19 maí, 2018

Ekki vera neikvæður

Sammála er ég því að það er skemmtilegra að vera jákvæður en neikvæður, í þeirri merkingu sem maður leggur alla jafna í þau orð.
Það er sérlega gaman þegar maður fær að heyra hvað maður sé nú jákvæður, sem í mínu tilviki gerist reyndar afar sjaldan. Að sama skapi er fremur leiðinlegt að fá það framan í sig að maður sé neikvæður: "Vertu nú ekki svona neikvæður!"

Áður en lengra er haldið ætla ég aðeins að tjá þá skoðun mína, að það geti verið varhugavert að vera jákvæður, jafnvel neikvætt. Að sama skapi getur verið afar gagnlegt að vera neikvæður, jafnvel jákvætt.
Allt fer þetta eftir samhengi hlutanna, eins og svo oft er nú.


Þú geymir Skálholt, ...
Nú eru kosningar framundan, sveitarstjórnarkosningar, þar með einnig í þessum litlu hreppum okkar í uppsveitunum. Það eru einmitt þær sem valda því að ég velti þessum tveim hugtökum fyrir mér: jákvæðni og neikvæðni í samhengi við hugtökin gagnrýnisleysi og gagnrýni.

Þar sem við höfum valið okkur bústað þykir gagnrýni á sveitarstjórn ekki lýsa sérlega sérlega mikilli jákvæðni. Ástæða þess er einföld: við þekkjum oftar en ekki, fulltrúa okkar í sveitarstjórn persónulega og við slíkar aðstæður getur orðið erfitt að aðgreina gagnrýni á stefnu, aðgerðir eða aðgerðaleysi sveitarstjórnar, og þær persónur eða þá einstaklinga sem í sveitarstjórninni sitja.
Það er frekar ríkt í okkur, að gagnrýna ekki opinberlega fólk sem við þekkjum, þekkjum jafnvel vel. Sömuleiðis er það ríkt í sveitarstjórnarfólki í fremur fámennum samfélögum, að taka allri gagnrýni á störf sveitarstjórnar, persónulega. Því kann að finnast gagnrýnin beinast að sér, fremur en einhverri stefnu eða stefnuleysi þess hóps sem það er fulltrúi fyrir.

... Þingvöll, ...
Það fólk sem setur fram gagnrýni á sveitarstjórn eða stöðu samfélags, telst vera fremur neikvætt fólk. Þeir sem gagnrýna ekki og láta sem allt sé í "gúddí" tilheyra hópi jákvæða fólksins.

Þegar hér er komið, vil ég fullyrða, að ef engin væri gagnrýnin, eða neikvæðnin myndi kyrrstaðan ríkja og deyfðin, aðgerðaleysið og metnaðarleysið.  Þar fyrir utan tel ég auðvitað af ef minnihluti í sveitarstjórn er samsettur af ákaflega jakvæðu fólki, geti það verið harla neikvætt fyrir samfélagið.

Ráðið til þess að gagnrýni, neikvæðni ef það er orðið sem fólk kýs að nota, fái notið sín sem slík, tel ég að það þurfi að færa valdið (sveitarstjórn) lengra frá fólkinu sem kýs. Sveitarstjórnarfólk á að tilheyra mismunandi pólitískum stefnum þar sem það er stefnan, aðgerðirnar eða aðgerðaleysið sem situr undir gagnrýni, en ekki einstaklingarnir sem eru fulltrúar fyrir hana. Hér er ég ekki endilega að tala um að það þurfi að vera einhverjir stjórnmálaflokkar að baki, heldur frekar lífsskoðanir: fólk sem telur sig aðhyllast félagshyggju gætu komið sér saman um framboð, þá einnig talsfólk einstaklingsfrelsisins og loks þeirra sem þar væru mitt á milli. Kjósendur eiga á því rétt, að vita hvar á þessu rófi framboðin eru. Að mínu mati vantar mikið upp á hjá þeim framboðum sem okkur standa til boða  fyrir þessar kosningar.

Með því að færa valdið fjær fá mismunandi stefnur að takast á og bera málefni sín upp fyrir kjósendur í aðdraganda kosninga.  Það er bara það sem lýðræðið gengur út á og á að ganga út á: val milli mismunandi stefna, frekar en val milli einstaklinga eða búsetu einstaklinga, sem ekkert gefa upp um fyrir hverju hjörtu þeirra slá.

... Haukadal.
Ég get lýst því yfir, að ég tel að næst á dagskrá sé sameining allra sveitarfélaga í Árnessýslu í eitt.

Ég get jafnframt lýst því yfir, að ég er orðinn bara nokkuð þreyttur á þeirri hreppapólitík sem tíðkast í uppsveitum Árnessýslu, þar sem menn vegast á um hin og þessi framfaramálin, sem síðan verða að engu.  Neiti því hver sem vill að svona sé og hafi verið staðan.

Já, já, sjálfsagt munu margir verða til þess að hrista höfuð yfir þessu "neikvæðnirausi" í mér. Ég kýs hinsvegar að líta að þetta litla framlag mitt í umræðuna sem merki um nauðsynlega jákvæðni af minni hálfu.  Ég er jákvæður fyrir hönd þessa svæðis, fái það yfir sig stjórn sem lítur það frá víðara sjónarhorni en raunin er við óbreytt ástand.

Mér er hulið hvernig Bláskógabyggð komst að þeirri niðurstöðu að hafna þátttöku í sameiningarviðræðum við önnur sveitarfélaög í Árnessýslu. Engin rök hef ég séð fyrir þeirri ákvörðun og ekki veit ég til að leitað hafi verið álits íbúanna á henni, í það minnsta var ég aldrei spurður.





