15 október, 2017

Öfug sálfræði #kosningar 2017

Ef maður vill vinna málstað fylgis á þessum tímum, er vísast leiðin að beita öfugri sálfræði.
Ég get hamast þangað til ég fæ blóðbragð í munninn, og ælu upp í háls, við að leiða fram rök fyrir því að það sé hin argasta fásinna, að styðja tiltekinn stjórnmálaflokk, eða flokka, eða einstaka stjórnmálamenn.
Ég væri í rauninni aðeins að fullnægja tjáningarþörf minni: "Mikið djö.. er þetta gott hjá mér!"
"Þarna kýldi ég hann/hana kalda(n)!"
Það er nefnilega þannig, að mínu mati, með stjórnmálaskoðanir, að þær herðast eftir því sem fleiri rök eru leidd fram gegn þeim. Það gengur meira að segja svo langt, að skjöl sem tengjast suðrænum eyjum breytast í eitthvert jákvætt fyrirbæri í höfðum þeirra sem hafa stillt sér upp við hlið frambjóðanda sem tengist slíkum skjölum. Fólk herðist í trúnni, sérstaklega það fólk sem ekki býr yfir neinni sérstakri sannfæringu, eða lífsskoðun, sem er yfir hið persónulega hafin.

Fólk forherðist og þegar upp er staðið verður engin breyting. Hvenær ætlar okkur að skiljast þetta?

Að taka á einhverjum tímapunkti í lífinu ákvörðun um að kjósa tiltekið stjórnmálaafl felur í sér ákveðna skuldbindingu gagnvart sjálfum sér. Flökti maður síðan í trúnni og telji eitthvað annað mögulega betra, kostar það talsverða sálarangist, því með því að viðurkenna að maður hafi valið rangt, er maður jafnfram að tapa ákveðinni sjálfsvirðingu. Viðurkenna að maður hafi verið vitlaus síðast þegar kosið var. 

Að viðurkenna slíkt fyrir sjálfum sér, er í eðli sínu niðurbrjótandi atferli. Maður bíður hnekki gagnvart sjálfum sér. Maður er helv.... aumingi og vitleysingur. Nei, maður verður að standa keikur með sínum flokki. Annað er ekki boðlegt eða til umræðu.

Til þess að komast hjá því að upplifa sjálfan sig sem vitlausan aumngja, sem hefur enga lífsskoðun, eða hugsjón, hlýtur niðurstaðan að verða sú, að maður kýs áfram það sama og síðast, hvað sem eyjum í suðurhöfum líður.

Ég held að væri frekar reynandi, að fara hina leiðina, leggja áherslu á hið jákvæða og uppbyggilega, en það er víst ekki valkostur, og því hef ég tekið þá stefnu með sjálfum mér, að benda ekki sveitungum mínum, til dæmis, sem ég kýs að nefna ekki á nafn, frekar en ég hef þegar gert, á villuna sem þeir hafa ratað í með afstöðu sinni - það forarsvað sem þeir eru komnir út á.

Nei, ég ætla bara að þegja og leyfa þeim að vaða áfram í villu og svíma; taka með sínum hætti þátt í því að gera endanlega út af við þessa þjóð, og allt það.  Það er bara hreint ekkert sem ég get gert við því.

Vissulega viðurkenni ég, að það eru til hópar sem hægt er að hafa áhrif á, en þeir eru þessir helstir:

1. Ungt fólk, sem er svo heppið að fá tækifæri til að móta eigin lífsskoðun og hugsjónir, en taka það ekki með sér úr foreldrahúsum. Við þeim blasir hinsvegar sá vandi, að íslensk stjórnmálaumræða snýst frekar um hagsmuni en hugsjónir.

2. Fólk sem er laust við að burðast með sómakennd af einhverju tagi.

3. Fólk sem hagar seglum eftir vindi, og þá þeim vindi sem líklegastur er til að blása því, og aðeins því, áfram til betra lífs. Þá oft betra lífs sem byggir á peningalegum hagnaði af einhverju tagi.

Fólk með sjálfsvirðingu, breytir ekki pólitískri afstöðu sinni svo glatt og er tilbúið að ganga lengra en góðu hófi gegnir, til að verja eitthvað, sem allt eins líklega kemur því frekar illa  en vel.

Þetta var pólitískur pistill dagsins.

