22 ágúst, 2017

Ég, lestrarhesturinn

Þetta er nú bara sett hér inn í geymslu.
Fyrir nokkru fékk ég eftirfarndi sendingu í skilaboðum á samfélagsmiðli:

Heill þér Tungnamaður : - )
Ég sé um Lestrarhestinn í Dagskránni og leita að fólki sem les bækur.
Má ég senda þér spurningar sem þú færð sjö heilaga daga til að svara?
Að því loknu sendir þú mér svörin ásamt vænlegri mynd og ég les yfir og bý til fyrirsögn og svo birtist það í Dagskránni fljótlega

Eftir nokkur orðaskipti varð úr að ég tók þett að mér, fékk sendar spurningarnar og þegar tími vannst til, svaraði ég þeim eftir bestu getu.   Afraksturinn birtist síðan í Dagskránni þann 17. ágúst. 
Um þetta hef ég ekki fleiri orð, en þetta er hinn óritrýndi texti sem frá mér fór.
---------------------------------------------------
Helstu punktar um æviskeiðið
Ég fæddist og ólst upp í Laugarási í Biskupstungum fyrir allmörgum árum. Þar hef ég eytt lunganum úr ævinni, síðustu áratugina með eiginkonunni Dröfn Þorvaldsdóttur, leikskólakennara, en börn eignuðumst við fjögur. Foreldrar mínir voru Guðný Pálsdóttir, frá Baugsstöðum í Flóa og Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi, sem eyddi æsku og unglingsárum á Héraði áður en hann hélt suður á bóginn.
Ég lauk stúdentprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1974, BA prófi í ensku og uppeldisfræði, auk diplómanáms í opinberri stjórnsýslu frá HÍ. Eftir þetta tók stafsævin við, en ég byrjaði sem grunnskólakennari í nokkur ár. 1986 kom ég til starfa í ML, fyrst sem enskukennari, bætti síðan námsráðgjöf við og loks stöðu aðstoðarskólameistara. Frá þessu hausti lýkur opinberum starfsferli mínum og annað tekur við.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Að langmestu leyti nota ég lestur til að skapa aðstæður fyrir góðan nætursvefn. Þær bækur sem ég les til að ná því arna eru aðallega þess eðlis að falla ekki undir það sem kallað er „fagurbókmenntir“, heldur nær því sem kalla má „léttmeti“. Bókin sem ég er að lesa einmitt um þessar mundir er spennuþrungið léttmeti af þessu tagi.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Af einhverjum ástæðum kemur Bláskjár, eftir Franz Hoffmann alltaf fyrst upp í hugann þegar ég hugsa til barnabóka. Þessi bók hafði töluverð áhrif á mig á sínum tíma. Hinsvegar las ég heil reiðinnar býsn sem barn og unglingur; lagði helst ekki frá mér bækurnar fyrr en þeim var lokið og þá skipti tími sólarhrings engu máli. Þetta voru bækur Ármanns Kr. Einarssonar og Stefáns Jónssonar meðal annars. Einnig kom Enid Blyton sterk inn auk þess sem ég held að ég hafi lesið allar bækurnar um kappann Bob Moran og Hauk flugkappa, svo eitthvað sé nefnt. Svo þróaðist smekkurinn eftir því sem árin liðu þó vissulega gætu einhverjir talið hann fremur óþroskaðan enn þann dag í dag.

Segðu frá lestrarvenjum þínum?
Ég las mikið alveg fram á fertugsaldurinn. Svo dró bara einhvern veginn smátt og smátt úr því án þess að ég tæki í rauninni eftir því. Skýringuna uppgötvaði ég síðan þegar í ljós kom að ég þurfti orðið að nota lesgleraugu. Eðlilega þurfti ég að lesa heilmikið vegna vinnunnar, aðallega bókmenntaverk eftir breska og bandaríska ritjöfra. Í gegnum þann lestur áttaði ég mig á muninum milli vandaðra bókmennta og léttmetis, en hann felst, að mínu mati, í því að það er hægt að velta fyrir sér ræða það fyrrnefnda. Hið síðarnefnda styttir stundir, kryddar og stuðlar að slökun, svona rétt eins og svefninn sjálfur, en um hann segir Shakespeare í Makbeð:
„... svefninn góða,
sem greiðir flókinn rakþráð vorra rauna,
er hvers dags ævilok og stritsins laug,
særðum hug balsam,
best og hollust næring,
sem lífið ber á borð."