15 maí, 2018

Skurðir

Þegar ég hugsa til baka, finnst mér ekkert hafa verið í umhverfinu hér í Laugarási, sem taldist stafa hætta af. Það hefur ef til vill bara verið vegna þess að ég áttaði mig ekki á því. Þá rann opnn hveralækur með yfir 90°C heitu vatni á löðarmörkunum í Hveratúni, þeim sem snúa að brekkunni. Auðvitað var það svo Hvítá sjálf, þetta jökulfljót nánast við bæjardyrnar.
Ekki minnist ég þess að nokkurntíma hafa foreldrar mínir sett okkur einhverjar sérstakar hömlur í kringum þessar hættur í umhverfinu. Sannarlega voru þarna lífshættulegir staðir, sem eru það enn.
Ekki tel ég að við fD höfum verið sérstaklega á varðbergi gagnvart hættunum í umhverfinu þegar okkar börn voru að alast upp hérna. Það kann að sýna ábyrgðarleysi okkar.

Það eru mörg ár síðan og margt hefur breytst, ekki síst umhverfið. Nú er hverasvæðið að mestu varið fyrir umgangi, þó með góðum vilja geti fólk farið sér þar að voða enn.
Það sem hefur breyst umtalsvert er , að skurðirnir sem grafnir voru á lóðamörkum, þessir fínu skurðir sem gerðu mýrina byggingar- og ræktunarhæfa, eru orðnir gamlir og þreyttir.
Skurðir æsku minnar eru margir hverjir orðnir að einhverjum sakleysislegum dældum, en skurðirnir sem aðskilja lóðirnar sem voru byggðar síðar, eru nú margir hverjir orðnir stórhættulegir.

Mér hefur skilist að viðhald þessara skurða sé á ábyrgð leigutaka á þessum lóðum (vil þó ekki fullyrða um það), en það má öllum vera ljóst, að það þarf mikið að koma til til að þeir taki sig til og lagfæri þá þannig að hættulausir verði.

Það hefur orðið nokkur umræða um skurðamálin hér í Laugarási á undanförnum misserum eftir að hundar hafa lent í þeim og drepist eða brunnið svo þurfti að aflífa (auðvitað á heitt vatn undir engum kringumstæðum að renna í þessa skurði). 

Satt er það, við verðum að varast að gerast ekki of dramatísk í þessu sambandi. Við vitum öll af þeim hættum sem þarna eru, hegðum okkur í samræmi við það og vonum hið besta. Við vitum það jafnframt að vonin ein lætur vandann ekki hverfa.

Það er kominn tími til að leita lausna.

Ég teiknaði að gamni mínu inn á kort (sjá myndina) þá skurði sem ég þykist vita að eru opnir og margir hálffullir af vatni (ég veit af mörgum öðrum skurðum sem þarf að loka, en lét þessa duga í bili).. Þá litaði ég rauða. Ég set grænt á þá skurði sem hafa verið teknir í gegn.

Ég myndi vilja sjá þarna samstarf jarðareiganda og leigutaka um að loka þessum skurðum svo sómi sé að, hvað sem líður ákvæðum samnings (ef þar er að finna ákvæði um þetta, en ég finn minn samning ekki í augnablikinu og vil því ekki fullyrða of mikið).

Jarðareigandi á dágóðan sjóð og gott samstarf hans við leigutakana gæti komið þessu í ásættanlegan farveg.  Ég held að það geti verið þess virði, áður en eitthvað mögulega gerist sem við viljum ekki einu sinni hugsa til.





12 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (3)

Ég ætla að helga Laugarási þennan síðasta hluta upphátthugsana minna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.  
Ég er sem sagt búinn að henda frá mér tveim hlutum. (1) og (2).

Laugarás er afskaplega sérstakur staður og yndislegur og byggðin þar bráðung á mælikvarða byggðar í landinu að öðru leyti.

Örsaga

Árið 1922 komst Laugarásjörðin í eigu... já, í eigu hvers og hvernig?  Enn sem komið er virðist mér sýslunefnd Árnessýslu hafa keypt jörðina, en vil ekki fullyrða um hvort eða hvernig, eða með hvaða skilyrðum uppsveitahrepparnir eignuðust hana undir héraðslækninn sem þá settist að í Laugarási. Hann hafði þá búið í Skálholti í einhver ár og þar áður í Grímsnesinu. Í samræmi við það kallaðist héraðið sem þessi læknir þjónaði, Grímsneshérað. Nafninu var síðan breytt á fimmta áratugnum, í Laugaráshérað, eða Laugaráslæknishérað.
1941 hófst uppbygging í Laugarási, að öðru leyti. Hún var mjög hröð á sjöunda og fram á áttunda áratuginn, eftir að Hvítárbrúin hafði verið byggð. Hvert garðyrkjubýlið af öðru var stofnað.

Þetta átti nú ekki að vera sögustund, sérstaklega, en mér fannst rétt að setja þetta í samhengi við það sem á eftir fer.

Hluti af uppsveitum

Laugarás er, landfræðilega í miðju byggðarinnar á svæðinu sem í daglegu tali er nefnt Uppsveitir Árnessýslu. Það var því ekki að ástæðulausu að læknissetri var valinn staður hér. Þessi staður virtist hafa möguleika til að vaxa og dafna á ýmsa lund og forystumenn í uppsveitum töluðu sumir fjálglega um alla þá möguleika sem blöstu við.