Það var fallegt við Hvítá í dag.



10 október, 2017

Ástleysi? Sjálfhverfa? Kunnáttuleysi? Skilningsleysi?

Allt sem ég mögulega læt frá mér fara hér fyrir neðan, er eitthvað almennt, sem beinist ekki að neinum einstaklingum, lífs eða liðnum. Bara almennar vangaveltur um aðstæður barna á þessu landi, eins  og þær birtast mér eða ættu að birtast mér, karlinum, á þeim aldri sem ég er, laus við ábyrgð af barnauppeldi, sem í mínu tilviki lauk fyrir talsvert löngu, á öðrum og talsvert ólíkum tíma og var mögulega ekkert sérstakt, þannig séð. 
Mögulega var sá tími að ýmsu leyti ekkert skárri en í dag, að þessu leyti. En börnin eru hinsvegar óbreytt þegar þau fæðast.



Nýfæddur ég
Ef ég væri nýfæddur í dag, myndi ég í rauninni bara gera kröfu um eitt: skilyrðislausa ást og umhggju foreldra minna.  Mér væri alveg sama um hvernig rúmið mitt væri, eða vagninn, eða rúmfötin, eða fötin, eða bleyjurnar, eða snuðin... eða hvort ég fengi æpadd.
Ég myndi bara vilja geta treyst því að foreldrar mínir sæju um mig og sæju til þess að mig skorti ekkert af því sem mér væri nauðsynlegt, hugsuðu um mig nótt sem nýtan dag, leiðbeindu mér, kenndu mér, töluðu við mig, læsu fyrir mig, kenndu mér muninn á réttu á röngu, væru alltaf tilbúin að efla mig og bæta, styddu með ráðum og dáð gagnvart þeim og með þeim sem síðar tækju við mér og aðstoðuðu mig við menntun mína.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi reikna með, þau teldu það ekki eftir sér, að fórna stórum hluta af frelsi sínu fyrir mig, myndu leggja mikið á sig til að æska mín veitti mér þann grunn sem væri mér nauðsynlegur þegar ég síðar færi út að kanna heiminn.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja að ást þeirra til mín og umhyggja fyrir velferð minni myndi aldrei flökta, að þeim væri það ljóst, dag og nótt, að ég væri eitthvað sem fyllti þau stolti og að þau bæru á því ábyrgð að sá grunnur sem ég færi með út í heiminn væri nægilega traustur til þess að líkurnar á því að ég hrasaði yrðu sem minnstar.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja vera í leikskóla bara hálfan daginn, hinn helminginn með foreldrum mínum, sem veittu mér alla þá athygli sem ég hefði þörf fyrir, segðu mér hvað ég mætti og mætti ekki, hrósuðu mér fyrir það sem ég raunverulega gerði vel þannig að ég gæti þá bætt mig enn meira, leyfðu mér að vera hluta af lífi sínu, létu mig ekki þurfa að keppa við neitt um athygli þeirra, létu mig finna að ég væri mikilvægur og skipti máli.  Mér væri alveg sama þó við slepptum því að fara út að borða, eða til útlanda, eða í bíó, eða í hvalaskoðun. Mér væri alveg sama þó húsgögnin heima hjá okkur væru gömul og slitin, mér væri alveg sama þó bíllinn væri gömul drusla, mér væri alveg sama þó sjónvarpið væri túbusjónvarp.  Mér væri alveg sama um allt þetta efnislega, bara ef ég hefði þá, eins mikið og mögulegt væri, alltaf strax og þau væru búin að vinna á daginn, alltaf þegar þau ættu frí, allar helgar, alltaf.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi ekki gera ráð fyrir að foreldrar mínir væru mikið í einhverju þar sem ég kæmi ekki við sögu. Ég myndi vilja vera aðalpersónan, ekki þannig endilega að allt snerist í kringum mig, heldur þannig að ég gæti alltaf notið fullrar athygli þegar ég þyrfti á að halda, ekki hálfa athygli, eða brots úr athygli - fullrar athygli.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi gera rað fyrir því að foreldrar kynnu að vera foreldrar, að þeir bara kynnu það. Vissu að með því að ákveða að eiga mig, væru þeir að fórna eigin frelsi,  vissu að þeir þyrftu að setja mér mörk, vissu að samvera mín við þau væri nauðsynlegur þáttur í uppeldi mínu, vissu að leikskólinn eða grunnskólinn gæti aldrei komið í stað þeirra, vissu að það væri enginn annar en þeir, sem bæru endalega ábyrgð á því hvað úr mér yrði.