(Makbeð. Þýð. Helgi Hálfdánarson)

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Höfða til og höfða til. Eftir því sem árunum fjölgar hefur áhuginn á sögulegu efni vaxið, ekki kannski vegna áhuga á sögunni sem slíkri, heldur til þess að taka saman brot héðan og þaðan og skrifa síðan sjálfur um sögulegt efni, aðallega sem tengist nærumhverfi mínu. Ég er meira og minna lesandi allan daginn, en þar er ekkert eitt sem upp úr stendur.

Er einhver bók eða skáld sem hefur haft sérstaklega mikil áhrif á þig? Hvers vegna?
Ég er ekki þeirrar gerðar að halda upp á rithöfunda eða skáld. Vissulega ólst ég upp við þá hugmynd að bækur skiptu máli á hverju heimili. Fyrir um 30 árum fékk ég tilboð um að kaupa Íslendingasögurnar og Laxness eins og hann lagði sig með afborgunum. Ég stóðst ekki mátið og rökstuddi þetta fyrir sjálfum mér og frúnni sem svo, að með kaupunum myndi ég hafa nóg að lesa þegar ég kæmist á eftirlaun. Þá sá ég auðvitað ekki fyrir þá þróun sem orðin er og sé nú fram á að reyna að skipta tímanum réttlátlega milli Facebook og Gísla sögu Súrssonar eða Heimskringlu. Það verður eitthvað. Þar fyrir utan stend ég frammi fyrir því að þurfa að fara losa mig við bækur, sem stöðugt safnast inn á heimilið. Vonandi þurfa þær ekki að enda í pappírsgámi, en bókasöfn teljast ekki lengur sérlega ákjósanlegur arfur.

Ef þú værir rithöfundur hvernig bækur myndir þú skrifa?
Ég myndi annarsvegar skrifa hugljúfa spennusögu í þó nokkrum bindum (svona í Taggart-stíl). Sagan myndi gerast í heimavistarframhaldsskóla, þar sem enginn dagur væri öðrum líkur; hver uppákoman tæki við af annarri meðal nemenda og starfsfólks ekki síður. Þar væri að finna fjölbreyttan hóp skrautlegra persóna sem myndu lenda í ótrúlegustu ævintýrum. Aðalpersónan, húsbóndinn á heimavistinni, myndi verða miðpunkturinn í þessari sögu, enda bærust flest málin inn á hans borð til úrlausnar. Ég held ég skelli mér bara í að skrifa fyrsta hluta.
Hinsvegar myndi ég skrifa ljóðabókina „Þorpið í skóginum“ sem innihéldi prósaljóð af dýrasta tagi.

12 ágúst, 2017

Götuheiti í fokki.

Ég átta mig á því að fyrirsögn þessa pistils er fremur vandræðaleg, komandi frá málfarsfasistanum, mér. Fyrirsögnin er bara í stíl við þann vandræðagang sem virðist vera uppi þegar nöfn á götum og vegum í Laugarási eru annars vegar.
Ég ætla hér að birta helstu rök mín fyrir að halda þessu fram og meira að segja ganga svo langt að birta myndir máli mínu til stuðnings.

Ég byrja á kortinu sem fylgir já.is og  tína til það helsta sem þar er að sjá:
1. Vegurinn frá Skúlagötu að Ferjuvegi heitir HÖFÐAVEGUR.
2. Vegurinn sem er framhald Skúlagötu, upp brekkuna og í Austurbyggð, kallast AUSTURBYGGÐ.
3.  Vegurinn inn eftir allri Vesturbyggð kallast SKYRKLETTAGATA.
4. Á þessum vegi er síðan að finna hliðargötu sem kallast KLETTAGATA,  en úr Klettagötu kemur hliðargata sem heitir fyrst BRENNIGERÐI, en síðan HOLTAGATA.
5. Við endann á Skyrklettagötu (ef hún heitir það) er stutt gata sem heitir ÁSMÝRI.
6. Í framhaldi Ferjuvegar til vesturs má sjá götuna KIRKJUHOLT. Ekki verður annað séð að símaskúrinn græni hafi fengið hið virðulega heiti LAUGARÁS og heimreiðin að Asparlundi er í gegnum hlaðið í Kirkjuholti. Áhugavert.

Næst birti ég mynd úr kortasjá Loftmynda.