Þetta átti hinsvegar aldrei að verða og hefði svo sem átt að vera fyrirsjáanlegt.
Í staðinn fyrir að verða þessi blómlegi bær, reyndist Laugarás verða heit kartafla, sem enginn vildi afhýða. Hver hreppur fyrir sig hóf uppbyggingu síns þéttbýliskjarna og það þykist ég viss um, að allir hafa þeir, í gegnum tíðina litið á Laugarás sem nokkurskonar ógn.
Engan úr þessum sveitarfélögum hef ég nokkurntíma heyrt tala um, í einhverri alvöru, að uppbygging af einhverju tagi í Laugarási væri mikilvæg fyrir uppsveitirnar, enda væru þeir með slíku tali að grafa undan uppbyggingu innan eigin hrepps.

Það sem þó hefur verið reynt að gera, hefur ekki verið af heilum hug og yfirleitt rifið niður á endanum. Þar má til dæmis nefna fyrirhugaða byggingu á þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara á 10. áratugnum, í landinu þar sem barnaheimili Rauða krossins stóð áður. Þarna var um að ræða metnaðarfullar fyrirætlanir, sem á endanum voru talaðar svo niður að ekkert varð úr. Nágrannarnir vildu allir fá þetta til sín.
Nýjasta dæmið um þetta eru síðan hugmyndirnar um byggingu hjúkrunarheimilis, sem fóru af stað að frumkvæði kvenfélaga fyrir 2-3 árum. Sú umræða fór af stað af krafti, en áður en við var litið upphófust úrtöluraddirnar og ekkert varð úr neinu.

Að óbreyttu mun Laugarás halda áfram að byggja á því einvörðungu, sem íbúarnir skapa sér sjálfir, sem er að mörgu leyti ágætt. Ég fæ ekki betur séð en eigendum jarðarinnar sé talsvert í mun að tryggja að Laugarás fái ekki að vaxa og dafna að þeirra frumkvæði.

Forsenda eignarhalds brostin

Nú er Laugaráslæknishérað ekki lengur til og heilsugæslan orðin hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Með þessu má segja að forsendan fyrir eignarhaldi uppsveitahreppanna sé horfin og þeir hafa enga ástæðu til að eiga Laugarásjörðina lengur.

Biskupstungnahreppur áður og Bláskógabyggð nú, hefur það hlutverk að halda utan um þessa sameign og ber á henni ábyrgð, enda jörðin landfræðilega í því sveitarfélagi.
Það má í raun segja alveg það sama um Bláskógabyggð að hina eigendur jarðarinnar. Sveitarfélagið vill sem minnst af Laugarási vita, telur sig (auðvitað ekki í orði) eiga nóg með hina þéttbýliskjarnana sína tvo.  Nú hefur þessi "sameining" hreppanna þriggja staðið í 16 ár og enn snýst flest um einhverskonar helmingaskipti. Enn er flest litað af því að raunveruleg sameining er ekki orðin og fyrir hendi vantraust á ýmsum sviðum, sem síðan er reynt að fjarlægja með tilheyrandi kostnaði fyrir allt samfélagið.

Von í óvissunni

Það liggur ýmislegt í loftinu í Laugarási um þessar mundir. Það eiga sér stað ánægjulegar breytingar með fólksfjölgun á síðustu árum og heyrst hefur að einhver(jir) eigenda jarðarinnar vilji selja hana.

Ég verð nú að segja það, að ég tel slíka sölu geta verið talsvert gæfuspor fyrir Laugarás. Ég held raunar að hvaða eigandi sem væri, myndi fara betur með þessa eign sína, en núverandi eigendur hafa gert.
Í gegnum eignarhaldið hefur hreppunum tekist að halda aftur af þróun byggðar í Laugarási með því að beita áhrifum í gegnum svokallaða oddvitanefnd. Þar með tel ég Biskupstungnahrepp og síðar Bláskógabyggð. Þetta myndi auðvitað enginn viðurkenna.

Með sölu á jörðinni, líklegast til Bláskógabyggðar, hefðu þessir aðilar ekki lengur þetta tangarhald og  þannig gæti Bláskógabyggð ekki lengur skýlt sér á bakvið það að jörðin væri sameign allra hreppanna.

Já, það getur verið gaman að velta hlutum svona fyrir sér.

Nýtt kjörtímabil

Nú sé ég fyrir mér að næsta kjörtímabil, verði kjörtímabilið þegar þegar fólk fer að fjalla um Laugarás, Laugarvatn og Reykholt í sömu andrá, án þess að blikna.
Ég sé fyrir mér að ég muni ekki lengur tala út í tómið þegar ég nefni Laugarás á nafn, eða fjalla um þau málefni sem þar skipta máli.

Maður verður að vera bjartsýnn og vona það besta.


Auk þess legg ég til......

Svo legg ég til svona í lokin, að við sameinumst öll um að berjast fyrir byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis og/eða þjónustuíbúða fyrir aldraða í Laugarási til ómældra hagsbóta fyrir uppsveitirnar allar og styrkingar á heilbrigðisþjónustu almennt, á svæðinu.










Ástæða til að kíkja á þetta:



11 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (2)

Í fyrsta hluta velti ég upp ýmsum staðreyndum varðandi fyrri kosningar í þessu löngu sameinaða sveitarfélagi, Bláskógabyggð. Ég tæpti á því að enn væri ekki komið á það traust innan þessa sveitarfélags, að fólk geti farið að hugsa eftir öðrum nótum en þeim birta þrjá mismunandi hreppa, eða svæði. Mér finnst kominn tími til þess og þó fyrr hefði verið.
Sættum okkur bara við það að við tilheyrum einni stjórnsýslueiningu, sem ber að huga að og sinna jafnt ÖLLUM þáttum og kimum. Einungis þannig myndast sátt.