-------------------

Ég setti þetta ekki hér niður á skjá til að reyna að kalla fram einhverja sektarkennd hjá foreldum ungra barna. Tilgangur minn er nú bara að freista þess vekja til umhugsunar, ekki bara foreldra, heldur alla þá sem koma að barnauppeldi.
Sannarlega neita ég því ekki, að mér finnst átta til níu stunda vistunartími barna á því viðkvæma aldursskeiði sem leikskólabörn eru á, fjarri því að vera viðunandi fyrir þroska þeirra og sálarlíf.

Með þessum skrifum er ég ekki að og vil ekki beina spjótum að foreldrum, en aðstæður þeirra eru jafn mismunandi og þeir eru margir.
Mögulega erum við búin að búa okkur til samfélag þar sem báðir foreldrar þurfa vinna nótt sem nýtan dag til að hafa í fjölskylduna og á.
Mögulega eru kröfur okkar um efnisleg gæði komnar talsvert út fyrir það sem nauðsynlegt er eða skynsamlegt.
Mögulega er kominn tími til að endurhugsa þetta allt saman.
Huga meira inn á við.

08 október, 2017

Klemma

Ég fæddist inn í og ólst upp á því sem kallað hefur verið "framsóknarheimili". Á slíkum heimilum, á tíma áður en jafnvel sjónvarpið var komið til sögunnar, var ekki um að ræða aðra fjölmiðla en flokksblaðið Tímann, sem kom í knippum tvisvar til þeisvar í viku og ríkisútvarpið, sem þá útvarpaði á einni rás, sem var líkust því sem rás 1 er í dag.  Þetta var einfaldur heimur, verð ég að segja.

Að óbreyttu hefði ég haldið áfram að vera grjótharður framsóknarmaður fram á þennan dag. Það fór hinsvegar svo, að á þeim tíma  ævinnar þegar stjórnmálaskoðanir tóku að festast að einhverju ráði, lá leið mín úr foreldrahúsum og ég uppgötvaði annarskonar hugmyndir um hvernig þjóðfélagið ætti að vera. Það varð til ákveðin lífsskoðun eða sýn á þjóðfélagið, sem tengdist ekki einstökum persónum eða stjórnmálaflokkum endilega, heldur fól hún í sér, að ég þurfti að velja milli flokka í kosningum, sem héldu fram svipaðri sýn og ég hafði.  Það er fjarri því, að þessi lífssýn mín hafi eitthvað að gera með mína eigin hagsmuni eða fjölskyldunnar. Ég hef þá staðföstu trú að þjóðfélagi sé best þannig komið, að einkahagsmunum, viðskiptahagsmunum, hagsmunum einstakra stétta aða hópa, sé eins fyrir komið. Með öðrum orðum, það á ekki að hygla að einum á kostnað annars. það eiga allir að taka þátt, hver eftir því sem hann getur.

Ég geri mér grein fyrir að það eru og verða hópar og einstaklingar í samfélaginu sem telja sig "jafnari" en aðra. Það er verkefni samfélagsins að halda þeim í skefjum.

Ég játa það, að stundum hefur framsóknarmaðurinn í mér (fjórðungi bregður til fósturs) látið á sér kræla, en hefur ekki náð neinni fótfestu, enda tel ég framsóknarflokkinn hvorki vera né fara þó margt sé þar að finna (ef horft er framhjá hversu ólánlega þeim flokki hefur stundum tekist með val á forystu) sem fellur að sýn minni.

Nú er ég kominn í talsverða klemmu.
Ég hef verið þeirrar eindregnu skoðunar að maður eigi að kjósa eftir sannfæringu sinni, eins og hún endurspeglast í skoðunum manns á því hvernig samfélaginu í heild verði best borgið. Ég hef gert fremur lítið úr því þegar fólk kýs á öðrum forsendum, t.d. vegna ástar á einhverjum stjórnmálaleiðtoga, eða á grundvelli einkahagsmuna, eða "af því bara".