1. Gatan milli Skúlagötu og Ferjuvegar heitir SKÓGARGATA.
2. Gatan upp brekkuna í framhaldi Skúlagötu, inn í Austurbyggð heitr ekkert.
3. Gatan inn í Vesturbyggð heitir VESTURBYGGÐARVEGUR


Þá er komið að uppsveitakortinu, sem dreift er til ferðamanna.
1. Gatan milli Skúlagötu og Ferjuvegar  kallast HÖFÐAVEGUR.
2. Ekki er ljóst hvað leiðin upp brekkuna kallst, en sennilega HVERABREKKA, þar sem gamla læknishúsið ber nafnið Hverabrekka.
3. Vegurinn ínn í Vesturbyggð (Hvaða svæði í Laugarási kallast yfirleitt Vesturbyggð?) virðist ekki heita neitt fyrr en hann skiptist í SKYRKLETTAGÖTU og HOLTAGÖTU.
4. Svo er það þessi HLÍÐARVEGUR þarna efst?


Loks leita ég á náðir GOOGLE sjálfs. Hann er ekkert að flækja málin.
1. Vegurinn milli Skúlagötu og Ferjuvegar kallast HÖFÐAVEGUR.
2. Vegurinn inn eftir allri Vesturbyggð kallast ÁSMÝRI.
3. Áin sem liðast framhjá Laugarási kallast ÖLFUSÁ.


Það eru sjálfsagt til önnur kort með öðrum götunöfnum, en þegar upp er staðið þá tel ég nú að það hljóti að vera á borði yfirstjórnar sveitarfélagsins að sjá til þess að svona hringlandaháttur sé ekki fyrir hendi.
Það er heilmikið verk framundan við að:
1. ákveða endanlega heiti gatna eða vega í Laugarási.
2. tryggja að þessi nöfn séu rétt á opinberum kortum af svæðinu.

Ég hef hvergi rekist á að nafnið Dungalsvegur/Dungalsgata/Dunkabraut eða annað sem minnir á nafna minn Dungal sem fyrstur settist að við Höfðaveg/Skógargötu, árið 1962 og kallaði býli sitt Ásholt.

30 júlí, 2017

Spennufíklarnir, sonabörnin (2)

Þetta er í beinu framhaldi af þessu.
Mér var það ljóst þegar svona var komið, að ekki gæti ég bara staðið þarna og tekið myndir af aðgerðum. Auðvitað var ábyrgð mín á þessum ofurspenntu og heyrnardaufu (maður heyrir stundum það sem maður vill heyra - annað ekki) ótvíræð. Ekki gæti ég tekið áhættuna af því að þurfa að skila þeim í hendur foreldranna útstungnum og í taugaáfalli.
Með eitubrúsann í vinstri hönd og prikið í þeirri hægri gerði ég þarna lokaárás á geitungabúið.
Fyrst lét ég dreggjar úr brúsanum vaða á kvikindið sem enn hafði sést hreyfa sig í gatinum á búinu. Því næst rak ég prikið í mitt búið og reif á það gat.
Þetta hljómar sannarlega saklaust, allt saman þegar það er lesið, en ekki gat ég þarna vitað hvað  þetta myndi geta haft í för með sér.
Það sem gerðist næst má líkja við að horfa á kvikmynd hægt.

1. Hátíðniöskur barnabarnanna: "Það koma geitungar út!!!"

2. Hátíðniöskurbarnabarnanna sem skáru æ minna í eyrun eftir því sem þau fjarlægðust (þau
enduðu inni í lokuðu herbergi með sæng yfir sér).

3. Ég sá 3 geitunga koma fljúgandi út úr búinu, rak hælinn í einhverja ójöfnu og þar sem báðar hendur voru uppteknar og EOS um hálsinn, vissi ég ekki fyrr til en ég lá á bakinu með geitunga sveimandi yfir mér.
Ég úðaði dreggjum í brúsanum í átt til þeirra, yfir mig og allt  um kring.