Ef ég nú kýs að líta framhjá uppruna frambjóðenda á listunum þrem, hver ættu þá viðmið mín að vera?  Ég veit það fyrirfram að allir vilja sveitarfélaginu hið besta, í það minnsta í orði. Við þurfum ekki að fara í grafgötur með það, því það viljum við öll.

Málefnin
Ef ég kýs að líta framhjá uppruna frambjóðendanna, gæti ég reynt að finna út hvað það er nákvæmlega, sem aðgreinir framboðin. Er það eitthvað? Birtast þar einhver áhersluatriði sem ættu að leiða mig að einu framboði frekar en öðru? Er þetta ef til vill bara svona snakk um metnaðarfullt starf eða metnaðarfullar hugmyndir, sem meira og minna vísa út og suður? Má greina einhverja eina línu sem einkennir hvert framboð og greinir þau frá hvert öðru?
Ég held bara ekki, svei mér þá.

Meirihluti og minnihluti
Eftir kosningar verður til meirihluti og minnihluti í sveitarstjórn. Það er eitt megin hlutverk minnihlutans að veita aðhald, spyrja, gagnrýna.  Minnihlutinn á að setja spurningamerki við allt. Það sem hann samþykkir, samþykkir hann. Hann berst gegn því sem hann er andvígur. Þannig á þetta að vera þar sem hópar með mismunandi stefnu eða sýn á samfélagið hafa verið kjörnir til að fara með málefni sveitarfélags í heil fjögur ár.
Ef maður á í erfiðleikum með að greina hver tilheyrir hvaða lista eða listabókstaf, þá finnst mér þetta ekki alveg vera að gera sig (Ég hef og þurft að hugsa mig nokkuð lengi um varðandi Þ og T).

Ef allir eru bara á sömu nótum er hætt við að ákvarðanir séu teknar, sem ekki eru nægilega vel ígrundaðar og þá vaknar spurningin um hvort, þegar upp er staðið, snúist framboðin eða listarnir um eitthvað annað en einhverja stefnu sem greinir þau hvert frá öðru.

Það sem ég er að reyna að segja er, að til þess að til staðar sé minnihluti og meirihluti í sveitarstjórn, þarf að vera til ólík stefna í veigamiklum málum.
Auðvitað eru flest mál sem koma á borð sveitarstjórnar samþykkt samhljóða þar sem þau eru þess eðlis. Önnur snúast um grundvallaratriði af  ýmsu tagi, og ættu óhjákvæmilega að kalla á átök.  Til að útskýra aðeins hvað ég á við með því, vil ég t.d. nefna umhverfismál, sem eru einn mikilvægasti málaflokkur samtímans, hvar sem er. Í þessu sveitarfélagi eru skoðanir vísast mjög skiptar um þennan mikilvæga málaflokk, en svo virðist mér ekki hafa verið í þeirri sveitarstjórn sem nú situr. Þar virðist mér allir ganga í takt, hvar í flokki sem eru.

Nei, ekki held ég að sé einfalt mál að velja sér lista til að kjósa út frá málefnunum.

Ef maður vill horfa framhjá bæði heimilisfangi frambjóðenda og málefnaskrám framboðanna, hvað getur maður þá látið ráða atkvæði sínu?

Framsókn og íhald
Það hvarflar æ oftar að mér, að skást væri að bjóða fram pólitíska lista með öllum þeirra göllum. Við búum ekki lengur í samfélagi þar sem allir þekkja alla eins og áður var. Ég spurði einhverntíma hvar fólkið í sveitarstjórninni stæði í pólitík og fékk það svar að þar væri ekkert nema íhald og framsókn í einhverjum hrærigraut. Ég veit svo sem ekki hvað er satt í því. Hinsvegar finnst mér óþægilegt að vita ekki um grundvallarviðhorf þeirra sem í framboði eru til að ráða málum okkar. Finnst ég reyndar eiga rétt á því, sem kjósandi. Það skiptir mig engu mál hver hjúskaparstaðan er, eða hve mörg börnin eru, eða hvernig bíllinn er á litinn. Ég vil vita hvar þeir standa á hinu pólitíska litrófi.
Það breytir kannski engu alla jafna, en stóru málin snúast alltaf um grundvallaratriðin og þá reynir á lífssýn, eða hugsjónir.
Ég vil geta valið fólk til sveitarstjórnar, sem hefur svipuð grunngildi að þessu leyti og ég. 
Mér finnst það virðingarvert að nú er komið framboð í Hrunamannahreppi þar sem fólk lætur vita fyrirfram fyrir hvað það stendur í þessum efnum.

Ekki hefur mér heyrst að við Bláskógabyggðarbúar séum tilbúnir að fara þessa leið.
Hvað er þá eftir, sem gæti aðstoðað okkur við að finna framboð sem við gætum talið einna skást.

Persónur
Auðvitað stendur þessi möguleiki eftir. Á einhverjum listanna eru einn eða tveir sem ég myndi treysta til að sitja í sveitarstjórn umfram einhverja aðra og kýs því listann hans. Í mínum huga er þetta afar veikburða forsenda fyrir vali að framboðslista.
Þó að ég finni einn frambjóðanda sem afar vandaður einstaklingur í alla staði, er ekki þar með sagt að það sama megi segja um meðframbjóðendur hans. Hverjir eru þeir, hvaðan koma þeir, fyrir hvað standa þeir? Jú, við fáum ef til vill að vita um barnafjöldann eða áhuga þeirra á hrossum eða kórsöng. Það sem við þyrftum að vita um þá er kannski ósagt. Þar dettur mér í hug hagsmunir af hinu og þessu. Hefur frambjóðandinn persónulegan hag af ákvörðunum sveitarstjórnar?  Ákvörðunum sem kunna að reynast honum hagfelldar, en baggi í sveitarfélaginu að öðru leyti?