Þá er það klemma mín
Nú stend ég frammi fyrir því að velja milli einkahagsmuna og lífsskoðana þegar ég geng að kjörborðinu.
Ástæðan?
Fyrir nokkrum mánuðum birti einn þingmanna stjórnmálaflokks, sem ég hef oft ljáð atkvæði mitt, opinberlega þá skoðun súna að ég ætti að "fokka mér" og að ég væri "ofboðslega vitlaus".
Að vísu sagði hann þetta ekki berum orðum, þessi "ágæti" þingmaður, heldur samþykkti hann þessa skoðun á mér, með því á smella á hnappinn þar sem fólk getur látið sér vel líka það sem einhver segir. Hann, sem sagt, "lækaði" þessa skoðun.
Ef einhver áttar sig ekki á um hvað málið snýst, þá má eitthvað um það hér.

Ég hélt þá, að framundan væru nokkur ár þar til ég þyrfti aftur að gera upp við mig hvernig atkvæði mínu yrði best varið, en nú blasri við að ég þarf að ákveða mig með hraði.
Á ég að kjósa flokk þar sem forystumennirnir taka þátt í því, á samfélagsmiðlum, að fordæma fólk sem það þekkir ekki?
Á ég að kjósa flokk sem hýsir kima þar sem mannhatur fær að þrífast?
Á ég að velja þann flokk sem ég kemst næst því að deila skoðunum með?

Ég breyti ekki þeirri skoðun minni, að maður á að kjósa í samræmi við sannfæringu sína á því hvað kemur samfélaginu í heild best. Ég neita því hinsvegar ekki, að persónulegir hagsmunir hljóti að koma við sögu.

Svona er nú það.

---------------------------
Það er af ásettu ráði sem ég fjalla ekki um einstaklinga, eða einstaka flokka (nema, framsóknarflokkinn, auðvitað). Ég er búinn að læra það að slíkt breytir engu. Fylgjendur verða bara meiri fylgjendur og andstæðingar meira andstæðingar.

05 október, 2017

Er ég orðinn ellibelgur?

Síminn hringdi í gærmorgun. Hringjandinn reyndist vera ágætur nágranni til áratuga. Var dálítið hikandi við að bera upp erindið þar sem mögulega, hugsanlega myndi ég móðgast. Ég kvað mig ekki móðgunargjarnan mann og hvatti til þess að ljóstrað yrði upp um það sem þarna væri um að ræða.
Ég fékk að heyra hvað málið snérist um og varð ekkert móðgaður. Bara miklu frekar þakklátur fyrir hugulsemina sem að baki bjó og enn eina staðfestingu þess hve gott það er að eiga heima í litlu samfélagi þar sem fólk þekkist meira og minna.
Erindið var að láta mig vita af því, að í dag er fyrsta samvera eldri borgara í Bergholti, milli kl. 14 og 16.
Ég viðurkenni, að ég á dálítið erfitt með að ná utan um þetta allt saman, svo bráðungur sem ég nú er. Ég neita því ekki, að ég spurði sjálfan mig hvort þessi vikulega, tveggja tíma samverustund, þar sem fólk í eldri kantinum kemur saman til að spjalla um lífið og tilveruna, stunda handverk, spila, eða prjóna, eða bara hvaðeina sem hentar. væri eitthvað fyrir mig.

Ég er óhjákvæmilega, með þeirri ákvörðun minni, að láta af störfum og hefja töku eftirlauna talsvert fyrr en flestir gera, kominn með annan fótinn í þann þjóðfélagshóp sem talað er um sem eldri borgara, aldraða eða bara ellibelgi. Ég á það sameiginlegt með þessum hópi, að ég þarf ekki lengur að láta vekjaraklukkuna hringja og bruna síðan í vinnuna á hverjum virkum degi.  Ég ræð tíma mínum sjálfur og ákveð því sjálfur í hvað ég nota hann.