Til að setja kvikmyndina aftur á eðlilegan hraða þá lauk þessum atgangi með því geitungarnir þrír hurfu út í buskann.
Já, já, ég veit að það hefur ekki litið vel út að hlunkast þarna á bakið og ég þakka máttarvöldunum fyrir að fD var ekki í stofuglugganum til að horfa á óhappið. Þegar hún leit samsvarandi atvik síðast, hafði það í för með sér áralanga innri gleði hennar, þar sem hún rifjaði upp tiltekin viðbrögð mín á flótta unda öskubrjáluðum geitungahóp.
Á fætur fór ég og EOSinn reyndist ekki hafa skemmst.
Enn var örlítið eftir á brúsanum og það lét ég vaða inn um rifuna sem ég hafði gert á búið.
Innan skamms fór ég að heyra aftur spennuþrungnar raddir fjögurra afkomenda sem höfðu vogað sér aftur undan sænginni. Nú var komið að þeim.
Prikið var notað til að rífa búið betur. Þar blasti við gríðarlegur
fjöldi dauðra geitunga og út féll innvolsið sem geymir egg/lirfur/púpur.
Ekkert líf varð þarna séð svo ég skellti því í fötu  með vatni og lét standa yfir nótt.
Morguninn eftir taldi ég allt sem kvikt hafði verið. Ég geng út frá að upp undir hundrað geitungar hafið fallið úr búinu, 137 flughæfir voru í búinu, 200-250 lirfur og púpur fann ég. Þannig má segja að í þessu búi hafi verið allt að 600 geitungar. Ég hugsa þá hugsun varla til enda, ef þeir hefðu fengið að dansa í kringum okkur á haustdögum.

Ég reikna með, að "operation geitungabú" hverfi ekki úr huga barnanna fyrst um sinn. Þarna lærðu þau (og ég líka) aðeins meira um þessa ofurduglegu snillinga, sem njóta óttablandinnar virðingar í mannheimi.

Eftir talningu og myndatökur setti ég allt saman í poka og gegn vilja fD (en að ráði líffræðingsins í fjölskyldunni) kom ég pokanum fyrir í frystikistunni yfir nótt, áður en þetta listaverk endaði í ruslatunnunni.

(með því að smella á myndirnar má sá stærri útgáfu þeirra)


29 júlí, 2017

Spennufíklarnir, sonabörnin (1)

Ég ætlaði ekki að hafa neitt framhald á frásögninni sem birtist HÉR fyrir nokkru, eins og sjá má ef þessari niðurstöðu sem ég, í yfirlæti mínu skrifaði þar:

Engrar hreyfingar varð ég var eftir þetta og ekki síðan.Öllu var lokið.
 Þarna hafði ég, að eigin áliti, tryggt það að sumargestirnir okkar fD, á aldrinum fjögurra til níu ára myndu ekki eiga á hættu að verða fyrir geitungaárás. Með geitungadrápinu hafði ég skapað aðstæður sem myndu síðar mögulega leiða til þess að ánægjuleg sumarheimsókn breyttist í sársaukaöskur geitungastunginna barna.
Þetta vissi ég ekki þá.
Ég veit það núna.


Meðal þess sem börnunum var greint frá þegar þau komu var lítil frásögn (í framhjáhlaupi, auðvitað) um afrek afans, þar sem hann hafði eytt heilu geitungabúi. Þetta átti auðvitað að vera svona örlítil innlögn í huga barnanna um hreysti afans þegar kæmi að því að takast á við hættuleg dýr af þessu tagi, en ekkert meira.
Það brá hinsvegar fyrir glampa í augum unganna.
"Hvar er geitungabúið, afi?"
Auðvitað var ekki um annað að ræða, til að skapa ákveðinn trúverðugleika, en gefa upp staðsetninguna.  Lítið vissi ég þá til hvers það myndi leiða.
Fljótlega tók ég eftir því að leið barnanna lá æ oftar út fyrir skjólvegginn þar sem líta mátti búið, með
öllum dauðu geitungunum.
Það komu einnig spurningar um geitunga:
Hvort þeir væru ekki örugglega allir dauðir.
Hvort þau mættu kannski fjarlægja búið og sjá hvað væri inni í því.
Ég var nú ekki öruggari með árangur minn af áður lýstri aðgerð, en svo, að ég sagði þeim að það gætu vel verið lifandi geitungar í búinu ennþá og þar með skyldu þau alveg láta það eiga sig, enda geitungastungur hreint ekki þægilegar.
Það var nokkuð sama hvað ég reyndi; geitungabúið virkaði eins og segull, eins og örlagadómur, sem enginn eða ekkert gæti forðað manni frá,

Fyrr en varði sá ég hvar upp var komin eins konar keppni um hver þyrði að prófa að koma við búið. Þessu fylgdu tilheyrandi skrækir og hlátur Þarna var þetta geitungabú orðið að prófsteini á hugrekki og mér varð það fljótt ljóst, ekki síst þegar börnin voru farin að nota verkfæri við að pota í búið, að mér myndi ekki auðnast að láta þetta afskiptalaust.