Ef persónur eiga að vera helsta viðmiðið við val á lista, tel ég að fyrir þurfi að liggja skrá yfir alla hagsmuni viðkomandi, sem mögulega kunna að hafa áhrif á störf hans í sveitarstjórn.

Sannarlega ætla ekki ég því fólki sem situr í sveitarstjórn nú, eða sækist eftir sæti í þeirri næstu, að sigla undir einhverju fölsku flaggi. Ég er hinsvegar að halda því fram að við eigum að hafa svo glöggar upplýsingar sem mögulegt er um frambjóðendur, áður en við ákveðum hvernig við ráðstöfum atkvæðum okkar. Við þekkjum ekki allt þetta fólk sem býður sig fram.

Eftir hverju kjósum við í raun?
Nú er ég búinn að fara yfir helstu forsendur sem ég tel að kjósendur í Bláskógabyggð horfi til. Tveggja þeirra held ég að flestir horfi til umfram aðrar: búsetu frambjóðenda, annarsvegar og hverjir þeir eru, hinsvegar. Með öðrum orðum, þá tel ég ekki að metnaðarfullar málaskrárnar breyti miklu, enda fremur loðnar, teygjanlegar og líkar.




---------
Ég hyggst efna í einn kafla í viðbót og beina þá sjónum að málefnum þorpsins í skóginum, í samhengi við tilveru þess innan sveitarfélagsins Bláskógabyggðar.





10 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (1) (kannski)

Það er rétt að taka það fram í upphafi, að ég bý í Laugarási. þar með fjarlægi ég þá mögulegu gagnrýni.

Ég neita því ekki, að það hefur nokkrum sinnum hvarflað að mér að nýta ekki nánast heilagan rétt minn til að greiða atkvæði við kjör til sveitarstjórnar í Bláskógabyggð.
Það hvarflar að mér nú.
Ég kýs að nota þennan vettvang minn til að velta fyrir mér hvað það er helst sem veldur áhugaleysi mínu fyrir þessar kosningar.
Ég ætla að reyna að hugsa upphátt, hvert sem það leiðir mig nú. Ég ætla að reyna að sneiða hjá gagnrýni á það ágæta fólk sem býður sig fram til starfa á þessum vettvangi (þó vissulega megi gagnrýna það á ýmsa lund), en einbeita mér frekar að því ástandi sem er í Bláskógabyggð.

Þrír hreppar sameinast árið 2002.

Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur og Þingvallahreppur gengu í eina sæng og hið nýja sveitarfélag hlaut nafnið Bláskógabyggð.
Ég var aldrei sáttur við þessa sameiningu vegna þess að mér fannst hún of lítil. Ég sá það fyrir, sem síðan gekk eftir, að mínu mati: öll orka sveitarsjórnar færi í að hafa íbúa þessara þriggja sveitarfélaga að mestu góða. Síðan eru 16 ár. Enn í dag heyri ég í óánægðum Laugdælum, sem telja Tungnamenn hafa gleypt allt. Ég sjálfur tel, að Laugarás hafi verið sett lengra út á kantinn en þorpið þó var fyrir þessa sameiningu.
Ekki veit ég hver viðhorf annarra Tungnamanna eða Þingvellinga eru til þessa.

Þegar sameiningin var framkvæmd var íbúafjöldinn í sveitarfélögunum þrem þessi (2001):
Biskupstungnahreppur: 659
Laugardalshreppur : 252
Þingvallahreppur: 39
Árið 2002 voru íbúar í Bláskógabyggð 887. Nú (2018) eru þeir 1115. Hefur fjölgað um 228.

Hvernig hefur svo íbúafjöldinn á þéttbýlisstöðunum þrem þróast?
                                    2002                2018            breyting
Reykholt                       145                  270              +125
Laugarás                       133                  116               - 17
Laugarvatn                   150                   191              + 41


Laugarás fékk fulltrúa í sveitarstjórn í þessum fyrstu kosningum. Hinir 6 voru þrír sem komu úr Laugardal og þrír úr Biskupstungum (utan Laugaráss).

Í kosningunum 2006 komu þrír fulltrúar úr Biskupstungum, þrír úr Laugardal og einn frá Þingvöllum. Enginn fulltrúi úr Laugarási.

Næst var kosið 2010. Þá settust 4 fulltrúar úr Biskupstungum í sveitarstjórn, 2 Laugdælir og 1 Þingvellingur. Enginn úr Laugarási.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum (2014) varð niðurstaðan sú, að 3 fulltrúar komu úr Biskupstungum, 3 úr Laugardal og 1 frá Þingvöllum.  Engan fulltrúa átti Laugarás.

Kosningarnar framundan

Í komandi kosningum virðist nú vera gerð tilraun til að brjóta upp þetta tveggja lista fyrirkomulag sem hefur verið við líði frá sameiningu. Það er kominn fram nýr listi, N-listinn.

Ég lék mér að því að skoða samsetningu listanna þriggja og miða í því við 7 efstu sætin. Sæti þeirra sem eiga fræðilega möguleika á að setjast í sveitarstjórn að loknum kosningum.

Alslemm: 
Verði úrslit kosninganna þannig að einn listi fái alla fulltrúana, myndi svona fólk sitja í næstu sveitarstjórn:

N-listi: 5 Laugdælir, 2 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási)
T-listi:  2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási)
Þ-listi:  3 Laugdælir, 4 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási).