Það sem ég á kannski síður sameiginlegt með þessum hópi er, að ég verð ekki formlega eldri borgari fyrr en eftir ein þrjú ár. Þetta eru þrjú ár sem ég vænti þess að lifa beggja megin þeirrar línu sem einhverntíma var ákveðið að draga milli þeirra sem fullgildir teljast á vinnumarkaði og þeirra sem eru að hefja, með formlegum hætti ferð sína inn í sólarlag lífsins, með öðrum orðum, að undirbúa sig fyrir hið óhjákvæmilega, sem allra bíður, mis fljótt, reyndar.
Þessi lína er auðvitað mannanna verk, einhver meðalvegur sem hefur í rauninni ekkert með að gera einstaklinga, enda þeir jafn mismunandi og þeir eu margir.  Við þekkjum öll fólk sem hefur ekki verið ætlað að ná þessari línu og einnig fólk sem gengur til starfa á hverjum degi þó komið sé vel yfir nírætt. Um þetta vitum við bara hreint ekki neitt.

Það veit sá sem allt veit, að ekki ætlaði ég mér, þegar ég hóf þennan pistil, að fara að láta hann snúast um skilin milli þess sem er og verður og þar með hætti ég því.

Viðbrögð mín við símtalinu voru bara jákvæð, um leið og ég taldi síður líkur á að ég myndi sækja þessar samverustundir að óbreyttu. Ég hef yfirdrifið nóg að gera og í eðli mínu er ég talsverður einfari og hentar því afar vel að dunda mér einn í áhugamálum mínum. Svo verður áfram, óháð einhverjum línum sem samfélagið tengir mig við. Eingöngu háð því hve lengi höfuðið á mér virkar í samræmi við það sem ég ætlast til af því.
Ég er viss um að einhverjir munu halda því fram að eitthvað sé ég nú farinn að bera þess merki að andlegt atgervi sé á undanhaldi, en slíku mótmæli ég auðvitað harðlega.

Er Facebook málið?
Mér skildist á nágranna mínum, sem hringdi, að sá hópur sem hittist í Bergholti væri ekki mikið fyrir Facebook, eða tölvupósta, eða tölvur yfirleitt. Hugmyndir um samskipti með slíkum hætti munu hafa verið slegnar út af borðinu. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu, að síminn væri hentugasta samskiptatækið og settar hafa verið upp úthringilínur, sem felast í því, að hver hópmeðlimur fær það verkefni að hringja í einn eða fleiri aðra þegar þörf er að koma skilaboðum áleiðis.
Það er fjarri mér að gagnrýna þessa aðferð. Símtölin geta leitt til þess að fólk fer að spjalla saman um lífið og tilveruna ásamt því að greina frá því sem framundan er (ef það gleymist þá ekki).

Megintilgangur pistilsins
Kynslóðaskil eru óvenju mikil um þessar mundir. Fólkið sem nú er um sjötugt, er eiginlega yngsta fólkið sem hefur tileinkað sér tölvusamskipti að einhverju ráði, svona á heildina litið.  Milli tölvukynslóðarinnar og símakynslóðarinnar er aldeilis heilmikið bil.  Þeir sem nú eru um sjötugt eru að byrja að þrýsta á þá sem eldri eru, varðandi þessi mál, en enn sem komið er, án árangurs, að mér skilst.
Að máli við mig kom kona sem einmitt dasar línuna á milli þeirra tveggja heima sem áður eru nefndir. Hún bað mig að búa til hóp á Facebook, sem ætlaður væri fólki á aldursbilinu frá sextugu og upp úr.
Ég neita því ekki, að ég varð nokkuð hugsi, en þar sem ég er bara samilega fljótur að hugsa enn, taldi ég þarna vera á ferð góða hugmynd, ekki síst þar sem hún átti uppruna sinn í hópi "hinna". Það er nefnilega þannig að talsvert margir í þeim hópi fólks sem kominn er yfir sjötugt er bara alveg þokkalega tölvulæs og tilbúinn í að dansa þann dans fram í rauðan dauðann. Ég taldi að þarna væri hægt að byggja brú milli kynslóðanna beggja vegna línunnar sem dregin hefur verið.


Ég stofnaði hóp á Facebook.
Hópurinn kallast "Sextíu plús í Biskupstungum".
Ég bjó ekki bara til þennan hóp, heldur tilgreindi ég eftirfarandi sem tilgang hans:

Vettvangur fyrir fólk í Biskupstungum, sem hefur náð þeim góða aldrei sem hér um ræðir. Hér getur verið um að ræða fólk sem enn er á fullu í starfi og leik, fólk sem er aðeins farið að hægja á sér og fólk sem hefur lokið atvinnuþátttöku, en vill gjarnan halda áfram að njóta þess sem efri árin eiga að hafa upp á að bjóða.
Þessi hópur er engan veginn stofnaður til höfuðs ágætu Félagi eldri borgara í Biskupstungum, heldur miklu fremur til að styðja við og koma á framfæri sýn núverandi öldunga og einnig þeirra sem eitt sinn verða vonandi öldungar, á lífið og tilveruna.
Hér er ekki um að ræða félag, heldur nokkurskonar tengslahóp og í hann er boðið öllum þeim í Biskupstungum sem orðnir eru sextugir og sem eru virkir á Facebook.