Stund sannleikans.

Svo fór, áður en algert stjórnleysi næði að myndast, að ég fór út til að setja viðeigandi reglur og sjá til þess að ekkert það yrði aðhafst sem gæti valdið ósköpum.
Ég útbjó mig með eiturbrúsanum frá fD (sem var orðinn nánast tómur, eftir fyrri aðgerð) í annarri hendi, um metra löngu priki í hinni og EOS-inn um hálsinn.
Þegar ég kom, þannig búinn, á svæðið, höfðu börnin vafið um sig handklæðum, eða pakkað sér inn í dúnúlpur. Þau skiptust að á fara sem næst búinu með plastkylfur og snerta það. Eftir hverja snertingu (og þær urðu stöðugt ákveðnari) var hlaupið í burtu með viðeigandi hljóðum. Síðan reyndi það næsta sig. Svona gekk þetta: snerting kylfunnar við búið varð stöðugt ákveðnari og þar kom að eitthvað féll niður um gatið, neðst á búinu, með þeim afleiðingum, að hópurinn rak upp mikið óp og hvarf umsvifalaust á bak við skjólvegginn, bara til þess að koma aftur, þess albúinn að hefja næstu umferð.

Við þessa síðustu aðgerð héngu tveir dauðir geitungar niður úr gatinu og það það sem meira var, þegar betur var að gáð, og sem olli heilmiku fjaðrafoki (en bara um stund) mátti sjá hreyfingu í gatinu. Það fór ekki á milli mála, að það var enn líf í búinu og þar með hafði þessi "leikur" færst á annað stig, sem var þess eðlis að aðgerðir af hálfu afans urðu að koma til.
Afinn, ég var hann.
Afinn var sá sem hafði sagt frá geitungadrápinu, fyllt huga sonabarnanna af hugmyndum um hetjuskap sinn í viðureign við þetta hættulega dýr, geitunginn og haft sigur.
Reyndust þessar frásagnir hafa verið reistar á sandi?
Var afinn í stakk búinn, þar sem hann stóð þarna með nánast tómann eiturbrúsann í anndarri hendi, prik í hinni og EOS um hálsinn, til að ljúka þessu máli með farsælum hætti?

Það kemur í ljós í næsta hluta.

(stærri útgáfu af myndunum má sjá með því að smella á þær)

25 júlí, 2017

Af dýrðarsöng og fjöldamorðum.

Drottinn Guð mótaði nú öll dýr merkurinnar og alla fugla himinsins af moldu og lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldu þær bera. (Biblían)
Maðurinn gaf flugnategund nokkurri nafnið "GEITUNGUR" sé þetta allt satt og rétt og ekki hef ég aflað mér upplýsinga um hversvegna hann valdi þetta nafn, enda aukaatriði í því samhengi sem hér er um að ræða.
Geitungar eru nú ekkert merkilegri en aðrir hlutar sköpunarverksins, en svo sem ekkert ómerkilegri heldur.  Við, mennirnir, greinum hinsvegar dýrin eftir ýmsum leiðum, meðal annars eftir því hvort þau teljast okkur þóknanleg eða hvort þau eiga yfirleitt rétt til lífs.  Við vílum ekki fyrir okkur að strádrepa þau sem við teljum okkur andsnúin og til verulegs ama, þar sem við sitjum í hásæti okkar, sjálfskipaðir drottnarar yfir jörðinni.
Geitungar eru okkur ekki að skapi.
Ég fell í þann flokk og ég held ég megi fullyrða að það geri fD einnig.

Ekki slæ ég oft það gras sem þó sprettur hér í kringum húsið, en fyrir nokkrum dögum, þegar undirbúningur fyrir Skálholtshátíð stóð sem hæst, ákvað ég að venda kvæði mínu í kross, eða hvíla hugann með því að taka lítilsháttar snúning á slátt.
Næst er frá því að segja, að þar sem ég var að lá stallana fyrir utan stofuglugga austan megin, flaug hjá mér fluga með sama hætti og geitungur fljúga. Mér varð litið upp. Við mér blasti afar myndarlegt geitungabú og í kringum það var heilmikið líf.  Án þess að orðlengja það, utan að greina frá því að ég gerði hlé á slættinum á þessum stað, hóf ég undirbúning í huganum, að því að stytta líf þess hluta sköpunarverksins sem þarna hafði birst mér.
Eftir þetta lá leið út í Skálholt, þar sem ég söng Guði til dýrðar klukkustundum saman, án þess að það hefði nokkur áhrif á þá ákvörðun mína að vísa hinum óboðnu gestum sem þarna höfðu birst mér, til þess staðar sem þeim er ætlaður að lífi loknu.

