25 júlí, 2017

Af dýrðarsöng og fjöldamorðum.

Drottinn Guð mótaði nú öll dýr merkurinnar og alla fugla himinsins af moldu og lét þau koma fram fyrir manninn til þess að sjá hvað hann nefndi þau. Og hvert það heiti, sem maðurinn gæfi hinum lifandi skepnum, skyldu þær bera. (Biblían)
Maðurinn gaf flugnategund nokkurri nafnið "GEITUNGUR" sé þetta allt satt og rétt og ekki hef ég aflað mér upplýsinga um hversvegna hann valdi þetta nafn, enda aukaatriði í því samhengi sem hér er um að ræða.
Geitungar eru nú ekkert merkilegri en aðrir hlutar sköpunarverksins, en svo sem ekkert ómerkilegri heldur.  Við, mennirnir, greinum hinsvegar dýrin eftir ýmsum leiðum, meðal annars eftir því hvort þau teljast okkur þóknanleg eða hvort þau eiga yfirleitt rétt til lífs.  Við vílum ekki fyrir okkur að strádrepa þau sem við teljum okkur andsnúin og til verulegs ama, þar sem við sitjum í hásæti okkar, sjálfskipaðir drottnarar yfir jörðinni.
Geitungar eru okkur ekki að skapi.
Ég fell í þann flokk og ég held ég megi fullyrða að það geri fD einnig.

Ekki slæ ég oft það gras sem þó sprettur hér í kringum húsið, en fyrir nokkrum dögum, þegar undirbúningur fyrir Skálholtshátíð stóð sem hæst, ákvað ég að venda kvæði mínu í kross, eða hvíla hugann með því að taka lítilsháttar snúning á slátt.
Næst er frá því að segja, að þar sem ég var að lá stallana fyrir utan stofuglugga austan megin, flaug hjá mér fluga með sama hætti og geitungur fljúga. Mér varð litið upp. Við mér blasti afar myndarlegt geitungabú og í kringum það var heilmikið líf.  Án þess að orðlengja það, utan að greina frá því að ég gerði hlé á slættinum á þessum stað, hóf ég undirbúning í huganum, að því að stytta líf þess hluta sköpunarverksins sem þarna hafði birst mér.
Eftir þetta lá leið út í Skálholt, þar sem ég söng Guði til dýrðar klukkustundum saman, án þess að það hefði nokkur áhrif á þá ákvörðun mína að vísa hinum óboðnu gestum sem þarna höfðu birst mér, til þess staðar sem þeim er ætlaður að lífi loknu.

Þegar heim var komið, að söng loknum, hófst hinn raunverulegi undirbúningur.
Það rökkvaði.
Það hefur mér verið sagt, að þegar rökkvar flykkist íbúar geitungabúa smám saman heim, þar sem þeir dvelja síðan yfir nóttina.
Um kl. 22:30 athugaði ég hver staðan væri. Enn voru ötulir íbúarnir að sinna dagsverkinu. Þeir flugu að búinu, smeygðu sér inn um gatið neðst á því og komu síðan innan skamms aftur út og fóru næstu ferð.  Allnokkrir sátu utan á búinu, hreyfingarlausir. Með þeim einhver smávaxin, gulleit fluga, sem hefði alveg getað verið fjarskyldur ættingi, nú eða jafn vel hælisleitandi.

Eftir að hafa staðið þarna um stund, án þess að nokkur merki birtust mér um að dýrin færu að leggja sig, hvarf ég á braut. Kom aftur uppúr kl. 23:00 og enn var allt við sama, utan þeim flugum sem sátu utan á búinu hafði fjölgað nokkuð.
Um miðnætti taldi ég loks vera komið nóg af svo góðu, þó enn þá sætu um 20 íbúar utan á búinu (ég hefði haldið að þær ættu að fara inn).
Ég hafði tekið mér eiturbrúsa sem fD hefur ávallt við höndina á þessum tíma árs.
Þarna ákvað ég að gera smá tilraun.
Þar sem ég stóð í um 2-3 m. fjarlægð frá búinu, í blankalogni, sendi ég eitt hóflegt púst í áttina að markinu. Ekkert gerðist, umtalsvert. Jú, ég sá einn eða tvo færa sig aðeins til.
Ég ákvað að verða ákveðnari í aðgerðum mínum, kom mér í 1-2 m. fjarlægð og sendi annað púst, heldur ákveðnara en hið fyrra og sá hvar úðinn lenti á búinu og íbúunum sem utan á stóðu.
Það sem gerðist næst var vaxandi hreyfing og ekki leið á löngu áður en geitungar tóku að falla niður á jörð, augljóslega alveg búinir á því.
Þegar enginn sat eftir utan á búinu, ákvað ég að hefja leifurárás, eða "Blitzkrieg". Vatt mér alveg að búinu, beindi brúsastútnum inn í gatið og lét vaða í einar 5 sekúndur. Brúsinn hikstaði og eitt augnablik óttaðist ég að allt væri fyrir bí, en svo reyndist ekki vera. Engrar hreyfingar varð ég var eftir þetta og ekki síðan.
Öllu var lokið.
Ég fann auðvitað til nokkurrar ábyrgðar og up komu spurningar í hugann um rétt minn til þess arna. Ég bandaði öllum pælingum af þessu tagi frá. Leit svo á að ég hefði náð talsvert góðu jafnvægi í dagsverkið með lofsöngvum til þess sem öllu ræður, annarsvegar, og kaldrifjuðum morðum á dýrum merkurinnar, hinsvegar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...