Þegar ég var búinn að þessu, skilgreindi ég hann sem leynilegan hóp og bauð í hann örfáum einstaklingum, sem ég þóttist viss um að myndu ekki gera úr honum eitthvert stórmál.

Þannig er staðan nú og verður svo að óbreyttu, þó mér finnist æskilegt að hafa einhvern svona vettvang fyrir fólk á minum aldri og eldra, sem á ekki að snúast um aldur, heldur kannki frekar svipuð áhugamál, því áhugi fólks tengist að stórum hluta aldri þess. T.d. er mikið talað um ungabörn á kennarastofu sem ég þekki til, um þessar mundir, sem er í sjálfu sér ekki óeðlilegt.

Svo hef ég margt fleira um þessi mál að segja, en geri það síðar.

04 október, 2017

Enn eina ferðina: bara hann

Persónudýrkun er vafasamt fyrirbæri, svo ekki sé meira sagt, en þegar við erum farin að láta heilan stjórnmálaflokk snúast um eina persónu, erum við komin út á harla vafasamar brautir. Í mínum huga er eitthvað bogið við fólk sem sækir inn í slíka flokka.  Ætli þetta stefni í að verða þriðju kosningarnar til Alþingis í röð, þar sem ein persóna nær að láta alla umræðu snúast um sjálfa sig?

Ég hneigist til að kenna fjölmiðlum um þetta, að stórum hluta, því varla ropar þessi persóna öruvísi en að úr verði flennifyrirsögn og í kjölfarið logandi samfélagsmiðlar.

Ef um væri að ræða manneskju sem býr yfir einhverjum persónutöfrum, glæsileik, myndugleik, öryggi, manngæsku, mannskilningi, eða bara einhverjum jákvæðum eiginleikum sem myndu geta sannfært mig um að þarna væri á ferð framtíðarleiðtogi þessa örsmáa eyríkis, gæti ég skilið alla umfjöllunina.

Ég sé ekkert birtast mér, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan, nema einstakling sem hefur komist í þessa stöðu vegna einhvers annars en hæfni til þess arna, eða gáfna og mér er fyrirmunað að skilja hvað þar er, nákvæmlega við hann sem  veldur því að upp undir 10% þjóðarinnar kveðst myndu kjósa flokkinn hans. Því þetta er bara flokkurinn hans - einskis annars. Flokkur þar sem hagsmunir hans og persóna virðast vera það sem skiptir  máli.

Það sem er kannski alvarlegast í þessu er, að á meðan hann heldur fjölmiðlum uppteknum við sjálfan sig, fær  Flokkurinn að fara sínu fram í skugganum - skugganum þar sem ljósið verður að fá að skína, ef einhver von á að verða fyrir þá sem þurfa mest, til að fá tækifæri til að lifa  mannsæmandi lífi. Skugganum þar sem menn "víla og díla" með líf annarra í eigin þágu.

Ábyrgð fjölmiðla er jafnvel meiri en okkur grunar.

Sjálfsupphafnig og persónudýrkun eru eitur í mínum beinum, hvað sem það segir nú um mig, en auðvitað skiptir það ekki máli.

Ég lýk þessu á mynd af þessari persónu, sem dregin er upp af fyrrverandi flokksfélaga hennar:

Eftir hádegi mætti formaðurinn og við það breyttist andrúmsloftið, tillögur voru dregnar til baka og frjálslynt fólk dró sig til hlés. Þarna var ég fyrst var við það að „óþægilegu“ fólki var stuggað frá og einangrað. Allt starfið snerist um að halda línunni, og formaðurinn lagði línuna, ekki grasrótin.