Þegar heim var komið, að söng loknum, hófst hinn raunverulegi undirbúningur.
Það rökkvaði.
Það hefur mér verið sagt, að þegar rökkvar flykkist íbúar geitungabúa smám saman heim, þar sem þeir dvelja síðan yfir nóttina.
Um kl. 22:30 athugaði ég hver staðan væri. Enn voru ötulir íbúarnir að sinna dagsverkinu. Þeir flugu að búinu, smeygðu sér inn um gatið neðst á því og komu síðan innan skamms aftur út og fóru næstu ferð.  Allnokkrir sátu utan á búinu, hreyfingarlausir. Með þeim einhver smávaxin, gulleit fluga, sem hefði alveg getað verið fjarskyldur ættingi, nú eða jafn vel hælisleitandi.

Eftir að hafa staðið þarna um stund, án þess að nokkur merki birtust mér um að dýrin færu að leggja sig, hvarf ég á braut. Kom aftur uppúr kl. 23:00 og enn var allt við sama, utan þeim flugum sem sátu utan á búinu hafði fjölgað nokkuð.
Um miðnætti taldi ég loks vera komið nóg af svo góðu, þó enn þá sætu um 20 íbúar utan á búinu (ég hefði haldið að þær ættu að fara inn).
Ég hafði tekið mér eiturbrúsa sem fD hefur ávallt við höndina á þessum tíma árs.
Þarna ákvað ég að gera smá tilraun.
Þar sem ég stóð í um 2-3 m. fjarlægð frá búinu, í blankalogni, sendi ég eitt hóflegt púst í áttina að markinu. Ekkert gerðist, umtalsvert. Jú, ég sá einn eða tvo færa sig aðeins til.
Ég ákvað að verða ákveðnari í aðgerðum mínum, kom mér í 1-2 m. fjarlægð og sendi annað púst, heldur ákveðnara en hið fyrra og sá hvar úðinn lenti á búinu og íbúunum sem utan á stóðu.
Það sem gerðist næst var vaxandi hreyfing og ekki leið á löngu áður en geitungar tóku að falla niður á jörð, augljóslega alveg búinir á því.
Þegar enginn sat eftir utan á búinu, ákvað ég að hefja leifurárás, eða "Blitzkrieg". Vatt mér alveg að búinu, beindi brúsastútnum inn í gatið og lét vaða í einar 5 sekúndur. Brúsinn hikstaði og eitt augnablik óttaðist ég að allt væri fyrir bí, en svo reyndist ekki vera. Engrar hreyfingar varð ég var eftir þetta og ekki síðan.
Öllu var lokið.
Ég fann auðvitað til nokkurrar ábyrgðar og up komu spurningar í hugann um rétt minn til þess arna. Ég bandaði öllum pælingum af þessu tagi frá. Leit svo á að ég hefði náð talsvert góðu jafnvægi í dagsverkið með lofsöngvum til þess sem öllu ræður, annarsvegar, og kaldrifjuðum morðum á dýrum merkurinnar, hinsvegar.

22 júlí, 2017

1/733

Það er algengara en svo, að maður taki ekki eftir því, að ekki birtist mann á Fb myndir þar sem manni er tjáð að aðeins lítill hluti fólks geti greint eitthvað sem á myndinni er. Þarna er t.d. um að ræða tölur, stutta texta eða duldar fígúrur af einhverju tagi. Þar sem ég sé auðvitað alltaf allt sem þarna birtist finnst mér þetta bara vera það sem kallað er "click bait" eða smelligildra, þar sem verið er að fá fólk til að deila myndinni áfram og sýna þannig fram á hvað það er klárt. Við þurfum öll að fá staðfestingu á að við stöndum öðrum á sporði.