Þetta gerist nú sennilega ekki. Líklegra að ástandið verði óbreytt, þar sem við íbúar Bláskógabyggðar erum talsverðir hefðarsinnar og lítið fyrir grundvallarbreytingar. Samt metnaðarfullir, að eigin mati, sýnist mér á stefnuskrám.

Óbreytt
Verði niðurstaðan óbreytt hlutfall, sem er líklegast, munu fá sæti í sveitarstjórn:

3 Laugdælir, 3 Tungnamenn, 1 Þingvellingur  (enginn úr Laugarási).

Tapi meirihlutinn einum manni til Þ-lista:
2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási).

Auðvitað er hægt að halda svona áfram lengi, en ég sleppi því.
Ég þykist viss um að ýmsa muni langa til að fjargviðrast út þessari áráttu minni að flokka frambjóðendur eftir upprunastað þeirra og að með því sé ég að kynda undir klofningi innan sveitarfélagsins. Þeir mega alveg fjargviðrast, mér að meinalausu. Ef ekki þessar forsendur, hvaða forsendur á ég þá að notast við þegar ég þarf að velja á milli þessara framboða? Ekki virðast það vera hugsjónir sem aðgreina þau.

Ég ætla kannski að velta mér aðeins upp úr því næst.



06 maí, 2018

Bjór á tíkall

Nýi Skálholtsbjórinn, bruggaður í Ölvisholti.
Við fD veltum því fyrir okkur hvort við ættum að skella okkur út í Skálholt í gær til að smakka nýja bjórinn sem þar var kynntur.
Eftir nokkrar pælingar og vangaveltur í tengslum við samhengi kirkjusóknar okkar og áhuga á bjór, sem ekki leiddu til neins, ákváðum við að láta slag standa. Vandi okkar var eiginlega sá, að ekki var ljóst af kynningarefninu sem við höfðum séð, hvernig fyrirkomulag tímans milli 17 og 19 átti að vera. Þar kom aðeins fram hver dagskráin væri, en hvorki í hvaða röð hún væri né hvar hver dagskrárliður færi fram. Af þessum sökum vorum við andlega tilbúin til að fara beint í skólann þegar í Skálholt væri komið, beint í bjórinn, enda hann megin tilgangur viðburðarins.
Þegar við komum í Skálholt lá straumurinn hinsvegar inn í kirkju og við fylgjum straumnum,yfirleitt, að mestu. Það gerðum við einnig þarna.
Í kirkjunni hófst dagskráin með ávarpi sem ég heyrði eiginlega nánast ekkert af. Hélt að allgott hátalarakerfi myndi koma að góðum notum við svona tilefni, enda vita það allir að talað orð, ómagnað, á afar erfitt uppdráttar á því ágæta húsi sem kirkjan er.
Annað var uppi á teningnum þegar Jón Bjarnason flutti toccötu, sem ég veit ekki meira um, með sínum einstaka hætti og á eftir honum söng Unnur Malín, ofurkona á tónlistarsviðinu, tvö lög í tilefni sumarblíðunnar sem hefur látið bíða eftir sér. Vel gert.

sr. Halldór með þúsundkallinn
Þá var komið að sr. Halldóri Reynissyni, sem sagði sögur sem tengjast Skálholti og Skálholtsstað. Mál Halldórs komst vel til skila þar sem hann flutti það frammi í kirkjunni þar sem betur heyrist.
Hann bar fram margvíslegan fróðleik og í ýmsu, skemmtilegan. Þó kom á mig hik þegar hann skipaði gestum að taka fram veskin sín. Ekki varð ég við því, enda veskið mitt ekki með í för, bara nokkrir tíkallar fyrir bjór. Ekki ætla ég hér, að uppljóstra um tilefni þessarar skipunar sr. Halldórs, en hann veifaði þúsundkalli í kjölfarið í góða stund. Þá fjallaði hann um glugga Gerðar Helgadóttur, sem flestir eru í Þýskalandi til viðgerðar og altaristöflu Nínu Tryggvadóttur. Þar kom fram hjá honum að maður skyldi ávallt horfa á altaristöfluna í gegnum augnhárin, þá sæi maður Hreppafjöllin í bakgrunni. Ég mun ávallt horfa á hana með opnum augum og huga. Hann bar einnig saman þá Krist og Trump.
Altaristafla Nínu Tryggvadóttur

 Ég hef áður tekið myndir af þessu mikla verki Nínu, en aldrei við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi. Lýsingin á því er einstök þegar engir steindir gluggar hindra aðgang náttúrulegrar birtu að henni.

Fyrir utan spígsporuðu nokkrar lóur og ég hefði gjarnan viljað vera með fuglalinsuna mína.

Jæja, meðan sr. Halldór leiddi gestina niður í kjallara til frekari upplýsingar um staðinn, lögðum við fD leið okkar í skólann. Þar var fyrir hlaðið borð af matvælum eins og þeim sem rannsóknir benda til að hæft hafi veislum á miðöldum í Skálholti. Kokkurinn, Sölvi B. Hilmarsson, kynnti þennan miðaldamálsverð fyrir gestum, en þarna mátti fólk smakka sitt lítið af hverju.
Drífa á Keldum, formaður stjórnar Skálholts ávarpaði samkomuna.
Sr. Halldór tók þessu næst fyrsta sopann af hinum nýja Skálholtsbjór, sem ber heitið Skálholt og í beinu framhaldi hófst afgreiðsla hans á barnum og var þar heilmikill atgangur, eins og nærri má geta, enda þurfti að greiða hvorki meira né minna en 10 íslenskar krónur fyrir flöskuna (aðeins í gær). Þar mun hafa verið um að ræða verðlag í samræmi við það sem á að hafa tíðkast á miðöldum. Hvernig Skálholtsmenn hafa komist að því, er mér ókunnugt um, en hafi tíkallinn á miðöldum verið hlutfallslega jafn há upphæð og nú, má reikna með að miðaldamenn hafi ekki gert margt annað en sulla í bjórnum. Þar er ef til vill komin skýringin á "hinum myrku miðöldum".

