum tíma og sem tengist því hvernig maður tekur og skilar bílaleigubíl á Kastrup flugvelli.
Það er í eðli mínu að fræða fólk og freista þess þannig að stuðla að því, að líf þess verði að einhverju leyti skárra en það hefði ella orðið. Því hef ég ákveðið að birta leiðbeiningarnar sem hér fylgja og ég tel nokkuð ítarlegar og skotheldar.

A. Að taka bílaleigubíl á Kastrup.

Þar sem græni krossinn er koma farþegar úr í ggnum tollhliðið. Rauði krossinn sýnir hvar bílaleigurnar voru áður.
Græna línan sýnir hvernig maður gengur um Terminal 3 til að komast í skutluna "shuttle bus" sem er gjaldfrjáls.
Gula línan sýnir leið skutlunnar að bílaleigunum.
Það fyrsta sem olli vanda mínum þar sem ég kom út í gegnum tollhliðið var að bílaleigubásarnir voru horfnir af þeim stað þar sem ég síðast hafði gengið frá leigutöku.  Þar var nú bara skilti sem sagði mér að taka skutlu. Til þess þurfti ég auðvitað að finna þessa skutlu og það kostaði ekki meira ein eina spurningu til flugvallarstarfsmanns. Eftir það lá þetta allt ljóst fyrir, utan það að fD hafði uppi ákveðnar efasemdir, þegar í skutluna var komið, um að hún myndi flytja okkur á áfangastaðinn frekar en bara eitthvert út í buskann.  Það fór þó allt vel og bílinn fengum við og GPS tæki, sem var vandlega stillt áður en lagt var af stað og síðan brunað til Íshæðar á tiltekið heimilisfang í Furulundi.

A: Þarna í enda hússins eru bílaleigurnar. B: Þarna inni bíða bílarnir.
C: Þarna er ekið út úr húsinu, beygt til vinstri í gegnum hringtorgið og þaðan inn á hraðbraut í bæinn.

B. Að skila bílaleigubíl á Kastrup

Þetta er eiginlega snúni þátturinn í þessu öllu saman og sá sem ég lærði mest af. Það þurfti sem sé að skila bílnum áður en sest væri inn í flugvélina og haldið heimleiðis. Þarna gerðust nokkuð dramatískir hlutir.

Áður en lagt var af stað út á flugvöll stillti ég auðvitað GPS tækið og það samþykkti að vísa mér á á "CAR RENTAL" á Kastrup. Það var þó einhver beygur í mér, sem síðan reyndist fyllilega réttlætanlegur. Tækið tók mið af staðsetningu bílaleiganna fyrir þá breytingu sem nú er orðin á.
Þetta olli  allt að því hörmungum, en sem betur fer hafði verið tekin samhljóða ákvörun um að fara vel tímanlega af stað, ef eitthvað skyldi nú koma upp á.
A: Torgið sem var örlagavaldur  B: Bílastæði þar sem bílaleigubílum skal skilað.
C: Biðstöð fyrir skutluna sem flytur fólk í flugstöðina.
Eins og sjá má af myndinni hér fyrir ofan, er óendanlega einfalt að skila af sér bílaleigubíl á Kastrup. Maður ekur frá borginni á hraðbraut þar til hvert skiltið á fætur öðru, auk GPS tækisins hvetja mann til að taka afrein inn á flugvallarsvæðið. Sé það gert kemur maður að hringtorginu, sem merkt er A. Af því beygir maður strax til hægri og síðan eftir því sem leið liggur á bílastæði sem merkt er B.  Þar þarf bara að aka inn á stæði viðkomandi bílaleigu og starfsmaður tekur við lyklum. Því næst er gengið ú á stoppistöð skutlunnar, sem merkt er með C.  
Hér er önnur mynd sem greinir nánar frá því máli.
Gul lína táknar leiðina sem skutlan ekur frá bílaleigunum.
 Græna línan sýnir gönguleiðina sem við tekur inni í Terminal 3.
Svona er þetta nú einfalt, gott fólk og ég vænti þess að þið sendið mér kveðju með þökk eftir að hafa notað þessar leiðbeiningar.  Nú mun ég hinsvegar greina frá því sem  getur gerst þegar maður ekki veit.
Þegar nálgaðist flugvöllinn varð mér ljóst að GPS tækið ætlaði að láta okkur fara á staðinn sem bílaleigurnar voru á áður. Þar með varð bara að treysta á hyggjuvitið, sem var nú ekkert sérstakt svo sem, enda ávallt treyst á að tækið gerði enga vitleysu.
Við komum að torginu. Það sem síðan gerðist má sjá á myndinni hér fyrir neðan:

Rauð lína: tilraunin sem mistókst. Græn lína: leiðin sem farin var í annarri tilraun
Köben - þaðan vorum við að koma frá eða fara til.. A: torgið margnefnda.
B: bílastæði fyrir bílaleigubíla.  C: Biðstöð fyrir skutluna.  D: Flugvallarstarfsmaðurinn ónákvæmi.
Þar sem við komum að torginu sáum við skilti sem á stóð CAR RENTAL við fyrsta legginn út úr torginu og þangað beindi ég bifreiðinni. Hér er rétt að geta þess að á alla vegu byrgðu háar byggingar sýn og því hreint ekki ljóst að við værum á réttri leið.  Þá kom ég auga á flugvallarstarfsmann (D) og afréð að snúa við og spyrja vegar.  Hann sagði mér að aka út á hringtorgið og þar myndi ég sjá skilti sem vísaði mér á bílaleigurnar. Hann hefði nú alveg getað bent í átt að bílaleigunum - leiðin sem græna lína sýnir, en það gerði hann sannarlega ekki. Þar með ók ég út á torgið. Um leið og ég tók ákvörðun um að beygja út af því, vissi ég að það var vitlaus ákvörðun.
Við vorum sem sagt aftur á leið til Kaupmannahafnar.  Svo mikið veit ég um hraðbrautir, að þar er frekar sjaldgæft að hægt sé að snúa við og því blasti við ökuferð út í óvissuna.
Myndin hér fyrir neðan sýnir þá leið sem farin var og hún var bara helv. ári löng.

Eftir hina örlagaríku beygju út úr torginu.
A: Flugvallarstarfsmaðurinn ónákvæmi  B: Hin ranga ákvörðun.
C: Þar sem loksins var hægt að snúa við. D: Bílastæðið þar sem loks var hægt að anda léttar.
Þetta var þörf lexía í mörgum skilningi:
1. Ég hefði átt að skoða þetta kort áður en ég lagði í þessa ferð.
2. Ég átti að muna eftir GPS tækinu mínu.
3. Ég hefði átt að kynnast betur staðháttum í kringum bílaleigurnar þegar ég tók bílinn.
4. Ég hefði átt að spyrja flugvallarstarfsmannin fleiri spurninga.
......og svo framvegis.
Nú er ég hinsvegar svo heppinn að vita hvernig það gengur fyrir sig að taka og skila bílaleigubíl á Kastrup. Vitneskja mín er svo nákvæm og yfirgripsmikil, að ég get leyft ykkur að njóta góðs af.
Verði ykkur að góðu, lesendur góðir.

Svo held ég áfram að læra eitthvað nýtt. Bílaleigur á Kastrup eru nú í mínum huga jafn einfalt mál og þetta með eplin fjögur.

21 maí, 2017

Næstum búinn að hengja frúna

Það kemur í minn hlut að aka bílaleigubílum í útlöndum. Það er einhverskonar  kaleikur sem mér er ætlað að neyta af. Það gerir sig enginn annar líklegan til að taka þann kaleik af mér.
Það get ég sagt með góðri samvisku, að ekki líkar mér bragðið af því sem þessi kaleikur geymir; á allt eins von á því að það geti orðið mér að aldurtila áður en minnst varir.
Það eru ekki ýkja mörg ár síðan ég tók fyrst bílaleigubíl á erlendri grund. Sú ákvörðun hafði í för með sér talsverða angist í aðdragandanum. Tilhugsunin um að aka ókunnum bíl á Autobahn í Þýskalandi, á áður óþekktum hraða, eða að rata eftir GPS tæki um iðandi bílmergð stórborga, kallaði fram heilmikla ónotatilfinningu.
Í fyrsta sinn á Autobahn fór ég fljótlega að laumast yfir hundraðið, en fD tók því fjarri að við færum að reyna að halda í við umferðina allt í kringum okkur. Ég sá hinsvegar fram á, að íslenskur sveitavegaakstursmáti myndi ekki leiða til neins nema stórlyss og tók því þátt í því sem á umræddum slóðum telst vera eðlilegur aksturshraði. Fyrr en varði var ég farinn að færa mig milli akreina, en þar sem eru t.d. þrjár akreinar, telst sú sem er lengst til hægri vera sú hægasta, aðallega ætluð vörubílum eða örvasa gamalmennum. Sú í miðjunni virtist mér henta þeim sem voru svona á milungsróli, eða 120-130 km. hraða á klukkustund. Akreinin sem er lengst til vinstri er fyrir þá sem eru ekki til í að láta einhvern standa í vegi fyrir sér og þar er hraðinn léttilega um 150-160.
Í sem stystu máli er ég nú kominn á það stig í akstri á hraðbrautum, að ég er oftast lengst til vinstri, með fD sallarólega við hlið mér. Hún gerir allavega ekki athugasemdir við aktursmátann. Ég túlka það svo að hún sé fyllilega sátt, enda ekki svo sjaldgæft þegar við ökum um íslenska vegi að hún hvetji til framúraksturst við aðskiljanlegustu aðstæður, enda ökumennirnir fyrir framan, oft í þeim flokki sem kallast "fávitar".