Nú, ég er orðinn svo leiður á þessum myndum, að ég ákvað að gera bara mína eigin, þannig að hún myndi dreifast um heiminn, deilast manna á meðal eins og vindurinn.
En, nei, aldeilis ekki.  Fólk fór að ræða myndina og mögulega fá út úr henni eitthvað sem það átti ekki að sjá.

Þetta var bara mynd af Heklu, sem var tekin frá Laugarási á fögrum sumardegi. 

Ekkert annað. 

Ef fólk sá t.d. fjall á myndinni, hefði það átt að deila henni áfram, ef allt væri eins og venja er með myndir af þessu tagi. 
Á myndinni er ekkert falið. 
Hún er bara það sem hún er. 
Það er engin ástæða fyrir því að bleiki liturinn varð fyrir valinnu. 
Það er engin ástæða fyrir því að ég valdi töluna  733.

Þessi myndbirting átti bara að vera svona létt sumargrín hjá mér, og jafnfram gagnrýni á þessar smelligildrur.

Ég get ekki látið hjá líða að biðja þau ykkar afsökunar, sem reynduð að sjá eitthvað annað en fjall út úr þessri mynd. Ég skal ekki gera þetta aftur. 
Njótið dagsins. Megi smelligildrur auðga líf okkar áfram.





21 júlí, 2017

Chillisulta með stürzen wollen

Margt hef ég tekið mér undarlegt fyrir hendur í þessum skrifum mínum í næstum 10 ár, en ég er viss um að þú hefur aldrei áður litið í þeim skrifum jafn undarlegan samsetning og þennan. Í það minnsta eins og hann birtist án viðhlítandi skýringar.

Að drepa Páfann og Tyrkina "
„und steur des Papsts und Türcken mord“
Ekki batnar það.
En samt allt svo saklaust nú, eða svo má segja.

Undanfarna mánuði hef ég tekið þátt í æfingum fyrir tónleika sem verða í Skálholtsdómkirkju á morgun, laugardag, kl. 16:00. Að þessum tímapunkti hefur verið stefnt og þetta virðist allt vera að komast á viðunandi ról.  Aðkoma mín og annarra þeirra sem þarna taka þátt í nafni Skálholtskórsins, eftir fjölda æfinga, tekur svo ekki nema svona 10 mínútur í flutningi í heild.
Svo er það búið og orðið hluti að sögunni.
Þetta er ekki ósvipað því þegar bardagakappi æfir nótt sem nýtan dag, mánuðum saman, flýgur síðan landa á milli og er rotaður á innan við tveim mínútum. Munurinn er auðvitað sá, að ég hyggst ekki enda í roti, heldur einhverskonar vímu og tiltölulega sáttur við mitt framlag. Það er í það minnsta markmiðið.

Tónverkið sem á að flytja í Skálholti á morgun er kantata eftir Johan Sebastian Bach sem byggir á ljóði eftir Martein Lúther og ber heitið "Erhalt uns, Herr, bei deinem Wort" eða "Haltu okkur, Drottinn, við orð þitt" (svona nokkurn veginn).
Ekki ætla ég að fjölyrða um verkið, sem er flutt í tilefni af 500 ára siðbótarfamæli, en vísa á umfjöllun HÉR 

Auðvitað hefst leikur Íslands við Sviss á sama tíma og tímamótaflutningurinn í Skálholti. Ef þú ert í vafa hvorum viðburðinum þú ættir að fylgjast með, þá bendi ég á, að það verður hægt að skoða og endurskoða allt sem gerist í leiknum, aftur og aftur, næstu daga. Flutning minn og allra hinna á Bachverkinu verður hinsvegar bara hægt að sjá einu sinni.
Það sem ég er eiginlega spenntastur fyrir, í þessu sambandi er, hvorn viðburðinn fD velur. Ég get auðveldlega fært rök fyrir hvoru vali hennar sem er, en bíð og sé til hvað gerist.

Chillimyndin af Bach er til komin vegna þess að á tíma mikils æfingaálags og jarðarfarasöngs að undanförnu flaug í hug mér, upp úr þurru, að ég ætti að skella mér í að búa til chillisultu. Mér er ekki enn ljóst samhengið þarna á milli og vænti hjálpar þinnar með tillögur.
Chillisultuna gerði ég áðan og er búinn að sannreyna að betri chillisulta hefur ekki verið gerð.

Hér er þetta svo dregið saman, leasandi góður:

Laugardagur 22. júlí, 2017  kl. 16:00



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...