Sýnishorn af málsverðinum.
Hvað sem því líður, þá létu gesti það eftir sér að reiða fram tíukrónu peningana sína möglunarlaust við barinn.
Síðan hófst drykkjan, eða segjum svo, og einnig smakkið. Undir þessu flutti Unnur Malín tónlist sína, sem þarna fór nokkuð framhjá mér vegna þess hve fólk ræddi ákaft munngátina og önnur veisluföng, eða bara skiptist á kjaftasögum, eða loforðum fyrir komandi sveitarsjórnarkosningar.

Bjórinn er hreint ágætur og fallegur á litinn. Ég hef hinsvegar ekkert vit á því hvernig bjór á að vera utan að mér finnst hann eiga að vera frekar fleiri prósent en færri. Þessi er frekar færri, en bragðgóður samt.
Ég gæti alveg hugsað mér að snæða miðaldamálsverð í góðu tómi og renna honum niður með Skálholti. Vonandi gefst tækifæri til þess.

Þarna var talsvert af fólki saman komið til að njóta stundarinnar. Þarna voru ekki allir sem ég hefði reiknað með.

Að veitingunum stóðu Sölvi og hans fólk og var þar allt staðnum til sóma.
Ég þakka fyrir mína hönd og fD fyrir ágæta stund.

Þessi sáu um matinn og bjórinn.
f.v.Hólmfríður Ingólfsdóttir, Sölvi B. Hilmarsson,
Eva Björk Kristborgardóttir og Jóna Þormóðsdóttir


05 maí, 2018

Að daðra við dauðann í Feneyjum


Gott að spila þetta undir lestrinum

Feneyjar.
Það stórkostlegt hvernig einhverjum hefur einhverntíma dottið í hug að kalla þessa borg eða svæði þessu nafni, en hún fær nafn sitt af ævafornri þjóð sem bjó á svæðinu á 10. öld fyrir Krist. Það voru Venetar (Veneti) og á ítölsku kallast hún Venezia.

Jæja, úr því ég var nú kominn á þennan stað fyrir nokkrum dögum, var ekki um annað að ræða, en láta gamlan draum rætast, um að sigla með gondóla um síkin sem gegna hlutverki gatnakerfis á þessum sérstaka stað. Enginn bíll, engin reiðhjól, strætisvagnar eða sporvagnar. Aðeins gangandi eða siglandi vegfarendur.

Frá glæsilegu skipinu okkar, Michelangelo, var um eins og hálfs kílómetra gangur niður á Markúsartorgið fræga (Piazza San Marco), þar sem finna má Hertogahöllina (Palazzo Ducale) og Markúsarkirkjuna (Basilica di San Marco). Þaðan mátti síðan ganga eftir þröngum krókaleiðum að Ríalto brúnni frægu (Ponte di Rialto).
Ótrúlega áhugavert, allt saman, en ótal greinar hafa verið skrifaðar um þetta svæði, þannig að ég sé ekki tilgang í að fara að endurtaka það allt saman.

Þessi stubbur minn fjallar bara um gondólasiglinguna mína og fD. 
Þar sem fD var engu minna áhugsöm um að fá að upplifa siglingu um þröng síkin í Feneyjum, var eitt það fyrsta sem við gerðum, að leita upp hentugan stað til að komast um borð í það fley sem myndi geta  leyft þessum draumi okkar að verða að veruleika.
Fyrir framan innganginn að Markúsartorginu, rétt við Hertogahöllina var heilmikið af gondólun, sem biðu þess eins að fá að flytja ferðamenn. Við komumst að því að hver ferð kostaði €80 (ISK10.000) styttri hringinn en  €100 (ISK12.000) þann stærri. Þetta þótti okkur nú vel í lagt, en létum það ekki aftra okkur frá að uppfylla drauminn okkar í þessari draumasiglingu um Feneyjar.

Næst á dagskrá var síðan að velja ræðara. Gondólarinir í Feneyjum eru allir svartir með rauðum plusssætum, en um það var einhverntíma tekin miðlæg ákvörðun. Þeir skyldu allir vera eins og bera með sér ákveðinn prjállausan virðuleika.  Við þurftum bara að velja okkur ræðara sem við teldum geta fullnægt óskum okkar, en þær voru aðallega fjórar:
1. Hann skyldi vera klæddur eins og gondólaræðari (þarna voru ræðararnir klæddir með ýmsu móti, og jafnvel ekki með ómissandi hattinn). Nei okkar skyldi vera í þverröndóttri peysu og með gondólahatt.
2. Hann átti að vera trúverðugur í öllu fasi og framgöngu. Þeir voru það nú flestir.
3. Hann átti að geta sungið göndólasöngva meðan hann þræddi örmjó síkin og undir brýrnar. Þarna þurfti bara að spyrja, sem svo: Puoi cantare O sole mio? (Geturðu sungið O sole mio?)
4. Hann þurfti að leyfa mér að standa á gondólanum eins og ræðari, með hatt og í þverröndóttri peysu og syngja með silfurtærri tenórrödd, (meðan fD smellti af mynd) fyrstu línurnar í: O, sole mio, sem ég hafði lagt á mig að læra fyrir ferðina, en textinn er svona:

Che bella cosa na jurnata 'e sole,
N'aria serena doppo na tempesta!
Pe' ll'aria fresca pare già na festa...
Che bella cosa na jurnata 'e sole.