Þetta var inngangur að nýjustu reynslunni af akstri bílaleigubíls, þessu sinni í Drottningarinnar Kaupmannahöfn.

Ég hafði pantað minnstu gerð af bíl á sérstöku tilboði.  Þegar á staðinn kom reyndist það ekki vera alveg sá bíll sem ég hafði ímyndað mér. Ekki beinskiptur með bensinvél, heldur sjálfskiptur, "hybrid" smábíll.  Ég átti sjálfskiptan bíl í gamla daga. Það var þá. "Hybrid" bíl hafði ég aldrei ekið. Ef einhver skildi ekki vita hvernig bíll það er, þá gengur hann að hluta til fyrir bensíni og stundum fyrir rafmagni sem hann framleiðir sjálfur við ákveðnar aðstæður.
Nú, ég hafði ekkert hlakkað til borgarakstursins sem framundan var, en þessir óvæntu þættir urðu ekki til að lækka streitustigið, þvert á móti.  Það sem síðan bættist við var, að GPS tæki Kvisthyltinga hafði gleymst heima og því var ekki um annað að ræða en taka slíkt á leigu (fyrir dágóðan pening). Þar bættist enn í kvíðapokann, þannig að þörf fyrir áfallahjálp var á næsta leiti. Allt slíkt fór fram innra með mér, því ekki vildi ég auka á angist fD yfir því að þurfa að sitja í bíl með mér í borgarakstri í útlöndum.   Svipbrigði mín og látbragð gáfu þar með ekki annað til kynna en allt væri þetta hið besta mál.
Einbeitingin við aksturinn frá Kastrup á áfangastað var slík, að ekkert kom upp á og ég varð smám saman öruggari undir stýri þessa jariss.
Daginn eftir var ég orðinn enn öruggari með þetta allt saman: vissi t.d. að maður verður ekki var við neitt þegar bílnum er startað, það gerir rafmagnið. Ég vissi orðið nokkurn veginn hvernig GPS tækið virkaði. Allt, sem sagt í góðu,
Við héldum af stað frá hótelinu á vit ævintýranna með tækið stillt. Allt klárt. Okkur var leiðbeint gegnum hringtorg og framundan beinn og breiður vegur, sem ég hafði meira að segja ekið um áður. Ég jók hraðann út úr hringtoginu, steig á kúplinguna til að skipta í næsta gír, svona eins og maður gerir.
Lesandinn getur gert sér það í hugarlund hvað gerist þegar maður stígur fast á bremsuna með vinstri fæti í bíl á 60 km. hraða.  Jarisinn nam staðar á punktinum. Í sekúndubrot skildi ég ekkert hvað hafði gerst. Ég heyrði korrhljóð úr aftursætinu, en þar hafði fD komið sér þægilega fyrir, með spennt öryggibelti og "alles".  Yngsta syninum hafði verið eftirlátið framsætið þar sem hann skyldi vera öldruðum föður sínum til halds og trausts, enda heimamaður.
Í kjölfar korrsins var þögn litla stund.
Svo hófst tiltekin tjáning, sem ekki er ástæða til að greina frá hér í smáatriðum.
Þarna vildi svo heppilega til að það var enginn bíll á eftir okkur, svo ekkert varð slysið, en vissulega var þetta atvik áminning um að aldrei skyldi maður verða of öruggur með sjálfan sig.

Það dugði þó ekki þegar til stóð að skila bílnum. Þar varð rangt metið hringtorg á Kastrup til þess að við urðum að aka langar leiðir til baka eftir hraðbrautinni til borgarinnar  áður en hægt reyndist að gera aðra tilraun, sem fór betur.

Ég er hinsvegar að verða nokkuð vel áttaður í akstri bílaleigubíl í útlöndum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...