Sama vetur atvikaðist það svo að ég varð sessunautur formannsins í veislu 
[....].  Sessunautur minn var ekki sá beitti samfélagsrýnir sem ég hafði séð á opinberum vettvangi. Heldur var hann frekar óöruggur og var um sig, þetta virtist mér ekki vera maður sem skeytti mikið um nærumhverfi sitt og hvað þá fólkið sem þar var.

Þetta er mynd sem mér finnst lýsa þeim sem ég sé í fjölmiðlum, þegar mér tekst ekki að snúa mér undan.

Kannski er mér að yfirsjást eittvað. 

29 september, 2017

Ég veit það ekki / Je ne sais pas

Vorið 1974 lauk ég stúdentsprófi af máladeild Menntaskólans að Laugarvatni.  Í máladeildum þess tíma voru kennd tungumál og fyrir utan að hafa þekkta fræðimenn sem íslenskukennara (Haraldur Matthíasson, Ólafur Briem og Kristinn Kristmundsson), var ég sérlega heppinn með enskukennarann Björn Inga Finsen, frönsku- og latínukennarann Kristján Árnason og þýskukennarann Vilborgu Ísleifsdóttur. Danskan var kannski ekki jafn metnaðarfull, en ekki fannst mér hún beinlínis óþolandi.

Veturinn eftir stúdentsprófið fékk ég kennarastöðu við Lýðháskólann í Skálholti og fékk þar nokkurskonar eldskírn í því starfi sem kennsla er. Meðal kennslugreinanna var franska og kennslubókin var "Avec plaisir" (Með ánægju).

Það má segja, að það hafi verið á grundvelli þessarar kennslu í Lýðháskólanum, sem ég sættist á að taka að mér viku kennslu í frönsku í forföllum í þrem bekkjum í ML. Þessari viku lauk í dag.
Sennilega var ég beðinn um þetta vegna þeirrar undarlegu áráttu minnar gegnum árin að þurfa sífellt að vera að slá um mig með einhverjum frösum á frönsku eða þýsku (Eitthvað verður maður að nota nám sitt í).

Mér leist nú ekkert sérlega vel á hugmyndina fyrst, en ákvað samt að slá til, dragandi eins mikið úr getu minni til þess arna og mögulegt var, einfaldlega til að skapa sem minnstar væntingar.
Efnið sem fyrir lá var nokkuð vel afmarkað og undirbúið upp í hendurnar á mér og ekki varð annað séð en þetta gæti allt gengið nokkuð bærilega.

Byrjendahópi var mér ætlað að kenna heitin á dögum og mánuðum. Þar komst ég fljótlega að því, að ég kunni talsvert meira en þau (eru búin að læra frönsku í 5 vikur) og óx þar með ásmegin.

Nemendum í þriðja bekk, sem eru í sínum þriðja áfanga í frönsku, var mér ætlað að kenna Passé composé, eða svokallaða samsetta þátíð sem myndast með hjálparsögnunum AVOIR (hafa) og  ÊTRE (vera). Einhvernveginn hefur Kristjáni Árnasyni tekist að koma málum svo fyrir í gamla daga að þetta reyndist hreint ekki óyfirstíganlegt og þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að aðal frönskukennarinn þurfi ekki nema fínpússa þegar hann kemur aftur til starfa.

Loks var mér ætlað að halda nemendum síðasta hópsins, sem var nýkominn úr viku námsferð til Parísar, að verki við plakatagerð, en það er kennsluaðferð sem ég hélt, í alvöru, að ég myndi aldrei þurfa að sinna. Sjálfsagt hefur hún sínar jákvæðu hliðar, en eins og mér var sagt í kennslufræðinámi fyrrum, þá verður hver kennari að finna þá nálgun að kennslunni sem hentar persónu hans best. Ég er ekki plakatpersóna og það þóttu tíðindi meðal fyrrum samstarfsmanna, þegar ég keyrði "föndurvagninn" um gangana í vikunni.

Loks þykir mér rétt að geta þess að ég var heppinn með nemendur í þessum tímum.  Byrjendurnir og ég höfðum eiginlega aldrei átt nein samskipti áður, svo þau voru frekar feimin við mig, eða eitthvað (eikkað/einkað).  Ég hafði með sama hætti ekki haft nein kynni af þeim svo þau voru bara svona nafnlaus massi fyrir framan mig, eða þannig. En þetta var í góðu lagi held ég.
Miðhópurinn var skemmtilegur og jákvæður, jafnvel þó rödd heyrðist sem tjáði andúð sína á að þurfa að læra frönsku.
Hópur þeirra sem lengst voru kominn vann sín verk við að klippa og líma og skrautskrifa, rétt eins og fyrir var lagt.