Ma n'atu sole
Cchiù bello, oje ne'.
O sole mio
Sta 'nfronte a te!
O sole
O sole mio
Sta 'nfronte a te!
Sta 'nfronte a te!

Quanno fa notte e 'o sole se ne scenne,
Me vene quase 'na malincunia;
Sotto 'a fenesta toja restarria
Quanno fa notte e 'o sole se ne scenne.

Þar með hófst leit okkar að hinum eina sanna gondólaræðara. Leitin stóð ekki lengi og fyrr en varði fundum við einstaklega góðlegan og jákvæðan ræðara, sem vildi allt fyrir okkur gera. Hann kvaðst syngja, hann var í réttri peysu og með réttan hatt og sagði að sannarlega mætti ég stilla mér upp eins og ég vildi meðan fD smellti af mér nokkrum myndum.
Ræðarinn fór úr peysunni og tók af sér hattinn. Ég klæddist þessum fatnaði síðan, áður en ég skellti mér um borð. 
Á þessum tíma, um 10:30 að morgni, var ferðamannafjöldinn orðinn óheyrilegur á bakkanum og því eins gott að ekkert  kæmi nú upp á.

Ekki neita ég því að það örlaði á kvíða í brjósti mér þar sem ég tók skrefið af bryggjunni yfir í gondólann. Þetta eru nú ekki stór skip, heldur mjóir smábátar sem rugga auðveldlega í ölduganginum frá bátunum sem stöðugt sigla hjá. Mér tókst þó að komast niður í bátinn og skríða síðan upp á pallinn þar sem ræðarar eiga að standa. Þar brölti ég á fætur með nokkrum erfiðismunum og það var ekki laust við að góðlegi ræðarinn væri orðinn nokkuð óþolinmóður, þar sem hann stóð hattlaus á nærbolnum á bryggjunni.
Upp tókst mér að komast og fékk árina í hendur, kom henni fyrir á sínum stað, rétti mig upp, stóð beinn í baki, horfði fram á við og hóf að syngja: Che bella causa na jurnata 'e sole, n 'aria serena doppo na tempesta!.............
Þegar þarna var komið í textanum var ég orðinn nokkuð öruggur með mig fyrir framan myndavélina hjá fD (sjá mynd efst) og farinn að lifa mig inn í textann og fagnaði þannig sólinni, sem baðaði Feneyjar geislum sínum á þessum ljúfa morgni. Ég var farinn að sveifla höndunum í geðshræringu og vagga mér til og frá í takti við fagra tóna, sem ekki fóru framhjá hundruðum austurlenskra ferðamanna sem stóðu á bakkanum og tóku myndir.

Ég hefði átt að standa kyrr, en ég gerði það ekki.
Ég hefði aldrei átt að óska eftir að standa þarna á pallinum og syngja, en ég gerði það.

Áður en varði hvarf mér jafnvægið. Ég athugaði hvort árin dygði mér, sem reyndist ekki vera og þar með gerðist hið óhjákvæmilega: ég féll í sjóinn, á bólakaf.
Fyrst varð mér hugsað til viðbragða allra myndatakandi áhorfendanna á bakkanum og reyndi því að koma úr kafinu eins virðulega og mér var unnt. 
Reynslunni ríkari frá bananabátsævintýrinu á Gran Canaria, vissi ég að það yrði ekki auðvelt (reyndar útilokað) að komast upp á gondólann. Því synti ég að tréverki þarna í nágrenninu, þar sem mér tókst eftir talsvert streð, og þúsundir ljósmynda, sem síðan myndu rata inn á samfélagsmiðla í Austurlöndum, að príla upp á bryggjuna.

Í sjónum flaut hattur gondólaræðarans.

Ég hefði aldrei átt að stíga fæti á pall ræðarans með ár í hönd og syngja O, sole mio ......





Ég gerði það heldur ekki.
Frásögnin hér að ofan fellur undir svokallaðar falsfréttir, eða "fake news", sem eins og allir vita, eru mjög "inni" þessi misserin.

Við fD reyndum aldrei að komast um borð í gondóla í "Draumasiglingunni" okkar um Feneyjar.

Þannig er það nú.

Þar fyrir utan gaf fD það sterkt til kynna að bátsferð af þessu tagi væri ekki ofarlega á óskalistanum hjá henni, frekar en bananabátsferðin. 
Það sem eiginlega gerði útslagið var ótrúleg mannmergðin hvert sem leið lá á þessum mikla ferðamannastað, sérstaklega eftir kl. 10 á morgnana.

Ég ákvað hinsvegar að skrifa falsfrétt og í því skyni fékk ég fD til að taka uppstillta mynd af mér í hlutverki gondólaræðara, sem ég ætlaði síðan að fótósjoppa inn á mynd þegar heim kæmi. 
Svo kom auðvitað í ljós að engin myndanna (uppstillinganna) passaði við neina þeirra mynda sem  sem ég hafði tekið af gondólaræðurum. Því varð ég að stilla mér upp úti á palli, þar sem mynd var tekin og nýtt eins og sjá má hér efst.

Svona í lokin biðst ég auðvitað velvirðingar á því að hafa skráð niður þessa vitleysu og lofa því að gera þetta aldrei aftur.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...