Hreint ágætt bara, en ég held ég muni ekki taka jafn jákvætt að frekari beiðnir um forfallakennslu.

24 september, 2017

Askurinn

Vorið 2009 vorum við fD á ferð í Rangárþingi og komum við á Tumastöðum í Fljótshlið þar sem Skógræktin hafði og hefur starfsemi, efti því sem ég best veit.  Pabbi var heilmikill áhugamaður um skógrækt, enda alinn upp í skóginum á Hallormsstað, og þær voru allmargar ferðirnar sem við fórum með foreldrum okkar á Tumastaði til að kaupa tré á vorin. Af þessum sökum var þetta svona upprifjum fyrir mig að koma þarna aftur.

Þarna var hægt að kaupa aðskiljanlegustu trjátegundir og þetta vorið, vorum við fD í stuði til að prófa eitthvað nýtt; eitthvað sem væri ekki endilega alveg öruggt í ræktun.

Frá Tumastöðum fórum við með tvær trjáplöntur, Ask og Gullregn.

Fljótlega kom í ljós að fD hafði tekið ástfóstri við gullregnið, og það var meira hennar en mitt, Askinn nefnd hún aldrei  bara ask, heldur "askurinn þinn" eða jafnvel "þessi askur þinn", sérstaklega eftir að gullregnið hafði veslast upp og drepist, þó svo því hefði verið valinn sérlega hlýlegur og skjólgóður staður. Helsta ástæðan fyrir því að lífið hvarf úr æðum gullregnsins er mér ekki ljós, en hún er skýrari í huga fD: ég á að hafa drepið það með óvarlegum slætti umhverfis það, sem ég neita auðvitað staðfastlega, eins og nærri má geta.
Það getur svo sem vel verið, að ég hafi einhvertíma, af miklum  dugnaði og nákvæmni farið með orfið frekar nálægt stofni gullregnsins, en tel af og frá að sú aðgerð hafi orðið því að aldurtila, ekki nema það hafi drepist úr hræðslu við orfið.
Ég hef áður fjallað um dauða gullregnsins.

Hvað um það.
Askurinn fékk stað þar sem lóðarhönnunin fyrir um 35 árum gerði ráð fyrir bílastæði. Jarðvegurinn þarna er ansi rýr og því hef ég sett á hann rotmassa á hverju vori, í þeirri von að hann myndi lifa þetta af. Það leit nú ekkert sérstaklega vel út til að byrja með; þetta var bara eins og lítið bambusprik sem stóð þarna upp í loftið. Þannig var þetta í allmörg ár: þegar laufin voru fallin á haustin, stóð bara þetta prik eftir og ég átti ekkert frekar von á að eitthvað gerðist vorið eftir. En, alltaf hef ég getað glaðst yfir bólgnandi bruminu á vorin og nú er ég farinn að sjá aukinn vaxtarhraða. Á þessu sumri sýnist mér hann hafa bætt við sig einum 30 cm.

Þarna stendur Askurinn, eða "þessi askur þinn" nú í haustlitunum og bíður vatrarins. Hægt og rólega hafa blöð hans tekið á sig þennan fagurgula haustlit og hann hefur lofað að lifna á ný næsta vor, en hann hefur í það minnsta gefið það í skyn með því að takast á við lífið af einstakri yfirvegum hingað til.

Nú fer að koma sá tími að ég get ekki lengur fjarlægt bévítans maðkinn sem sækir dálítið á hann og er þessvegna byrjaður að upphugsa aðferðir til að halda honum frá í framtíðinni. Eitt af því sem mér hefur dottið í huga er að setja límborða á stofninn á hverju vori, eins og ég hef sé gert í útlöndum, en ekki veit ég hvor það gæti orðið til að fæla frá ormaskrattana sem sækja á íslensk tré.

Askurinn er að verða dálítill fasti í tilverunni og einn þeirra þátta sem valda því að ég er hikandi við að horfa í aðrar áttir með búsetu. Ég vildi gjarnan geta fylgst með framgangi hans næstu áratugina, en það verður víst að verða sem verða vill.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...